Hans og GrétaÓp-hópurinn sýnir nú barnaóperuna Hans og Grétu eftir þýska nítjándu aldar tónskáldið Engelbert Humperdinck í Salnum í Kópavogi. Textann þýddi Þorsteinn Gylfason, Maja Jantar leikstýrir og Hrönn Þráinsdóttir er bæði tónlistarstjóri og undirleikari. Þetta er bráðskemmtileg og aðgengileg tónlist sem hefur skemmt evrópskum börnum í meira en heila öld. Eitt lagið hefur meira að segja löngu orðið hluti af söngskrá íslenskra barna við textann „Það búa litlir dvergar“.

Í þessari uppfærslu lifa foreldrar barnanna á ullarvinnslu og markaðurinn er líklega í lægð því fjölskyldan hefur ekkert að bíta og brenna. Hans (Sigríður Aðalsteinsdóttir) og Gréta (Rósalind Gísladóttir) eru ein heima, sársvöng þegar sýningin byrjar en reyna að gleyma hungrinu með því að leika sér. Þau missa svolítið stjórn á sér í leiknum og þegar mamma (Bylgja Dís Gunnarsdóttir) kemur heim reiðist hún útganginum á heimilinu og rekur börnin út í skóg að tína ber. Þegar þau eru farin kemur pabbi (Ásgeir Páll Ágústsson) heim með mat, mamma gleðst yfir því en í miðjum gleðisöng átta þau sig á því að börnin eru enn úti í skógi og myrkrið að detta á. Þá víkur sögunni út í skóg þar sem krakkarnir hafa fundið heilmikið af berjum en rata ekki heim. Óli lokbrá (Hallveig Rúnarsdóttir) svæfir þau og næsta morgun finna þau draumahús í skóginum, fullt af sælgæti. En þar býr nornin (Bylgja Dís) og hrósar happi að fá nú nýtt kjöt í súpuna sína. Henni verður þó ekki matur úr því eins og allir vita.

Allur texti verksins er sunginn og þó að söngvararnir hafi sungið hver öðrum betur er æði erfitt að heyra orðaskil nema af og til. Því bendi ég foreldrum, öfum og ömmum á að kynna söguna vel fyrir ungum áhorfendum fyrir sýningu ef þau þekkja hana ekki. Ef stuðst er við prentaða útgáfu á sögunni er líklega ráðlegt að aðvara börnin um að ekki sé víst að atburðarásin sé nákvæmlega sú sama í óperu og á bók.

Salurinn er ekki leikhús og nokkuð vantaði á að uppsetningin gerði verkinu eins góð skil og æskilegt væri. Einkum var bagalegt að fá enga tilfinningu fyrir myrkrinu og nóttinni þegar börnin eru villt í skóginum. Það atriði var meira að segja leikið frammi í anddyri Salarins þar sem eru gluggar frá gólfi til lofts og greinilega hábjartur dagur þegar Óli er að svæfa börnin. Auðvitað eru börn dugleg að ímynda sér hlutina öðruvísi en þeir eru en hér var til heilmikils ætlast af þeim. Börnin á sýningunni í morgun tóku henni samt vel og virtust ekki láta raunveruleikann þvælast sérstaklega fyrir sér.

Silja Aðalsteinsdóttir