Ég getÍ Kúlu Þjóðleikhússins var í dag frumsýnt leikverkið Ég get eftir Peter Engkvist, góðkunnan sænskan leikhúsmann, leikskáld, leikstjóra og leikhússtjóra, sem hefur áður glatt okkur hér á landi á ýmsan hátt gegnum tíðina. Björn Ingi Hilmarsson leikstýrir þeim Stefáni Halli Stefánssyni og Maríu Thelmu Smáradóttur sem fá að leika sér í anda tveggja til fimm ára barna á afar skemmtilegu sviði.

Það má ímynda sér að krökkunum hafi verið sleppt lausum í geymslunni, alla vega eru þarna hlaðar af spennandi pappakössum í ólíkum stærðum og mikið af alls konar ílátum úr pjátri, fötum og pottum í ólíkum stærðum og nokkrar garðkönnur. Þessir þarfahlutir verða að fjölnota leikföngum í höndum barnanna, það má rækta blóm í litlu pottunum, nota stóru pottana sem sæti og alla potta, stóra og smáa, sem stiklusteina þegar ekki má stíga á gólf. Garðkönnurnar koma að gagni sem slíkar við blómaræktina en líka má rífast um þær og láta þær dansa saman! Pappakassana má rogast með stað úr stað, í þeim má líka fela sig og nota þá sem skopparakringlur. Hugmyndaauðgi barnanna á sér engin takmörk.

Svo takast þau líka á. Fyrst eignar stelpan sér svæðið allt og bannar stráknum að stíga inn á litríka gólfið. Hann er óánægður með það en tekur mark á henni, sækir bara kurteislega á. Svo verða eigendaskipti á sviðinu og strákurinn bannar stelpunni að ganga um gólfið. Hún hlýðir en svindlar svo aðeins. Í lokin tekst þeim að koma sér saman um eignarhaldið og árangurinn af því er óvæntur og fallegur.

Ungir leikhúsgestir fylgdust vel með því sem fram fór á sviðinu og þótti greinilega mest gaman að því þegar Stefán og María reyndu að ná hlutum hvort af öðru og notuðu til þess hreyfingar sem minntu mest á dans. Leikararnir gerðu sér ekki upp barnalegar raddir eða hreyfingar, þau voru bara fullorðið fólk að leika börn á tilgerðarlausan, hýrlegan hátt sem virkaði greinilega afar vel á áhorfendur. Félaga mínum, sex ára, bráðum sjö, fannst sýningin mjög skemmtileg.

Silja Aðalsteinsdóttir