Sölvi Björn Sigurðsson. Gestakomur í Sauðlauksdal.

Sögur, 2011.

Úr Tímariti Máls og menningar 4. hefti 2012

Gestakomur í SauðlauksdalFullt heiti þessarar skáldsögu er reyndar ívið lengra en hér að ofan greinir: Dálítill leiðarvísir um heldri manna eldunaraðferð og Gestakomur í Sauðlauksdal eður hvernig skal sína þjóð upp reisa úr öskustó. Þetta er í stíl og anda sögutímans, upplýsingaraldarinnar, þar sem lýsandi titlar voru ráðandi; áform bókar og markmið skyldu vera skýr og ljós í titli, en líka sett fram af tilheyrandi auðmýkt því þótt upplýsingarmenn hafi leitast við að færa út mörk mannlegrar viðleitni og leitt skynsemina til öndvegis, þá voru þeir enn þeirrar meginskoðunar að öll okkar viska kæmi frá guði. Það beið 19. aldar og svo þeirrar 20. að takast á við trúarbrögðin. Á þeirri 18. voru Guð og konungurinn enn þau ljós sem skærast lýstu á mannlífið.

Þannig litu helstu upplýsingafrömuðir Íslands á hlutina og þar á meðal söguhetjur þessarar bókar, séra Björn Halldórsson í Sauðlauksdal og mágur hans, Eggert Ólafsson, sem Jónas Hallgrímsson taldi „mesta mann sem Ísland hefur alið“. Það álit var auðvitað ekki út í bláinn, fremur en annað frá Jónasi. Eggert var hans stóra fyrirmynd, fjölhæfur náttúruskoðari og skáld, hugdjarfur og duglegur, baráttumaður gegn bábiljum og gekk fyrstur manna á Heklu, samdi hagnýt rit sem öll áttu að stuðla að bættu og fegurra mannlífi og menningu á Íslandi. Um Eggert yrkir Jónas líka sitt metnaðarfyllsta kvæði, sjálf Hulduljóð þar sem hann lætur Eggert stíga marvotan upp úr þeim Breiðafirði sem hann drukknaði í, ganga á land og spjalla við náttúruna sem var honum svo hugstæð: „Smávinir fagrir, foldarskart …“

Og hvert skyldi Jónas leiða Eggert í Hulduljóðum nema í Sauðlauksdal þar sem Björn Halldórsson, mágur Eggerts, og Rannveig systir hans höfðu búið slíku fyrirmyndarbúi að Eggert hafði ort um heilan Búnaðarbálk. Ekki einungis voru þar mærðir búskaparhættir Björns mágs og tilraunir með káljurtir og kartöflur, heldur líka hið góða og fagra mannlíf sem þar þreifst, „af því að hjónin eru þar/ öðrum og sér til glaðværðar.“

Um mannlífið í Sauðlauksdal orti Eggert líka Lysthúskvæði: „Undir bláum sólarsali, Sauðlauks upp í lygnum dali, fólkið hafði af hanagali, hversdagsskemmtun bænum á, fagurt galaði fuglinn sá …“, sem stundum er enn sungið, þótt kveðskapur Eggerts hafi almennt elst misjafnlega vel. Nafn sitt dró kvæðið af lysthúsi því sem Björn reisti skammt frá bænum, að erlendum sið og sýnir bæði hversu innblásinn hann var af framandi menningu í víðum skilningi sem hann hafði kynnt sér og hversu einbeittur og staðráðinn hann var í að uppfræða landa sína.

Björn Halldórsson í Sauðlauksdal hefur löngum verið kenndur við þá kartöflu sem hann, einna fyrstur manna, kom úr moldu hérlendis, en hann skrifaði líka ritlinga um hugðarefni sín, meðal annars Atla, kennslurit fyrir bændur í samtalsformi, og Arnbjörgu, til þess að leiðbeina húsfreyjum um rétta breytni og hvernig þær gætu best orðið bónda sínum að liði við búskapinn. Grasnytjar er ef til vill þekktasta rit hans af þessu tagi, og endurómar nokkuð í þessari skáldsögu, en þá bók Björns nefndi Gunnar Gunnarsson sérstaklega sem það rit sem hann hefði haft af mest gagn þegar hann skrifaði örlagasögu sem gerist á sömu slóðum, Svartfugl.

Ekki má heldur gleyma því að Björn var ekki einhamur fremur en aðrir upplýsingarmenn og fékkst því einnig við skáldskap. Þar hefur þetta kvæðisupphaf orðið fleygast þótt nú sé það vafalaust flestum gleymt. Í anda þeirra mága er hér dugnaðurinn lofsunginn og boðaður landanum:

Ævitíminn eyðist,
unnið skyldi langtum meir.
Síst þeim lífið leiðist
sem lýist þar til út af deyr.
Þá er betra þreyttur fara að sofa,
nær vaxið hefur herrans pund
en heimsins stund
líði í leti og doða.

Þetta er orðinn alllangur formáli að stuttri skáldsögu Sölva Björns Sigurðssonar, en engu að síður er ágætt að setja hana í rétt sögulegt samhengi til skilningsauka. En þá er tímabært að spyrja réttmætrar spurningar: Hvað hefur þessi saga um grös og ræktunarstarf í afviknum dal fyrir rúmum tvö hundruð árum að segja okkur nútímafólki? Getur hún átt nokkurt erindi við okkur hér og nú?

Því er fljótsvarað: Saga Sölva talar beint til okkar tíma og snilld sögunnar er fólgin í því hvað hún gerir það með beinskeyttum en jafnframt táknlegum hætti. Bakgrunnur sögunnar eru Skaftáreldar 1783, jörð brennur í Skaftafellssýslu og það er dimmt yfir mannlífi; skepnur og menn falla svo upplausn blasir við og óvíst með áframhald búsetu á Íslandi. Algert hrun í orðsins fyllstu merkingu hefur því orðið á Íslandi þegar Björn gamli Halldórsson tekur sig upp frá dvalarstað sínum í ellinni, Setbergi í Eyrarsveit, blindur og stirður ekkill, og heldur á sitt forna býli í Sauðlauksdal.

Þar hyggst hann halda veislu mikla fyrir helstu höfðingja og máttarstólpa lands og þjóðar, þar sem allur matur yrði ræktaður af honum sjálfum í túninu heima. Með því móti hugðist hann efla trú þeirra á landið og þannig myndi hefjast sú uppbygging sem þjóðin svo sárlega þarfnaðist og Björn trúir einlæglega á, þrátt fyrir allt. Eða eins og hann segir á einum stað: „Hví ganga menn þá blóðhlaupnir um löndin, hugsaði ég, þegar öll lífsins björg getur gróið í túngarðinum heima?“ (90) Að hjálpa Íslendingum að hjálpa sér sjálfir – það var grundvallarhugsjón þeirra mága og í henni meðal annars var bylting upplýsingarinnar fólgin.

Um hliðstæður þessa við stöðu okkar í samtímanum þarf ekki að fjölyrða. Þær blasa við þótt ekki verði þeim miklu hörmungum sem dundu yfir Íslendinga í Móðuharðindunum jafnað við fjármálahrunið síðasta, þótt sumir hafi reyndar gert það. Sölvi Björn teflir fram lærdómi Björns og dugnaði, trú á landið og ávexti þess, en við hlið hans stillir hann upp ungu pari sem aðstoðar öldunginn og má túlka sem fulltrúa framtíðarinnar; Maríu sem hefur tileinkað sér þekkingu hans á jurtum og útbýr úr þeim heilnæmar og góðar máltíðir, og Scheving hinum unga sem er brokkgengari persóna en tekur stórstígum framförum í því að brugga gott öl.

Þar sem þessi þrjú iðka sín fræði í friðsæld Sauðlauksdals bankar upp á sauðdrukkinn og illa haldinn Íslendingur; Halldór Mogesen Etasráð, sem áður var talinn einn mesti efnispiltur landsins og væntanlegur sómi. En nú hafði hann semsé drukkið frá sér ráð og rænu og var kominn eftir ólíkindareisu í Sauðlauksdal. Þar hefst upprisa hans til nýs lífs; hann gengur í gegnum sannkallaðan hreinsunareld en mót öllum spám rís hann upp að nýju – og verður þannig táknmynd fyrir hið nýja Ísland og að enn sé von.

Sagan skiptir aðeins um tón þegar Halldór Etasráð kemur til sögunnar, en hann er annars nokkuð kunnugleg persóna; atgervis- og hæfileikamaðurinn sem áfengisböl og sjálfseyðingarhvöt dregur niður í svaðið þannig að öll hans talenta kemur fyrir ekkert. Upprisa Halldórs til nýrra siða felur í sér táknræna merkingu: hið fyrrum sídrukkna Etasráð tekur við kefli Björns og verður öflugasti boðunarmaður nýrrar vonar.

Rétt eins og Björn íhugar í lok sögunnar, þar sem hann stendur á hlaðinu í Sauðlauksdal; kona ein hefur afhent honum barn sitt og segist sannfærð um að hann geti látið það lifa – þá spyr Björn sig hvaðan henni komi þessi trú:

Kannski var það Etasráðið sem fyllti hennar sinni slíkri oftrú, en er það nokkur hugveiklun þótt sáldrað sé gliti í sandinn, og fólki frekar alin von en úr því dregin lífslöngun með svartagalli og vonsku? Það eitt vissi ég þar sem ég stóð á hlaðinu og fann nánd þessara sveitunga minna flytja mér heim kvikuna inni í Íslandi, að það var enn von í heiminum. Hér þreyjum við lífið og höldum okkar jól, sama hversu yfir okkur er spúið. (130)

Saga Sölva er því í hæsta máta innlegg í umræðuna, ef svo má segja, jafnvel mætti kalla hana hrunbók og þá frumlegustu hrunbókina. Sú hugmynd að láta endurreisnarmanninn og föður íslensku kartöflunnar spegla ástand Íslands í nútímanum er mjög snjöll. Þar með tekst hann á við sígildar spurningar sem við hljótum ávallt að spyrja okkur, ekki síst eftir áföll: Hver er ég, hvar á ég heima og hvers vegna?

Sagan sver sig í sömu ætt og nýlegar bækur Sjóns og Ófeigs Sigurðssonar, Rökkurbýsnir og Skáldsaga um Jón, þar sem leitað er fanga í sögunni; fortíðinni er gefið mál og hún látin tala til okkar með bæði beinum og óbeinum hætti; samtíðin er spegluð í fortíðinni, og öfugt. En sagan er líka, rétt eins og bækur Sjóns og Ófeigs, prýðilegt bókmenntaverk.

Sölvi nær afar fínum tökum á þeim kansellístíl sem einkenndi verk upplýsingarmanna, sem voru reyndar að sönnu misgóðir stílistar, en stíll Sölva er leikandi og gagnsær, oft uppáfinningasamur og myndríkur svo frásögnin prjónar sig stundum upp í hæðir. Orðfærið er sögutímans að langmestu leyti þótt stundum leiki höfundur sér með það, og frásögnin verður oft fyndin fyrir vikið, og hún er reyndar mjög skemmtileg þótt dauðans alvara sé baksviðið.

Björn sjálfur, sem segir söguna í fyrstu persónu og stílar á Eggert sinn, er sannfærandi persóna, einlægur hugsjónamaður sem berst við að halda í vonina þótt sjálfur horfi hann raunsætt inn í sitt eigið skapadægur. Svar hans er að vonin um endurreisn Íslands sé fólgin í samstöðu, að landar dragi einn taum með sameiginlega hagsmuni lands og þjóðar í huga – og á heldur betur erindi við okkar tíma.

 

Páll Valsson