Endastöð – UpphafÞað hlýjar manni um hjartarætur að horfa á fullorðna karlmenn leika sér eins og börn, sprella – jafnvel kviknaktir – dansa, tala tungum, klæða sig í kjóla, stympast og stríða. Þetta gera þeir félagarnir Rúnar Guðbrandsson leikstjóri („direttore absoluto“) og Árni Pétur Guðjónsson, hans „actoro primo“ í sýningunni Endastöð – Upphaf sem frumsýnd var í Tjarnarbíó í gær. Með þeim á sviðinu voru Aðalbjörg Árnadóttir („attrice prima“) og Kjartan Darri Kristjánsson („actoro giovane) sem líka sá um ljós og aðra tækni.

Tilefni þessa sprellfjöruga stykkis er 25 ára afmæli leikhópsins Lab Loki sem hefur gert nokkrar eftirminnilegar sýningar undanfarinn aldarfjórðung. Í afmælissýningunni eru senur og augnablik úr þessum eldri sýningum rifjuð upp, eða mér sýndist ég að minnsta kosti kannast við ýmislegt, ekki síst atriðin í kringum kjólana sem ég tengdi einleiknum Svikaranum sem var sýndur í Tjarnarbíói fyrir sex árum. Af brotakenndu eðli nýja verksins leiðir að um það er erfitt að skrifa – enda er ég alls ekki viss um að þeir Rúnar og Árni Pétur ætlist til þess. Þeir voru fyrst og fremst að leika sér og skemmta sér og okkur um leið.

Filippía Elísdóttir sá um búningana og þar ber af sérkennilegur gylltur kjóll sem er eins og búinn til úr gullplötum. Við sjáum þrjá þátttakendur í þessum kjól í sýningunni. Árni Pétur klæðist honum í myndbandi í upphafi; Aðalbjörg er í honum lengi vel meðan hún þjónar körlunum eins og aðstoðarstúlka töframanna, en skiptir um búning um síðir. Þá fær Rúnar að skrýðast honum og fremur í honum sérkennilega heillandi dans sem mun ef til vill verða það sem lengst situr í minninu af þessari sýningu. Sjaldan hef ég séð eins kvenlegan karlmannlegan dans.

Guðbrandur Loki Rúnarsson á heiðurinn af myndböndum sem puntuðu heilmikið upp á þessa sérkennilegu sýningu. Ég biðst afsökunar á því hvað orðin mín um hana eru stirð og fá, eins og skáldið sagði, en vil að endingu þakka kærlega fyrir skemmtunina.

Silja Aðalsteinsdóttir