GosiÞað voru sumarjól hjá félögum mínum Arnmundi og Aðalsteini (sem saman mynda Leikhópinn Lax) þegar Leikhópurinn Lotta frumsýndi sína tólftu sýningu í Ævintýraskóginum í Elliðaárdalnum í gær. Undir voru sögurnar um Gosa spýtustrák, Óskirnar þrjár og Rapunzel eða Garðabrúðu – sem í verki leikhópsins heitir bara Ósk og er alls ótengd grænmeti. Lotta lofaði góðu veðri og þrátt fyrir nokkrar efasemdir um skeið reyndist hún hafa rétt fyrir sér. Hann hékk þurr og meira en það: sólin gægðist hvað eftir annað fram undan skýjunum og hitaði bakið á áhorfendaskaranum sem þjappaði sér saman á teppum og dýnum á grasinu.

Í Ævintýraskóginum býr Jakob smiður (Sigsteinn Sigurbergsson) með spýtustráknum Gosa sem hann smíðaði fyrir tíu árum. Hann er sniðugur búktalari og leikur sér að því að tala fyrir þá báða „feðga“, krökkunum í kring til undrunar og skemmtunar. Hamingja hans verður mikil þegar góða nornin (Thelma Hrönn Sigurdórsdóttir) blæs lífi í brúðuna og Gosi verður – ja, ekki alveg eins og venjulegur strákur en getur þó gengið, hoppað og talað (Stefán Benedikt Vilhelmsson). Það kemur í ljós þegar á reynir að Gosi á dálítið erfitt með sannleikann, honum hættir til að skrökva þegar hann lendir í vanda, en þá gerist nokkuð furðulegt: nefið á honum lengist – og æ meir eftir því sem hann lýgur meira! Það var mikið undur að sjá nefið lengjast og snilldarlega gert.

Þá hverfum við tíu ár til baka þegar Jakob var giftur Eddu (Huld Óskarsdóttir) og var nýbúinn að smíða brúðuna Gosa af því þeim hjónum hafði ekki orðið barna auðið. Þá kemur til þeirra vonda nornin (Thelma Hrönn Sigurdórsdóttir) og býðst til að veita þeim þrjár óskir í staðinn fyrir „kökuna“ sem Edda er með „í ofninum“. Edda veslingurinn skilur ekki dulmálið enda veit hún ekki að hún er ólétt og játar beiðninni. Óskunum þrem klúðra þau hjón illilega og neyðast svo til að láta nornina hafa dóttur sína um leið og hún fæðist. Það varð mikil sorg og Edda yfirgaf Jakob sinn en Ósk litla ólst upp í háum turni hjá norninni sem notar hárið á henni til að klifra upp í turninn til hennar. Það er svo Gosi sem sameinar fjölskylduna á ný og má fullyrða að það hafi verið kominn tími til að ævintýrið um Rapunzel endaði vel. Það byltingarkennda í nýja ævintýrinu er að á endanum er Gosi hvattur áfram við lygina því nefið á honum er það eina sem getur bjargað Ósk úr prísundinni! Enda vill hann ekkert verða venjulegur þegar honum býðst það.

Önnu Bergljótu Thorarensen hefur sjaldan tekist betur að flétta saman sögur og búa til splunkunýtt ævintýri úr brotunum. Reyndar stafar það kannski af því að ævintýrin fá hvert fyrir sig að njóta sín nánast í heilu lagi – þó er dregið mjög úr hryllingnum sem þau hafa öll sinn skammt af, auk þess sem snúið er upp á nefið hans Gosa eins og áður gat. Leikurinn er lifandi og tónlistin fjörug að venju, lögin eru eftir Baldur Ragnarsson, Rósu Ásgeirsdóttur og Björn Thorarensen sem líka var sögumaður í verkinu. Söngtextarnir voru eftir Baldur, Stefán Benedikt og Önnu Bergljótu sem líka leikstýrir. Brúðuna Gosa gerðu Andrea Ösp Karlsdóttir og Kristína R. Berman en gosanefið merkilega er sköpunarverk Elínar Sigríðar Gísladóttur og Móeiðar Helgadóttur. Leikmyndahönnunin var í höndum Sigsteins.

Börn úti um allt land eiga von á góðri heimsókn í sumar eins og sjá má nánar á heimasíðu Leikhópsins Lottu og á miðvikudögum verða þau í Elliðaárdalnum. Góða skemmtun!

-Silja Aðalsteinsdóttir