Stefnumót við Ófeig Sigurðsson

Eftir Hauk Ingvarsson

Úr Tímariti Máls og menningar 1. hefti 2011

Fyrir síðustu jól kom út skáldsaga með löngum en lýsandi titli; Skáldsaga um Jón & hans rituðu bréf til barnshafandi konu sinnar þá hann dvaldi í helli yfir vetur & undirbjó komu hennar og nýrra tíma (Mál og menning 2010). Jón sá sem nefndur er í titlinum er Steingrímsson, söguleg persóna sem uppi var á 18. öld, þekktastur sem eldklerkurinn á Kirkjubæjarklaustri sem stöðvaði hraunflóðið úr Skaftáreldum með messusöng. Sem slíkur er hann ekki síður þjóðsagnapersóna í huga almennings en manneskja af holdi og blóði þó að eftir hann liggi sjálfsævisaga þar sem hann gerir ítarlega grein fyrir sínu veraldlega basli. Í skáldsögunni er Jón líka rækilega jarðbundinn því lesendur kynnast honum í gegnum bréf sem hann skrifar úr Mýrdalnum til konu sinnar í Skagafirði frá haustinu 1755 fram á vorið 1756. Skáldsagan um Jón vakti athygli fyrir þróttmikinn og agaðan stíl og veltu lesendur því fyrir sér hvernig höfundurinn, Ófeigur Sigurðsson, sem fæddur er 1975, hefði náð tökum á íþrótt sinni og úr hvaða jarðvegi hann væri sprottinn.

Þeir sem lifa og hrærast í bókmenntum yngri kynslóðarinnar hafa vafalítið svör á reiðum höndum, Ófeigur er þeim kunnur sem höfundur skáldsögunnar Áferð (Traktor 2005) og ljóðskáld sem troðið hefur upp á viðburðum myndlistarmanna og skáldaklíkunnar Nýhils auk þess að gefa út bækur. Viðtökurnar við skáldsögunni um Jón gefa hins vegar kærkomið tilefni til að kynna skáldskap hans, innblástur og áhrifavalda fyrir stærri hópi.

Frá Nykri til Nýhils

Ófeigur SigurðssonUndir lok síðustu aldar fór Andri Snær Magnason skipulega milli menntaskóla landsins og las upp úr fyrstu ljóðabók sinni Ljóðasmygl og skáldarán (Nykur 1995). Ljóðin áttu greiða leið að huga og hjarta þeirra sem á hlýddu en Andri Snær notaði líka tækifærið til að hvetja skólaskáld til dáða um leið og hann dró upp líflegar myndir af því frjóa umhverfi sem hann hafði lifað og hrærst í innan veggja Háskólans í námi sínu í íslenskum bókmenntum. Samtíða honum í námi voru m.a. Bergsveinn Birgisson, Hugrún Hrönn Kristjánsdóttir, Ármann Jakobsson og Sigtryggur Magnason sem öll hafa látið að sér kveða á bókmenntavettvanginum – fyrr eða síðar. Ef til vill er það alltaf tilfinning þeirra sem hyggjast fylgja í kjölfarið að Paradís sé fyrir bí þegar þeir mæta á svæðið. Að minnsta kosti spurði sá sem hér skrifar sig að því þegar hann hóf sitt háskólanám í kringum 2000 hvort allt væri fallið í gleymsku og dá í þeim sælureit skáldskaparins sem Andri Snær hafði lýst. Skáldin virtust í öllu falli fara huldu höfði á skólalóðinni og kviksögurnar sem bárust manni til eyrna um skáldin gerðust á öðrum vettvangi og hljómuðu gjarnan eins og útilegumannasögur; Steinar Bragi fór um bari hinna kjaftandi stétta og seldi bækur sínar Svarthol (Nykur 1998) og Augnkúluvökva (Nykur 1999) og það þótti meðmæli með bókunum að þýskur stúdent á Gamla garði átti að hafa ærst eftir að hafa lesið þær; Ísfirðingurinn Eiríkur Örn Norðdahl sást á vappi, skreflangur og horaður eins og gíraffi og ráku menn upp stór augu hvar sem hann fór um, sagan sagði að hann borðaði eitt hrísgrjón í morgunmat, tvö í hádegismat og þrjú í kvöldmat; loks fór sögum af dularfullum manni sem hefði hafið nám í myndlist við Konunglegu akademíuna í Kaupmannahöfn en ákveðið að leggja penslinum og sæti nú á lestrarsal gamla Landsbókasafnsins og endurskoðaði íslenska bókmenntasögu upp á eigin spýtur.

Síðastnefnda skáldið var Ófeigur Sigurðsson: „Haustið 1998 ætlaði ég að láta draum minn um að verða myndlistamaður rætast. Ég og félagi minn skelltum málaratrönunum okkar á þakið á Lödu sem ég átti á þessum tíma og keyrðum til Seyðisfjarðar þaðan sem við sigldum með Norrænu til Kaupmannahafnar. Við vorum í undirbúningsnámi fyrir Konunglegu Akademíuna sem ég stefndi á. Við tókum virkan þátt í myndlistarlífinu en þegar við vorum komnir inn í þennan heim blöskraði mér rosalega því mér fannst hann svo yfirborðslegur. En ég misskildi hann líka því það var ákveðinn barnaskapur að halda að þetta mingl og þessi tengslamyndun á opnunum sópaði í burtu öllu listrænu og því sem skipti máli. Þetta varð að minnsta kosti til þess að ég hætti í náminu í janúar, kom mér á einhverjar bætur og brá mér með lest til Prag þar sem ég lagði lokahönd á ljóðabók sem ég hafði verið að vinna að í mörg ár. Áður en ég fór út hafði ég verið eitt ár í íslensku í Háskólanum og orðið þess áskynja að ég var ágætlega að mér í Íslendingasögum og miðaldabókmenntum en mjög illa í samtímabókmenntum. Þegar ég sneri aftur til Kaupmannahafnar sá ég að á Hovedbiblioteket voru tvær hillur með því helsta sem komið hafði út á sjöunda, áttunda og níunda áratugnum í íslenskum bókmenntum og ég fór kerfisbundið í gegnum þessar bækur á þeim mánuðum sem ég átti eftir af tíma mínum þarna úti, sat við frá morgni til miðnættis og komst meira að segja í næstu hillu þar sem voru færeyskar bókmenntir. Það orkaði mjög sterkt á mig að sjá hvernig eitt tungumál leiddi af öðru, hvernig þau sköruðust í bókaskápunum.“

Ófeig dreymdi sem sé um að verða myndlistarmaður þó að hann hefði verið með ljóðabók í smíðum: „Fyrstu textarnir mínir eru dauðarokks­textar, ég var í dauðarokkshljómsveitinni Cranium þegar ég var á unglingsárum, það sló dáldið myrkan tón varðandi yrkisefni.“

FYRRUM VEIKGEÐJA

yfirborðslegur / milli tveggja trúa / auðtrúa þekkir
ekki myrkrið / yfirstígur hindranir / stórmennskuæði
meðal vina / þreytandi umhverfi / hversu lengi endist
þunglyndi heltekur atferli / óbærileg þyngsl á samvisku
áttar sig á erfiðleikum / og stefnu lífsins / bældur hlátur hljómar
dýpra í höfðinu / grefur upp fortíð / hann krýpur á kné
og íhugar / fyrri tíð skal dvelja / fram úr vonum / glötuð tilvist
veikleiki / enginn bati / þegar eitt hverfur / kemur annað í ljós
finndu nærveru breytinga / í hringiðu vandamála / hlédrægur meðal vina
aftur til lífsins / hvert til eilífðar? / skyggn maður / fellst á eina trú
skarpskyggn maður / mátulega vitur …

„Þegar ég fór að fikra mig nær ljóðinu í menntaskóla skipti það mig miklu máli að sanna fyrir sjálfum mér að ég gæti ort undir hefðbundnum bragarháttum og ekkert form yrði mér framandi. Þá gekk ég lengi með Bragfræði og háttatal eftir Sveinbjörn Beinteinsson í vasanum en Megas í eyrunum. Þetta var held ég arfleið frá atómskáldunum að afla sér þekkingar á því kerfi eða þeirri hefð sem maður hugðist hafna. Sjálfum fannst mér líka að ég þyrfti að hafa fullkomið frelsi til að geta valið mína eigin leið og það gat ég ekki nema þekkja þær leiðir sem stóðu til boða. Meðan á Danmerkurdvölinni stóð var ég farinn að brjóta bragarhættina niður í frumeindir sínar til að skoða í hverju virkni þeirra væri fólgin og formið fór að leysast upp í höndunum á mér í framhaldi af því. Ég sendi tvö ljóð, handskrifuð, til Tímarits Máls og menningar árið 1999 og mér til mikillar furðu voru þau samþykkt og birt um haustið eftir að ég var kominn heim. Ég man að ég var svo feiminn þegar þetta var komið í tímaritið að ég þorði ekki að labba sömu megin og bókabúð Máls og menningar við Laugaveginn því ég vissi að það fengist þar – ég svitnaði þegar ég gekk fram hjá. Það er ekki hreinn og beinn masókismi að gefa út ljóð en það er mjög tengt því. Það er eins og að skora eigin veikleika á hólm að skrifa ljóð og vilja birta það.“

SAMBAND

Við skvöldruðum okkur inn í mannhafið
með tilheyrandi deyfð,
og sýsluðum fátt.
Góðu heilli er gleðin skammvinn;
kastið á, og út skal halda
og daufar eru lýsingar.
Góðu heilli
aðskilur okkur það
sem hélt okkur saman:
þessi kjarnaofn
sem þú berð í brjósti þínu. [1]

Bókin sem Ófeigur hafði í smíðum á þessum árum kom aldrei út og að lokum fór svo að hann óx frá henni, glíman við bragarhættina gerði hann langeygan eftir einfaldleika og það verður að segjast eins og er að skólun í klassískum íslenskum bókmenntum er ekki það sem kemur fyrst upp í hugann þegar frumraun Ófeigs, Skál fyrir skammdeginu (Nykur 2001), er lesin. Vikið verður nánar að efnistökum bókarinnar hér á eftir en það vekur athygli að Ófeigur hefur bæði gefið út undir merkjum Nykurs og Nýhils en þessir hópar eru farnir að setja svip sinn á bókmenntasöguna. [2] Þeir höfundar sem helst eru tengdir við Nýhil eru ögn yngri en Ófeigur og má þar nefna Kristínu Eiríksdóttur, Þórdísi Björnsdóttur, Eirík Örn Norðdahl og Hauk Má Helgason: „Ég leitaði til Andra Snæs þegar fór að hylla undir útgáfu fyrstu bókarinnar, ég var þá með stóran bunka af ljóðum sem ég vissi ekkert hvernig ætti að raða saman í bók. Það ferli tók alveg heilt ár og Andri Snær hjálpaði mér mjög mikið við að laga það sem betur mátti fara og uppröðunina. Hann kom eiginlega þessari bók út og fyrir það er ég honum ævinlega þakklátur. En svo 2003 fer þessi skáldaklíka sem kennd var við Nýhil að myndast og það sumar var mér boðið að fara hringferð um landið með þeim og lesa upp og ég var viðloðandi þann hóp alveg fram til ársins 2008 þegar ég aftengdi mig þeim.“

Barflugan, horguðinn og sundlaugarbláir dagar

Ljóðabækur Ófeigs eru nú orðnar sex að tölu en hægt er að para þær saman tvær og tvær og greina þannig þrjú ólík tímabil á höfundarferli hans. Í fyrsta flokknum eru bækurnar Skál fyrir skammdeginu (Nykur 2001) og Handlöngun (Nýhil 2003), þar kynnast lesendur ýmsum persónum á kunnuglegum sögusviðum eins og börum, svefnherbergjum eða bílum. Ljóðmælandinn er gjarna kjaftfor náungi sem segir frá næturbrölti sínu, drykkjulátum og kvennafari milli þess sem hann veltir fyrir sér tilgangi lífsins og tilgangsleysi: „Þessar fyrstu tvær bækur eru í rauninni órökréttar, þær koma út í miðri umbreytingu eða ferli. Það er mjög gleðilegt að þessar bækur skuli hafa komið út einmitt þarna en þetta var viðkvæmt stig. Ég var í þrotlausri leit að einfaldleika, ekki upphöfnum heldur niðurdregnum í svaðið, hreinni angist, síðustu orðunum í eigin lífi. Ég leitaði eftir innri formum og lét hrynjandi og tilfinningu ráða og þarna stígur fram ljóðmælandi eða karakter sem var eins konar hliðarsjálf, þetta er ekki sá maður sem maður er dags daglega heldur þegar maður brýst yfir eigin mörk inn í bannhelgina; hliðar­sjálfið gefur manni færi á að fara í persónulega útlegð frá sjálfum sér og í þessu gegnumbroti felst nokkur ánægja.“

Í þessum fyrstu bókum er ýmislegt sem bendir til þess að ljóðmælandinn sé harðákveðinn í að fara í hundana, hann er fjandsamlegur í garð samferðamanna sinna og oft er stutt í hroka og síðast en ekki síst vitnar hann í Nietzsche. Ljóðið „Undirbúningur“ gefur hugmynd um tóninn í bókinni:

Þarf ég að útskýra
óeirðir hjartans
meðan lifrin er að gefa sig
og heilinn aldrei virkað?
Hvað varðar þig um það
þótt ég grafi
mína eigin gröf?
Haltu bara áfram að blása á þér hárið
og láttu mig um vinnuna. [3]

Ófeigur rak sig á það eftir að bókin kom út að fólk vorkenndi honum, spurði hann gjarna hvort lífið hjá honum væri ekki erfitt, þetta vekur spurningar um það hvort setja megi samasemmerki milli hans sjálfs og ljóðmælandans: „Já, það má að því leyti að löngunin eða angistin og þráin eftir botninum var til staðar en hún var það ekki nema þegar ég steig inn í ljóðheiminn. Ég bjó á Laugaveginum á þessum tíma og mér fannst oft svo stutt frá stúdentalífinu niður í rónalífið á Kaffi Austurstræti, mér fannst stundum að það munaði bara nokkrum skrefum að maður endaði þar – það má segja að ég hafi staðið á þröskuldinum. En ég var í mjög klassískri leit, spurði mig: hvar er vitneskjuna að finna? Ég var að safna reynslu og þetta er það sama og ég var að lýsa með formið, ég vildi ekki að nein reynsla væri mér framandi, ég vildi vita hvaða leiðir menn færu í lífinu og hvers vegna. Ég fór í heimspeki í Háskólanum af sömu ástæðu, ég fór ekki til að sækja prófgráðu heldur til að vera öruggur með þá deild líka. Ég vildi vita hvað gerist inni á heimilunum en líka komast sem næst malbikinu, setjast meðal rónanna á bekkjunum. Þetta snýst ekki um að einblína á neitt eitt heldur að þekkja sem allra flestar deildir samfélagsins en festast hvergi. Þessar fyrstu bækur eru skilgetin afkvæmi þessarar leitar og ég reyndi að skila því sem ég fann frá mér með einföldum hætti, kannski tveimur línum, og ég vildi að ljóðið væri opið fyrir samtölum, persónusköpun, frásögn og ég vonaðist til að þótt allar reglur væru þverbrotnar myndi koma í ljós einhver ljóðrænn kjarni í þessum textum.“

Í næsta flokki eru Roði (Nýhil 2006) og Tvítólaveizlan (Nýhil 2008). Í þeim er ekki frásögn, sögusvið né eiginlegar persónur eins og í fyrri bókunum heldur er tungumálið sjálft í brennidepli. Í löngum bálkum eru kannaðir möguleikar sem hljómur, hrynjandi, rím og stuðlar gefa um leið og ægilegar ljóðmyndir hrannast upp. Ófeigur hefur algjörlega kastað einfaldleikanum fyrir róða: „Nokkrir vinir mínir sem voru komnir á beinu brautina í myndlistinni, þessari sem ég fór út af, voru farnir að sýna bæði hér og erlendis og fengu mig stundum til að skrifa stutta texta fyrir sýningar. Það er algjörlega óskilgreint hvað texti af því tagi er; er hann til að opna sýninguna, til að beina huganum inn í verkin eða er hann ljóðrænn og sjálfstæður? Þessir textar eru hvað sem öllu líður rosalega frjálsir, geta verið viðtöl, lýsing á efnismeðferð eða hugleiðing um eitthvað málefni. Ég hafði skrifað nokkra svona myndlistartexta þegar ég fékk sent tölvuforrit frá vini mínum sem var innblásið af klippivél eða Cut-up-tækni Williams Burrough. Ég ákvað að setja textana í vélina og hún hakkaði þá alla í spað. Þetta gerði ég aftur og aftur áður en ég fór að fara í gegnum það sem kom út úr vélinni. Ég leitaði að merkingu, hreinsaði til þangað til ég fann einhvern þráð í gegnum textana sem ég gat fylgt. Roði er t.d. afrakstur af mjög löngu vinnsluferli af þessu tagi.“

Ljóðin eru torræð og njóta sín best þegar þau eru lesin upphátt en Ófeigur gerði talsvert af því meðan bækurnar voru í vinnslu, einkum Roði. Strax á hringferð Nýhils um landið 2003 var hann farinn að prufukeyra textann sem fór misjafnlega í menn. Undirrituðum er t.d. minnisstæður upplestur á Kaffi Krók á Sauðárkróki en þar kom það skáldunum skemmtilega á óvart hversu vel var mætt. Í ljós kom að salurinn hafði verið tvíbókaður, golfklúbbur staðarins var þar fyrir með árshátíð. Það kom í hlut Ófeigs að hefja leikinn og þegar hann hafði þrumað nokkra bálka úr Roða sátu tveir gestir eftir í salnum, ljóðskáldið Geirlaugur Magnússon og lærisveinn hans Gísli Þór Ólafsson sem klöppuðu ógurlega. Upplestrar reyndust mjög mikilvægir í mótunarferli Roða en þeir hjálpuðu þó ekki höfundinum við að komast að niðurstöðu með bálkinn sem hann endurskrifaði linnulítið. Það var ekki fyrr en hann fór að „hjúfra sig upp að“ bókum Sigfúsar Bjartmarssonar Án fjaðra (Mál og menning 1989) og Zombí (Bjartur 1992) sem hann fann endastöð: „Það er ákveðinn samhljómur með þessum bókum mínum og bókum Sigfúsar og ég fann öryggi í þeim því ég vissi í rauninni ekkert almennilega hvað ég var að fara. Það fór svo fyrir rest að Sigfús hjálpaði mér mjög mikið, hann las Roða oft yfir og það er mjög hollt að gefa honum skotleyfi á skrifin sín. Ef maður þolir það þá er maður í góðum málum.“

Allt virðist í fyrstu
sem einn klasi
þyrping eininga
heildstætt kerfi
vinsamleg mynd …
Horguðinn
lýsir upp svæðið
með herjum sínum
& roðinn vofir yfir …
Bakteríur iða
um andrúmsloftið
vírusinn blossar
& plágan teygist
inn í allar víddir …
Mikið eymsli
með smitberum
& sýklum …
Sjónarrönd af sýklum!
Horguðinn
herðir á skipunum
elur á uppþoti
& roðinn sortnar
svo um munar … [4]

Í Roða fær lesandi fljótt á tilfinninguna að einhvers lags vísindatextar hafi legið til grundvallar, textar sem lýsa því t.d. hvernig sjúkdómur tekur sér bólfestu í líkama og breiðist út, örverur eru heldur ekki langt undan og hugtök úr sálarfræði skjóta upp kollinum: „Roði er greining á þeim einingum sem búa í náttúrunni, svona heimatilbúin frumspeki, sjónarhorn þess sem kemur að náttúrunni innan frá, út úr speglinum sem maður skoðar heiminn í. Hún fjallar um þá grunnsýkingu sem ég skynjaði í manninum, sjálfum mér meðtöldum, og mér fannst henta viðfangsefninu að leggja þessa ofuráherslu á hrynjandi og einskonar sérhljóðasinfóníu. Annar angi sem teygir sig inn í þessi ljóð er ættaður úr dauðarokkinu en þar er hefð fyrir því að blanda saman hinu líkamlega, sálfræðilega og náttúrulega, það eru einhver flekaskil milli þessara sviða og rétt eins og í jarðfræðinni þá er skörun, núningur og spenna. Roði er hreinn metall! Tvítólaveizlan er svo framhald þeirrar bókar en meira hlutlæg, hún fjallar um samruna fyrirbæra og er því óður til þriðja kynsins, og þar lá beinast við að vinna með alkemískt myndmál.“

Síðustu tvær ljóðabækur Ófeigs Provence í endursýningu (Apaflasa 2008) og Biscayne Blvd (Apaflasa 2009) komu út í litlu upplagi, sú fyrrnefnda í fimmtíu eintökum en sú síðarnefnda í þrjátíu en það er miður því hér eru á ferðinni einar athyglisverðustu ljóðabækur síðustu ára. Í þessum bókum má segja að Ófeigur sameini helstu styrkleika fyrri bóka sinna. Í Provence í endursýningu er kynntur til leiks nýr fyrstu persónu ljóðmælandi, ferðalangur sem lýsir umhverfi sínu með tungumáli sem er oft og tíðum mergjað og kraftmikið en á öðrum stöðum er sleginn gamansamur tónn, jafnvel sjálfshæðinn. Eins og einhverjir hafa trúlega getið sér til um er titill fyrri bókarinnar útúrsnúningur á heiti bókar Sigfúsar Daðasonar Provence í endursýn en fleiri ljóðskáld koma við sögu, meðal annars Steinn Steinarr en ítrekað er vísað til ljósmyndar af honum á Mallorca þar sem hann situr með sólgleraugu og bjór. Bókin er prentuð á fallegan pappír en ekki innbundin heldur aðeins heftuð, letrið er eins og úr ritvél, víða óskýrt og máð: „Í Provence í endursýningu er ég kominn nærri myndlistinni og bókverkinu, líka heimatilbúnu bókunum sem tíðkuðust á sjöunda og áttunda áratugnum, það má tengja þetta ljósritunarvélabyltingunni og ákveðinni nostalgíu af minni hálfu, sem skýrir hönnun bókarinnar. Ég bjó í Provence í Suður-Frakklandi og var að skrifa á soldið svipuðum nótum og í fyrstu bókinni minni, dagbókarfærslur í ljóðformi eða ljóðabréf til sjálfs mín, nema hvað við Oddný, kærastan mín, bjuggum í húsi inni í skógi. Í svona rólegu lífi fer ýmislegt að vekja áhuga manns, maður verður innhverfur og byrjar að tala við fuglana og dýrin, einn maur getur heltekið mann. Og að lokum sekkur maður inn í það ástand sem maður hefur e.t.v. verið að reyna að þröngva sér inn í við aðrar aðstæður. En svo gerðist það að ég fékk bók Sigfúsar Daðasonar senda út og þegar ég fór að lesa hana fannst mér margt í myndmálinu og líkingunum svipað því sem ég hafði verið að velta fyrir mér; þarna var skógurinn, eitthvað miðjarðarhafslegt en líka miðaldalegt jafnvel ættað úr riddaramenningu, Hveragerði kom upp í hugann, hæli, hvít og gul birta Van Goghs í Provence og svona mætti áfram telja. Ég varð alveg uppnuminn yfir þessari bók Sigfúsar og leyfði henni að síast inn í mig og þar sem ég ætlaði mér ekki að gefa þessi skrif mín út þá var ég algjörlega óhræddur við að vitna beint, þetta eru hvort tveggja stuttar bækur og vilji menn leggjast í rannsóknir á þessu þá eru þeir enga stund að sjá hvar ég vitna beint, tek t.d. sæhesta að láni, Þorsteinn Þorsteinsson taldi þrjá staði, en ég fullyrði að þeir eru fjórir! Mér finnst mín bók alveg ótrúlega klunnaleg við hlið Sigfúsar, sem er svo fíngerður og nákvæmur og fallegur. Sigfús er reyndar í sinni bók líka að leyfa skáldskap annarra að síast í gegnum sig, t.d. eftir Saint-John Perse og úr þessu varð dálítil rannsókn hjá mér á því hvernig ólík skáld vinna úr áhrifum frá öðrum skáldum. Það má kannski líta á þetta sem samtöl tveggja bóka enda eru titlarnir nánast þeir sömu.“

Dagarnir eru sundlaugarbláir
& þarna hátt uppi
á bringusundi
mynstra fljúgandi
hvítir sæhestar
óráðanlega krossgátu
ég sé þá stíma
á hvern annan
heljarstór vængur
hrapar niður
gegnum þakið
havæskyrtum rignir
yfir akurinn
þarna hátt uppi
ofan við mig
heilu hóparnir
af fólki með metnað
að fara eitthvað
troðandi marvaðann
þarna uppi
heilu hóparnir
að fara eitthvað
að fara bara eitthvað! [5]

Biscayne Blvd er ekki einungis ljóðabók heldur líka bókverk eins og bókin á undan, hannað og unnið af Magnúsi Árnasyni myndlistarmanni. Síðurnar eru úr sílikoni og óreglulegar í laginu, gripurinn minnir við fyrstu sýn á eitthvað sem hefur skolað á land, risavaxinn þörung eða smokkdýr af einhverju tagi. Skýringuna á þessari hönnun er að finna á lokasíðu bókarinnar þar sem lesa má þessa tileinkun: „Í minningu hugmyndar Geirlaugs Magnússonar um útgáfu Heimskringlu í formi buslubókar fyrir Snorra í lauginni.“ Bókin er sem sé hönnuð með það fyrir augum að vera vatnsheld rétt eins og barnabækurnar um hundinn Depil voru á sínum tíma: „Biscayne Blvd er breiðstræti í Miami og þangað fór ég með Magnúsi, sem gerði bókverkið, til að hjálpa honum að setja upp myndlistarsýningu. Við vorum þarna um mitt sumar og borgin var næstum tóm fyrir utan okkur og fátæka fólkið, allt efnaða fólkið flýr til að sleppa við hita og þrumuveður sem þarna geisa. Við vorum í tvær eða þrjár vikur í gluggalausu húsi inni í miðju iðnaðarhverfi innan um hundrað viftur, unnum sleitulaust að uppsetningu sýningarinnar og gerðum skúlptúra úr sílikoni og ýmsum iðnaðarefnum. Lesefnið okkar blotnaði í hitaskúrum og fékk á sig mangóklessur, þá kom tengingin við buslubókina og Magnús var orðinn fimur með sílikonið. Ég heillaðist algjörlega af þessu lágreista iðnaðarhverfi þó að við færum mjög lítið nema einstaka sinnum út í búð, skýjafarið er mjög sérstakt en kunnuglegt á Florída, lægðirnar sem myndast á Mexíkóflóa ganga þarna yfir áður en þær fara til Íslands, himinninn er sægrænn og skýin fara hratt yfir svo það eru stöðug birtubrigði og þetta minnti mig á Eyrabakka, Ölfus og Flóann því það eru í raun fenjasvæði eins og Flórída. Bókin er því samtal milli þessara tveggja votlendissvæða – Árnessýslu og Flórída. Varðandi innihaldið þá er maðurinn í mýrinni í forgrunni en borgarskipulag og sjálfsskipulag eru líka látin tala saman.“

Muldur þrumunnar er nokkuð þungt
senn mun mýrarflákinn glóa
utan við bæinn suða fenjabátar
í Flóanum eru menn á höttunum
eftir keldusvínum
þá dreymir þennan seinnipart
um grillkjöt & klæðasnauða puru
steik heima
á snúrum hanga baðhandklæðin
annáluð sólsetrum
þvældar raflínur tjóðra húsin
saman birtubrigði í flæðarmálinu
breiðgatan losar borgartregðu. [6]

„Þá set ég fífil í hatt minn og kyssi þig“ [7]

Barflugan í fyrstu ljóðabókinni virðist við fyrstu sýn ekki eiga margt sameiginlegt með eldklerkinum Jóni Steingrímssyni en eitt eiga þessar persónur þó sameiginlegt með höfundi sínum: Þekkingarleitina. „Það sem drífur mig áfram eru uppgötvanir, ákveðin persónuleg vellíðan sem felst í því þegar maður nær utan um einhverja hluti, fær innsýn í eitthvað sem áður var hulið eða fær skilning á t.d. tilfinningum sem birtast manni. Ég hef t.d. verið mjög heillaður af sálfræðilegum bókmenntaverkum 17. aldarinnar, verkum sem tilheyra því sem kalla mætti myrku deildina í íslenskri bókmenntasögu. Í þeirri deild eru saman komnir allmargir Jónar; ég er t.d. að hugsa um Jón Magnússon og Píslarsögu hans sem ég hef haft í sérstökum metum lengi og Jón lærða og Snjáfjallavísurnar en þær hafa haft mikil áhrif á ljóðagerðina hjá mér og svo er Jón Indíafari og fleiri Jónar. Með samsömun við tilfinningar þessara horfnu herra finnst mér ég geta skynjað að ég sé ekki einn í þessum heimi heldur geti maður tengt sig við aðrar manneskjur á öðrum tímum í gegnum bókmenntirnar. Tengsl af þessu tagi eru náttúrulega ekki varanleg, þ.e.a.s. þetta varir í stuttan tíma og því þarf maður alltaf að halda áfram að kafa í nýjar sálir, þetta er stöðugt ferðalag. Í mínu tilviki er bæði um ferðalag að ræða í eiginlegum og óeiginlegum skilningi, ég er í þekkingarferðalagi en get að sama skapi aldrei verið kyrr á sama stað, ég hef aldrei átt fasta búsetu neins staðar lengi og þetta er bara mitt vandamál og mín tilvistarlega angist að geta ekki verið kyrr nema stutta stund á vel völdum stöðum.“ Titill fyrstu skáldsögu Ófeigs, Áferð, vitnar líka um þetta rótleysi. Í fyrstu var aðeins um ferðadagbók að ræða þar sem Ófeigur hugðist greina frá tíma sem hann varði meðal sígauna í fjalllendi í Transilvaníu: „Sagan er mjög trú minni reynslu en ferðadagbókin sem ég hugðist halda vatt fljótlega upp á sig, það fóru að fléttast saman við þetta minningar frá öðru svæði og það er þar sem skáldskapurinn byrjar, með tengslum, samsvörunum og minningum sem kvikna. Það verður til einhver flétta í huganum sem ratar í textann. Hitt svæðið sem ég hafði í huga var Patagónía þar sem ég hafði dvalið mörgum árum áður og spurningarnar sem vöknuðu innra með mér vörðuðu það hvort allir afkimar bæru keim hver af öðrum, það hefur nefnilega stundum flökrað að mér að allt sé í raun og veru eins undir niðri þótt ytri veruleiki kunni að gefa annað til kynna við fyrstu sýn.“

Í viðtölum í tengslum við útgáfu bókarinnar um Jón greindi Ófeigur frá því að hugmyndin að bókinni hefði kviknað þegar hann heimsótti helli eldklerksins í Reynisfjöru ásamt Ugga Ævarssyni minjaverði Suðurlands. Jón Steingrímsson hafði þó vakið áhuga hans alllöngu áður því segja má að sjálfsævisaga hans standi aftast í röð þeirra sálfræðilegu verka sem nefnd voru að framan: „Jón Steingrímsson er 18. aldar maður, með annan fótinn í myrkrinu sem umlykur 17. öldina en hinn fótinn í birtu upplýsingarinnar, það má því halda því fram að hann sé maður tveggja alda og það gerir hann mjög áhugaverðan. Guðfræðingar tala um að heittrúarstefna leysi rétttrúnað af hólmi á 18. öld. Þessara umskipta sér líka stað í stjórnskipuninni því á 17. öld er við lýði harðstjórnarríki, aftökur algengar og kirkjulega valdið mjög sterkt; menn trúðu með heilanum sem er í hreinni andstöðu við þekkingarvakningu upplýsingarinnar. Þegar hún kemur til sögunnar skiptir trúin um umdæmi, finnur sér stað í hjartanu eins og til að rýma til fyrir þekkingunni í höfðinu.

Ef við skoðum hugmyndaheim Jóns þá er Guð persóna, lifandi vera sem stjórnar öllum heiminum. Þetta ber keim af guðfræði þýska heimspekingsins Leibniz en í skáldsögunni lifir Jón reyndar í þeirri blekkingu að sá ágæti maður hafi verið kona því hann útleggur nafn hans Gottfried sem Guðfríður. Árið í lífi Jóns sem skáldsagan lýsir er tími mikilla umbrota í innra lífi hans því hann er að staðsetja sig tilvistarlega annars vegar í náttúrunni og mannlegu samfélagi með hliðsjón af nýjustu kenningum vísindanna en hins vegar andspænis Guði. Niðurstaða Jóns er ekki sú að taka upp hreinlínustefnu heldur verða einhvers lags helmingaskipti bæði í heila og hjarta því hann notar óspart það sem kallað er brjóstvit en er svo líka að brjóta hluti til mergjar með hyggjuviti sínu. Mörgum þóttu skoðanir Jóns kyndugar og þetta ár sem hann býr í hellinum á hann í ritdeilu og þrasi við Gunnar á Dyrhólum sem stríðir honum með þeim gamaldags skoðunum sem Jón aðhylltist og hélt fram.“

Vangaveltur Jóns í bókinni snúast margar hverjar um að sætta þann veruleika sem blasir við og það sem bærist innra með honum. Þetta gefur ljóðskáldinu Ófeigi færi á því að gefa ímyndunaraflinu lausan tauminn en raunar minnir myndmál skáldsögunnar oft og tíðum á ljóðabókina Roða þar sem m.a. er hrært saman áhrifum frá dauðarokki og heimatilbúinni frumspeki. Eldgosið í Kötlu setur ógnarlegan svip á sögusviðið en þó er fegurðin aldrei langt undan og þá koma upp í hugann léttleikandi kaflar úr Provence í endursýningu sem Ófeigur sagði vera ástarjátningu í aðra röndina:

Hér á Suðurlandi eys Katla eldi og eimyrju yfir Mýrdalinn og fellur sandur og aska úr lofti svo aldimmt er um miðja daga. Auk þess gengur á með ausandi vatnsveðrum og blotasnjó og þegar þetta blandast saman þá er sem úr mekkinum rigni þykkvu bleki. Þá harðnar krapaskánin á jörðinni í frosti og vindþurrki svo sveitin er öll sem slegin í kopar. Jafnfallinn sandur er eins og gerist mest á snjóavetrum og stórir blökkuskaflar gera landið að grængljáandi eyðimörk. Þá fýkur askan og smýgur um allar gáttir og spillir matvælum. Dýra þola mistrið illa og öll augu svíða. Með guðs réttlæti mun öllu þessu slota og burt fjúka og niður rigna og við aftur fyrirfinnast í vorblíðum högum. Þá set ég fífil í hatt minn og kyssi þig! [8]

Ófeigur hefur látið þau orð falla að þetta ár í lífi Jóns sé nánast gert upp í einni setningu í sjálfsævisögunni, sagan sem sögð er í skáldsögunni er því að miklu leyti uppspuni þar sem greina má skýr höfundareinkenni Ófeigs, eins og bent hefur verið á. Þrátt fyrir þetta leynir sér ekki að margháttuð heimildavinna hefur átt sér stað, bæði varðandi tíðarandann og stíl: „Það er hefð sem ég held að hafi skapast með annálaskrifum um það hvernig menn umgangast texta, þeir voru álitnir hjálpartæki þekkingar og fræðslu en líka fréttaveitur, það var ekki endilega listrænt markmið sem bjó að baki og ekkert eignarhald á stíl eða myndhverfingum. Textinn gekk einfaldlega manna á milli sem bjargræði í viðsjárverðum heimi. Ef við lítum á hamfaralýsingar þá er óslitin hefð fyrir því hjá bændum fram á 20. öld að halda dagbók, það gerðu t.a.m. allir bændur í grennd við Kötlugosið 1918. Hver bóndi greindi frá sínu sjónarhorni og því gat hver og einn skrifað með góðri samvisku frá mínum bæjardyrum séð. Þegar maður les þessar lýsingar þá getur maður næstum því getið sér til um það hvaða bækur voru til á hvaða bæ fyrir sig, því það lesmál sem mönnum var tamt setur svip sinn á þeirra eigin skrif. En gegnumgangandi er jarðbinding í myndmálinu. Þó að þessir menn leyfi sér að fara á flug þá er alltaf strengur í moldina, þeir skrifuðu út frá jarðbundnum sjónarmiðum því hörmungarnar höfðu áhrif á lífsafkomu þeirra. Þetta gerði skrifin hlý og full af væntumþykju því myndmálið er tengt túnunum og skepnunum sem þeir hafa mikla samúð með. Þetta reyndi ég að tileinka mér því það leynir sér ekki að Jón Steingrímsson hafði mikil áhrif þegar kom að lýsingum á hörmungum, strax við lok átjándu aldar setja hans skrif svip sinn á annála, en svo er hann auðvitað líka brautryðjandi í lýsingum á innri tilfinningaólgu sem birtist í sjálfsævisögulegum skrifum allt fram á okkar daga.“

Tilvísanir

  1. Ófeigur Sigurðsson: „Samband“, Tímarit Máls og menningar 30. árg. 3. hefti. 1999, s. 75.
  2. Dagný Kristjánsdóttir: Öldin öfgafulla, Bjartur: Reykjavík, 2010, sjá s. 261–263. Hér er miðað við fyrstu kynslóðir Nýhil- og Nykurliða en á síðustu árum hafa yngri skáld eins og Kristín Svava Tómasdóttir, Kári Páll Óskarsson, Arngrímur Vídalín, Jón Örn Loðmfjörð lesið upp og gefið út undir merkjum beggja hópa en of flókið er að rekja þá sögu nákvæmlega hér.
  3. Ófeigur Sigurðsson: Skál fyrir skammdeginu, Nykur: Reykjavík, s. 16.
  4. Ófeigur Sigurðsson: Roði: Norrænar bókmenntir IX, Nýhil: Reykjavík, 2006, s. 9.
  5. Ófeigur Sigurðsson: Provence í endursýningu, Apaflasa: Reykjavík, 2008, s. 9–11.
  6. Ófeigur Sigurðsson: Biscayne BLVD, Apaflasa: Reykjavík, 2009, s. 17.
  7. Ófeigur Sigurðsson: Skáldsagan um Jón & hans rituðu bréf til barnshafandi konu sinnar þá hann dvaldi í helli yfir vetur & undirbjó komu hennar & nýrra tíma, Mál og menning: Reykjavík, 2010, s. 8.
  8. Ófeigur Sigurðsson: Skáldsagan um Jón …, s. 8.