MinnisvarðiMinnisvarði 16 elskenda í Tjarnarbíó er skrautlegur gjörningur með fallegu fólki en sýningin hefur ekki eins skýrt afmarkað efni og tilgang og fyrri sýningar hópsins sem ég hef séð. Satt að segja datt mér í hug í gærkvöldi að ég væri orðin of gömul fyrir þau. Sýningin hefur fengið talsvert mikið hól frá gagnrýnendum, enda tala ég aðeins fyrir sjálfa mig þegar ég segi: sýningin náði mér ekki.

Fyrsti þátturinn af þrem hefur fá orð en þeim mun magnaðri tónlist (Gunnar Karel Másson) sem var svo sefjandi að þótt elskendurnir á sviðinu gerðu sitt besta til að bæði skemmta mér með sérkennilegum búkhljóðum og heilla mig með fallegu hreyfimunstri þá sótti á mig illviðráðanlegur svefn. Þennan þátt leika þau niðri á sviðinu en áhorfendur sitja uppi á svölum og fjarlægð mín frá sviðinu jók heldur á svefndrungann. (Ég er alls ekki vön að sofna í leikhúsi.)

Í miðþættinum sem er leikinn niðri á gólfi fyrir framan sviðið – og áhorfendur sitja á sviðinu – stækka elskendurnir hópinn um fimm sjálfboðaliða úr hópi áhorfenda. Þessir aukaleikarar eru klæddir í afar skrautlega og óvenjulega búninga (Una Stígsdóttir á heiðurinn af þeim, held ég) enda eiga þeir væntanlega að sýna fram á það sem hópurinn segir í kynningu: „Á undanförnum áratug hefur framsetning á hversdaglegu lífi einstaklingsins verið gerð að stórfenglegu sjónarspili og rík áhersla lögð á möguleika hvers og eins á að skara fram úr á sínum eigin hversdagslegu forsendum.“

Ég get mér þess til að hér eigi þau við internetið og möguleikann sem það gefur fólki á að gefa út sitt eigið myndskreytta dagblað og tímarit á heimasíðu sinni fyrir vini sína og aðra sem lesa bloggið eða facebookfærslurnar. (tmm.is getur í sjálfur sér verið ágætt dæmi um slíkan einkavettvang þótt fleiri noti hann en ég.) Stöku setningarnar sem sjálfboðaliðarnir fóru með gátu vel verið af Facebook mín vegna. Þar má nú aldeilis finna efni í nokkra leikþætti ef vel er leitað og þessi þáttur var skemmtilegastur. Síðasta þættinum náði ég ekki enda var þar farið út í geim.

Samtíminn er merkilegt rannsóknarefni og tilraun 16 elskenda til að ná utan um einkenni hans er virðingarverð. Og ég held að Karl Ágúst Þorbergsson leikstjóri ætti að halda tilrauninni áfram og gá hvort hann kemst ekki lengra næst.

Silja Aðalsteinsdóttir

16 elskendur: Minnisvarði