Hún pabbiHannes Óli Ágústsson sýnir dirfsku með því að stíga fram og segja sögu sína og föður síns á Litla sviði Borgarleikhússins í sýningunni Hún pabbi. Þetta er einlæg og lágstemmd sýning eins og hæfir því viðkvæma efni sem hún fjallar um.

Hannes Óli var um tvítugt þegar hann sá óvart mynd í heimilistölvunni sem var ekki ætluð honum. Á myndinni voru tvær konur og önnur þeirra var faðir hans. Árum saman eftir þetta gætti Hannes leyndarmálsins og beið þess að faðir hans segði honum það sjálfur. Samt bjó hann sig undir ýmsar aðrar upplýsingar þegar faðir hans boðaði hann loksins á fund á kaffihúsi. Þó vissi hann að þetta hlaut að vera eitthvað mikilvægt, jafnvel alvarlegt, því þeir feðgar töluðu yfirleitt ekki saman og allra síst á kaffihúsum. Það dásamlega við þessa síðbúnu uppljóstrun er einmitt að síðan hafa þeir feðgar verið mun nánari. Mórallinn er að það sé best fyrir alla aðila að koma til dyranna eins og þeir eru klæddir en auðvitað er það ansi miklu auðveldara núna en þegar pabbinn var ung.

Pétur Ármannsson stýrir Hannesi og gerir það af virðingu og smekkvísi. Svið Þórdísar Erlu Zoëga er einfalt og eina flíkin sem sker sig úr venjulegum fatnaði leikarans eru háhælaðir kvenmanns-bandaskór sem Hannes gengur á og minna á það sem faðir hans hefur þurft að venja sig á, stór og myndarlegur karlmaður eins og Anna Margrét var lengst af. Myndefni er vel notað, einkum eru sterkar myndirnar úr fjölskyldualbúmi fjölskyldunnar og lýsingar Hannesar á fjölskyldulífinu eru athyglisverðar þótt engin stórkostleg dramatík einkenni það – eiginlega þvert á móti. Öll spennan var bæld. Öll þessi ár. Við hjónin komumst að því að við búum í helli því ekki höfðum við séð neina af bíómyndunum sem sýnt var úr en það gerði lítið til, úrvinnsla Hannesar úr þessum vísunum var alveg skýr.

Halla Þórlaug Óskarsdóttir og Kara Hergils eru skráðar höfundar verksins ásamt leikhópnum Trigger Warning, og Kara er listrænn stjórnandi sýningarinnar. Þetta er skemmtileg lítil sýning um stórt efni en mér þóttu einstök atriði helst til teygð. Einkum dró það úr áhrifum frásagnarinnar af síðustu jólum fjölskyldunnar hvað hún ofnotaði endurtekninguna. En tónlist Högna Egilssonar var stílhrein og falleg og ljósahönnun Kjartans Darra Kristjánssonar var á köflum áhrifamikil.

Silja Aðalsteinsdóttir