Við fórum aftur í leikhús í gærkvöldi, nú í Tjarnarbíó á The Greatest Show in Iceland starring Björk Guðmundsdóttir – not the singer. Ég hef ekki verið dugleg að sjá sýningar á ensku fyrir erlenda ferðamenn, var þó um daginn búin að ná í miða á sýninguna í Hörpu um Íslendingasögur en varð að senda eiginmanninn með erlenda gestinum af því ég hóstaði svo mikið. Þau létu nokkuð vel af þeirri sýningu.

The Greatest Show in Iceland starring Björk Guðmundsdóttir – not the singer

Það er nýr sviðslistahópur listnema og upprennandi listamanna sem kallar sig Krass og stendur að The Greatest Show in Iceland. Þau sækja hugmyndina til sjónvarpsþátta af þeirri gerðinni sem setja þátttakendur í ýmis konar vandræði, telja svo stig sem engin leið er að vita hvort gefin eru rétt og veita – eða ekki – glæsileg verðlaun sem eru tálbeitan.

Eins og gjarnan mun vera í slíkum þáttum er aðaláherslan í The Greatest Show á þáttastjórnendurna, Björk Guðmundsdóttur (ekki þó hina heimsfrægu söngkonu eins og skýrt er tekið fram) og Hákon Jóhannesson. Þau hafa verið par lengi en eru nú ósátt og ósættið kemur illilega niður á vesalings fórnarlömbunum í „spurninga- og hæfileikakeppninni“ sem þau stýra. Keppendurnir eru Bandaríkjamaðurinn Will (Vilhelm Þór Neto), danska stúlkan Júlía (Júlíana Kristín Liborius) og Englendingurinn Tom (Tómas Gauti Jóhannsson). Þau reyna sitt besta til að svara fráleitum spurningunum og sætta sig við óljósa stigagjöfina (þú færð fáein stig frá mér – en þú færð fjölmörg stig frá mér!) en allt springur í loft upp þegar Björk skikkar Júlíu til að dansa kjöltudans fyrir Tom. Björk líkar ekki samkeppnin við Júlíu, vill sjálf vera fegursta konan á sviðinu (á Íslandi og helst í heimi) og ætlar að kúga hana og niðurlægja. Það tekst ekki eins og til var ætlast.

Ég hlýt að játa að ég þekki fyrirmyndina að sýningunni illa, hef ekki horft á sjónvarpsþætti af þessu tagi, en margt var snjallt og fyndið í textanum sem leikstjórinn Stefán Ingvar Vigfússon skrifaði ásamt Tómasi Gauta. Leikarana hef ég alla séð á sviði áður, aðallega í sýningum Stúdentaleikhússins, og þeir eru engir aukvisar. Þó lék þeim misjafnlega vel í munni að leika á ensku með ólíkum hreim eftir þjóðaruppruna persónanna, það tókst einna best hjá Björk og Vilhelm Þór. Leikmyndina hannaði Klemens Nikulásson Hannigan af hófsemd og smekkvísi.