RagnheiðurÞað var söguleg stund í gærkvöldi í margra huga þegar fagnað var innilega í fullum Eldborgarsal Hörpu frumsýningu íslenskrar óperu í fullri lengd um sögulegt íslenskt efni. Söngvurunum í Ragnheiði var tekið með kostum og kynjum í uppklappinu, einkum Elmari Gilbertssyni sem söng hlutverk Daða Halldórssonar, Þóru Einarsdóttur sem söng titilhlutverkið og Viðari Gunnarssyni sem söng Brynjólf biskup Sveinsson. En svo ætlaði þakið hreinlega af húsinu og allir stóðu á fætur sem einn maður, æpandi og klappandi, þegar höfundarnir gengu fram á sviðið, líbrettuskáldið Friðrik Erlingsson og þó fyrst og fremst gamli elskaði popparinn Gunnar Þórðarson sem hefur glatt okkur með lögum sínum og hljóðfæraleik í hálfa öld. Það má mikið vera ef í heiminum öllum finnst dægurtónlistarmaður sem nær eins stórkostlegum hápunkti á feril sinn og Gunnar náði í gærkvöldi.

„Þessi stórkostlega heimilisólukka Brynjólfs biskups er engum skiljanleg nema okkur Íslendingum, sem höfum búið hana til, varðveitt hana í hjörtum okkar og grátið yfir henni í hartnær 300 ár,“ segir Steinn Steinarr í útvarpskrítík í Alþýðublaðinu fyrir nærri sextíu árum. Þetta er ekki alveg rétt hjá honum. „Heimilisólukkan“ í Skálholti hefur svo djúpar rætur í sögu mannkynsins og menningu, siðfræði og trúarbrögðum, að hún á erindi við alla á öllum tímum, enda hefur skáldsaga Guðmundar Kamban um hana farið víða, eins og Sveinn Einarsson rekur í nýrri ævisögu Kambans. Það má mikið vera ef grimm örlög Ragnheiðar biskupsdóttur, sem stórlæti föður hennar á sök á og hann geldur með hamingju sinni, eiga ekki stóran þátt í því hvað Íslendingar eru flestir tiltölulega umburðarlynt fólk gagnvart því sem venja er að telja syndir. Og enn grétum við í gærkvöldi yfir stúlkunni sem er látin sverja sig hreina og enn látin sverja í blóðböndum til að friða föður sinn, geistlegt yfirvald landsins, fullnægja metnaði hans og hafna um leið barni sínu. Það varð hennar bani. Kannski eru andstæð kvenleg og karllæg gildi hvergi eins skýr og átakanleg í allri sögu okkar.

Á mörgu í þessari sögu á maður bágt með að átta sig nú á tímum. Daði er eftirlæti biskups, sonur æskuvinar hans. Af hverju biður hann ekki Ragnheiðar og lætur reyna á ákvörðun biskups að gefa hana manni af betri ættum? Hefði biskup ekki valið hamingju dóttur sinnar ef hann hefði staðið frammi fyrir einarðri ákvörðun og ást hennar? Var Daði drusla sem óttaðist/elskaði biskupinn meira en hann þráði og unni Ragnheiði? Sennilegasta raunverulega ástæðan var enn önnur en hún er ekki með í texta óperunnar; Daði var nefnilega þegar sekur um barneignarbrot þegar Ragnheiður fékk ást á honum, þess vegna hefði hann varla komið til greina sem tengdasonur biskups. Alltént er brot Ragnheiðar ekki annað en það að eignast barn utan hjónabands og við erum svo gæfusöm að þurfa ekki að hafa áhyggjur af því lengur – ekki hér á landi. Það sama á því miður ekki við á ýmsum öðrum stöðum í heiminum.

Ragnheiður

Texti Friðriks var skýr og kom sögunni vel til skila. Marga söngvarana var gott að skilja en ef maður nær ekki orðaskilum eru textaborðar yfir sviðinu báðum megin. En það þarf að hlusta aftur og meira á tónlistina til að meta hana almennilega. Víst er þó að hún er afar áheyrileg og oft undurfalleg. Þar bera af einsöngsaríur Ragnheiðar sem Þóra söng af listrænum innileika og gaf sig alla í. Einstökum tilfinningaþrungnum hæðum náði hún í átakasenunum undir lokin þar sem mest reynir á hana bæði í söng og leik. Senur þeirra Elmars saman voru fallegar, enda er Elmar verulega glæsilegur söngvari, bæði útlitið og röddin. Senur Þóru með Viðari voru sömuleiðis áhrifamiklar en bestur var Viðar í lokin þegar hann syrgir alla sem horfnir eru frá honum, enda hefur hann þá misst allt sem manni er kært, umfram allt dóttur sína sem hann unni heitt þrátt fyrir allt, og dótturson sinn og augastein. Ég hygg að ekki hafi verið þurrt afa- eða ömmuauga í salnum í þeirri senu.

Friðrik gerir hlut Sigurðar dómkirkjuprests stóran í harmleiknum í Skálholti. Hann á sjálfur í óleyfilegu ástarsambandi við vinnukonu á staðnum og ætlar að láta ímyndað brot Ragnheiðar milda eigin sök. Þau Sigurður og Ingibjörg voru sungin af Jóhanni Smára Sævarssyni og Guðrúnu Jóhönnu Ólafsdóttur og gerðu hlutverkum sínum prýðileg skil. Sama er að segja um söngvara í smærri en þó mikilvægum hlutverkum. Bergþór Pálsson var óvæntur en eftirminnilegur Hallgrímur Pétursson og nýtt lag við Allt eins og blómstrið eina fannst mér dásamlegt í flutningi hans. Elsa Waage var sköruleg Helga húsfreyja í Bræðratungu, það sópaði líka að Ágústi Ólafssyni í hlutverki Torfa prófasts sem tekur eiðinn af Ragnheiði og Björn Ingiberg Jónsson setti skemmtilegan svip á Þórð Þorláksson biskupsefni.

Kórinn fannst mér sérstaklega góður enda til mikils ætlast af honum í þessari óperu. Hann eykur bæði dramatíkina á hápunktum verksins og kætir okkur óvænt eins og í senunni í Bræðratungu þegar vinnukonurnar ræða snúðugar saman um gróteskar flíkur sem maddaman vill að þær gangi í til að leyna því að einn heimilismaður á von á barni. Allur leikurinn, í stórum sem smáum hlutverkum, bar leikstjóranum, Stefáni Baldurssyni, fagurt vitni. Og ekki þarf að spyrja að hljómsveitinni undir stjórn Petri Sakari. Það er mikil gæfa fyrir debútantana í óperusmíði, Friðrik og Gunnar, að fá slíka meistara til að fullkomna verkið. Þórunn Sigríður Þorgrímsdóttir bar ábyrgð á ótölulegum fjölda búninga sem voru fjölbreyttir og afar vel við hæfi og leikmynd Gretars Reynissonar var einföld, stílhrein og falleg – hafi verið hætta á að verkið yrði væmið dró leikmyndin markvisst úr henni. Lýsing Páls Ragnarssonar ýtti á sama hátt markvisst undir dramatíkina. Allt í allt: Hin ánægjulegasta upplifun.

Silja Aðalsteinsdóttir