Heimsljós, skáldsaga Halldórs Laxness í fjórum bindum um skáldið og öreigann Ólaf Kárason, er margra eftirlæti. Leikgerðasmiðir hafa verið meðal aðdáenda hennar, og nokkra Ólafa hefur maður horft á gegnum tíðina þjást uppi á sviði undan þungum örlögum: Hjalta Rögnvaldsson í Þjóðleikhúsinu, Helga Björnsson og Þór Tulinius í Borgarleikhúsinu, og núna síðast tvíeykið Hilmi Snæ Guðnason og Björn Thors í leikgerð og uppsetningu Kjartans Ragnarssonar á stóra sviði Þjóðleikhússins sem frumsýnd var í gær.

HeimsljósKjartan fer þá leið að hafa Ólafana tvo og báða á sviðinu í einu. Hann notar þarna aftur hugmynd sem svínvirkaði í Ofvita Þórbergs Þórðarsonar í Iðnó, sællar minningar, og hún á ekki síður við hér. Þó að samtöl séu mörg í þessari löngu og mannmörgu sögu og margar óviðjafnanlegar replikkur þá eru hugleiðingar söguhetju eða sögumanns um söguhetju það makalausasta í textanum og algjör nautn að heyra fallega farið með þær eins og í þessari sýningu. Það er líka skýr aldursmunur á Birni Thors og Hilmi Snæ, og hann gerir Kjartani kleift að flakka fram og aftur í tíma. Við vitum að þegar Björn er í aðalhlutverki þá erum við að horfa á atvik úr æsku Ólafs en þegar Hilmir Snær á senuna þá erum við í nútíð verksins sem eru dagarnir eða vikurnar áður en Ólafur hverfur frá Sviðinsvík, bugaður maður, eftir að hafa upplifað skammvinnt frelsi undan oki sínu.

Þetta tímaflakk gæti vafist fyrir þeim sem ekki hafa lesið bókina en ætti ekki að spilla neinu þegar á heildina er litið. Það opnar ýmsa möguleika á óvæntum áherslum, til dæmis þegar bernskuárin á Fæti undir Fótarfæti ásækja Ólaf fullorðinn svo að hann verður beinlínis að berja niður sína fortíðardrauga, og líka þegar sumarástir þeirra Vegmeyjar (Þórunn Arna Kristjánsdóttir) rifjast upp fyrir honum við kynni þeirra Jóu í Veghúsum (Svandís Dóra Einarsdóttir). Fáir höfundar lýsa ungum ástum eins dásamlega og Halldór Laxness og ástarfundirnir í Höll sumarlandsins gengu manni rakleiðis að hjarta.

Halldór Laxness boðar í Heimsljósi að skáld geti ekki fylgt neinum stefnum eða pólitískum flokkum, skáld hljóti ævinlega að fylgja þeim sem eiga bágt. Samúðin ræður í huga þeirra og hjarta, samúðin með lítilmagnanum. Má nærri geta hvers vegna þessi hugsun sótti á Halldór sjálfan á árunum þegar Heimsljós varð til. Boðskapurinn kemst vel til skila í leikgerð Kjartans. Við sjáum hvernig fólk ráðskast með Ólaf frá unga aldri þegar bræðurnir á Fæti, Júst (Stefán Hallur Stefánsson) og Nasi (Þorsteinn Bachmann), skipa honum sitt á hvað upp í fjall eða út í flekk, og berja hann þangað til hann lamast. Pétur þríhross (Pálmi Gestsson) vill gera hann að sínu hirðskáldi og Ólafur getur vissulega ort eftir pöntun, en hann getur ekki verið Pétri trúr pólitískt því hann hlýtur ævinlega að fylgja hjarta sínu og tilfinningu. Hamingjan í líki Jóu í Veghúsum er vissulega freistandi en samúðin með þeirri krömdu sál Jarþrúði frá Gili (Ólafía Hrönn Jónsdóttir) hlýtur samt að hafa betur.

Togstreitan um skáldið nær vissu hámarki þegar Sviðinsvíkingar dragast í tvo flokka, Sanna Íslendinga og Erfiðismannafélagið, og báðir heimta liðsinni skáldsins. Þá er það dauðvona barnið hún Magga litla (Úlfhildur Ragna Arnardóttir / Nína Ísafold Daðadóttir) sem fær alla athygli pabba síns. Samband föður og dóttur varð afar sterkt í sýningunni við það að hafa lifandi barn á sviðinu, en samtal þeirra Ólafs og Arnar Úlfars (Ólafur Egill Egilsson) yfir veiku barninu varð varla nógu áhrifamikið; kannski var tempóið aðeins of hægt. Ólafur Egill fékk sinn hápunkt á baráttufundi aðeins seinna. Miðilsfundurinn sem ég hef aldrei þolað í sögunni varð hins vegar andskoti öflugur á sviðinu, enda naut Vigdís Hrefna Pálsdóttir þess að túlka þá sérstæðu og margslungnu persónu Þórunni í Kömbum.

Leikmynd Gretars Reynissonar var hrá og ófögur enda má nærri geta að nærumhverfi Ólafs Kárasonar hefur sjaldan verið snoturt. En hann talar um fjallahringinn fagra í Sviðinsvík og stundum langaði mann óneitanlega til að sjá einhvern vott af náttúru. Formin á sviðinu minntu lítið á tímann þegar sagan gerist, þau voru mun yngri. Búningar Helgu I. Stefánsdóttur voru litlitlir eins og vera bar og óttalega ljótir nema þrír. Rauða dragtin hennar Þórunnar í Kömbum var augnayndi, hvítur alklæðnaður Sigurðar Breiðfjörðs (Ævar Þór Benediktsson) sömuleiðis og búningur Péturs þríhross skemmtilega spjátrungslegur. En ein spurning: Af hverju er Ólafur ekki rauðhærður?

Í fyrsta þætti hafði ég stundum nokkrar áhyggjur af tónlist Kjartans Sveinssonar, ekki af því hún væri ekki fögur (ólíkt sviði og búningum) heldur af því að hún varð svolítið ágeng. En þegar á leið rann hún fallega saman við hrynjandina í sýningunni og varð sá áhrifsauki sem henni var eflaust ætlað að vera. Lýsing Halldórs Arnar Óskarssonar þjónaði sýningunni vel en var stundum helst til dauf til að sýna svipbrigði persónanna eins vel og þau áttu skilið.

Þetta er löng sýning, nærri fjórir klukkutímar með tveimur hléum. (Svo löng að einhver óheppinn leikhúsgestur tímastillti gemsann sinn of naumt og hann fór að hringja á afar viðkvæmum stað um ellefuleytið.) En lengdin á sinn þátt í því að mér finnst eftir á að ég hafi orðið vitni að miklu undri. Vissulega er mörgu sleppt úr þessari viðamiklu sögu og til dæmis vantar undirbyggingu undir setningar sem notaðar eru jafnvel oftar en einu sinni af því að hlaupið er yfir meginefni lokabindisins. En texti Halldórs er sennilega aldrei máttugri en í þessari sögu og það veit Kjartan. Hann leggur höfuðáherslu á textameðferð og það skilar sér í feikilega fallegum flutningi á sviðinu. Þar munar mest um Ólafana tvo sem erfitt er að gera upp á milli. Björn er dásamlegur ungur Ólafur, sakleysið og viðkvæmnin holdi klædd. Hilmir Snær er uppgefinn eldri Ólafur, en einnig hann er ómótstæðilegur. Þó ekki væri nema fyrir þessa tvo frábæru leikara og textann sem þeir fara með þá ætti Heimsljós að vera skylduáhorf allra sem unna fögrum listum.

Silja Aðalsteinsdóttir