Ragna Sigurðardóttir. Bónusstelpan.

Mál og menning, 2011.

Úr Tímariti Máls og menningar 2. hefti 2012

BónusstelpanBónusstelpan (2011) er önnur skáldsaga Rögnu Sigurðardóttur á tveimur árum sem fjallar öðrum þræði um íslenskan myndlistarheim. Sú fyrri, Hið fullkomna landslag (2009), gerðist innan veggja Listasafns Íslands og tæpti meðal annars á áhrifum auðmanna á stefnu safnsins, furðulegri stöðu myndlistar sem fjárfestingar, og málverkafölsun í auðgunarskyni. Sögusvið Bónusstelpunnar er eiginlega á hinum enda myndlistarheimsins. Þar kemst lesandinn í tæri við útskriftarverkefni úr Listaháskóla Íslands, vettvang þar sem óharðnaðir listamenn leika sér með sjálft form listarinnar og möguleika hennar án nokkurs tillits til þess hversu mörgum krónum hún kann að velta eða hvort hún eigi nokkurntímann erindi inn á safn eða aðra viðurkennda listastofnun.

Diljá er að útskrifast úr myndlistardeildinni og fær hugmynd að gjörningi: Hún ætlar að afgreiða í Bónus á meðan á útskriftarsýningunni stendur. Hún ætlar að lita á sér hárið og varirnar í æpandi bónusbleikum, neglurnar í tilboðsgulum, vera hress, klæðast svartri kassadömuflíspeysunni af stolti. Hún veit í fyrstu ekki alveg hvað verkið á að merkja en prófessorarnir styðja hana og eru „ekki í neinum vandræðum með að útskýra gjörninginn á listrænum forsendum“ (28) og setja hann í samhengi við sögu íslenskrar samtímalistar. Þetta á að vera „list í tengslum við samfélagið. Eitthvað þannig“ (28). Óafvitandi snertir verk Diljár hins vegar einhvern streng í þeim litríka hópi sem kaupir inn í Bónus og áður en líður á löngu er hún orðin hálfgildingsdýrlingur í margra augum, hún er orðin Bónusstelpan, kassadaman sem skannar ekki bara strikamerki og býður manni poka, heldur uppfyllir hún einnig óskir og gerir kraftaverk.

Það má segja að Diljá gangi í gegnum það með ýktum hætti sem margir listamenn kynnast þegar þeir fara að starfa og fá viðbrögð við verkum sínum: Listin tekur á sig merkingu sem þá óraði ekki fyrir að hún hefði. Diljá fær að reyna það á eigin skinni að listamaðurinn hefur litla sem enga stjórn á viðtökum verksins heldur verður merking þess alltaf til hjá viðtakandanum. Fyrir þeim sem koma í Bónus er gjörningurinn ekki bara samfélagsleg list eða „eitthvað þannig,“ heldur verður persóna Diljár holdgervingur vona og væntinga þessa breiða þjóðfélagshóps.

Diljá verður að þjóðsagnapersónu í flökkusögu sem fer eins og eldur í sinu um internetið án þess að hún geti nokkuð að gert. Fólkið í Bónus eignast þannig verkið og fer með það eins og því sýnist. Diljá bregður vissulega þegar hún áttar sig á því hvernig gjörningurinn hefur snúist í höndunum á henni, en í listrænu tilliti eru viðbrögð hennar skynsamleg: hún leyfir honum að þróast á sinn eigin veg. Hún tekur ábyrgð á verkinu í þeim skilningi að hún leiðir það til lykta í stað þess að hafa af því óeðlileg afskipti, hún finnur að hún hefur skyldum að gegna gagnvart gjörningnum og sjálfri sér sem listamanni.

Foreldrar Diljár og fulltrúar myndlistardeildarinnar vilja hins vegar stýra viðtökum verksins, þeir gera sig seka um þá íhaldssömu skoðun að merking verks verði einvörðungu til hjá listamanninum. Listaháskólinn tekur ákvörðun um að fella Diljá og hamla þannig útskrift hennar þótt prófessorarnir hafi verið svo jákvæðir í upphafi, og þegar foreldrar Diljár sýna henni athugasemdir á síðu Bónusstelpunnar á flettismettinu þar sem henni er þakkað fyrir öll kraftaverkin spyr móðir hennar hana í miklu uppnámi: „Hvernig getur þetta verið í lagi? Var það þetta sem þú ætlaðir þér?“ (68).

Svarið er auðvitað að Diljá ætlaði sér fyrst og síðast að búa til listaverk, en smátt og smátt gerir hún sér grein fyrir því að hún hefur búið til verk sem hefur raunveruleg áhrif á líf fólks, verk sem nær út fyrir veggi gallerísins, en það hlýtur að vera eitthvert æðsta markmið hvers listamanns. Eftir að verkið hefur tekið þessa stefnu túlkar það ekki aðeins umheiminn og bregður honum undir smá- eða kviksjá, heldur hefur það beinlínis áhrif á framvindu hans. Þannig verður bók Rögnu smám saman að hugleiðingu um möguleika listarinnar til að hafa áhrif á veruleikann, annars vegar, og um öflin íhaldssömu sem eru listinni steinn í götu, hins vegar.

Hér hvarflar hugurinn ósjálfrátt til ferils listsýningarinnar Koddu sem var fyrst úthýst úr Listsafni Árnesinga í lok árs 2010 og komst aftur í sviðsljósið síðasta vor þegar hún var sett upp í Nýlistasafninu. Þá kvörtuðu Eggert Pétursson og Kristján B. Jónasson undan því hvernig farið var með Flora Islandica – tölusetta, áritaða bók í línklæddum viðarkassa þar sem teikningar Eggerts af íslenskri flóru njóta sín í stóru broti – á sýningunni, en bókin hafði verið ötuð í matarleifum. Viðbrögðin við verkinu og sýningunni afhjúpuðu hversu íhaldssamir sumir listamenn, eigendur listasafna og útgefendur eru enn – fólk sem maður skyldi ætla að væri í framvarðarsveit listarinnar – og þrá þessara aðila til að hlekkja niður merkinguna. Foreldrar Diljár og fulltrúar listaháskólans leika þeirra hlutverk í Bónusstelpunni.

Listin er hins vegar ekki eina aflið sem getur haft áhrif á veruleikann utan frá. Þar leikur efnahags- og fjármálakerfið einnig mikilvægt hlutverk. Sögusagnir einar geta til dæmis snarhækkað eða -lækkað verð bréfa á mörkuðum sem hefur aftur áhrif á rekstur fyrirtækja, atvinnuöryggi, og svo framvegis. Kraftaverkin sem útrásarvíkingarnir gerðu á fjármálamörkuðum reyndust tálsýn ein þegar litið var til baka – en þau gerðust samt meðan almenningur og fjölmiðlar og lánastofnanir trúðu þeim. Góðærið var kannski bara góð saga, en einmitt þess vegna átti það sér stað; allir voru að hlusta. Í skjóli hagfræðinnar og/eða sögunnar reyndu einhverjir að ljá góðærinu vísindalegan blæ – skýra það sem algildan sannleik – en Diljá gerist aldrei svo hrokafull.

Girndin kitlar hana; um tíma veltir hún því fyrir sér hvort hún sé í raun kraftaverkakona en hún trúir því aldrei til fullnustu. Enda fer brátt að bera á óánægju; ásökunum um svikna vöru. „Þú getur ekki gert kraftaverk. Veistu það ekki?“ (176) spyr maður hana með dauðan hund. Diljá veit það. Hún veit að hún er bara persóna í leikriti sem hún er alls ekki höfundurinn að, leikriti sem viðskiptavinir Bónuss skrifuðu sjálfir. Á sama tíma er hún þó, eins og fjárglæframennirnir, sek um að leika með.

Spurningin um hvað tilheyrir veruleikanum og hvað stendur utan hans er því áleitin í Bónusstelpunni. Á einum stað hugsar Diljá: „Þetta var gjörningur, ekki raunveruleikinn. Fólk hlaut að átta sig á því fyrr en síðar“ (86). En trúin á Bónusstelpuna verður veruleikanum yfirsterkari, eða, öllu heldur, trúin á mátt hennar gerir kraftaverkin sönn. Ströng og köld vísindahyggja sem krefst óvefengjanlegra sannana hefur á undanförnum öldum drepið kraftaverkin og hið ósýnilega. Þess vegna „var eftirspurn eftir kraftaverkum“ (111) sem Diljá svaraði óafvitandi þegar hún kom á kassann. Eftirspurnin kemur af jaðri samfélagsins, frá þeim sem minna mega sín. Í sögunni verður Bónus að myndlíkingu fyrir þennan jaðar þar sem hinir fátæku og skrítnu – allir þeir sem ekki ganga í takt við samfélagið – leika lausum hala.

Bónus er merkingarþrungið rými; þar kaupa hinar vinnandi stéttir inn, en verslunin er engu að síður í eigu útrásarvíkinga sem hafa séð skuldir sínar – að margfaldri upphæð þess sem flestir sem kaupa inn í Bónus geta nokk urn tímann séð fram á að eignast – felldar niður. Óráðsía þeirra virðist ekki munu koma í hausinn á þeim svo nokkru nemi, meðan bláfátækar húsmæður sem hnupla fyrir nokkur þúsund krónur mega eiga von á fangelsisvist. Við kynnumst konu sem er sífellt með reiknivélina á lofti og tekur sér óratíma í að kaupa inn því hún óttast alltaf að eiga ekki nóg þegar að kassanum er komið, og annarri sem borðar úr ruslagámum og býr hálfan daginn í leyni í íbúð sem hún hefur fyrir tilviljun lyklana að. Þetta er fólkið sem þarf á kraftaverkunum að halda, fólkið sem er engu betur sett þrátt fyrir vísindakenningar og hagfræðilíkön og lifir kannski á barmi örvæntingar. Þetta er fólkið sem verður að eiga trúna því það á ekkert annað.

Fjölskylda Diljár og skólinn hafa áhyggjur af því að hún sé að blekkja saklaust fólk með gjörningnum – og þau hafa vissulega talsvert til síns máls – en sannleikurinn er sá að köld vísindatrú er ekkert betri; hún skýrir kannski heiminn en hún bætir hann ekki. Í þeirra augum er hún ekki síður blekking því hún hefur enga snertifleti við tilveru þeirra þótt hún eigi að veita öll svörin. Hins vegar þekkir fólk og skilur sögur. „Kannski var það þannig sem kraftaverk gerðust. Í sögusögnum. Og í samtímanum gengu sögusagnir hratt“ (77). Kraftaverkin búa í sögunum og skáldskapnum – í listinni, en eins og fimi fjárglæframannanna sýndi og sannaði geta heimasmíðaðar sögur verið bæði til góðs og ills.

Það má því segja að þótt Diljá eigi samúð manns í baráttu sinni við stofnunina og borgarahátt við lestur bókarinnar, þá sækir á mann að lestri loknum sú tilfinning að hún sé kannski dæmigerð fyrir ákveðna hreyfingu meðal ungs fólks sem er, myndu sumir segja, á listrænum og pólitískum villigötum. „Fer sem fer,“ er eins konar kjörorð hennar, þetta er hálfgrínleg list, lítt alvörugefin, gengur út á að gera eitthvað og sjá svo til, póstmódernískur leikur með neyslusamfélagið, það gæti þótt flott að listamenn spegli vinnuaðferðir bisnesskalla – en þessi lesandi hefur engu að síður trú á Diljá og skoðanasystkinum hennar. Kraftaverk, sönn eða login (hver er munurinn ef þau virka?), búa alltaf yfir miklu dýpri merkingu og sannleik heldur en sannleikurinn sem er predikaður að ofan, af postulum sem vilja sjálfir ráða því hvað sé satt og hvað ósatt, hvað megi segja og hvað megi ekki segja. Það eru þessi einföldu sannindi sem Diljá stendur vörð um, og ég held að ef við pössum þau þá komi restin svolítið af sjálfri sér.

Atli Bollason