Gerður Kristný. Smartís.

Mál og menning, 2017. 125 bls.

Úr Tímariti Máls og menningar 3. hefti 2018

Unglingsárin eru flókinn og þversagnakenndur tími; fæst höfum við þá náð tökum eða skilningi á eigin upplifunum og viðbrögðum en erum í sífelldri leit að okkur sjálfum og hlutverki okkar í samfélaginu. Tilfinningarnar eru á yfirsnúningi og þetta tiltekna æviskeið er kannski meira markað af tíðaranda samtímans en mörg önnur. Í það minnsta fylgir einhver sérstök – stundum mótsagnakennd og óþægileg – nostalgía tónlistinni sem hlustað var á, fötunum sem voru í tísku, vinunum og hversdagslega hangsinu. Skáldsagan Smartís eftir Gerði Kristnýju, sem kom út haustið 2017, fangar slíkar fortíðartilfinningaflækjur og unglingatilvistarkreppusérlega vel, líklega ekki síst í augum lesenda eins og undirritaðrar sem sjálfir voru börn og unglingar á því tímabili sem um ræðir.

SmartísSmartís er óður til unglingsáranna í Háteigshverfinu í Reykjavík á miðjum níunda áratug síðustu aldar og nostalgían er þar fyrirferðarmikil, enda er um að ræða umhverfið sem höfundurinn ólst sjálf upp í. Sem söguleg skáldsaga –hún er það vissulega, þótt fortíðin sé ekki fjarlæg – er hún kyrfilega staðsett í tíma og rúmi: Aðalpersónan og sögumaðurinn, nafnlaus stúlka sem er að ljúka grunnskóla, er stödd í hverfinu mestallan sögutímann og í gegnum frásögn hennar skyggnist lesandinn inn í þennan heim fyrir tíma netsins, samfélagsmiðla og frjálslegs innflutnings á matvælum og tískuvörum. Tilvísanir í dægurlög, kvikmyndir og bækur þessara ára eru auk þess óteljandi. Smartísinn góði, sem rúmum áratug síðar féll í skuggann af M&M þegar innflutningur á því góssi var loks leyfður, er leiðarstef. Orðið hefur margræða merkingu; unglingarnir kjamsa á litríkum súkkulaðikúlunum og safna plastlokum með bókstöfum á en rembast um leið við að vera smart, því í þessum heimi er það mikilvægastaf öllu.

Smartís er stutt bók, rúmar 120 blaðsíður, og kaflarnir eru röð svipmynda úr lífi stúlkunnar síðasta veturinn og sumarið áður en hún byrjar í framhaldsskóla. Sumar eru sögur úr hverfinu sem Gerður hefur nýtt sér, svo sem af typpakalli sem berar sig í glugga fyrir framan flissandi krakka og manni sem vann í fangabúðum nasista. Aðrar fjalla um ýmsar aukapersónur sem hafa áhrif á aðalpersónuna, svo sem Maju, sem er utangarðs líkt og hún, og afann sem ólíkt flestum fullorðnum hlustar í raun og veru á það sem hún hefur að segja og sýnir því áhuga. Báðar þessar persónur virðast hjálpa aðalpersónunni á þroskabrautinni og auðvelda henni að öðlast sjálfstraust og -skilning. Það er þó fremur óljóst því Maja og afinn koma einungis fyrir í stuttum senum og hverfa jafnóðum af sjónarsviðinu.

Það hefði að ósekju mátt vinna meira með þessar aukapersónur og raunar má segja slíkt hið sama um ýmislegt annað í bókinni því frásagnar hátturinn er knappur, kaflarnir eru oft aðeins lauslega tengdir saman, að öðru leyti en því að þeir gerast í tímaröð, og heildarmyndin er að mörgu leyti – þó alls ekki öllu leyti – brotakennd. Ýmislegt kallar að mínu mati á frekari umfjöllun, þótt væntanlega hafi það verið meðvituð ætlun höfundar að skilja lausa þræði eftir handa lesandanum. Sem dæmi má nefna að lauslega er ýjað að því að stúlkan verði rithöfundur í framtíðinni en dagdraumar hennar snúast þó um að spila í hljómsveit en ekki skrifa. Enn fremur líður þroskasaga aðalpersónunnar fyrir þennan knappa stíl og eyðurnar á milli kaflanna. Vissulega er oft gaman og gefandi þegar lesendum er treyst fyrir því verkefni að taka þátt í sköpuntexta og sögu en í þessu tilfelli hefði ég gjarnan viljað lesa fleiri blaðsíður og kynnast stúlkunni betur á þann hátt.

Meginviðfangsefni Smartíss er vináttan og mikilvægi hennar í lífi unglingsstúlkna. Gerður fjallar af næmni um þetta margslungna efni; áhrif vináttu og vinaleysis á sjálfsmynd stúlkna, kvíðann sem fylgir því að eiga ekki öruggan stað í hinu félagslega vinaneti, óttann við að ná ekki að sanna gildi sitt, skömmina yfir því að fara ein niður í bæ að kíkja íbúðir og svo framvegis. Aðalpersónan á í upphafi bókar vinkonu, Hildi, en þær eiga þó ekki margt sameiginlegt. Henni er þá boðið að vera þriðja hjólið í bestuvinkonuparinu „Steina og Olga“ og grípurþað tækifæri fegins hendi, enda þráir hún félagslega viðurkenningu. Sú gleði er þó skammvinn því það er ekki lengi pláss fyrir þrjú hjól í þessu teymi. Aðalpersónan þarf sífellt að sanna fyrir Steinu og Olgu að hún hafi „réttar“ skoðanir og áhugamál og að lokum er hún útilokuð, þó líklega ekki sökum þess að hún svaraði spurningunni „Smartís eða M&M?“ rangt heldur fremur vegna þess að hún varð vitni að viðkvæmum fjölskylduaðstæðum sem ekki þoldu dagsins ljós.

Samband aðalpersónunnar og Hildar er hryggjarstykki bókarinnar þótt ekki sé fjallað um það ítarlega eða á mörgum síðum. Aðalpersónan yfirgefur Hildi og hættir að tala við hana þegar hún verður hluti af teyminu „Steina og Olga“ en heimsækir hana aftur síðar þegar hún er orðin ein á báti. Hún tekur rútu upp í sveit þar sem Hildur eyðir sumrinu hjá ömmu sinni og þar fer fram uppgjör á milli þeirra þar sem særindi Hildar og skömm aðalpersónunnar yfir framkomu sinni koma fram.

Heimsóknin til Hildar er ris skáldsögunnar og hápunktur uppgjörs aðalpersónunnar við grunnskólalífið sem hún er að segja skilið við. Inn í kaflann er auk þess fléttað óvæntum og grimmilegum atburði sem ýkir dramatík hans og áhrif. Þessi atburður, sem ekki verður rakinn hér í smáatriðum til að eyðileggja ekki lesturinn fyrir þeim sem enn eiga hann eftir, hefur ótvíræð „sjokkáhrif“; lesandanum bregður og hann spyr sig hvað hafi gerst og af hverju –var þetta nauðsynlegt? Hann þjónar þeim tilgangi að undirstrika uppgjör vinkvennanna en hann dregur einnig upp sterkar andstæður milli stúlknanna og um leið milli sveitar og borgar. Sveitin stendur uppi sem heimur grimmdar, dauða og ástar, á meðan borgin er siðvæddari en um leið bældari að því leyti að þar er grimmdin vissulega til staðar en tjáð með orðum fremur en gjörðum. Sveitin er að sama skapi framandgerð; aðalpersónan dvelur þar aðeins dagpart og leitar strax til baka í „sinn“ heim, sem er Háteigshverfið, en framtíð Hildar og örlög hennar eru óráðin.

Eitt af helstu höfundareinkennum Gerðar Kristnýjar er meitlaður og fyndinn stíll og Smartís er þar engin undantekning. Þetta er grípandi og skemmtileg skáldsaga sem rennur ljúflega í gegn og nostalgíufiðringur níunda áratugarins er heillandi og vandræðalegur í senn. Umfjöllun um alvarlegri málefni– geðrænan vanda og áfengisvandamál í fjölskyldum og áhrif þessa á börn og unglinga – fær þó einnig sinn sess; hún tengir ólíka kafla saman, myndar sterkan þráð í gegnum skáldsöguna og er tvímælalaust einn áhrifamesti þáttur hennar. Annað gegnumgangandi þema er yfirskilvitleg málefni og óljós mörk milli þessa heims og annars; aðalpersónan skynjar ýmislegt sem ekki er víst hvort aðrir verði varir við og lesandanum er látið eftir að ráða í hvað tilheyrir raunheimi og hvað ekki. Við þetta skapast ókennilegt andrúmsloft, sem lesendur skáldsagna Gerðar hafa upplifað áður– til dæmis í Hestvík (2016) – og eru líklega farnir að gera ráð fyrir að sjá í næstu bókum hennar.

Mögulega hefði mátt bæta meira kjöti á beinin, fylla upp í ýmsar eyður og skapa þannig sterkari heildarmynd og þroskasögu en einnig leitar á mig sú spurning hvort Smartís hefði virkað betur sem smásagnasafn, þar sem svipmyndirnar sem hún samanstendur af eru margar hverjar sterkar og lifa sjálfstæðu lífi. Hvað sem því líður er hér um að ræða áhugaverða bók sem veltir upp ýmsum hliðum á lífi ungs fólks. Aðalpersónan gengur í gegnum ólík tímabil vináttu og einsemdar, gleði og óöryggis, en í sögulok eru bjartari tímar í vændum; framhaldsskólaárin, ný vinátta, nýr skóli og nýtt æviskeið. Allt eru þetta kunnugleg stef og nafnleysi stúlkunnar undirstrikar að Smartís er saga kynslóðar, eða jafnvel unglinga almennt, óháð tíma og rúmi; bók sem fangar þversagnirnar og tilfinningarnar sem einkenna unglingsárin.

Ásta Kristín Benediktsdóttir