Slá í gegnLögin eru auðvitað fín, eyrnaormar sem við höfum sungið hástöfum í rúma þrjá áratugi og svo önnur minna þekkt inn á milli. Textarnir bráðskemmtilegir. Grunnhugmyndin að söngleiknum Slá í gegn eftir Guðjón Davíð Karlsson sem Þjóðleikhúsið frumsýndi á stóra sviðinu í gærkvöldi undir stjórn þess sama Góa er líka allt í lagi. Vantar þá nokkuð?

Bláþráður verksins gengur út á árekstur milli leikfélagsins í litla bænum þar sem Sigurjón digri (Jón Gnarr) er að æfa Gullna hliðið og Sirkuss Binna og Helgu (Örn Árnason og Ólafía Hrönn Jónsdóttir) sem kemur askvaðandi í bæinn með sitt sjó. Að láta gamalt rekast á nýtt – það tókst oft skemmtilega í sviðsmynd Finns Arnars Arnarsonar – láta sauðalitina fölna í samanburði við glitrandi pallíettur, er gott og gilt, og í takt við tímann að láta nýjabrumið verða ofan á. Leikfélagið með séra Badda (Sigurður Sigurjónsson) í hlutverki Jóns bónda gengur út af æfingu og til liðs við sirkusinn og skilur Sigurjón eftir einan til að leika öll hlutverkin í Gullna hliðinu. Það var ansi skondið að sjá Jón Gnarr leika bæði hlutverk í átökum kerlingar og Óvinarins! Í sirkusnum heillast afabarn Sigurjóns, Skafti (Sigurður Þór Óskarsson) af dóttur Binna og Helgu, Hörpu Sjöfn (Snæfríður Ingvarsdóttir) og mikil framhjáhalds-endaleysa varð til úr fallega laginu Haustið ´75 sem byrjar á því að Sísí (Esther Talía Casey) segir syni sínum Herði (Oddur Júlíusson) að heilsa upp á pabba sinn þegar Frímann flugkappi (Hilmir Snær Guðnason) mætir á staðinn til að láta skjóta sér úr fallbyssu. Síðan reynast æ fleiri vera undan óvæntasta fólki. Krúttlegt var líka þegar hinni brjóstgóðu Ólínu (Edda Björgvinsdóttir) tókst að hæna Sigurjón digra að sirkusnum.

En þetta varð aldrei almennilegur þráður. Mestallur texti verksins gekk út á það að reyna að tengja saman lögin sem þarna voru tínd fram eins og perlur á bandi: Slá í gegn, Íslenskir karlmenn, Úfó, Í háttinn klukkan átta, Angantýr, Energí og trú, Hevímetal maður, Frímann flugkappi, Haustið ‚75, She broke my heart, Ég er bara eins og ég er, Ástardúett, Það jafnast ekkert á við jazz, Sigurjón digri, Að vera í sambandi, Ólína og ég, Leysum vind, Taktu til við að tvista, Strax í dag, Ofboðslega frægur, Fljúgðu og nokkur í viðbót. Þau voru líka sum hver prýðilega flutt. Best fannst mér músíkalska parið Örn Árnason og Ólafía Hrönn í Það jafnast ekkert á við jazz og flutningur Sigurðar Þórs Óskarssonar á titillaginu. Þau Snæfríður fluttu líka Ástardúettinn mjög fallega.

Hljómsveitin spilaði af miklum krafti undir stjórn Vignis Snæs Vigfússonar, stundum af helst til miklum krafti svo að hún kæfði textann þó að allur söngur væri magnaður vélrænt. Búningar Maríu Th. Ólafsdóttur voru margir og litríkir og lýsing Magnúsar Arnars Sigurðarsonar var svo sniðug að stundum stal hún senunni.

Sýningin er geysilega fjölmenn, á sviðinu eru fjórtán leikarar, sex dansarar og þrír sirkuslistamenn og í gryfjunni sex manna hljómsveit og það er allt á fullu. Danshöfundur er Chantelle Carey og oft tókst henni vel upp, til dæmis var smellið atriðið þegar allur hópurinn situr fremst á sviðinu og dansar í takt með höndunum. Mörg hópatriðin voru þó nokkuð óöguð ærsl með ófrumlegum sporum og ótrúlega miklu handapati. Það var stundum eins og viðbrögð við öllum uppákomum, af hvaða tagi sem þær voru, fælust í því að baða út höndunum!

Á sviðinu ríkti æst leikgleði, það vantaði ekki – en var hún nógu smitandi? Ég er ekki viss. Kannski vantaði mig bara Stuðmenn á sviðið, söguþráðinn úr Með allt á hreinu og Ágúst Guðmundsson við stjórnvölinn. En þá þarf líka að taka fram að áhorfendur tóku sýningunni með miklum fagnaðarlátum í gær svo að ekki voru allir á sama máli og ég.

Silja Aðalsteinsdóttir