Bergsveinn Birgisson. Leitin að svarta víkingnum.

Leitin að svarta víkingnum

Bjartur, 2016.

Úr Tímariti Máls og menningar 2. hefti 2017

Í húsi Klíó eru margar vistarverur. Ef einhvern fýsir að gægjast þar inn, mæta augunum undarlegar sýnir og sumar með ólíkindum; á einum stað sitja menn að tafli en skákmennirnir á borðinu eru lifandi og berast á höggvopn, annars staðar læðast vélmenni og stunda gagnkvæman vasaþjófnað með snöggum handahreyfingum, á enn öðrum stað liggja á borði bækur ritaðar á rykfallið pergament en upp úr þeim rísa menn og konur í alls kyns búningum og dansa eftir tónum úr sjálfspilandi slaghörpu, og þannig mætti lengi telja. Það þarf Ganglera til að bera skyn á allar þessar ótrúlegu sjónhverfingar. En í þessar vistarverur sækja reyndar menn af hans kyni, það eru sagnfræðingar, og reyna að finna sér stað sem þeim hugnast, með rúnum sem þeir gætu ráðið. Þeir velja sér því sérstæðari ristur sem hugrekkið er meira, og til að auðvelda þeim leitina sendir Klíó þjóna sína, það eru söguspekingar, til að vísa þeim veginn.

Inn í einni af þessum vistarverum hefur Bergsveinn Birgisson komið sér fyrir og sendi hann fyrir skömmu frá sér afrakstur þeirrar dvalar í bók sem nefnist Leitin að svarta víkingnum. Það er ekki síst athyglisvert við bókina að hún ber allvel með sér hvernig sú vistarvera var innréttuð, hvaða húsbúnað þar var að finna, og hvaða þjónar Klíó blésu honum í eyru. Á því byggist gildi hennar ekki síst.

Í verki sínu vinnur Bergsveinn eftir hugmyndum ýmissa söguspekinga sem voru á kreiki í húsi Klíó á fyrri hluta síðustu aldar (og stundum kenndir við „Annálahreyfinguna“ svokölluðu í Frakklandi), hvernig svo sem þeir hafa blásið þeim hugmyndum sínum til hans, hvort það hefur verið leynt eða ljóst, í vöku eða draumi. Er til þess nokkur dægradvöl gerandi að rifja þær upp í stuttu máli, þótt þær hafi verið reifaðar áður.

Þessir söguspekingar, sem voru um leið sagnfræðingar, áttu í deilum við eldri fræðimenn sem litu svo á að verk sagnfræðings væri fólgið í því fyrst og fremst að lesa heimildir fyrri alda með aðferðir sögugagnrýninnar að leiðarljósi – en þær höfðu þegar verið kerfisbundnar allítarlega – tína þannig upp sögulegar „staðreyndir“ og síðan setja þær fram í riti nokkurn veginn eins og þær komu af skepnunni. Að þeirra dómi voru þessar „staðreyndir“ nefnilega þegar fólgnar í heimildunum, það þurfti einungis að greina þær frá öðru.

Þetta viðhorf fannst söguspekingunum ekki aðeins rangt heldur og einfeldningslegt og þeir settu fram kenningar sínar gegn þeim. Þeir litu svo á að fortíðin væri ekki safn einhverra „staðreynda“ sem hægt væri að tína upp sem slíkar, fortíðin væri í rauninni ótæmandi, þar væri alltaf eitthvað nýtt að finna. Þess vegna væri til einskis að fara beint að grúfa sig yfir texta, á þann hátt segðu þeir manni ekkert. Öll lífvænleg sagnfræði yrði að byrja á spurningu, fræðimaðurinn gengur ekki beint að einhverri heimild með tóman huga, heldur skjótast upp í huga hans setningar eins og „hvernig stendur á því að…“, „skyldi það vera að…“ eða „er það rétt að…“ og óteljandi margt af því tagi og síðan leitar hann að þeim heimildum sem kynnu að fela í sér svar eða hluta af svari. Ef vel á að vera þarf spurningin að vera „tilvistarleg“, hún þarf að vera eitthvað sem sagnfræðingnum brennur í muna að fá svar við. Að áliti söguspekinganna spretta nýjungar í sagnfræði einkum og sér í lagi af því að einhver maður setur fram spurningu sem aldrei hafði áður verið spurð og fer að leita logandi ljósi að svari við henni. Þá birtast kannske allt í einu heimildir sem enginn hafði áður séð, sem engum hafði dottið í hug að gætu yfirleitt verið heimildir um eitt né neitt. Um þetta er reyndar prýðisgott dæmi í eftirmálsgrein í bók Bergsveins:

Áhugavert er að minna á að enginn tók eftir hellugryfjum í Noregi fyrr en hugtakið hellegryfja varð til á áttunda áratug síðustu aldar. Nú eru fleiri hundruð slíkar gryfjur skráðar í Norður-Noregi. (bls. 393)

Til að vinna úr þessum heimildum þarf svo kannske að finna upp aðferðir sem aldrei hafði áður verið beitt. Og þá kemur annað til sem sumir fyrirrennarar „Annálamanna“ litu hornauga en þeir vildu sjálfir hefja til vegs og virðingar, eins og rómantískir sagnfræðingar höfðu áður gert, og það er ímyndunaraflið. Það er drifkrafturinn í öllum rannsóknum á fortíðinni.

Þetta skín allt í gegn í riti Bergsveins um Svarta víkinginn, eins skýrt og verið getur. Hann er að vísu ekki með neinar heimspekilegar vangaveltur um að fortíðin sé „ótæmandi“, bókin er heldur ekki vettvangur fyrir slíkt, en hann setur þessa sömu hugmynd fram í einni skáldlegri líkingu, mjög sláandi, þegar hann talar um að vera „að veiðum í Ginnungagapi fortíðar“, og efast ég um að hægt sé að orða þetta betur. Það væri síðan verðugt verkefni fyrir heimspeking að vinna áfram úr þessum myndhvörfum.

Viðhorf Bergsveins til Ginnungagapsins og veiðanna er skýrt, hann er á höttunum eftir einum ákveðnum fiski, honum brennur á vörum áleitin spurning sem hann vill dorga upp svar við, og hún er þessi: hvers vegna er ekki til nein saga um Geirmund heljarskinn, sem þó var sagður „göfgastur allra landnámsmanna“? Hvers vegna er það sem um hann er sagt af svo skornum skammti og reyndar sumt af því tagi að það fær varla staðist, – hann á að hafa verið auðugur bóndi með margar bújarðir, en þær voru þó flestar á þeim stöðum landsins sem einna síst eru fallnir til landbúnaðar. Þessi spurning verður smám saman mjög áleitin, og þá ekki síst fyrir þá sök að Bergsveinn er sjálfur afkomandi Heljarskinns í 29. ættlið, og með sínar dýpstu rætur í því héraði sem var starfsvið ættföðurins. Þetta er því eins tilvistarleg spurning og verið getur. Og um leið og hún hefur verið sett fram spretta upp af henni aðrar spurningar í langri halarófu. Þessi útgangspunktur alls verksins er svo mikilvægur í augum höfundar að meðfram þeirri sögu sem hann segir rekur hann einnig sína eigin rannsóknarsögu kryddaða fjölmörgum litríkum og jafnvel kátlegum atvikum, svo sem endasleppu símtali hans við Geirmund sjálfan, og gengur hún eins og rauður þráður gegnum alla bókina, kannske mætti segja að hún myndi sérstakt „lag“ í verkinu (sjá um það hér á eftir). En hún er athyglisverð í sjálfu sér, burtséð frá öðru.

En hvaða aðferðum getur Bergsveinn beitt til að ráða þessar áleitnu gátur? Ef skyggnst er inn í þá vistarveru sem hann hefur valið sér, mæta augunum fyrst kort með áfestum teiknibólum hingað og þangað, og koma þar einna skýrast fram þær hliðstæður sem eru milli aðferða Bergsveins og hugmynda hinna frönsku sagnfræðinga og söguspekinga. Fræðimenn „Annálahreyfingarinnar“ lögðu nefnilega höfuðáherslu á landafræði sem ein mikilvægustu hjálparvísindi sagnfræðinnar, ekki af því að allir atburðir sögunnar „gerast einhvers staðar“, eins og menn hafa alltaf gert sér grein fyrir, heldur af því að í augum þeirra gat hún leitt í ljós sitt af hverju sem annars var hulið. Eitt af því sem þeir vildu rannsaka sérstaklega voru leiðir og leiðakerfi fyrri tíma, þessi atriði gáfu þeim mikilvægar upplýsingar um atvinnulíf og jafnvel sitthvað fleira, svo sem útbreiðslu kviksagna og orðróms.

Þessi rannsókn leiða og leiðakerfis er upphafið að fræðimennsku Bergsveins í verkinu og að vissu leyti burðarásinn, því svo virðist sem hún fleyti honum lengst áfram. Þetta tekur hann skýrt fram sjálfur strax í upphafi verksins:

Einhvern tíma upp úr 1990 (…) afritaði ég stórt kort af Vestfjörðum og hengdi það á korktöflu. Mér til gamans fór ég að merkja staði á kortinu með teiknibólum þegar ég komst að því að þar hefði búið fólk sem samkvæmt heimildum tilheyrði liði Geirmundar.

Brátt fór áhugavert mynstur að koma í ljós, mynstur sem ég tók að efast um að sagnaritarar miðalda hafi nokkru sinni komið auga á: Staðsetning þeirra jarða sem tilheyrðu Geirmundi þjónaði greinilega hagnýtum tilgangi. Býlin stóðu við ýmsar götur og gamla fjallvegi frá Hornströndum, en alla vegi bar að sama stað; höfuðbóli Geirmundar við Breiðafjörð! Það rann upp fyrir mér að líklega hefðu vegirnir verið nýttir til vöruflutninga og þar sem vegirnir voru margir og nýttir af fjölda manns, benti það til þess að um dýrmætan varning eða afurðir hefði verið að ræða.“ (bls. 22–23).

Þetta er þó ekki allt og sumt, því þegar hann lítur aftur til þessarar vinnu sinnar með „teiknibólur og þolinmæði“ bætir hann við:

Síðar ferðaðist ég um nokkrar af þessum heiðargötum til að sjá sjálfur hvort það væri rétt til getið að þetta væru vegir sem hentuðu fyrir umferð klyfjaðra hesta.“ (bls. 280).

Landafræðin kemur höfundi að enn frekari notum því hann gerir samanburðarrannsókn á örnefnum í Rogalandi í Suðvestur-Noregi og í landnámskjarna Geirmundar til að fá nákvæmari upplýsingar um uppruna hans, og gengur þá útfrá þeirri staðreynd að útflytjendur fara ekki aðeins með muni sína með sér heldur hafa þeir líka oft á tíðum örnefni með í farteskinu (sbr. bls. 41). Og því má einnig bæta við að vettvangsrannsóknirnar gengu lengra en það eitt að þræða heiðargötur, höfundur spreytti sig líka við lýsisbræðslu, og væri hætt við að ýmsir sagnfræðingar myndu ekki spjara sig vel ef ætti að prófa þá í slíkum verknaði.

Á þennan hátt má fá mikið magn af upplýsingum sem ekki lágu áður ljósar fyrir, en með þeim er þó ekki enn fengið svar við hinum ýmsu tilvistarspurningum höfundar, eftir er að gera úr þeim samfellda sögu. Til þess kann hann eina aðferð, þá sem meisturum „Annálahreyfingarinnar“ var kær, og hún er ímyndunaraflið. Þetta undirstrikar hann skýrt og hefur um það sérstakt nafn:

Þar sem ég veit ekkert fyrir víst nota ég það sem kalla má röksögu, eða ímyndun grundvallaða á þekkingu! Slíkt kallast argumentum í miðaldasagnfræði, þ.e. það sem ætla má, út frá heimildum, að gerst hafi. (bls. 25).

Og þetta er enn áréttað í lok bókarinnar:

Stundum er ímyndunaraflið eina aðferðin sem við höfum til þess að fá sögu til að rísa upp úr tómum brotum. (bls. 256).

Fyrir þessu hefðu „Annálamenn“ að sjálfsögðu klappað, og vafalaust hefði þeim líka verið skemmt yfir því hvernig höfundur leiðir þessa aðferð áfram:

Leit mín að Geirmundi fór smám saman að líkjast starfi leynilögreglumanns, nema líkið var 1100 ára gamalt og löngu orðið að dufti. (bls. 41).

Hér er kannske rétt að staldra við, því þótt þetta sé kannske sett fram í hálfkæringi má vera að höfundi ratist hér réttara á munn en hann gerir sér grein fyrir sjálfur, því hann fylgir hér í rauninni þeirri aðferð sem Sherlock Holmes beitti með góðum árangri, eins og mönnum er kunnugt. Þessa aðferð sína kallaði hann „afleiðslu“, og hann gerir skýra grein fyrir henni eitthvað á þessa leið:

Áður en farið er að beita hinni göfugu list afleiðslunnar þarf að undirbúa grunninn, og það starf er í því fólgið að safna saman öllum þeim atriðum sem varða málið, hversu smávægileg þau kunna að virðast, – oft eru það lítilfjörlegustu atriðin sem reynast að lokum mikilvægust. Mestu varðar að gengið sé að því með algeru hlutleysi, menn verða sem sé á þessu stigi að útiloka með öllu fyrirfram kenningar sem gætu valdið því að þeir tækju einhver atriði fram yfir önnur, gerðu þeim hærra undir höfði en létu sér kannske sjást yfir annað. Í byrjun verður að leggja þau öll að jöfnu. Atriðin geta verið af margvíslegu tagi, meðal þeirra eru að sjálfsögðu hlutir sem finnast við ýtarlega og umfangsmikla vettvangsrannsókn, en einnig öll þau einkenni sem gefa til kynna persónuleika þeirra sem eru við málið riðnir, fyrri sögu þeirra, tengsl þeirra hvers við annan og margt fleira af því tagi. Nauðsynlegt er að taka vel eftir öllu því sem er óvenjulegt og undarlegt, – ekki í samræmi við það sem helst mætti búast við.

Svo þegar sem flest þessara atriða liggja fyrir, er loks hægt að beita afleiðslunni sjálfri, og hún er fólgin í því, svo ég einfaldi málið, að athuga hvernig þau geta tengst saman og myndað sögu. Það þarf að skoða þau gegnum tímans rás, rekja þau aftur í tímann – þessi rökleiðsla aftur á bak er nokkuð sem flestum reynist erfitt – og jafnvel fram í tímann líka, leiða í ljós fléttuna. Tengslin milli þeirra mynda nokkurs konar net, og oft eru það fleiri en eitt sem hægt er að teikna upp, en aðeins eitt samsvarar því sem gerðist, – það er sagan. Til að velja þarf að ganga út frá því að rétta netið myndi heim sem hlýðir sínum eigin vissu rökum.

Orð Sherlock Holmes bera með sér að hann starfaði fyrir daga „Annálahreyfingarinnar“, á þeim tíma þegar „pósitívisminn“ svokallaði var ríkjandi, og kemur það fram í því hvernig hann vill útiloka allar fyrirfram kenningar, en það er aðeins annað orð yfir það sem síðar var kallað „spurningar“. Að öðru leyti eru þau hin besta skilgreining á því sem Bergsveinn kallar „röksögu“, úr þeim má jafnvel lesa heitið sjálft.

En um hvað er að ræða? Í hverri einustu stöðu í sögunni eru einhver innri rök, þótt þau geti stundum virst langsótt í augum nútímamanna, og verkefni sagnfræðinga er ekki síst að gera þau sýnileg, njörva þau niður í raunveruleika síns tíma, og draga af þeim þær ályktanir sem þau gefa tilefni til. Á þennan hátt gerir Bergsveinn umsvif athafnamannsins Geirmundar fyllilega skiljanleg og segir sögu sem aldrei hafði áður verið sögð. Þessi „röksaga“ er aðalefni bókarinnar, og myndar þannig annað „lag“ hennar.

En Bergsveinn gengur enn lengra, hann heldur röksögunni áfram, setur hana fram með sviðsetningum þannig að hún breytist á köflum í „sögulega skáldsögu“. Yfir slíku fúlsa sagnfræðingar gjarnan, en það er skammsýni. Verkefni sagnaskáldsins á þessu sviði er oft það eitt að velta fyrir sér hvernig atriði sem heimildir nefna með einföldum og almennum orðum – t.d. „hann bjó skip sitt“ – hafi gerst í hinum efnislega raunveruleika, sjá kannske fyrir sér menn sem eru að bræða skip sitt að öndverðu vori og láta það síðan vel þorna, það er svalt í veðri, menn berja sér til hita þegar þeir eru ekki beint yfir bræðslunni, og velta fyrir sér veðramerkjum. Á þennan hátt spinnur Bergsveinn upp langa og litríka frásögn af Bjarmalandsferð, uppfulla af persónum og atvikum, en þótt hún sé tilbúningur hans eru atriðin ekki önnur en þau sem gætu hafa gerst, og hljóta raunverulega að hafa gerst einhvern tíma í slíkum ferðalögum, en kannske ekki í sömu ferðinni. Með slíkum skáldskap bregður hann upp mynd úr veruleika tímans. En hann á til að ganga miklu lengra.

Milli „röksögunnar“ og sögulegu skáldsögunnar eru ekki skýr mörk í verki Bergsveins, segja má að ofangreind frásögn af Bjarmalandsferð sé einhvers staðar á landamærunum, hún er ekki mjög langt frá því sem venjulegir sagnfræðingar gætu leyft sér með sæmilega góðri samvisku. En eigi að síður er þessi sögulega skáldsaga það sem kalla mætti þriðja „lag“ verksins. Og er þessi randalín þá fullbökuð.

En aðferðir eru einungis þáttur í verkinu; hversu snjallar sem þær eru felst gildi þeirra einungis í því hvaða sögu hægt er að byggja upp fyrir tilstilli þeirra. Og Bergsveinn beitir þeim til að setja fram nýja og róttæka kenningu um landnámið og mannlíf í landinu á fyrstu áratugum Íslandsbyggðar. Hún er í stuttu máli á þessa leið: fornar heimildir eru litaðar af því þjóðfélagi sem var fullmótað á þeirra tímum, þegar Ísland var nánast eingöngu landbúnaðarland þar sem bændur yrktu hver sína jörð, það kallar Bergsveinn „landbúnaðarkenninguna“. Þær gerðu ekki ráð fyrir nema einni leið annarri fyrir menn að safna saman miklum auðæfum og það voru víkingaferðir á fyrri tímum, rán og gripdeildir á fjarlægum hálfum. Þess vegna var lýsing þeirra á landnáminu harla einföld: Norðmenn sem vildu ekki una yfirgangi konungsvaldsins tóku sig upp einn góðan veðurdag, sigldu til Íslands með sitt hafurtask og fundu sér þar bújörð. Kannske voru þeir líka í hernaði í og með til að fanga þræla og ambáttir.

En þessi einfalda saga fær ekki staðist, segir Bergsveinn, það er ekki svo lítið mál að fara með sinn bústofn yfir ólgandi útsæ, t.d. þegar þess er gætt að hvert og eitt beljugrey þambar 30–40 lítra af vatni á dag og erfitt er að vita fyrir hve siglingin verði löng, og setjast svo að í ókunnu landi sem menn þekkja einungis af óljósum og kannske miður áreiðanlegum frásögnum annarra. Í rauninni er landnám við aðstæður af þessu tagi langt og flókið ferli; eftir að menn hafa fundið landið þarf að kanna þar allar aðstæður, sjá hvaða nytjar megi af því hafa, og síðan færa sig hægt upp á skaftið. Líklegt er að fyrst fari menn til stuttrar dvalar, t.d. til að nýta sér einhver snöggtekin gæði, svo sem afrakstur af veiðum. Þetta skýrir mætavel orð Ketils flatnefs um Ísland: „Í þá veiðistöð kem ek aldregi á gamals aldri“, – og er ólíklegt að þeir sem fyrstir skrásettu þau hafi fyllilega skilið hvað átt var við; sá veruleiki sem þau vísa til var þá horfinn.

Bergsveinn ályktar því, af öllum þeim rökum sem hann hefur dregið saman, að Geirmundur hafi siglt til Íslands með allt sitt lið til að sækja þangað harla dýrmæta vöru sem ekki var lengur hægt að fá annars staðar: rostungsafurðirnar, skinn, tennur og lýsi. Áður höfðu þessar afurðir verið fluttar inn frá Bjarmalandi í norðri og austri, en kannske voru þær að verða uppurnar þar, allavega réð Haraldur hárfagri nú yfir siglingaleiðinni og lagði á drjúga tolla. Ríki Geirmundar byggðist því ekki á landbúnaði, nema þá sem aukabúgrein, það var umfangsmikil veiðistöð og útflutningsmiðstöð á alþjóðlegan mælikvarða með mikinn fjölda þræla, ambátta, ármanna og lífvarða forstjórans, svo og – samkvæmt kenningu Bergsveins – nokkra Bjarma frá Síberíu sem voru kunnáttumenn við vinnsluna, og töluðu finnsk-úgrískt mál sem Geirmundur skildi reyndar (það var líka vissara), enda hálf-Bjarmi sjálfur. Þessu mikla veldi lauk svo með dauða Geirmundar, enda var auðlindin þá líka að verða uppurin vegna ofveiði, rostungurinn að hverfa.

Líklegt er að menn eigi eftir að ræða þessar kenningar og verði ekki allir sammála. Einhverjir benda kannske á að sums staðar fer Bergsveinn út í ystu bjargbrún í sinni „röksögu“, jafnvel út fyrir hana á stað þar sem hann hefur ekki aðra graðhvönn að halda sér í en þjóðsögu og örnefni frá síðari öldum; aðrir kunna að setja spurningamerki við trú hans á sannleiksgildi ýmissa miðaldarita, jafnvel fornaldarsagna, en það gengur þvert á það sem lengi hefur verið ríkjandi skoðun; „they are lies!“ heyrði ég einu sinni af vörum ensks fræðimanns sem var starfandi í Noregi, og var hann þá að tala um konungasögur. En víst er að þessi nýja mynd af fyrstu sögu Íslands er harla áhugaverð og kemur vonandi af stað nýjum rannsóknum, fornleifagrefti á slóðum þar sem aldrei hefur verið grafið, og bollaleggingum um það sem var að gerast annars staðar á landinu meðan Geirmundur var við sitt bardús á Vestfjörðum.

Einar Már Jónsson