Sýning ársins

Sýning ársins / Mynd: Björn Snorri Rosdahl

Sviðslistahópurinn 16 elskendur skemmtu áhorfendum vel í Borgartúni 6 á sunnudagskvöldið þar sem þau bjuggu til óvænta „leiksýningu“ úr félagsfræðilegri rannsókn. Aðdragandinn var sá að Félagsvísindastofnun HÍ gerði athugun á því í samvinnu við 16 elskendur hvað Íslendingar vilja sjá í leikhúsi. Úr flóknum og margslungnum niðurstöðum könnunarinnar hefur hópurinn svo búið til „Sýningu ársins“ sem sett er saman úr mörgum stuttum þáttum, löguðum að hinum ólíku þjóðfélagshópum. Með sér hafa þau rithöfundana Jón Atla Jónasson og Hrafnhildi Hagalín og leikstjórana Stefán Jónsson og Kristínu Eysteinsdóttur.

Til að áhorfendur fái áreiðanlega að sjá það sem þeir vilja sjá þurfa þeir að gefa upp nafn og kennitölu fyrirfram svo megi setja þá í flokka eftir kyni, aldri og helst skoðunum – eða líklegum skoðunum. Til að fylla upp í óhjákvæmileg göt að því leyti er á dagskrá hvers og eins „val“ tvisvar sinnum, þá getur áhorfandinn til dæmis valið milli þess að sjá leikþátt sem framsóknarmenn vilja sjá eða vinstri græn, sjálfstæðismenn, samfylkingarkonur eða kjósendur hreyfingarinnar. Af lýsingunni á smekk þessara hópa á leiksýningum þótti mér ég einna skyldust Hreyfingunni en því miður reyndist það rangt hjá mér. Sá þáttur féll alls ekki í mitt kram. En ég þarf að fara aftur til að sjá af hverju ég missti hjá hinum stjórnmálaflokkunum.

Á dagskránni minni voru annars þættir sérlega ætlaðir ellilífeyrisþegum, fólki með háskólapróf og stjórnendur og sérfræðinga, auk þess sem ég fékk að sjá þá sýningu sem fæstir karlar vildu sjá. Annað valið mitt var óskaverk Hreyfingarinnar eins og áður gat, hitt var leiksýning ætluð nemum. Hún var með þeim Aðalbjörgu Árnadóttur og Davíð Frey Þórunnarsyni og var sú besta sem ég sá í fyrri hlutanum. Texti margra þáttanna var sá sami, stutt samtal tveggja persóna eftir Jón Atla, leikið á ólíkan hátt og ýmist af fólki af gagnstæðu kyni eða sama kyni. Þetta var mikið grín og ekki síst formálinn að hverjum þætti þar sem skýrt var hvernig hann var hugsaður í samræmi við ákveðinn þjóðfélagshóp.

Sýning ársins

Sýning ársins / Mynd: Björn Snorri Rosdahl

Eitt af því sem fólk var spurt um í könnuninni var hverjir væru eftirlætisleikarar þess. Í efsta sæti kvennamegin var Ilmur Kristjánsdóttir en Ingvar E. Sigurðsson karlamegin. Eftir hlé var leikþáttur eftir Hrafnhildi Hagalín leikinn tvisvar á ólíkan hátt af Ilmi Kristjánsdóttur og Erni Árnasyni sem hljóp í skarðið (sem sjöundi vinsælasti karlleikarinn) fyrir Ingvar sem var ekki tiltækur. Átti fyrri flutningurinn að heilla alla karla en sá seinni að heilla allar konur enda var þar skotið inn „söngvum“! Þau Ilmur og Örn lifðu sig af einlægni inn í leikinn og þessi síðasti hluti var alveg drepfyndinn. Álíka fyndinn og ræða Ragnars Ísleifs Bragasonar í hléinu sem var algert metfé. Ég mæli eindregið með þessu óvænta og hressandi innslagi í leikhúslíf borgarinnar.

Silja Aðalsteinsdóttir