Í Piperska trädgården í Stokkhólmi

Eftir Hjört Pálsson

Úr Tímariti Máls og menningar 2. hefti 2019

 

Enn er mér ekki úr minni liðið atvik sem fyrir mig kom í Stokkhólmi morgun einn í nóvember 2015  þegar ég var þar á ferð og gisti á Clarion Hotell Amaranten, Kungsholmsgatan 31. Skuggsýnt var orðið þegar ég kom þangað í bíl að aðaldyrum, svo að ég veitti enga athygli litlum lystigarði í næsta nágrenni. Sólarhring síðar átti ég erindi að gegna vegna verðlaunaafhendingar Letterstedtska félagsins í Piperska muren, átjándu aldar húsi sem, eins og múr sem því heyrir til og garðurinn fyrir framan það, er kennt við sænskan greifa sem forðum stríddi með Karli tólfta og gerði garðinn frægan.

Þangað hafði ég aldrei komið áður og vildi fullvissa mig um að ég rataði á réttar dyr þegar þar að kæmi. Þótt ég hefði litið á tölvukort af nefndu húsi hafði ég misreiknað fjarlægðina þangað úr næturstað, því þegar ég tók mér göngu út í kvöldmyrkrið til að svipast um og gekk fyrir hornið á hótelinu var ég undir eins staddur í dálitlu sundi milli hótelveggjarins og girðingar kringum ferhyrndan reit. Á lítt áberandi spjaldi sem hengt hafði verið á járnverkið umhverfis hann stóð skýrum stöfum Piperska trädgården. Gátan var ráðin og ekki ýkja mörg skref frá hóteli á áfangastað morgundagsins. Mér datt í hug að litast um í garðinum en hætti við það, því nú var orðið dimmt og meira en mannhæðarhátt hliðið á rimlagirðingunni læst með hengilás.

 

II

Hjörtur Pálsson

Hjörtur Pálsson / Mynd: Gunnar V. Andrésson

Morguninn eftir var veður hlýtt og kyrrt en himinninn skýjaður yfir Stokkhólmi, og ég gekk á ný inn í sundið þar sem garðshliðið stóð nú opið og áfram inn um það. Í garðinum, nokkru fjær, var maður með hrífu að tína upp rusl, raka og hreinsa til. Fyrst varð mér starsýnt á hvítt höfuð höggvið í stein sem stóð eitt upp úr votri grasflöt við einn gangstíginn. Það var í rómönskum stíl, ef ég veit rétt, af stuttklipptum ungum manni, og mér fannst í fljótu bragði að það gæti verið af óþekktum hermanni sem aðeins skorti hjálminn. Var þetta stytta af manni, gröfnum upp að hálsi í jörð, eða einungis höfuð laust frá bolnum?

Þessu velti ég fyrir mér meðan ég litaðist um og gaf manninum með hrífuna gætur án þess að mikið bæri á. Gekk aftur og aftur að höfðinu uns ég stóðst ekki mátið lengur, en gekk til mannsins, bað hann að afsaka ónæðið, sagðist ekki hafa komið þarna áður og spurði þess með hægð sem mig fýsti mest að vita. Hann svaraði mér fúslega; þetta væri aðeins höfuð sem hann hefði fundið á ruslahaug þar sem einhver hefði fleygt því. Hann kvaðst hirða dálítið um garðinn öðru hverju og hefði stungið því þarna ofan í flötina.

 

III

Það hafði aðeins verið ætlun mín að líta sem snöggvast inn fyrir hliðið, en því lengur sem mér dvaldist, þeim mun forvitnari varð ég um garð og mann. Hann var fremur hávaxinn og grannur, í léttum ljósbrúnum vinnufötum, með þunna skyggnishúfu á höfði og kvikur í hreyfingum sem voru óvenju mjúkar. Það sást glöggt hve hann gekk óhikað og skipulega að verki og vann sér létt. Á fötum hans sá hvergi blett né hrukku þrátt fyrir eðli starfsins, og hann bar sig þannig að allt fas hans og framkoma markaðist af hógværð og höfðingleik sem sjálfkrafa vakti lotningu.

Þótt garðurinn lægi í vetrardvala var jörð auð, og á stöllum sínum ríktu yfir honum sumar frægustu goðverur grískrar og rómverskrar fornaldar. Innan um þær lifði og hrærðist trjágarðsvörðurinn, höggmyndunum og öllum hnútum kunnugur í þessari vin í borgarysnum. Það var ekki auðgert að slíta sig þaðan, og hann fræddi gest sinn um hana með geðþekkum blæ af hógværð og ástríðu í senn. Þar kom að ég spurði hvort til væri nokkurt prentað mál um garðinn. Hann lét ekki mikið yfir því, en sagði þó í fullri hógværð að hann hefði sjálfur tekið saman dálítinn bækling um hann. Þaðan eru ættaðir fróðleiksmolarnir um sögu garðsins hér næst á eftir:

Fram að siðbreytingu stóð klaustur munka af Fransiskusarreglu á Kungsholmen, en það heiti fékk hólmurinn á sautjándu öld. Í aldarlokin eignaðist Carl Piper greifi land þar, sem hann jók síðar við, og hófst handa um að láta endurskipuleggja og breyta trjágarði sem enn ber heitið Piperska trädgården og reisa í honum tvö tvílyft og glæsileg hús og skeifulaga múr með veggskotum fyrir höggmyndir sem einnig eru við hann og konu hans kennd. Hún hét Christina Törnflycht Piper, en bæði voru þau tengd eða skyld háttsettu og valdamiklu fólki af nafnkunnum ættum úr efri lögum samfélagsins í Stokkhólmi.

Piperska muren

Piperska trädgården, um árið 1700 / Mynd: Erik Dahlberg (1625-1703)

Múrinn getur enn að líta, en kort og koparstungur frá aldamótunum 1700 gefa góða hugmynd um stærð og útlit staðarins á blómaskeiði hans, því nú er þar allt minna í sniðum. Þennan lystigarð í stíl barokktímans, með þráðbeinar raðir af  samhverfu og snöggklipptu limgerði, skrautrunna, gosbrunna, garðskála og fjöldann allan af höggmyndum og styttum skipulögðu nafnkunnir arkitektar og garðyrkjumeistarar, og töluvert starfslið þurfti til að hirða um hann þegar hann stóð í mestum blóma, enda var hann þá einna glæsilegastur garða í höfuðboginni.

Eftir að Carl Piper fylgdi konungi sínum í örlagaríkan herleiðangur úr landi árið 1700 átti  hann hvorki afturkvæmt til föðurlands síns né fjölskyldu og andaðist í fangavist í Rússlandi sextán árum síðar. Við brottför hans féll það þess vegna í hlut konu hans að sjá um eignir hans  heima, sinna setrinu á Kóngshólmi auk annarra jarðeigna þeirra og ljúka gerð trjágarðsins. Það gerði hún með þeim myndarbrag að aldrei varð hann stærri og fegurri en í hennar tíð og sonar þeirra hjóna, Carls Fredriks Piper, en honum fékk hún garðinn fyrst til umráða og loks eignar hálfum öðrum áratug síðar. Úr ættinni gekk hann síðan 1757 eftir dramatíska atburði sem gerðust í tíð afkomenda Carls Fredriks.

Frá þeim tíma gekk á ýmsu um garðinn. Hirðulausir eigendur gerðu hann sér að féþúfu og seldu þaðan allt sem þeir gátu, svo að hann lenti í niðurníðslu, en á síðari hluta átjándu aldar eignaðist Amarant-frímúrarareglan staðinn og 1807 Arla Coldinu-reglan. Oft hefur legið við borð að krumla eyðileggingarinnar sópaði burt síðustu minjunum um Hortus Piperianus, og á sjöunda áratug síðustu aldar munaði minnstu að honum yrði fórnað fyrir bílastæði. Svo heillavænlega tókst þó til að 1997 var vörn snúið í sókn, svo að nú býður garðurinn þeim sem hann skoða eða eiga leið hjá kyrrláta hvíldarstund frá dunandi umferðarþunganum og ber þeim kveðju og andblæ liðins tíma og menningar.

 

IV

Kona kom út á pall nálægt hliðinu, framan við húsið sem veit að garðinum og kennt er við Piperska muren. Hún stóð þar um stund og reykti. Svo fleygði hún stubbnum í átt að steinkeri með sandi rétt við tröppurnar um leið og hún fór inn aftur og skellti á eftir sér. Stubburinn hafnaði rétt hjá Venusi frá Vorarlberg sem leiðsögumaður minn kynnti mig fyrir og kúrði þarna skorðuð í kverkinni við vegginn. Þangað var hún komin alla leið frá Austurríki, svo dvergsmá að lítið bar á henni, með sinn mikla kvið og stóru brjóst sem röskuðu öllum algengustu líkamshlutföllum, en kváðu eiga að vísa til lífs og frjósemi.

„Svona fleygir fólk frá sér ruslinu út um allt,“ sagði viðmælandi minn, „og rænir svo stundum afleggjurum, jafnvel af sjaldgæfum tegundum úr jurtaríkinu sem áttu að fá að vaxa hér í friði, en sífellt þarf að verja fyrir ágangi. Það er iðulega eins og fólk taki varla eftir þessum reit, það gengur bara hugsunarlaust framhjá eða skoðar hann sljóum augum rétt í svip og flýtir sér svo burt. Fæstir una sér lengi eða spyrja um nokkuð. Þegar fólk sér mann í vinnufötum, eins og mig, gengur það bara þegjandi framhjá, en upplitið breytist kannski ef það kemur fyrir að ég er með grænu svuntuna mína. Á henni stendur Bergianska trädgården og það þykir fínt! Þá kinkar það kannski kolli eða býður góðan dag.“ Hann var í hollvinasamtökum þess garðs og átti þess vegna svuntuna, en í þessum reit á Kóngshólmi naut sín vel í verki ástríða hans og hugsjón um að fegra og bæta heiminn.

Piperska muren

 

V

Orð kviknaði af orði og það teygðist úr samtali okkar. Ég hafði sagt honum nafn mitt og hvaðan ég væri þegar ég kynnti mig fyrir honum og leyfði mér því að spyrja hann að heiti. Rétt sem snöggvast brá fyrir örlitlu hiki í rödd og fasi, en um leið sagði hann að á bakvið það væri dálítil saga.

Nafnið, sem mér misheyrðist reyndar í fyrstu, var þýskt, eins og hann tók fram, en ættarnafn hans vakti forvitni mína um uppruna hans og erfðir. Hann talaði mjög góða og skýra sænsku, svo mér hefði ekki dottið annað í hug en að hann væri fæddur Svíi. Ekki hafði ég heldur leitt hugann að aldri hans, en  eitthvað í spjalli okkar varð til þess að ég sagðist vera sjötíu og fjögurra ára. Þá sagði hann um leið glaður og brosleitur: „Ég er sjötíu og átta!“ Það færði okkur enn nær hvorn öðrum þegar við áttuðum okkur á því hve við vorum á líkum aldri, og einhvern veginn grunaði mig, eftir að við fórum að spjalla saman, að við gætum átt fleira sameiginlegt.

Hann sagði mér að fyrrabragði að hann hefði komið til Svíþjóðar 1957. Ekki veit ég hvort hann var beinlínis flóttamaður, en sjö ára gamall hafði hann bjargast úr eldi loftárásanna í Dresden þar sem hann sat niðri í kjallara í fangi móður sinnar meðan ósköpin gengu yfir og sprengjuregn bandamanna lagði borgina í rúst í einum skelfilegasta hefndarglæp seinni heimsstyrjaldarinnar.

Bakvið nöfn okkar allra er dálítil saga. Og þetta brot úr bernskusögu hans glæddi ímyndunarafl mitt, vakti spurningar án svara. Hver var sagan hans bakvið nafnið? Hvað hafði á daga hans drifið í Þýskalandi stríðs- og eftirstríðsáranna? Eða var hann ef til vill ekki þar þá? Var hann á flækingi eða flótta? Á hrakningi undan Þriðja ríkinu, fjendum þess eða einhverju öðru ríki af einhverjum ástæðum? Hvað varð um móður hans eða fjölskyldu? Var hann gyðingaættar? Eða ekki „rétt þenkjandi“? Eða var hann kannski bara einn af þeim heppnu og hafði átt góða æsku heima? Dresden var austanmegin og ekki allir ánægðir þar frekar en víðar á byggðu bóli. Hvers vegna flutti hann sig yfir Eystrasaltið? Var hann einn á ferð? Flóttamaður? Ástfanginn, í atvinnuleit? Eða bara tvítugur þýskur piltur að freista gæfunnar, skoða heiminn? Ekkert af þessu vissi ég og veit ekki enn, gat ekki spurt svo nærgöngulla spurninga, en hugurinn flaug víða af því að ekkert annað hafði gerst en að maður hitti mann eina morgunstund á Kóngshólmi. Mann sem ungur leitaði nýs lífs í nýju landi eins og homo sapiens hefur alltaf gert. Og eftir þann fund var ég enn sannfærðari en áður um gildi og nauðsyn mannlegra samskipta og frjóvgandi menningaráhrifa, fái þau að dafna í friði.

Piperska murens trädgård

 

VI

Á máli lystigarðsvarðarins mátti heyra að hann væri ekki alls kostar ánægður með andvaraleysi og umgengnisvenjur sumra samborgara sinna í fósturlandinu. Þar virtist hann þó hafa unað hlutskipti sínu bærilega hartnær sex áratugi, og aðfinnslur hans minntu meira á umvandanir góðs kennara, sem koma vill öllum nemendum sínum til nokkurs þroska, en refsigleði harðstjórans. Hann kann líka að hafa borið nokkurn ugg í brjósti um hvert stefndi í heimi á hvörfum, því þetta var á fimmta ári Sýrlandsstríðsins, ári þjóðflutninganna miklu í nýjum stíl, ári flóttans sem heimsbyggðin hafði aldrei séð slíkan í manna minnum eða staðið frammi fyrir hvernig bregðast ætti við. Ári stríðs, hörmunga og hryðjuverka víða um lönd þar sem misjafnar minningar vöknuðu af dvala og barist var við drauga fortíðar og nútíðar í senn. Ári þegar margar þjóðir máttu líta í eigin barm, væri spurt um samspil orsaka og afleiðinga ellegar hvers eða hverra væri sökin.

 

VII

Hugur einn það veit hvað trjágarðsverðinum fannst um þetta allt, en ég hugsaði mitt. Okkar gamla Evrópa hefur margt á samviskunni sem hún getur ekki firrt sig ábyrgð á andspænis öðrum heimshlutum þegar hún horfist í augu við sjálfa sig í spegli sögunnar. Þaðan fær hún nú yfir sig holskeflu flóttafólks sem hvergi vill þó fremur vera sem stendur en í þessari sömu Evrópu – því norðar, þeim mun betra – og fórnar til þess lífi sínu að komast þangað. Það vill burt, frá stríðsglæpum og hryðjuverkum voldugra stórþjóða og fylgiríkja þeirra sem sjá ekki bjálkann í eigin auga –  eða samlanda sinna og eigin stjórnarherra sem einskis svífast í blóðugu borgarastríði sem gerir þeim sem flýja ólíft heima fyrir í slóð dauða og eyðileggingar.

Við stóðum í garðinum nokkrum vikum eftir að mynd af þriggja ára sýrlenskum snáða sem lá drukknaður á grúfu í fjörusandinum á strönd Tyrklands fór sem eldur í sinu um flesta fréttamiðla heims og varð á augabragði táknmynd allra þeirra barna sem hurfu í öldur Miðjarðarhafsins eða rak upp í flæðarmál við strendur Eyjahafs. Við sitjum uppi með Evrópu óvissunnar, gamla og nýja, til góðs eða ills hvort sem okkur líkar betur eða verr. Hún er í senn dýflissa sögunnar og vonarland. Var okkur ekki kennt að Grikkland væri „vagga vestrænnar menningar“ og Rómarréttur undirstaða réttarkerfis okkar og stjórnlaga? Vitanlega hafa áhrif borist miklu lengra og víðar að, en skyldu ekki æðimargar mótandi hugmyndir okkar hér norður frá og raunar fólks um allar álfur vera komnar sunnan að, í heimspeki og stjórnmálum, trúarbrögðum, listum og vísindum?

Mér varð hugsað til þess hve margt Norðurlönd hafa þegið með vorvindum suðursins yfir alda haf, hve margt sem við vildum ekki fyrir nokkurn mun glata. Eða var kannski hætta á því? Hvað bíður þess heims sem verið hefur okkar sem tilviljunin leiddi saman þennan morgun í Stokkhólmi – og okkar kynslóðar? Vorum við leifar liðins tíma og héldum dauðahaldi í horfinn heim, lokaðir inni í litlum garði sem gat sem hægast verið heimurinn allur í smækkaðri mynd í gleði sinni og harmi, stríði og friði?

Ég neitaði að trúa því að hann ætti sér ekki viðreisnar von á breytingatímum og styrktist í þeirri afneitun þegar fundum okkar verndara lystigarðsins bar saman og ég fékk að sjá og heyra hve sú fornhelga ræktaða Evrópumenning sem hann var fulltrúi fyrir og mótandi lífsviðhorf hennar stóð djúpum rótum í huga hans og fari. Hann kunni sína goða- og grasafræði, svo enginn kom hjá honum að tómum kofunum. Allan þennan farangur flutti hann með sér úr átthögum sínum á norðurslóðir og sagði og sýndi mér margt.

Steinstólparnir í girðingunni götumegin enduðu efst í steyptum blómakerum með kúf af auðþekktum suðrænum ávöxtum sem málaðir voru í viðeigandi litum. „Það ganga margir framhjá án þess að taka eftir þeim,“ sagði hann. Þótt ekki sæi til sólar nutu litirnir sín vel. Engu var líkara en blárauðar þrúgurnar í vínberjaklasanum héngju enn á runnanum. Trjágarðsvörðurinn tók fram að sitt hvað væri að sjá garðinn að sumri og vetri. Áður en hann legðist að væru viðkvæmustu stytturnar og gripirnir, sem hættast er við veðrun eða öðrum skemmdum, tekin niður og flutt í geymslu uns aftur vorar. Um leið sá ég fyrir mér garðinn í sumarskrúði.

Piperska murens trädgård

 

VIII

Allar styttur eru komnar á þá stalla sem nú stóðu auðir meðfram stígunum, og gylltir ástarenglar með amorsboga og örvar og fleira smáfólk lífgar upp á sína staði. Goðverur fornaldar skarta marmarahvítar undir lauftrjánum sem í vetur teygðu fálmandi greinar til himins, svört og hnípin, en baðast nú á víxl sól og sumarregni. Fyrir litskrúðinu sjá blóm og runnar, plöntur og trjátegundir, nokkrar þeirra sjaldséðar eða langt að komnar á þessum breiddargráðum. Undir regnboganum fella niðandi gosbrunnar einn og einn dropa á gylltan engil eða malarstíg við flugnasuð og fuglasöng í trjánum.

 

IX

Eftir að ég kvaddi leiðsögumann minn skoðaði ég mig enn einu sinni um í garðinum góða stund. Á leiðinni út rakst ég á Bakkus skorðaðan og sofandi í skugga milli trés og runna. Hann lá þar nokkuð brotinn og laskaður með þurrkuna og vínkerið í handarkrikanum. Líklega hefur hann sofnað þarna eftir síðustu svallveislu sem þó var nokkuð langt um liðið, því mosagrænan var víða farin að þekja líkama hans. Ég leit við um leið og ég gekk út um hliðið. Lystigarðsvörðurinn, vinur minn, var enn að raka saman laufinu. Hann hélt áfram að rækta garðinn sinn.