Bergsveinn Birgisson. Geirmundar saga heljarskinns.

Bjartur, 2015.

Úr Tímariti Máls og menningar 1. hefti 2016

„Tilvistarrétt okkar Íslendinga er bara að finna á þjóðveldisöld, sagði ég … eina haldbæra efnahagslega skýringin á svo miklu bók- og lærdómslífi var að hér á landi hefði verið stórfelld verslun með náhvalstennur og tennur og húðir rostunga, líkt og Helgi Guðmundsson héldi fram í sínum ritum“
Handbók um hugarfar kúa, bls. 105 (2009).

Geirmundar saga heljarskinnsI 

Á tímum þegar „allt er leyfilegt“ þurfa listamenn sjálfir að „hafa á sér hemil“, svo að þeir finni hugsun sinni farveg og form. Hömlur eru líka ekki endilega réttnefni þegar kemur að þeim skorðum sem sköpun listamanna kunna að vera settar. Öðru nær, ekki síst þegar listamennirnir setja þær sjálfir. Þannig eignuðumst við nokkur mikil meistaraverk þegar Lars von Trier, Thomas Vinterberg og félagar þeirra í kvikmyndabransanum settu sér Dogma-reglurnar. Og þá setti hinn frægi listamaður Matthew Barney, sér allskyns grimmar skorður við sköpun listaverkaseríunnar rómuðu, Drawing Restraint og hafði að fyrirmynd áskoranir og erfiðleika sem einkenna líf íþróttamanna, en sjálfur þótti hann á yngri árum líklegur til afreka á því sviði.

Afreksíþróttir koma vissulega upp í hugann við lestur Geirmundar sögu heljarskinns. Bæði þegar ómennskur fræknleikur hálfsrekka og söguhetjunnar sjálfrar eru gaumgæfðar, en líka ef horft er til skrifanna sjálfra.

Segja má að Bergsveinn Birgisson noti skylda aðferð og Barney og Dogmamenn til að koma sköpunarsafanum á hreyfingu í Geirmundarsögu. Hann fellir hana (næstum) fyllilega í form og stíl Íslendingasagna, og lætur ekki þar við sitja heldur líkja bókahönnuðirnir eftir hinni virðulegu grundvallarútgáfu Fornritafélagsins í umbroti, leturgerð, stafsetningu og framsetningu formála og neðanmálsgreina. Kjölurinn þó annar, engin hætta á að hún týnist í stássbókaskápnum.

Bergsveinn hlífir okkur reyndar við langlokum um lesbrigði neðanmáls, enda skapar hann sögunni dramatíska varðveislusögu sem skilur aðeins eftir eitt óaðgengilegt handrit og eitt vafasamt nútímaeftirrit þess. Sagan af afdrifum bókarinnar gegnir þegar upp er staðið lykilhlutverki í erindi hennar og tengist beint eldfimu efni hennar.

Það gæti virst svolítið augljóst að velja sér þennan frásagnarhátt til að segja þessa sögu sem sækir heimildir sínar í fornaldarsögur, Landnámu og Sturlungu. Þó verður að huga að því að undanfarin ár og áratugi hafa íslenskir höfundar farið þveröfuga átt í ferðalög inn í þennan heim. Beitt aðferðum og hefðum nútímabókmenntanna til að sýna eitthvað nýtt, endurskoða og endurtúlka. Úr efni Geirmundar sögu mætti til dæmis hugsa sér slíka bók um hlutskipti Leifs Loðhattarsonar, þrælssonarins sem tekur sess konungssonanna skrælingjalegu fyrstu æviárin, en þarf síðan að venja sig við hlutskipti hins ánauðuga þegar skiptin komast upp. Þarna leynist efni sem auðvelt er að ímynda sér kveikja í Ármanni Jakobssyni, höfundi Glæsis og Einari Kárasyni með sín næmu eintöl fyrir hönd kvenna og smámenna í gerningaveðri Sturlungaaldar. Jafnvel Benedikt Erlingssyni eða Brynhildi Guðjónsdóttur.

Um sagnaarfinn gildir það sama og gott kökuhlaðborð til sveita. Nóg til frammi.

II

En Bergsveinn sem sagt skoðar Geirmund heljarskinn. Og hefur gert lengi. 2013 kom út í Noregi Den Svarte Vikingen, alþýðlegt fræðirit um rannsóknir Bergsveins og niðurstöður hvað varðar þennan óvenjulega landnámsmann. Falleg og efnismikil bók sem vel mætti hugsa sér að yrði þýdd og kæmi út hér líka. Jafnvel þótt við höfum fengið þessa áhugaverðu skáldsögu.

Bergsveinn sækir efni hennar einkum í þrjú rit. Fornaldarsagan Hálfs saga og hálfsrekka segir frá forfeðrum Geirmundar og lýkur með fæðingu hans og Hámundar tvíburabróður hans. Geirmundar þáttur heljarskinns myndar nokkurs konar inngang að Sturlungu og í Landnámabók eru nokkrar málsgreinar um uppvöxt og landnám þeirra bræðra á Íslandi, sem fyrir utan hinn ævintýralega uppvöxt sver sig í ætt við aðrar slíkar. Norskur smákonungur hrekst til Íslands undan Haraldi hárfagra og nemur þar land ásamt ferðafélögum sínum.

Þessa sögu endursegir og eykur Bergsveinn í bók sinni. Gerir úr henni „fullgilda Íslendingasögu“ ef svo má segja. Segir nánar frá forfeðrum Geirmundar, uppvexti hans, kynnum af móðurfólki sínu á ströndum Hvítahafsins, umsvifum hans á Íslandi, átökum sem af þeim hljótast og ævilokum.

Í formála er sagan eignuð Brandi fróða Halldórssyni, príór Flateyjarklausturs, en flókin og átakamikil varðveislusagan gegnir mikilvægu hlutverki í bók Bergsveins.

Hvað gerist við það að nálgast viðfangsefni sitt innan forms fornbókmenntanna? Þrátt fyrir allt myndast óneitanlega einhverskonar trúverðugleiki. Þó við vitum vel að hvorki Íslendingasögurnar né í sjálfu sér hinn „fræðilegri“ hluti fornritanna standist nútímakröfur um sagnfræðilegt gildi þá er djúpt á þeirri tilfinningu að eitthvað hljóti að vera af rót raunveruleikans í því efni sem svona er fram sett. Bergsveinn magnar upp þessa tilfinningu með því að fylgja þegar þess er kostur og hentar markmiðum hans öðrum textum sem segja frá Geirmundi. En kannski enn fremur með hinum snjalla formála, sem er stór hluti bókarinnar og verður að skoðast sem í það minnsta eins mikilvægur hluti og frásagan sjálf.

Annað sem vinnst – eða tapast – við að segja frá með þessum hætti er það sem mætti kalla siðferðilega fjarlægð, eða jafnvel fjarvistarsönnun. Hér segir vissulega frá mikilli grimmd, skeytingarleysi um mannslíf og samfélagsgerð sem er flestum sem við hana búa næsta óbærileg. En sagan er samt ekki um það. Þetta er ekki bók gegn þrælahaldi, eins miðlægt og sú skipan mála er í henni. Ef Bergsveinn hefði kosið að segja þessa sögu að nútímahætti, ef svo mætti segja, er líklegt að við hefðum lesið hana sem einhverskonar afþreyingarfantasíu í anda Game of Thrones, eða höfundi hefði verið nauðugur einn kostur að láta hana snúast á mun yfirborðskenndari hátt um fordæmingu þess sem hann fjallar um.

III

Þær hömlur sem fornsagnaformið setur nútímaskáldsagnahöfundi við það verkefni að uppfylla kröfur nútímaskáldsagnarlesanda eru ærnar og sumt af því skemmtilegasta við Geirmundar sögu eru hlaup höfundar á þá veggi. Þar er inngangurinn fyrirferðarmestur og mikilvægastur. Og gefinn upp boltinn með aðrar undankomuleiðir Bergsveins undan ströngustu kröfum:

Það einstaka við Brand fróða er hve ófeiminn hann er við að gera sig sýnilegan, en eins og alkunna er þótti ekki slíkt við hæfi í stíl seinni sagnaritara. (XXXIV)

Brandur fróði, príor Flateyjarklausturs, sver sig nefnilega í ætt við höfund Fóstbræðrasögu og leyfir sér allskyns útleggingar við frásögnina, svokallaðar klausur. Mest er það auðvitað af guðrækilegu tagi, en þó á hann til að vera nokkuð nútímalegur í hugsunum um gang mála:

Fær mér barnit, segir Geirmundr þá. Og þá er hann tók við í fang sitt ok horfði í augu barnsins þá viknar sá inn herti. Þat segja sumir menn at engi sjón er sterkari en sú at líta í augu barns er nýborit er, því þat er sem augu allra forfeðra líti þann inn sama úr augum barnsins. (177)

Varðveislusaga Geirmundarsögu er rakin í formálanum, eins og venja er. Hún er í raun einn af merkingarkjörnum hennar. Örlög Brands príórs þegar sagan hlýtur ekki náð fyrir augum yfirvalda, endurritun hennar af Magnúsi Þórhallssyni í upphafi fimmtándu aldar og svo hin æsandi saga af alþýðufræðimanninum Svani Kjerúlf sem fær það hlutverk að afrita handrit í einkaeigu á tuttugustu öld. Svanur þessi þykir manni vera mjög „Bergsveinsk“ persóna, kannski skyldastur hinum taugatæpa menningarfræðingi í Handbók um hugarfar kúa, og það eru óneitanlega viss vonbrigði hvað fingraför hans á bókinni eru á endanum fyrirferðarlítil, fyrir utan söguna í formálanum af glímu Svans við bókmenntastofnunina og ein kostuleg neðanmálsgrein. Þær hefðu mín vegna mátt vera fleiri. Kannski má skrifa á reikning Svans að stöku sinnum bregður fyrir nútímalegu orðalagi þar sem ekkert virðist beinlínis kalla á það:

Þat vissi eigi Geirmundr at þar bjó ungr heiptarhugr bak við þil (134)

eða:

Skömmu eftir fund þenna varð sá atburðr er kom róti miklu á hug Geirmundar. (147)

En vel hefði verið hægt að sjá Svan Kjerúlf leika stærra hlutverk. Hér neitar Bergsveinn sér um eina augljósa undankomuleið frá hinu stranga fornsagnaformi. Til góðs eða ills.

Inngangurinn færir Bergsveini líka skemmtilegt tækifæri til að gefa eigin verki einkunn:

í þessu samhengi mætti nefna persónur sem greinilega hafa fengið á sig ýkjubrag munnlegrar hefðar, svo sem Ólaf hvíta, konung í Dyflinni, sem Brandur einn sagnaritara gæðir nokkru lífi. (XXXV)

Og jafnvel furða sig á niðurstöðum þess, væntanlega með smá glott á vör:

Í ljósi þess hve fræðimenn hafa borið kennsl á fáa norræna menn sem nafngreindir eru í írskum annálum, er það enginn smáfundur sé það rétt að Fulf eða Uwlfie þessi sé enginn annar en Úlfur skjálgi Högnason, fóstbróðir Geirmundar við Breiðafjörð. (XXXXIX)

Almennt er þessi inngangur ákaflega sannfærandi sem slíkur, ríkulega studdur neðanmálsgreinum sem vísa jafnt í söguna sem á eftir fer og allskyns aðra texta, fræðibækur og aðrar fornsögur og nær þannig að „jarðtengja“ Geirmundar sögu og auka henni erindi.

IV

Fyrir utan hinar Fóstbræðasögulegu klausur, útleggingar Brands á sálarlífi Geirmundar og annarra persóna er „sagan sjálf“ fjári vel gerð stæling. Þó þykir mér hann full-örlátur á útgönguleiðina „sumir segja“ til að velta upp ólíkum möguleikum á atburðarás og afstöðu persóna og þykkja þannig sagnagrautinn. Skiljanlegt auðvitað og gagnlegt, en fyrir minn smekk ofnotað.

Vissulega hefur Bergsveinn mikið yndi af því skrítnasta og kryddaðasta úr orðaforða fornbókmenntanna, stundum þannig að lesandanum þyki það vaka fyrir honum umfram annað að „yfirgerpla Gerplu“. Að öðru leyti er samanburður við Gerplu ekkert sérlega nærtækur. Í þeirri bók er verkefnið að kveða hetjumynd fornbókmenntanna og ímyndar þeirra í kútinn með háðið að vopni. Tilefni ofbeldis og mannvíga í Geirmundu eru á hinn bóginn sjaldnast fáfengileg eftirsókn eftir frægð og orðstír heldur er drifkrafturinn nær alltaf „efnahagslegur“. Græðgi ræður oftast för, eða þá að ofbeldið er leið örvæntingarfulls fólk að frelsi eða einhverskonar réttlæti.

Segja má að sæmd, og togstreita hennar og ofmetnaðar, leiki ekki það lykilhlutverk í þessari sögu sem henni er falið í mörgum öðrum. Reyndar byrjar veldi hins klóka fjáraflamanns Geirmundar fyrst að riða að ráði þegar hann virðist ætla að leyfa ofdrambinu að stýra ákvörðunum sínum og ráðast til atlögu við sjálfan Harald hárfagra og endurheimta ríki og orðstír forfeðra sinna. Sá þráður, og rætur hans í uppruna og uppvexti Geirmundar, sem og stirðu sambandi við hinn frækna föður, væri í sjálfu sér fullt efni í viðamikla nútímaskáldsögu. Líta má á það sem fórnarkostnað þess að segja söguna að hætti sögualdar að þessa sálarlífsmynd þarf lesandinn að smíða með sjálfum sér, líkt og við höfum alltaf þurft að velta fyrir okkur rökum og forsendum ákvarðana helstu hetja hinna bestu sagna.

Það er enda ekki síst þegar lýsa á hinum sálrænu öflum sem stýra hug og gjörðum Geirmundar sem Bergsveinn freistar þess að gera Brand príór að öllu meiri nútímahöfundi en strangt tekið er trúanlegt miðað við þær formhömlur sem hann setur sér. Þar ber mögulega hæst magnaðar samræður hans og Þrándar í 48. kafla þegar heljarskinn er lagstur í óyndiskör, en það samtal fer fljótlega inn á nokkuð tilvistarspekilegar brautir. Auðvitað gleður það frekar en hitt þegar höfundur brýtur reglu sína á skapandi hátt.

Bergsveinn er vitaskuld gagnkunnugur stíl og hugmyndaheimi fornritanna og í fyrri verkum hans bregður oft fyrir þeirri nautn sem hann hefur af allskyns fyrnsku og sérvisku í orðalagi og hugmyndum.

Þá kemur miðaldaheimur Hrafns Gunnlaugssonar og Karls Júlíussonar frekar upp í hugann en viðteknar rómantískar hugmyndir um okkar glæstu fortíð sem Halldór gekk á hólm við í Gerplu, en tókst auðvitað ekki að útrýma. Enda er það helsta erindi Bergsveins, virðist manni: að skora hefðbundna sögualdarmyndina á hólm á hennar heimavelli. Honum gengur það ágætlega.

Segja má að þar vegi fjögur atriði þyngst. Að sýna hvernig umfang þrælahalds var meira og vægi þess þyngra í samfélagsgerðinni en almennt er viðurkennt; að veiðimennska – rányrkja – hafi staðið undir að minnsta kosti stórum hluta efnahagslífsins; að einstakir menn hafi haldið sig eins og nokkurskonar smákóngar og að lokum að samgangur og blóðblöndun við frumbyggja Síberíu hafi þekkst, jafnvel á „æðstu stöðum“. Þessi atriði hafi síðan verið ritskoðuð út úr viðtekinni sögusýn allar götur síðan Landnámuhöfundar settu saman sína bók, litið á hugmyndir sem ögra henni sem ögrandi og þær jaðarsettar sé þess nokkur kostur. Á kápu bókar Bergsveins er enda stimpill með orðunum „sagan sem Ísland vildi ekki“.

Geirmundar saga heljarskinns er hliðstæða annarra Íslendingasagna að teknu tilliti til þessarar sögusýnar og stenst sem slík – sem möguleiki á slíkri sögu. Lengra kemst hún að sjálfsögðu ekki, þó inngangurinn hjálpi til við að skjóta rökstoðum undir að einmitt svona hafi lífið í landinu verið á frumbýlingsárunum en ekki eins og við héldum. Skáldsögur sem eru beinlínis skrifaðar til að rökstyðja kenningar hafa alla burði til að verða heldur lágfleygur skáldskapur en þar kemur formið og samtalið við hefðina Bergsveini til bjargar. Eiginlega tvær hefðir: list fornsagnanna og afstaða okkar til þeirra eins og hún birtist í varðveislu þeirra og rannsóknum. Báðar nýtir hann af hugkvæmni og frumleika.

V

Í sjónvarpsviðtali í tilefni af útkomu Geirmundar sögu heljarskinns (Kiljan 8. desember 2015) lýsti höfundur yfir efasemdum um nútímaskáldsöguna, erindi hennar og möguleika á að túlka og skýra mannlífið. Margir deila þeim efasemdum, og hafa gert áratugum saman, ef ekki lengur.

Alls óvíst er að nokkur annar geti fetað þá slóð sem Bergsveinn varðar með Geirmundar sögu heljarskinns til lausnar á þessum meintu ógöngum skáldsögunnar. Enda þykir mér líklegt að henni sé ætlað að vera nokkuð einstakt tilvik og kannski ábending um að hver höfundur þurfi að semja sínar eigin reglur, leita þess forms og þeirra aðferða sem best henta hverju efni. Óvíst að neinn geri ágreining um það. Og þó Bergsveinn sé að þessu leyti formbrjótur er hann svo sannarlega líka tilbúinn að leita í smiðju fyrri tíðar höfunda og lúta þeim reglum sem hann sér í verkum þeirra. Svona mestanpart. Sá leikur er einn helsti gleðigjafinn í þessari óvenjulegu og snjöllu bók þeirra Brands, Magnúsar, Sveins og Bergsveins.

Þorgeir Tryggvason