Áður en ég hlýddi á Plastóperuna eftir Gísla Jóhann Grétarsson og Árna Kristjánsson með fimmta bekk Laugarnesskóla í gærmorgun var ég viðstödd morgunsönginn í skólanum með öllum börnunum – í fyrsta skipti síðan ég kvaddi þennan skóla fyrir sextíu og einu ári! Þau sungu skólasönginn (sem var ekki til í minni tíð) og tvö falleg smákvæði og ég gat ekki stillt mig um að taka undir. Svei mér ef ég komst ekki við.

Plastóperan var mun harkalegri og ekki líkt því eins lagræn og elskuleg kvæði um fugla en hún er líka mun meira spennandi. Hún var sérstaklega samin fyrir Óperudaga í Reykjavík og frumsýnd á sunnudaginn var í Safnahúsinu. Þetta er sagt vera „verk fyrir bugaða foreldra“ og sameinar á hugmyndaríkan hátt nútímatónlist sem fæst börn eru handgengin og nútímaaðstæður sem vel flest börn kannast við. Þar segir frá Kristni (Jón Svavar Jósefsson) sem þarf að vera heima með Eldeyju dóttur sinni (Björk Níelsdóttir) einn dag vegna þess að það er starfsdagur í skólanum. Eldey hlakkar rosalega til að vera heima með pabba, sér fyrir sér að þau geti leikið leikrit, eldað mat og bakað, jafnvel byggt kofa, alla vega leikið sér saman allan liðlangan daginn. En auðvitað þarf pabbi að vinna. Hann þarf að skila langri skýrslu í dagslok. Eldey verður logandi afbrýðisöm út í verkefnið og þar að auki hneyksluð á pabba sínum þegar hún kemst að því að skýrsluna á hann að gera fyrir plastfyrirtæki – en plast er ógeðslegt skrímsli eins og börn vita nú til dags. Það verða átök milli föður og dóttur þangað til pabbi særir stelpuna af tómri þreytu og ergelsi og hún fer sárreið inn í herbergið sitt. Þaðan snýr hún aftur í óvæntum búningi …

Plastóperan

Jón Svavar og Björk hafa bæði prýðilegar raddir og skýra framsögn enda er brýnt að efnið – textinn – komist vel til skila; eins og áður var ýjað að eru meiri líkur á að ungir áhorfendur tengi við það en tónlistina. Þetta er engin poppópera heldur er verið að kenna börnum að hlusta á nútímamúsík og ég sá ekki betur en fimmtubekkingar í Laugarnesskóla nytu sýningarinnar vel. Hópur þeirra flykktist utan um söngvarana á eftir og spjallaði við þá. Textinn er að mestu leyti blátt áfram samtal en tekur óvænta spretti, til dæmis er sérstakt grín fyrir börn þegar pabbinn lendir í hræðilegum vandræðum með tölvuna og sérstakt grín fyrir fullorðna að hlusta á föðurinn lýsa efni skýrslunnar sem hann er að vinna að. Það er ævinlega gaman þegar óframberanleg og flókin orð eru sett saman í söngtexta. (Hver man ekki eftir supercalifragilisticexpialidocious?) Jón Svavar og Björk eru líka ágætir leikarar, sérstaklega naut Björk þess að leika Eldeyju í æstu stríðnisskapi. Ég ímynda mér að margir áhorfendur hafi tengt bærilega við þær senur!

Þriggja manna hljómsveit leikur í sýningunni og skilaði sínu með prýði. Ég óska Plastóperunni góðrar ferðar milli skóla næstu vikur.

-Silja Aðalsteinsdóttir