Lakehouse-hópurinn frumsýndi nýtt íslenskt leikrit eftir splunkunýjan höfund í Tjarnarbíó á föstudagskvöldið, Rejúníon eftir Sóleyju Ómarsdóttur, undir stjórn Árna Kristjánssonar. Umfjöllunarefnið er óvenjulegt, fæðingarþunglyndi og afleiðingar þess, þó var oft hlegið á annarri sýningu sem við sáum í gær, enda margt smátt og stórt á sviðinu sem leikhúsgestir tengdu við.
Þó að þetta sé raunsæisverk er uppbygging þess ekki einföld. Það gerist á tveim tímaplönum með þriggja ára millibili og atvik úr báðum fléttast saman. En tíminn líður í rétta átt í báðum tímaskeiðum og hnígur með sívaxandi þunga að sínum hápunkti. Dramatískustu atvikin gerast því með stuttu millibili á sviðinu þó að þrjú ár líði milli þeirra í lífi persónanna. Þetta veldur því að framvindan er hæg framan af og áhorfendur hafa nægan tíma til að velta fyrir sér öllum hliðum málsins, íhuga stöðuna og taka þátt í leit persónanna að lausnum. Leikurinn er að sama skapi raunsæislegur og stök uppbrot verða því afar áhrifamikil.

RejúníonRekstrarráðgjafinn og ferlafræðingurinn Júlía (Sólveig Guðmundsdóttir), ung kona á framabraut, og unglæknirinn Börkur (Orri Huginn Ágústsson), eiginmaður hennar, eignast dótturina Þórdísi og við fylgjumst með þeim koma heim af fæðingardeildinni. Hún er eftir sig, hann er natinn og skilningsríkur, gengst upp í föðurhlutverkinu. Smám saman verður ljóst að Júlía er ekki eins hrifin af móðurhlutverkinu, hana langar bara til að fara að vinna aftur sem allra fyrst. Þrem árum seinna er Börkur kominn til Noregs í sérnám. Hann hefur Þórdísi með sér og þau bíða Júlíu – en hún frestar komu sinni aftur og aftur og ber fyrir sig vinnu og að hún geti ekki treyst nýjum starfsmanni fyrirtækis síns til að sinna því á fullnægjandi hátt. Í og með er hún að skipuleggja endurfundi barnaskólabekkjarins síns – þaðan kemur titillinn – og reynir að fá gamla skólasystur og vinkonu, Hrefnu (Sara Marti Guðmundsdóttir) með sér í það púkk. Hrefna starfar erlendis á vegum hjálparsamtaka en er heima um stundarsakir vegna þess að móðir hennar er fársjúk.

Það sem nagar áhorfandann undir samtölum hjónanna yfir hafið og vinkvennanna yfir bollakökum og hvítvíni er hvers vegna Júlía frestar för sinni utan æ ofan í æ. Hvað hefur gerst og hvað er að gerast?

Árni leikstjóri treystir leikurunum sínum, og þá sérstaklega Sólveigu, til að halda athygli og áhuga áhorfenda yfir atburðarás sem lengi vel virðist ekki ganga út á annað en hinn hversdagslegasta hversdagsleika. Hvað getur verið venjulegra en að eignast barn (þó að það sé alltaf kraftaverk og allt það)? Og Sólveig bregst honum ekki. Ef eitthvað er tekur hún jafnvel betur á hér en í sínu frægasta hlutverki, verðlaunahlutverkinu Sóley Rós ræstitæknir í samnefndu leikriti. Vaxandi örvænting Júlíu á báðum tímaskeiðum og leiðir hennar út úr vandanum, sem reynast blindgötur, verða okkur í salnum smám saman ljós og snertu mig djúpt. Það eina sem ég fór að undra mig á var alger skortur Júlíu á baklandi. Hún á tengdaforeldra en á hún ekki foreldra?

Meðleikarar Sólveigar létta henni leikinn með því að koma vel á móti henni. Orri Huginn var hinn mjúki, elskulegi eiginmaður sem samt sem áður metur sig og sínar þarfir bara aaaðeins meira en hennar. Og Sara Marti var annars vegar hin kunnuglega gamla vinkona sem hefur slitnað úr sambandi við gamla liðið í margra ára dvöl erlendis og hins vegar manneskja sem átti sína sérstöku sögu, fortíð, nútíð og framtíð. Þá sögu fáum við meira í leik og viðbrögðum á sviði en texta. Af hverju forðast Hrefna allar veitingar sem Júlía býður henni?

Svið Fionu Rigler er einfalt en stílhreint og gefur umsvifalaust mynd af heimili ungrar konu sem vill láta allt líta vel út í kringum sig – enda er Júlía snapchat-stjarna. Og búningarnir voru í sama stíl. Hljóðmynd Hörpu Fannar Sigurjónsdóttur var falleg og óáreitin yfirleitt en braust við og við út í óvæntum hljóðum sem minntu á börn og barnagælur en voru þó ekki alltaf þægileg. Skemmtilegt en um leið afhjúpandi vídjó af snapchatti Júlíu var eftir Inga Bekk.

Rejúníon er leikrit um líf ungs fólks á Íslandi hér og nú en það minnir samt á fornan sannleika, að það komast ekki allir á kirkjugarðsballið í haust sem hlökkuðu til þess í vor. En vonandi komast þeir þá á annað ball og betra.

Silja Aðalsteinsdóttir