Steinunn Sigurðardóttir. Fyrir Lísu.

Bjartur, 2012.

Úr Tímariti Máls og menningar 2. hefti 2013.

Ungur drengur er á leið heim úr skólanum. Það er sólskinsdagur og hann ákveður að koma við í almenningsgarði nálægt heimili sínu. Þar er lækur sem gott er að dýfa í tánum. Við lækinn hittir hann vingjarnlegan mann sem tekur hann tali og gefur honum jójó. Síðan tekst manninum að lokka hann með sér í bílskúr í grenndinni og beitir hann þar ofbeldi sem markar hann fyrir lífstíð. Atburðurinn límist við hann, „hann festist á leiðinni, hættir aldrei að koma úr skólanum, sama hvað hann verður gamall“ (40).

Fyrir LísuÞessi atburður myndar baksvið skáldsagna Steinunnar Sigurðardóttur, Jójó (2011) og Fyrir Lísu (2012), um þýska krabbameinslækninn Martin Montag. Í fyrri sögunni var því lýst hvernig hinn grafni atburður braust upp á vitundaryfirborð hans með tilheyrandi óþægindum. Í upphafi sögunnar Fyrir Lísu virðist sú reynsla ætla að verða honum um megn. Hann hugleiðir að myrða kvalara sinn, Timor Ganzi, og svipta sjálfan sig lífi, en ýmislegt verður þess valdandi að líf hans stokkast upp, tekur nýja stefnu og hrindir af stað annarri atburðarás.

Þessi þróun Montags er fyrst og fremst knúin áfram af kynnum hans af dóttur Ganzis, Lísu, sem er illa statt fórnarlamb langvarandi kynferðislegrar misnotkunar. En umbreyting hans verður í gegnum viðræður hans við nokkrar lykilpersónur – m.a. eiginkonu sína, lögreglukonu, sálfræðing og einkennilegan sálgreinanda auk fyrrnefndrar Lísu. Samtöl gegna því þýðingarmiklu hlutverki í sögunni. Ekki síst verða afdrifaríkar samræður Montags við nafna sinn og sjúkling, Martinetti, franskan fyrrverandi útigangsmann sem einnig kom við sögu í fyrri bókinni.

Þótt Martin Martinetti og Montag hafi farið mjög mismunandi leiðir í lífinu og séu að flestu leyti gjörólíkir menn eiga þeir það sameiginlegt auk nafnsins að hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi í bernsku. Með vissum hætti má líta svo á að Martinetti sé hin hliðin á Montag, andhverfa hans, og að í samræðum þeirra hljómi tvær innri raddir. En þeir eru jafnframt fulltrúar mismunandi lífsviðhorfa. Martinetti er að ýmsu leyti tákngervingur hæfileikans til að lifa af. Hann hugsar eftir öðrum brautum en Montag og nýtir sér reynslu og sjónarhorn manns á útjaðri samfélagsins. Kjörorð hans er: „Líf sem er ekki er orgía er ekki þess virði að lifa því“ (100). Sá síðarnefndi er á hinn bóginn ímynd reglufestunnar og lifir samkvæmt stöðluðum hugmyndum um heilbrigðan lífsstíl.

Montag hafði byrgt inni trámatíska reynslu sína og haldið bernskuatburðinum leyndum fyrir öllum, meira að segja eiginkonu sinni. Martinetti tekst að komast inn fyrir skelina á vini sínum, brjóta niður varnir sálarinnar og fá hann til að horfast í augu við óþægilegan atburðinn í bernsku sinni, en samræðurnar ganga mjög nærri honum. Hann fær hann einnig til að grafa aftur upp gamla jójóið, tákn hinnar bældu minningar, sem hann hafði geymt árum saman vafið inn í bómull í kassa inni í skáp.

Orðaskipti þeirra nafnanna eru oft hnyttin og nánast leikhúsleg og Martinetti er þar stundum í hálfgerðu hirðfíflshlutverki og segir óþægilegan sannleika íklæddan skopi. Hann sýnir Montag fram á tilgangsleysi morðs og sjálfsvígs og beinir honum inn á nýja braut. Sú braut er krókótt, liggur um óþekktar slóðir, bæði ofan- og neðanjarðar, meðal annars um japanska blómaskoðun, hanami, á fund sálgreinanda í djúpum jarðar sem kynnir honum einkennilega meðferð við snertihömlun og loks til hinnar sólríku eyju Porto Santo. Í þessu ferli rýfur Montag það mynstur vanans sem líf hans hafði lotið og endurfæðist með vissum hætti. Hér kynnist lesandinn Berlín sem borg hins óvænta, fegurðar og margbreytileika, furðuborg. Hún er jafnvel ekki borg, heldur „land í landinu, eða eyja“ (78), leikmynd sem „er hvergi til í heiminum nema hér“ (195) og hún býr yfir nýjum möguleikum, „viðbótum“ við lífið sem eru „auðsveipar og munúðarfullar“, ólíkt „lífinu sjálfu“ sem er svo „flókið og harðsnúið“ (206).

Á meðan Montag dvelur á eynni Porto Santo með Petru konu sinni opnast hugur hans fyrir andránni, fyrir sól, hafi, strönd og fegurð, og textinn verður ljóðrænni. Jafnframt eru lögð drög að sátt Montags við móður sína sem hafði brugðist honum þegar neyðin var stærst og hann hafði aldrei fyrirgefið. Sú sátt felur í sér viðurkenningu á takmörkun og breyskleika manneskjunnar. Smám saman hefur Montag hætt að vera „hálfur maður“. Þótt ekki sé hann heill hefur hann fundið leið „[m]illi þess að „komast yfir“ og „lifa við““ (30). Til verður hugmynd um nýjan mann:

Nýr. Maður. Ekki það að ég væri einhver nýr maður, og sjálfsagt var svoleiðis maður ekki til, en hugmyndin um nýjan mann var í uppsiglingu, og það var góð hugmynd. (162)

Sagan leiðir vel í ljós þá miklu afneitun og bælingu sem tengist kynferðisafbrotum. Fórnarlömbum er ekki trúað þegar þau segja frá reynslu sinni og þau grafa hana í sálardjúpum sínum. Þetta fálæti fólks er hér ekki rakið til heimsku heldur fremur til skorts á ímyndunarafli því að brotin eru svo fjarstæðukennd að fólk getur ekki gert sér þau í hugarlund. Drengurinn Montag bregst við þöggun umhverfisins með því að búa sér til nýja foreldra í eigin hugarheimi, Mömmusomm og Luftpabba á himnum, sem hann getur trúað fyrir sínum hjartans málum og sem hann er sannfærður um að muni taka á móti honum ef hann lætur verða af því að svipta sig lífi. Lýsingarnar á einstæðingsskap og sálarkvölum drengsins eru einstaklega nærfærnar og áhrifamiklar. Honum er líkt við Lírukassamanninn í lok Vetrarferðar Schuberts „sem enginn vill heyra og enginn sjá“ (101), einsemd barnsins er meiri en þess sem er að deyja.

Þeir gerendur kynferðisofbeldisins sem koma við sögu, faðir Martinettis og faðir Lísu, eru hversdagsleikinn uppmálaður, vel metnir menn í augum samborgaranna og framferði þeirra gagnvart fórnarlömbum sínum í raun óútskýrt. Þótt þeir hafi ekki til að bera þá afskræmdu útlitsdrætti sem einkenna ýmis fræg illmenni bókmenntasögunnar á borð við Ríkarð III Shakespeares eða Hyde Stevensons eru viðlíkingarnar engu að síður úr dýraríkinu. Skepnulegt innræti föður Lísu er gefið til kynna með gulum tönnunum sem eru „beittar eins og í fiski“ (10). Lísa kallar hann „ófreskju“ (103–4). Og Martinetti lýsir föður sínum svo:

Þar sem hann stóð blindfullur við grindverkið minnti hann á dýr en ekki mann. Og þannig upplifði ég hann, sem rándýr. Illskan tær og útreiknuð. Hvar og hvenær er næst hægt að læsa klónum … (93)

Þessi birtingarmynd hins illa tengist biblíulegum undirtón verksins, en líta má svo á að skáldsögurnar tvær lýsi paradísarmissi og paradísarheimt. Í upphafi er áhyggjulaus drengur á leið heim úr skólanum og hann kemur við í almenningsgarði sem er sælureitur, Eden. Í þeirri paradís er þó höggormur í líki barnaperrans og jójóið hans er rautt og kringlótt eins og epli. Drengurinn glatar sinni paradís við það að neyta hins forboðna ávaxtar af skilningstré góðs og ills. Vegna brotsins er honum „jörðin bölvuð“, eins og það er orðað í Fyrstu Mósebók (3, 17), og um langa hríð finnur hann ekki aftur veginn að lífsins tré. Fyrir Lísu lýsir svo aðdraganda þess að hann ratar á þann veg á ný. Hann endurfæðist um síðir til Paradísar, etur af lífsins tré og öðlast ódauðleika, sbr. orð Fyrstu Mósebókar:

Drottinn Guð sagði: „Sjá, maðurinn er orðinn sem einn af oss, þar sem hann veit skyn góðs og ills. Aðeins að hann rétti nú ekki út hönd sína og taki einnig af lífsins tré og eti, og lifi eilíflega! (3, 22)

Í blómaskoðunarferð þeirra Montags og Martinettis, sem er farin til að „njóta eilífs lífs um stund“ (31) og lýkur með mikilli matarorgíu, eru fjölmargar vísanir sem styrkja þessi tengsl við goðsöguna. Hljómsveit spilar lag Led Zeppelin, Stairway to Heaven, og hið eilífa birtist í líki jarðneskrar fegurðar: „Blómstrandi kirsuberjatré við tjörnina, fullkomið póstkort úr narsissískri eilífð“ (23). Þegar frá líður sigrast Montag á þeirri barnafóbíu sem hafði hrjáð hann alla tíð frá því að á honum var brotið og himnaríki opnast honum í samræmi við orð Matteusarguðspjalls: „Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi, því að slíkra er himnaríki“ (19, 14). Að lokum er barnaníðingurinn handtekinn og mun hljóta sinn dóm líkt og höggormurinn í Fyrstu Mósebók: „Af því að þú gjörðir þetta, skalt þú vera bölvaður meðal alls fénaðarins og allra dýra merkurinnar“ (3, 14).

Skáldsagnagerð Steinunnar Sigurðardóttur hefur frá upphafi einkennst af frumlegum efnistökum og það á einnig við um þessa bók. Flóknum sálarlífslýsingum er miðlað með hraðri og lipurri frásögn. Stíllinn er talmálslegur og jarðbundinn, laus við alla mælgi og hátíðleika. Samtöl eru á víxl átakanleg og skopleg og atburðarás oft óvænt og kostuleg. Textinn er margslunginn, ofinn úr fjölbreyttum lýrískum, goðsögulegum og heimspekilegum þáttum en breytist líka um hríð í spennusögu með tilheyrandi leit að sönnunargögnum, handtöku hins seka og maklegum málagjöldum. Af hinni goðsögulegu umgjörð leiðir að andstæður góðs og ills eru hér dregnar býsna skýrum dráttum. Höfundi tekst þó með stílgaldri sínum og færni að forðast melódramatískar öfgar. Léttleiki og hugmyndauðgi vega upp á móti alvarleika söguefnisins svo úr verður áhrifamikið og fjölþætt verk markað sterkri samkennd með ofbeldisþolendunum.

Árni Óskarsson