EldhúsiðNorski leikhópurinn Jo Strømgren kompani sýndi Eldhúsið í Tjarnarbíó í gærdag við góðar undirtektir. Þetta er verk um umburðarlyndi og kærleika og var fyrsta sýning leikhópsins sem ætluð var börnum sérstaklega. Leikararnir, Ívar Örn Sverrisson og Hanne Gjerstad Henrichsen, fluttu textann á íslensku og íslenskuskotinni norsku en þulartexti var á íslensku. Minn sjö ára leikhúsvani förunautur sagðist hafa skilið allt og þótti heyrðist mér býsna mikið varið í að hafa farið á leiksýningu sem var að hluta á útlensku.

Á sviðinu er herbergi í litlu húsi. Það er kallað eldhús en þó er þar fátt sem einkennir venjulegt eldhús, engin eldavél eða vaskur, bara lítið borð, einn stóll, skápur og vatnsfata (af því að þakið lekur) og svo er sérstakur skápur til hliðar sem gegnir hlutverki klósetts. Þulurinn segir okkur að þetta litla hús sé í útjaðri bæjarins og það hafi staðið autt um hríð. En nú er að verða breyting á því. Fyrst skríður inn um gat á veggnum gamall sjómaður (Ívar Örn) og stuttu seinna lítil stúlka (Hanne). Þegar hún kemur inn er sjóarinn á klóinu þannig að hún sér hann ekki og þegar hann birtist svo allt í einu verða áhöld um hvort þeirra var á undan að helga sér húsið. Þau takast á um þetta, stríða hvort öðru og hrekkja góðlátlega en fara svo smám saman að sætta sig hvort við annað.

Þau komast að því að þau eru bæði einstæðingar í heiminum. Sjóarinn hefur hafnað fjölskyldu sinni af því að hún var ekki góð við hann. Stúlkan á engan að og hefur strokið af munaðarleysingjahæli enda er hælisstýran algert fól eins og stúlkan lýsir eftirminnilega fyrir sjóaranum – og með óvæntum afleiðingum. Það liggur smám saman beint við að þau setjist að í húsinu saman og verði sjálf sín eigin fjölskylda því ekkert er dýrmætara en að eiga einhvern að.

Sýningin er hugkvæm, fjörug og skemmtileg. Leikararnir eru hvor öðrum betri og gervin verulega sniðug, einkum var útgangurinn á stúlkunni vel hugsaður. Sjóari Ívars Arnar er keikur og hress með pípu eins og Stjáni blái, snöggur upp á lagið en hjartahlýr þegar á reynir. Hanne sýndi bælingu og uppreisnarhug stúlkunnar með vel útfærðum hreyfingum og fasi auk þess sem hún er geysilega liðug. Það var ekki alveg laust við að persóna hennar minnti mann á Línu langsokk, og ekki leiðri að líkjast. Bæði hafa þau ótrúlega góða stjórn á líkama sínum svo að yndi er að horfa á þau.

Silja Aðalsteinsdóttir