Sigurður Pálsson. Bernskubók.

JPV útgáfa, 2011.

Úr Tímariti Máls og menningar 3. hefti 2012

BernskubókLeit, angist, framandleiki, útskúfun, sársauki, ráf og órói eru sterk leiðarstef í fyrstu ljóðabókum Sigurðar Pálssonar en eftir því sem bókunum fjölgar verða fögnuður og fegurð fyrirferðarmeiri. Angistin og lífsháskinn víkja hægt og sígandi fyrir óþrjótandi lífsgleði og æðruleysi. Þar með er ekki sagt að skáldinu hafi tekist að kremja þær systur angist og einsemd endanlega undir hælnum, þær gægjast vissulega fram en í öðrum litum og af minni ofsa en hjá ungskáldinu.

Meginþemun í höfundarverki Sigurðar er hins vegar leit og hreyfing. Í ljóðabálkinum „Á hringvegi ljóðsins“ úr ljóðabókinni Ljóð vega menn frá árinu 1980 er lesandi beinlínis hvattur til þess að skella sér út á ljóðvegina í leit að orðum og merkingu en orðaleitin felst í því að ná dýpri og nánari tengingu við tungumál, umhverfi, náttúru og innsta kjarna mannlegrar tilveru. Sú eirðarlausa leit birtist ótvírætt í Ljóð vega menn og gengur aftur í öllum ljóðabókum Sigurðar í ótal myndum. Í óbirtu viðtali sem ég tók við Sigurð segir hann að leitin sé „næstum því eins og samnefnari fyrir lífskraftinn, aflið sem knýr mann áfram, kemur af stað ferðalagi í öllum skilningi á hverjum degi. Leit er spurning, lifandi spurning, knúin áfram af forvitni og lífsgleði.“

Og leitin heldur áfram í minnisbókum Sigurðar Pálssonar, Minnisbók frá árinu 2007 og Bernskubók sem hér verður aðallega fjallað um. Þar segir höfundur í upphafi: „Skáldskapur er að mínu viti ekki uppspuni, hvað þá lygar, skáldskapur er ofsafengin leit að sannleikanum. Sannleika persóna, sannleika kringumstæðna, sannleika tungumálsins. Skáld sem standa undir nafni reyna alltaf að segja sannleikann en stundum trúir honum enginn.“ (13)

Rétt er það að skáldskapur er ávallt leit að sannleikanum og í flestum bókum finna lesendur sinn eigin sannleika. Hvort höfundur höndlar sinn eigin sannleika getur lesandi aldrei vitað en ljóst má vera að í báðum minnisbókum sínum reynir höfundur að komast eins nálægt sannleikanum og mögulegt er. Báðar bækurnar fjalla um löngu liðinn tíma og því má leiða að því líkum að eitthvað kunni að hafa skolast til í minningunni en bækurnar fjalla ekki síður um sjálft minnið og minningarnar.

Öll upprifjun á liðnum tíma er skáldskapur, fortíðin verður aldrei endursköpuð að fullu. Ég tel þó að Sigurður haldi sig ansi nærri sannleikanum, því að hann var sem barn og fram á unglingsár haldinn ástríðufullri skrásetningaráráttu sem minnir óneitanlega á frænda hans Þórberg Þórðarson. Þessi árátta kemur glöggt fram í Bernskubók en hann skrásetti allt sem hugsast gat; hélt Veðrabók og Ærbók með alls kyns upplýsingum og tilraunir hans til þess að halda Heyskaparannál eitt sumarið eru óborganlega fyndnar enda fór ann állinn gjörsamlega út um þúfur sökum anna og þreytu. (204–211)

Í viðtali okkar stakk ég upp á því að skrásetningaráráttan gæti hafa verið merki um ofvirkni en við það vildi Sigurður alls ekki kannast:

Ég var alls ekki ofvirkur. Ég skynja þetta ekki þannig. Ég var fremur rólyndur held ég, draumlyndur. En jafnframt haldinn mikilli athafnaþrá. Stundum var ég óþolinmóður af því mér fannst ég ekki vera að gera neitt, það væri svo margt sem ég gæti verið að gera. Hins vegar var í þessum framkvæmdum einhvers konar samspil konsepts og útfærslu þar sem útfærslan endaði í never ending story.

Minnisbók fjallar um Frakklandsár höfundar sem þangað flutti aðeins 19 ára gamall, Bernskubók segir af æskuárum Sigurðar. Í báðum verkunum spilar athafnaþráin, sem í dag yrði ef til vill skilgreind sem ofvirkni, stórt hlutverk. Í Minnisbók sjá lesendur ungan mann sem er sífellt á iði, æstur í að kanna lífið til hins ýtrasta og gengur svo langt að hann fer fram á ystu brún. Hann les sér næstum til óbóta og finnur sig staddan einn dag, eða nótt, á veitingahúsi á St. Germain þar sem hann segir gestum og gangandi frá því í smáatriðum hvernig hann fór að því að drepa gamla konu með öxi – kominn í hlutverk Raskolnikovs í Glæp og refsingu eftir Dostojevskí! (219).

Ungi maðurinn í Minnisbók kemur nær mállaus til Frakklands og þarf að bjarga sér einn og óstuddur. Og þar er frásögnin oft tryllt og hröð enda er ungi maðurinn að reyna að gera margt á sama tíma; læra nýtt tungumál, stunda nám, lesa, kanna næturlífið og lendir að auki í miðju stúdentauppreisnarinnar árið 1968. Tónlistin spilar jafnframt stórt hlutverk í lífi hans; Janis Joplin, Jim Morrison, Bítlarnir og þannig mætti áfram telja. Tilveran er brjálað stuð frá morgni til kvölds og þar sem fjörið er þar er Sigurður mættur! En þrátt fyrir tryllinginn er draumlyndið aldrei fjarri.

Í Bernskubók sjá lesendur einnig athafnasama og draumlynda manneskju sem finnur stöðugt fyrir magnaðri skrásetningaráráttu og athafnaþrá sem mörgum árum síðar braust út í rithöfundinum Sigurði Pálssyni.

Það er sérkennilegt til þess að hugsa að Sigurður skuli hafa valið að skrifa Minnisbók á undan Bernskubók því á æskuárum ólst hann upp við mjög ákveðna forgangsröðun eins og eftirfarandi tilvitnun í dagbók föður hans á fæðingardegi hans gefur til kynna:

Allgóður þurrkur út úr hádegi. Hirt á Hólunum og Sléttunni fyrir framan hús, sett upp á Sveinafleti. Kom hér Þorkell Jóhannesson prófessor og frú og stönsuðu um skeið. Ljósmóðir sótt út úr hádegi. Í kvöld eða nótt, 15. mín. fyrir 12 á miðnætti fæddist okkur drengur, 16 merkur að þyngd og efnilegur að sjá. Fæðing gekk heldur seint. (12)

Fyrst er fjallað um veðrið, svo bústörfin, gestakomur og að síðustu fæðingu sonarins. En hugsanlega hefur hin sterka forgangsröðun í æsku haft þau áhrif á Sigurð að í undirmeðvitundinni ákvað hann að gera uppreisn og hafa hlutina í öfugri röð.

Í Bernskubók fjallar Sigurður um uppvaxtarár sín á Skinnastað í Norður-Þingeyjarsýslu þar sem faðir hans þjónaði sem prestur. Sigurður er yngstur í stórum hópi systkina, faðir hans var fimmtugur þegar hann fæddist. Heimilið er stórt, mikill gestagangur og á einum stað segir Sigurður:

Húsið tók endalaust við fólki. Barnið réði engu, skipulagði ekkert, Vissi ekki neitt fyrr en ný ráðstöfun hafði tekið gildi, nú var einhver mættur í símaherbergið eða póstherbergið eða önnur gestaherbergi, heimilismaður tímabundið eða gestur: vinnukona, organisti, nemandi, kaupakona, frænka, puttaferðalangur … (17)

Heimili Sigurðar var ekki bara prestsetur og sveitabýli heldur jafnframt samskiptamiðstöð. Símstöð, pósthús, kirkja, skóli, félagsmiðstöð og svo framvegis. (18) Ekki er ólíklegt að að þessi margvíslegu samskipti sveitadrengsins við fólk af ólíkum uppruna hafi auðveldað honum síðar meir að fara ungur utan til náms.

Hugsanlega hefur sú mikla uppörvun sem hann fékk í uppvextinum einnig haft sitt að segja. Hann naut ekki formlegrar skólagöngu fyrr en hann fór í landspróf til Reykjavíkur. Fram að því sáu foreldrar hans um menntun hans að mestu leyti. Umhverfið sem Sigurður lýsir af stakri nákvæmni, hlýtur einnig að hafa haft sín áhrif á einbeitni hans, þegar hann barðist áfram við að lifa af á sínum fyrstu Frakklandsárum.

Á Skinnastað ólst hann upp við aga en jafnframt ákveðið frjálsræði sem gerði honum stundum kleift að láta sig hverfa, leggjast á leiði í kirkjugarðinum og láta sig dreyma. Hann valdi sér uppáhaldslegstein, lúinn og gamlan, og hann vissi ekki fyrr en löngu síðar að þetta var legstaður Guðnýjar frá Klömbrum, skáldkonunnar sem lést aðeins 32 ára gömul. Talið er að hún hafi sprungið úr ástarharmi og síðar orti Sigurður um skáldkonuna einkar fagurt ljóð. (151–153)

En þrátt fyrir mikinn gestagang, jafnt fyrirmanna sem puttalinga, lýsir Sigurður heimilinu sem einstökum griðastað. „Eldhús er hjarta hvers heimilis“ (19) og þar átti Sigurður tvo bakhjarla; eldavél og kött. Fékk hlýju frá þeim báðum þar sem hann skrifaði, borðaði, las og lærði. Fékk svo útrás þess á milli í skrásetningarþörf sem yfirleitt varð endaslepp!

Í Bernskubók lifnar á síðunum veröld sem var. Ekki voru þá til staðar öll þau nútímaþægindi sem við þekkjum nú. Sigurður gerir góða grein fyrir öllu því góða fólki sem tengdist Skinnastað á einn eða annan hátt. Hann segir frá kennileitum náttúrunnar, nöfnum fólksins á næstu bæjum og hann man meira að segja nöfnin á kindunum, en þau skráði hann náttúrlega kyrfilega niður á sínum tíma.

Í Bernskubók grefur Sigurður Pálsson eftir æsku sinni og hvað er satt og hvað „logið“ í frásögninni skiptir í sjálfu sér ekki máli. Hin „ofsafengna leit að sannleikanum“ skilar lesandanum dásamlegu endurliti til fortíðar sem einu sinni var og kemur aldrei aftur. En sagan segir jafnframt af barni í leit að kjarna sjálfs síns og þær lýsingar eru unaðslegar; stundum átakanlegar því sem yngsta barn þarf Sigurður ávallt að reyna sitt besta til að vera samþykktur inn í hópinn. Í bókinni koma fram margar fyndnar senur, t.d. þegar Sigurður þarf að bjarga sér á trylltum flótta undan mannýgum geithafri (185–188). En fyrst og síðast er sagan einstaklega ljóðræn. Öllu er lýst á ljóðrænan hátt; mönnum, dýrum og umhverfi og segja má að Bernskubók sé eitt allsherjar ljóðasafn skrifað af einu bestu ljóðskáldi 20. aldar á Íslandi.

Allt raðast saman á endanum og úr verður „ævisaga“ margra, skáldskapur og ævisaga í senn, eins konar skáldævisaga. Sigurður Pálsson kemur þeim sannleika að í báðum sínum minnisbókum því að minnið bregst stöku sinnum og þá tekur skáldskapurinn við. Í minnisbókunum sýnir Sigurður okkur tímana tvenna, sveitadrenginn og heimsmanninn. Í Minnisbók er ungur maður að reyna að finna fótum sínum forráð með tilheyrandi tryllingi og angist sem fylgir því að reyna að finna sig í framandlegu stórborgarumhverfi og rótgróinni menningu. Í Bernskubók er barnið í öruggu umhverfi með sínum nánustu á Skinnastað, í faðmi náttúrunnar og í daglegri rútínu. Á Skinnastað ríkir rósemd, í París ókyrrð.

Þegar Sigurður Pálsson var barn var hann oft spurður þeirrar leiðinlegu spurningar hvað hann ætlaði sér að verða þegar hann yrði stór. Og svarið var alltaf á sömu leið: Ég ætla mér að verða gullsmiður, listmálari og rithöfundur. (Bernskubók, bls. 103). Í þessari röð! Listmálari varð hann aldrei. En rithöfundur varð hann sem og gullsmiður. Gullsmiður orða.

Sigríður Albertsdóttir