Pétur Eggerz leikari flytur um þessar mundir einleik sinn um Jón Steingrímsson, Eldklerkinn, í Hallgrímskirkju undir stjórn Sigrúnar Valbergsdóttur og var fyrsta sýningin í gær. Textann byggir hann á sjálfsævisögu Jóns sem er með merkustu ævisögum eftir Íslending á öllum öldum og þar er hápunkturinn auðvitað reynsla Jóns af Skaftáreldum og sjálf eldmessan. Um einfalda en einkar vel heppnaða leik- og hljóðmynd sjá Rósa Sigrún Jónsdóttir og Guðni Franzson.

EldklerkurinnJón hóf að skrifa ævisögu sína eftir að hann missti Þórunni konu sína 1784. Þá voru Skaftáreldar sjálfir slokknaðir en hörmungarnar sem af þeim leiddi engan veginn afstaðnar. Ævisagan er að nokkru hugsuð sem varnarrit því Jón var ákærður fyrir að hafa útdeilt samskotafé til snauðra án leyfis og Pétur byrjar sýningu sína á því þegar Jón krýpur fyrir valdsmönnum á Alþingi, farinn að heilsu og krafti eftir ólýsanlegar raunir og þjáningar, og biðst forláts á því að hafa komið örbirgu fólki til hjálpar og bjargað því frá hungurdauða. Fyrir þetta var hann dæmdur og sektaður.

Í þessu ljósi örlaga Jóns sjáum við svo alla ævi hans sem Pétur rekur skilmerkilega. Jón er makalaus maður, fullur af kærleika og meðlíðan með fólki, vitur kennimaður og trúheitur, afbragðsgóður læknir, fús til þess á nóttu sem degi að líkna öllum sem til hans leita. Í raun og veru hefði hann átt að fá geislabaug fyrir lífsstarf sitt en ekki skammir og sekt en yfirvöld voru þá sem oftar þröngsýn og hengdu sig í mannasetningar og reglugerðir. Það er dæmigert að manninum sem fyrstur rauf innsiglið á kistlinum með söfnunarfénu og tók þaðan drjúga upphæð var ekki refsað af því hann hafði vit á að nudda sér undir eins utan í valdsmenn og smjaðra fyrir þeim.

Saga Jóns og saga Íslands á hans dögum er gígantískt söguefni sem einn einleikur – þó að tveggja tíma langur sé – gefur bara hugmynd um. En Pétur og Sigrún hafa unnið þetta verk af alúð svo ekki aðeins Jón kom til okkar í safnaðarheimili Hallgrímskirkju heldur fjöldi karla og kvenna sem hann hafði skipti við. Vísanir í okkar nýlega hrun og viðbrögð yfirvalda við því eru vel notaðar og oft meinlega fyndnar. Til dæmis var okkur áhorfendum kippt rækilega til í tíma þegar Thodal stiftamtmaður er spurður hvers vegna í ósköpunum hann hafi ekki beðið fyrr um hjálp til bágstaddra eftir hamfarirnar og hann svarar dræmt: „Ja, det er nu det. Maybe I should have …“ Og orðaleppar eftirhrunsára eins og „skjaldborg um heimilin“ fá aukna merkingu þegar þeir eru notaðir um endalaust ósættið og aumingjaskapinn við að bjarga því sem bjargað varð á tíma Móðuharðindanna.

Það er gagnleg kennslustund í ýmsu efni sem Pétur býður upp á og vonandi notfæra margir sér hana.

Silja Aðalsteinsdóttir