Það var sérkennilegt að koma inn í Iðnó í gærkvöldi: þar gengu um sali konur í skrautlegum samkvæmiskjólum, gjarnan vel flegnum og pallíettuskreyttum, og létu vel að gestum, en maddama Karítas (Nanna Gunnarsdóttir) bauð gesti velkomna og bauð þeim að ganga afsíðis með stúlkunum gegn vægu gjaldi vildu þeir njóta einkaþjónustu. Í salnum voru daðurslega skreytt borð meðfram veggjum og á miðju gólfi var þykkt teppi sem notað var sem svið fyrir almenn skemmtiatriði.

En færi maður afsíðis með stúlku fór hún ekki með mann inn í svefnherbergi heldur að borði uppi á lofti og dró hún upp blöð eða kver úr pússi sínu og las ljóð fyrir gestinn. Því þetta er fyrirbærið Rauða skáldahúsið, skapað að bandarískri fyrirmynd, The Poetry Brothel. Ég fékk einkalestur hjá skáldinu Stjörnu (Solveigu Thoroddsen) og það var ljúft.

Skáldkonurnar í gærkvöldi voru átta og gengu allar undir dulnefnum. Gestirnir fengu líka sitt dulnefni sem þeir notuðu um kvöldið (ég var Hugrún Hannibals …). Skáldin voru af ýmsu þjóðerni og ekki alltaf gott að skilja ljóðin sem flutt voru á teppinu í salnum en margar fluttu vel og stundum fengum við ljóðin túlkuð í dansi líka. Helsta dansatriði kvöldsins var þó ljóðalaust, það var nektardans Maríu Callista á teppinu. Hún fækkaði fötum af miklum þokka svo augu manna stóðu á stilkum en allt fór sómasamlega fram.

Aðalskáld kvöldsins, Elísabet Kristín Jökulsdóttir, flutti ljóð sín á leiksviðinu eins og verðugt var. Hún var klædd í stíl við tilefnið, í svörtum brjóstahaldara og svörtu nærpilsi örstuttu, svörtum sokkum og sokkaböndum. Framan á kviðinn festi hún bleika dúllu með blúndu í kring og las síðan upp úr þeirri ótrúlegu bók Enginn dans við Ufsaklett við gríðarlegan fögnuð enda litríkur flytjandi. Með henni á sviðinu var þýðandi hennar, Maxine Savage, og flutti skínandi góðar þýðingar sínar á ljóðunum, þrem og þrem í senn. Maxine reyndi ekki að herma eftir tilþrifum Elísabetar á sviðinu, hvorki í klæðaburði né lestrartækni, heldur leyfði orðunum að lifa óáreittum. Þetta var viðburður sem gaman verður að minnast.

Kvöldinu lauk (alltént fyrir mig og gest minn) á mergjuðum tónlistarflutningi Skaða og Íriisar. Og þá á ég aðeins eftir að nefna að eitt afskekkt herbergi hússins var vinsælla en önnur. Þar réð ríkjum spákonan Snæugla sem ég var svo heppin að komast til (nógu skynsöm til að fara snemma). Á bak við dulnefnið leyndist engin önnur en Bára Halldórsdóttir sem nú er frægust allra Íslendinga fyrir að fara huldu höfði. Hún tók sér langa stund í að lesa í framtíð mína en sá lestur er eingöngu okkar á milli.

Sem fyrirbæri var þetta sniðugt en sem skemmtun var kvöldið svolítið rýrt; atriðin fylltu ekki þrjá klukkutíma. Skáldin voru ekki nógu dugleg að ganga út á teppið og flytja okkur ljóð milli þess sem þau fóru með gestum upp á loft og Skaði og Íriis byrjuðu mjög seint; það komu löng göt í dagskrána sem gátu verið svolítið vandræðaleg fyrir þá sem ekki voru með félaga með sér. En það verður gaman að skoða þetta aftur næst þegar Rauða skáldahúsið opnar okkur dyr sínar.

-Silja Aðalsteinsdóttir