Þórarinn Leifsson. Kaldakol.

Mál og menning, 2017. 280 bls.

Úr Tímariti Máls og menningar 1. hefti 2019

Dystópíur eða ólandssögur hafa ekki verið fyrirferðarmiklar í íslenskum bókmenntum en eru þó kannski fleiri en margir ætla. Slíkar sögur hafa gjarnan komið í kippum, litlum kippum reyndar, tvær til þrjár, í kjölfar þess að ákveðnir þættir festu sig í sessi í samfélaginu. Má þar nefna hermangið og peningavaldið um miðja síðustu öld, náttúruvernd í kjölfar stórtækra virkjana seint á þeirri síðustu, góðærið og síðan hrunið í byrjun þessarar. Inn á milli hafa svo komið út stök verk sem hafa notfært sér frásagnarhátt og sviðsetningu dystópíunnar. Nú réttum tíu árum eftir hrun komu út tvær ólíkar skáldsögur sem fjalla með nokkuð hreinræktuðum dystópískum hætti um eylandið Ísland. Árið 2016 kom út skáldsaga Sigríðar Hagalín Björnsdóttur Eyland sem segir frá því þegar íslenskt samfélag missir skyndilega öll tengsl við umheiminn og íbúarnir verða að lifa af því sem landið gefur (sjá umsögn í TMM 4 2017). 2017 kom svo út skáldsagan Kaldakol eftir Þórarin Leifsson, en í þeirri sögu hafa Íslendingar allir verið fluttir frá Íslandi á afgirta eyju inni í miðri stórborg á meginlandi Evrópu. Þar með er eyjan Ísland skyndilega ein og mannlaus úti í ballarhafi, tilbúin fyrir nýtt landnám.

KaldakolFraman á hlífðarkápu bókarinnar Kaldakol getur að lesa: „Klukkan átta byrjuðu skip að sigla frá höfnum um allt land. Rýming Íslands var hafin.“ Rýming Íslands! Er það ekki fulllangt seilst? Kannski ekki, árið 1973 voru Vestmannaeyjar rýmdar og allir fimm þúsund íbúarnir fluttir upp á land á einni nóttu vegna eldgoss. Ástæðan fyrir rýmingunni sem segir frá í þessari dálítið groddalegu skáldsögu er einmitt sú að yfir vofir eldgos úr sprungu sem liggur þvert yfir Árbæjarhverfið í Reykjavík. Gögn alþjóðlegs rannsóknarfyrirtækis sýna að mikil vá er fyrir dyrum og hver dregur í efa gögn alþjóðlegrar vísindastofnunar? Það þarf auðvitað að bregðast fljótt og örugglega við og ef það er eitthvað sem Íslendingar kunna þá er það að bregðast skjótt við, leggjast á árar, allir sem einn.

Almannavarnir ásamt ríkisstjórninni, fjölmiðlar, flug- og skipafyrirtæki vinna markvisst saman. Neyðaráætlunin hljóðar upp á að flytja alla landsmenn til Berlínar, nánar tiltekið í nýreista gámabyggð á Tempelhof-flugvelli sem áður fyrr var aðalflugvöllur borgarinnar, barn síns tíma líkt og sá reykvíski, lagður á stríðstímum inni í borginni eins og hann. Þessi gámabyggð er í raun hluti af meiriháttar landkynningu Íslands sem er í undirbúningi á sama tíma. Höfundur þessa tímamótaverks er frægasta listakona heims þessa stundina Kolla XL. Verkið nefnist „Algjört Ísland“ og er um „Ísland og rýmisskynjun þjóðar í sambúð við ógnaröfl náttúrunnar“ um leið og það á að vera „einhvers konar tilraun með vitund íbúa og þær breytingar sem hún tekur í borgarlandslagi.“ (25) Þetta er stórhuga verk, beinlínis á „wagnerískum skala,“ sem alþjóðlegt fjárfestingafyrirtæki, Kaldakol, hefur gert mögulegt.

Skáldsagan Kaldakol segir með öðrum orðum frá því hvernig Íslendingar eru á undraskömmum tíma fluttir í gámabyggð á fjögurra ferkílómetra stórri eyju í miðri Berlínarborg og verða þar með „hreyfanlegir leikmunir í risalistaverki“ samtímis því að vera „þjóð á flótta“; (204) um leið lýsir sagan því hvernig fjárfestar svífast einskis til að ná
valdi á gróðavænlegum svæðum til að auka arð sinn og hagnað.

Flókinn söguþráður og margir sögumenn

Kaldakol er samtímasaga sem skiptist í þrjá hluta, miðkaflinn tekur yfir meginhluta sögunnar og ber yfirskriftina „Algjört Ísland“, fyrsti og síðasti kaflinn eru hins vegar stuttir, eins konar for- og eftirmáli þess risavaxna verkefnis sem sagan greinir frá, sá fyrsti nefnist „Rýming Íslands“ og sá síðasti „Nýtt landnám“.

Sagan hefst á blaðamannafundi Almannavarna þar sem helstu persónur eru kynntar til sögunnar, einkum verkfræðilegur hönnuður gámabyggðarinnar, Hálfdán eða Dáni, og textagerðarkonan Katla Rán, sem fyrir löngu var orðin húsgagn á auglýsingastofunni þar sem hún starfaði. Katla Rán er líka orðin leið á sambúðinni við ástkonu sína Hafdísi og grípur því fegin tækifærið sem þessi gamli kunningi, Dáni, býður henni: að fljúga til Berlínar og gerast ritstjóri opinberrar vefsíðu verkefnisins „Algjört Ísland“. Á yngri árum hafði Katla Rán þótt efnilegur rithöfundur og fyrirtækið Kaldakol þarfnast manneskju sem „getur skrifað texta sem hrífur lesandann með sér [… og] ljáð honum skáldlegan áhrifamátt“ en umfram allt „sannfært fólk …“ (29).

Ekki löngu áður en flautur Almannavarna hvína og hin þrautskipulagða rýming hefst hefur Hafdís móttekið tvö SMS, frá Kötlu Rán og frá unglingsdóttur sinni, Sissú. Bæði smáskilaboðin greina frá ferðalagi til Berlínar. Katla Rán ferðast ein en unglingurinn Sissú, sem hefur verið í meðferð vegna tölvufíknar, með AA-stuðningsfulltrúa sínum Gumma Bowie, fyrrum verðandi söngvara en nú sjálfstætt starfandi rannsóknarblaðamanni og misóvirkum alkóhólista. Í Berlín vinnur svo fjöldi fólks að undirbúningi komu Íslendinganna. Þeirra á meðal eru landfræðingurinn og kortagerðarmaðurinn Jóhann Jökulsson og kærasta hans Dóra Lísa, sem hafa ásamt barnungri dóttur búið í Berlín í nokkur ár. Þá er þarna á sveimi þýskur Íslandsaðdáandi með doktorspróf í norrænum fræðum og góð tengsl í alþjóðlegum fjárfestingarheimi, að ógleymdri listakonunni heimsfrægu, Kollu XL.

Hér fer mörgum sögum fram samtímis og margvíslegra upplýsinga er þörf til að forsendur þessarar oft á tíðum fáránlegu atburðarásar verði sannfærandi. Þórarni tekst þetta nokkuð vel en þó þurfti ég stundum að fletta til baka til að ná áttum. Sagan er sögð í þriðju persónu af alvitrum sögumanni sem smámjatlar fram forsendum samhengis sögunnar með hjálp mismunandi persóna í frásagnarmiðju einstakra kaflahluta. Hver hinna þriggja hluta sögunnar skiptist í kafla með tilheyrandi yfirskriftum, enda veitir ekki af skipulagi í þessari hraðskreiðu frásögn þar sem hver persóna hefur sínar forsendur fyrir þátttöku í því margfalda verkefni sem „Algjört Ísland“ er. Þekking einstakra sögupersóna á eðli verkefnisins er mismikil sem gerir að verkum að lesandinn er ýmist upplýstur eða afvegaleiddur um það sem raunverulega býr að baki. Fyrir vikið verður sagan oft ótrúlega spennandi en líka stundum ruglingsleg.

Þrátt fyrir loforð um Omaggio-vasa í hvern glugga eru ekki alveg allir Íslendingar reiðubúnir til að setjast að í þéttri gámabyggð í Berlínarborg. Einkum eru það landar sem þegar hafa komið sér vel fyrir utan Íslands sem sýna mótþróa. Yfirvöld hafa þó sín úrræði til að þvinga þá til að vera með eins og til dæmis að semja við yfirvöld landa, þar sem nokkur fjöldi Íslendinga er búsettur, um að skrúfa fyrir allan félagslegan stuðning við „skrópara“, eins og þeir eru kallaðir. Opinbera skýringin er að allt sé undir því komið að allir Íslendingar standi saman í þeim náttúruhamförum sem eru yfirvofandi. En fleira býr að baki.

Þórarinn heggur til allra átta í þeirri samfélagsgagnrýni sem er undirliggjandi í þessari dystópísku satíru, hvort heldur frásögnin snýr að hinum almenna landa að koma sér fyrir landlaus í nýjum heimkynnum, hátíðahöldunum í sendiráðinu eða að skötuhjúunum Sissú og Gumma Bowie á stjákli sínu um stórborgina. Lengi framan af er tilgangur Berlínarfarar þeirra óljós, fyrir utan að finna rauða ferðatösku sem til að byrja með virðist nokkurs konar aukasaga, glæpasöguívaf, en verður að endingu kannski aðalsagan.

Meginefni sögunnar snýst þó um stjórnun og framgang verkefnisins „Algjört Ísland“, ímynd þess og ásýnd. Þar gefast ótal tækifæri til að afhjúpa í snörpu háði hvernig svokölluð almannatengsl eru stunduð og hvernig listin er misnotuð í margvíslegum og oft annarlegum tilgangi. Í sögunni ríkir þó trú á listina en líka meðvitund um það hversu viðkvæm hún er og flókin. Í listum eru samfélagsaðstæður gjarnan endurspeglaðar, oft með vísun til framtíðar, en listin er líka sjálf hluti af þessum samfélagsaðstæðum, jafnvel virkur þátttakandi.

Þrátt fyrir sannfærandi fréttaflutning um nauðsyn allra þessara aðgerða fyrir almannaheill Íslendinga og stuðning ríkisstjórnarinnar eru alltaf einhverjir sem efast, krefjast skýringa, mótmæla, jafnvel berjast á móti. Andspyrnuþáttur sögunnar verður þó óneitanlega nokkuð veikur, enda byggir andstaðan hvorki á íhygli né yfirvegun heldur miklu fremur á tilviljun eða sókn eftir skjótri frægð. Það virðist hreinlega ekki rými fyrir yfirvegaða umræðu í þessari hraðfleygu en þó sannfærandi skemmtidystópíu Þórarins um gleypigang fjárfestingarafla heimsins.

Þetta er með öðrum orðum ekki saga um baráttu góðs og ills heldur um það hvernig hið illa, fjárfestingaröflin, og þeir sem þar njóta góðs af, gleypa hið góða, gleypa sannleikann í orðsins fyllstu merkingu.

Allar klisjurnar undir

Þórarinn er með allar klisjurnar um Ísland og Íslendinga á hreinu, ímyndirnar sem við sjálf höfum haldið á lofti síðustu áratugi og hafa til dæmis skilað sér í gjaldeyristekjum vegna gríðarlegs fjölda ferðamanna. Hið rómaða frjálslyndi, lágt verðlag og meint skapandi andrúmsloftið í Berlín er heldur ekki undanskilið háði Þórarins. Á síðustu áratugum hefur ungt fólk í uppreisn hvaðanæva að úr heiminum safnast þar saman m.a. „til að vera töff en [saknar] mest mömmu sinnar“. (92) Berrassaðir karlmenn í sólbaði í almenningsgarði fylgja reyndar með í pakkanum, en aðeins á strangt skilgreindum svæðum, tákn um „frjálslyndi Þjóðverja innan ramma prússneskrar reglufestu“. (94)

Kaldakol er samt ekki léttvæg ádeila á ímyndir og frjálslyndi andspænis regluverki í borgum eins og Berlín eða á landi eins og Íslandi sem Þórarinn þekkir hvort tveggja mæta vel. Hér skal stóra samhengið greint og afhjúpað, traustið sem óbilandi heimtufrekju fjárfestingarafla heimsins er sýnt og sem þola ekki „fé án hirðis“, (90) hvort heldur er í formi óveidds fisks, óvirkjaðra vatnsfalla eða óbyggðs lands.

Í huga stórfjárfesta er ólíðanlegt að meirihluti íbúa setji sig upp á móti stórkostlegri stórgróða-stórframkvæmd eins og þeirri – sem raunverulega mun hafa verið fyrirhuguð – að byggja flott hverfi á flugvallarsvæðinu í Berlín, „[h]áhýsi með ráðstefnumiðstöð, bílastæði, spahóteli, skemmtigörðum, lúxusíbúðum með upphækkuðum hjólabrautum og leikskóla þar sem sænsk börn læra að lesa á frönsku og skrifa á katalónsku á meðan foreldrarnir kaupa lífrænt í matinn og hanna vefsíður.“ (97)

Þessi áform gengu ekki eftir, grenndarkynningin sannfærði ekki, allt varð brjálað og flugvallarsvæðið friðað. En fjárfestar gefast aldrei upp heldur leita nýrra leiða, enn stórtækari og enn gróðavænlegri. Þetta minnir á baráttu náttúruverndarsinna gegn fyrstu hugmyndum um virkjun á Austurlandi þar sem Eyjabökkum hefði verið fórnað. Sú barátta vannst en Kárahnjúkavirkjun var reist með líklega enn meiri náttúruspjöllum.

Úr því að ekki var hægt að sannfæra gömlu hippana og ungu hipsterana í Kreuzberghverfinu í Berlín um að lúxushverfi á flugvallarsvæðinu yrði öllum til gleði þá má sannfæra alþjóðlega fjárfesta um að leggja gróðaáform sín í enn stærra púkk, gernýtingu eyjarinnar Íslands þar sem engin lifandi sála býr lengur og enginn á því. Flugstöðvarsvæðið nýtist frábærlega í þessu samhengi. Ekki geta íbúar Berlínar sett sig upp á móti því að hjálpa eftirlætisþjóð sinni í neyð og borgaryfirvöld í Berlín styðja þessi áform, vitandi að þegar íbúar borgarinnar hafa vanist byggð á flugvallarsvæðinu verði gatan fyrr en seinna greið til þeirrar uppbyggingar sem upphaflega var áformuð. „Algjört Ísland“ er sem sagt „Trójuhestur fyrir fjársterka Þjóðverja sem vilja byggja á svæðinu?“ (96) Já, en hér búa líka enn stærri áform og enn meiri hagsmunir að baki.

Persónusköpunin verður undir

Þetta er mikið plott sem Þórarinn Leifsson sýður saman í skáldsögu sinni og margir sem koma að því meðvitað og ómeðvitað, viljandi og óviljandi og þar liggur styrkur sögunnar en jafnframt veikleiki.

Sumar persónanna eiga sér sína sögu sem ætlað er að skýra þátttöku þeirra í verkefninu og persónuleg markmið. Það tekst þó ekki nægilega vel að flétta þessum bakgrunnssögum inn í atburðarásina sem fyrir vikið verður stundum all flókin og persónurnar margar hverjar hvorki fugl né fiskur; einvíðar myndir í teiknimyndasögu, mjög spennandi og hraðskreiðri teiknimyndasögu þó. Þannig nær lesandinn til að mynda aldrei raunverulegum tengslum við persónur eins og Hafdísi, ástkonu Kötlu Ránar og móður Sissúar, ofurverkfræðinginn Dána og fleiri mætti telja. Sambýlingarnir Dóra Lísa og kortagerðarmaðurinn Jóhann ásamt dótturinni Elsu Maríu verða heldur ekki trúverðug í þaulsetu sinni í Berlín og það mikla hlutverk sem höfundur ætlar þeim, að verða nýjar manneskjur í nýjum heimi án þjóðlanda, rennur út í sandinn. Það er helst að Þórarni takist að vekja samúð lesandans með utangarðsfólkinu. Maður getur ekki annað en vorkennt ræflinum Gumma Bowie sem hefur klúðrað nokkurn veginn öllu í lífi sínu, allt frá drauminum um að verða söngvari til þess að verða nú heimsfrægur rannsóknarblaðamaður sem flettir ofan af stærsta fjárfestingarplotti í heimi. Alkóhólisminn er það eina sem Gumma hefur tekist fullkomlega, að standa upp til þess eins að falla enn dýpra. Tölvunördinn ungi, Sissú, vekur líka áhuga. Hún sér í gegnum plottið án þess að ætla sér persónulegan hag eða frægð af og fær kaldan hroll við að hugsa um mömmu sína viti sínu fjær af áhyggjum í eldhúsi heima í Reykjavík þegar dóttirin segist „farin í helgarferð til Berlínar“. „(K)lisjan um graða sponsorinn og lólítu“ virðist Sissú hins vegar „svo saklaus“ (92) andspænis raunveruleikanum um graða fjárfestinn og smáþjóðina.

Af þeim fjölmörgu persónum sem koma við sögu í Kaldakoli fær Katla Rán mesta rýmið, eitt sinn svo efnilegur rithöfundur en skrifaði svo bók af blæðandi hjarta og var húðstrýkt af gagnrýnendum, gafst upp og seldi hæfileika sína auglýsingabransanum. Katla Rán á sér auk þess fortíð í Berlín, nánar tiltekið Vestur-Berlín, rétt áður en múrinn féll og borgarhlutarnir sameinuðust. En á meðan borgarbúar í austur- og vesturhluta borgarinnar fögnuðu – og reyndar heimurinn allur – mátti Katla Rán taka afdrifaríkustu ákvörðun lífs síns, ákvörðun sem mörgum árum síðar verður til þess að hún er reiðubúin til að fara aftur til Berlínar og taka þátt í áformum fjárfestingafélagsins Kaldakols og jafnvel skrifa um það bók.

Í augum Þórarins virðast það helst listamenn og unglingar sem hafa til að bera reisn og sjálfstæði í gerðum sínum um leið og einurð þeirra og sakleysi verða viðfang kaldhæðnislegrar gagnrýni í sögu hans. Kolla XL hafði vissulega að fyrra bragði samband við stórfyrirtækið Kaldakol en ekki til að fá peninga heldur vegna tengsla þess við stjórnvöld í Berlín, sem þurfa að veita leyfi fyrir staðsetningu tímamótalistaverks hennar á flugvallarsvæðinu. Vesalings Kolla XL fellur beinlínis saman þegar henni er gert ljóst að listaverk hennar hefur verið gert að flóttamanna búðum eða öllu heldur fangabúðum fyrir Íslendinga alla án netsambands nema innan múra svæðisins. Vistspor þeirra hefur reyndar snarminnkað og er það ekki göfugt af smáþjóðinni, sem hingað til hefur verið svo frek til orku og hvers kyns munaðar að draga sig nú í hlé, hverfa aftur á upphafsreit: „allir í kös“ (213) líkt og í baðstofunum forðum?

Lyktir sögunnar

Lok sögunnar líkt og upphaf hennar eru á Íslandi og koma sannarlega á óvart. Leið fjárfesta til gernýtingar hinnar mannlausu eyjar norður í ballarhafi virðist bein og breið. Von marar þó enn í djúpinu að það megi snúa aftur á byrjunarreit og jafnvel læra af því sem gerst hefur. Gleypugangurinn er hins vegar kominn úr böndum, traust út fyrir þröngan heim eiginhagsmuna ekkert og framtíðarsýn til handa fleirum en bara sjálfum sér engin. Persónulegur hefndarþorsti og sókn eftir að fá loksins sinn hlut í gæðum hins alþjóðlega markaðssamfélags reynist þegar upp er staðið sterkasta aflið og varðar „leiðina fyrir fjárfesta“ (153–154) til að gernýta hina mannlausu eyju Ísland.

Þórarinn Leifsson hefur skrifað nokkrar bækur sem flestar hafa að geyma ýktar, gagnrýnar og skemmtilegar sögur þar sem potað er í ýmislegt miður heillavænlegt í samfélaginu. Þetta hafa gjarnan verið bækur um börn og sem börn og unglingar og reyndar fullorðnir líka hafa notið að lesa. Þessari nýju bók Þórarins, Kaldakol, mætti lýsa með sömu orðum, hún er ýkt og hraðskreið, gagnrýnin og skemmtileg en á talsvert stærri skala en fyrri bækur hans og erindið er grafalvarlegt.

Jórunn Sigurðardóttir