Ég er nærri því viss um að þið höfðuð ekki hugmynd um að í rauninni átti litla gula hænan heima í skýjahöllinni hjá risanum og að þar var það sem hún sáði fræinu, þreskti kornið og allt það. Og að í rauninni var það hún en ekki gæsin sem verpti gulleggjum handa risanum og Jói bjargaði eftir að hann klifraði upp baunagrasið. Þetta er að minnsta kosti það afbrigði af sögunni um Litlu gulu hænuna sem Leikhópurinn Lotta segir okkur á eldfjörugri sýningu sinni í Elliðaárdalnum um þessar mundir.

Litlu gulu hænunaÞað var al-óíslenskt veður í Elliðaárdalnum um kvöldmatarleytið í dag þegar ég horfði á sýninguna ásamt tveim ungum fylgdarmönnum, Arnaldi og Aðalsteini. Í rjóðrinu við leiksviðið var beinlínis heitt svo að ekki væsti um nokkur hundruð leikhúsgesti sem þar voru saman komnir. Og eins og venjulega á sýningum Lottu voru börnin sallaróleg meðan þau fylgdust annars vegar með basli litlu gulu hænunnar (Sigsteinn Sigurbergsson) þar sem hún reyndi að fá félaga sína, Kleinu kettling (Andrea Ösp Karlsdóttir), Gilla grisling (Anna Bergljót Thorarensen) og Lettu lamb (Rósa Ásgeirsdóttir) til að taka þátt í uppskeruvinnunni og bakstrinum með sér, og hins vegar með fátæktarbasli Jóa (Baldur Ragnarsson) og mömmu hans (Anna Bergljót). Félagarnir lötu éta allt brauðið frá hænuveslingnum sem þráir samvinnu og vináttu; þeim finnst þau augljóslega og allt upp í milljón prósent algjörlega eiga skilið að fá brauð í magann þó að þau hafi ekki unnið fyrir því. Jói klúðrar fyrir sitt leyti sölunni á kúnni Rjómalind (Björn Thorarensen), hann á að fá minnst tíu gullpeninga fyrir hana á markaðnum en lætur Grimmu grimmu (Andrea Ösp) lokka sig til að láta hana af hendi fyrir eina töfrabaun. Mamma verður fokreið en baunin sú stendur þó við allt sem lofað var. Jói kemst upp í skýjahöllina þar sem risinn ógurlegi og eineygði (Rósa) ríkir og tekst að ræna litlu gulu gulleggjaverpandi hænunni frá honum. Þá er ekki langt í hamingjusaman endi.

Samsetning ævintýranna af litlu gulu hænunni og Jóa og baunagrasinu er sniðuglega unnin eins og Lottu var von og vísa. Þó að þau gerist lengst af hvort á sínum stað eru þau fléttuð hugvitsamlega saman þannig að hvorugur þráðurinn slitnar og jafnvel yngstu gestir geta fylgst með báðum. Texti Önnu Bergljótar er fyndinn bæði fyrir börn og foreldra, söngtextar Baldurs Ragnarssonar eru skondnir og lögin sem Baldur, Björn og Rósa eru skrifuð fyrir ásamt Erni Eldjárn eru einföld, söngvæn og skemmtileg. Engum fannst heldur undarlegt að kýrin skyldi leika undir sönginn á hljómborð. Rúsínan í verkinu er svo boðskapurinn sem er sá að samvinna sé öllum í hag: „Saman erum við svo snjöll, gáfaðri en tröll og saman fært við getum stærstu fjöll,“ syngja þau af mikilli sannfæringu!

Leikurinn var lifandi og þéttur undir stjórn Vignis Rafns Valþórssonar og búningar sem Kristína R. Berman hefur hannað voru litríkir og hentuðu vel til snöggra búningaskipta. Það var eins gott því mikið var um slíkt í sýningunni. Dýragervin voru verulega sniðug en mesta athygli allra gervanna vakti risastór risabrúðan, geysihaglega gerð af Aldísi Davíðsdóttur.

Félagar mínir voru hæstánægðir með sýninguna. Sá eldri tók meira að segja fram að hún væri fimm sinnum skemmtilegri en Hrói höttur sem hann hefur þó verið hugfanginn af í heilt ár!

Silja Aðalsteinsdóttir