Þeir eru orðnir svolítið grárri um höfuðið strákarnir í Með fulla vasa af grjóti en þeir hafa sannarlega engu gleymt og reynast eiginlega alveg eins fimir og kraftmiklir og áður. Þjóðleikhúsið tekur nú upp í þriðja sinn þessa feiknalega vinsælu sýningu á verki Marie Jones um tvo lánlitla pilta í írsku sveitaþorpi og „kvikmyndaævintýri“ þeirra; leikstjórinn er sá sami, Ian McElhinney, þýðingin er Guðna Kolbeinssonar sem fyrr, Elín Edda Árnadóttir sér um leikmynd og búninga og Ásmundur Karlsson um ljósin. En fyrst og síðast eru það Hilmir Snær Guðnason og Stefán Karl Stefánsson sem leika þá Charlie og Jake og allar persónurnar sem þeir þurfa að skipta við. Hlutverk Stefáns eru sjö alls en Hilmis átta!

Með fulla vasa af grjótiFrá borg kvikmyndanna, sjálfri Hollywood, er komið fjölmennt tökulið til írska sveitaþorpsins og í broddi fylkingar er stórstjarnan Caroline Giovanni (Hilmir Snær). Hún á að leika dóttur aðalmanns sem verður ástfangin af leiguliða föður síns og frelsar að lokum allt fátæka fólkið undan oki kúgunar. Caroline finnst sinn ameríski framburður stinga í stúf við umhverfið og reynir að fá heimamanninn og statistann Jake (Stefán Karl) til að kenna sér að segja hlutina rétt. Jake ímyndar sér að hún hafi allt annað í huga þegar hún býður honum í kaffi og bregst ekkert sérlega vel við þegar hann áttar sig. Enda öfundar hinn kynsvelti Charlie (Hilmir Snær) hann svo mikið af áhuga stjörnunnar að það er erfitt að þurfa að játa hið sanna.

Annar helsti þráður verksins er sagan af frænda Jakes, Sean Harkin (Stefán Karl), sem langar líka að verða statisti í bíómyndinni en hann er undir áhrifum vímuefna þegar hann nálgast kvikmyndafólkið og er rekinn burt. Það tekur hann svo bókstaflega að hann drekkir sér. Aðalátökin verða þegar allir statistarnir vilja fá frí til að vera við útför Seans en hana ber einmitt upp á síðasta tökudag kvikmyndarinnar. Þá verður forgangsröðin vandamál – heimasveitin eða Hollywood.

Ég veit að það er elsta klisja leikgagnrýninnar en það verður að segja eins og er að þeir Hilmir og Stefán fara á kostum. Þeir snúa sér í hálfhring og þá verður Charlie að Caroline (svolítið þroskaðri en 2001 en alveg jafn fallegri) eða Jake að hinni fleðulegu Aisling þriðja aðstoðarleikstjóra, Hilmir skýtur rassinum út og verður hálftröllið Jock öryggisvörður, Stefán hnýtir á sig hnút og verður Mickey gamli sem einn lifir allra statistanna í fyrstu og frægustu bíómyndinni sem tekin var í þorpinu. Þeir leika meira að segja börn. Þeir spila á salinn meira en ég minnist úr fyrri uppfærslum en það tókst að sjálfsögðu vel, og svo dansa þeir írska þjóðdansa svo maður helst varla við í sætinu sínu.

Þetta er sem sagt prýðileg skemmtun. Dálítið löng í endann – eins og höfundurinn hafi ekki tímt að hætta – en hvenær fær maður nóg af svona snillingum á sviði? Halldóra Friðjónsdóttir vissi ekki hvað hún hafði rétt fyrir sér þegar hún sagði um þá í DV í ársbyrjun 2002: „… þeir eiga stórleik í þessari sýningu sem á eflaust eftir að vera lengi á fjölum Þjóðleikhússins.“

Silja Aðalsteinsdóttir