Sýning Unnar Elísabetar Gunnarsdóttur dansara, Ég býð mig fram, sem var frumsýnd í Tjarnarbíó í gærkvöldi hefur verið kölluð listahátíð en allt eins mætti kalla hana kabarett eða sirkus. Unnur hefur fengið fjölda listamanna, fjórtán alls, til að semja fyrir sig örverk sem hún sýnir svo hvert á fætur öðru, oftast ein, einstaka sinnum fær hún smávegis aðstoð auk þess sem Bryndís Ósk Ingvarsdóttir virkaði bæði sem aðstoðarmaður á sviði og einleikari með sérstök atriði. Hvert verk á sviði tók þrjár til fimm mínútur en verkin frammi í anddyrinu höfðu sinn eigin tíma. Þar héngu uppi athyglisverðar ljósmyndir Ólafar Kristínar Helgadóttur af konum, þar gekk líka vídeóverk Kristins Arnars Sigurðssonar og verið var að húðflúra Almar S. Atlason. En fjörið hófst með verkinu „Bessastöðum“ eftir Unni sjálfa þar sem átta stúlkur dönsuðu í ysta rými anddyrisins. Flott verk og afbragðsvel flutt.

Fyrir hlé sýndi Unnur Elísabet sex verk og eftir hlé fimm verk eftir jafnmarga höfunda. Verkin sem sitja best í huganum eru af mjög ólíku tagi. Fyrsta verkið var gullfallegur ljósadans í myrkri eftir Frank Fannar Pedersen við tónlist Jóhanns Jóhannssonar, hann hefði vel mátt vera lengri. „Pepp“ eftir Álfrúnu Örnólfsdóttur flutti okkur inn á sjálfstyrkingarnámskeið með miklum fyrirgangi. Ólafur Darri Ólafsson vitnar beint í Trump í titli síns verks, „Nobody has more respect for women than me, nobody“, enda var myndin sem máluð var með túrtöppunum einmitt af forseta Bandaríkjanna! Í verki Ilmar Stefánsdóttur „Human“, fékk Unnur Elísabet að leika sér í loftfimleikahringjum og gerði það með elegans. „Rís draumsins bákn og jafnframt minnkar þú“ var draumur eða martröð eftir Steinar Júlíusson sem útfærði ljóð Steins Steinars á áhrifamikinn hátt. Fyrirlesturinn „Ástand sands“ eftir Friðgeir Einarsson minnti okkur af kurteisri hógværð á hvað sandur skiptir miklu máli í lífi nútímamannsins og þó hugsum við ótrúlega sjaldan um sand! Lokaverkið, „Vængir“ eftir Helga Björnsson kallaðist svo á við upphafsverkið í fegurð sinni.

Einu verki langar mig að kippa út úr röðinni af því það var svo skemmtilega sér á báti og af því það höfðaði mest til mín. Það er eftir Ingvar E. Sigurðsson, heitir 1925 og segir klassíska sögu af ungri stúlku (Unnur Elísabet) sem hrífst af ungum pilti (Sigurður Ingvarsson) og þau eiga saman örstutta sælutíð. Þegar hún verður ólétt vill hann ekki lengur hafa neitt af henni að segja en hún bugast ekki, framtíðin bíður hennar annars staðar. Þó að sögunni sé þjappað á þrjár mínútur eða svo tókst Unni og Sigurði að virkja tilfinningar mínar eins og þau hefðu haft heilt kvöld. Tímalengdin segir sannarlega ekki alltaf alla söguna.

Ljós skipta auðvitað miklu máli í svona fjöllistaverki og ljósameistari var Hafliði Emil Barnason. Tónlist var eftir fjölmarga og alltaf áheyrileg. Ég ráðlegg ykkur að fara í Tjarnarbíó og njóta þessarar óvenjulegu og stórskemmtilegu sýningar. Unnur Elísabet er hæfileikabúnt sem getur greinilega allt sem hún vill.

-Silja Aðalsteinsdóttir