Það er ekki dregið úr því í sýningu Leikfélags Reykjavíkur á Línu Langsokk, sem var frumsýnd á stóra sviði Borgarleikhússins í gær, hvað Lína er ósvífin stúlka. Og fer ákaflega vel á því að láta Ágústu Evu Erlendsdóttur leika hana því allir muna ennþá hvernig hún kom eins og sprengja inn í íslenskan samtíma sem Silvía Nótt – alla vega eins og ótal stórar hvellhettur.

Lína langsokkurLína hefur líklega öðlast allmiklu lengra líf en skapara hennar hefur dottið í hug þegar hún sagði veikri dóttur sinni sögurnar af henni fyrir meira en sjötíu árum. Það er eitthvað algerlega heillandi við þennan karakter, barnið sem gengur þvert á allar hugmyndir um barn: Hún er sterkari en aflraunamaður, ríkari en nokkur bankastjóri, óskóluð og gersamlega ósiðuð en kann þó lífsleikni upp á sína tíu fingur og sýnir yfirvöldum í tvo heimana algerlega án hroka eða gremju.

Til að við sjáum Línu í réttu ljósi setur Astrid Lindgren við hlið hennar venjulegu börnin Tomma og Önnu (Sigurður Þór Óskarsson og Kristín Þóra Haraldsdóttir) sem lesendur/áhorfendur geta tengt sig við og notið með þeim uppreisnarinnar sem felst í því að þekkja Línu og elska hana. Með þau sem áhorfendur og að hluta þátttakendur fer Lína í kaffiboð til móður þeirra (Unnur Ösp Stefánsdóttir), sigrar sterkasta mann í heimi (Björn Stefánsson), sækir tíma í bekknum hjá elskulegu kennslukonunni (Katla Margrét Þorgeirsdóttir), færist fimlega undan tilraunum frú Prússólín barnaverndarkonu (Maríanna Clara Lúthersdóttir) og vörðum laga og réttar (Halldór Gylfason og Valur Freyr Einarsson) til að koma henni annaðhvort á barnaheimili eða gott einkaheimili (frúarinnar sjálfrar!) þar sem hægt er að kenna henni mannasiði. Hún bjargar barni úr brennandi húsi og fagnar föður sínum Langsokk skipstjóra (Örn Árnason) þegar hann kemur með alla sína sjóræningja til að sækja hana. En hún er alein heima með Níels apa (Gríma Valsdóttir /Mikael K. Guðmundsson), enda hánótt, þegar hún fær heimsókn frá þjófunum Glámi og Glúmi (Hjörtur Jóhann Jónsson og Orri Huginn Ágústsson). Hún er nú ekki lengi að snúa þá niður.

Í þessum atriðum er Lína gífurlega hress en við erum líka minnt á að hún er einmana barn sem saknar foreldra sinna, móðurinnar á himnum (Unnur Birna Björnsdóttir) og pabba skipstjóra. Þó velur hún að vera kyrr hjá Tomma og Önnu í lokin. Kannski finnur hún að þau hafa meiri þörf fyrir hana og lífsgildin sem hún stendur fyrir en harðfullorðnir sjóarar.

Sýningin er geysilega litrík og fjörug eins og vera ber. Ilmur Stefánsdóttir, María Th. Ólafsdóttir og Árdís Bjarnþórsdóttir sjá um svið, búninga og leikgervi og eru alveg í takt eins og einn hugur. Margar lausnir eru snilldarllegar, til dæmis gervið á apanum, górillunni (Karl Olgeirsson) en þó einkum á hesti Línu sem Magnús Guðmundsson leikur. Hann fannst sex ára félaga mínum bestur. Mörg atriðin eru geysivel heppnuð. Best þótti félaga mínum atriðið þegar Lína bjargar barni úr brennandi húsi en mér fannst skemmtilegast þegar skip Langsokks skipstjóra siglir upp á svið og skipverjar hans dansa kátan dans með Línu.

Leikarar  eru allir með af lífi og sál og fremst meðal jafningja Ágústa Eva sjálf sem nýtur þess að búa til þessa makalausu persónu, svo óheflaða að það hálfa væri nóg en um leið svo hjartahlýja. Meðal annarra leikenda verður að nefna Maríönnu Clöru sem var lifandi skopmynd í hlutverki frú Prússólín og Örn Árnason sem er Langsokkur skipstjóri lifandi kominn. Fjölmörg börn taka þátt í sýningunni, einkum í þættinum sem gerist í skólanum, og lifandi hljómsveit situr uppi á bílpalli, ævinlega til taks þegar persónur bresta í söng. Þetta gefur sýningunni bæði líf og lit (ef eitthvað skyldi vanta upp á það).  Tónlistin er eftir Georg Riedel en tónlistarstjórn í höndum Stefáns Más Magnússonar. Þórarinn Eldjárn þýðir verkið sem nýtur þess. Það nýtur líka Ágústu Skúladóttur leikstjóra sem kann að skemmta áhorfendum.

Silja Aðalsteinsdóttir