Guðrún Eva Mínervudóttir. Englaryk.

JPV útgáfa, 2014.

Úr Tímariti Máls og menningar 2. hefti 2015

I

„Guð Abrahams, Guð Ísaks, Guð Jakobs, ekki heimspekinga og fræðimanna ,,gleði, gleði, gleði, gleðitár …“ það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.” Jesú Kristur, Jesú Kristur … Megi ég ekki hverfa frá honum að eilífu. … Ég mun ekki gleyma orði þínu. Amen“
Blaise Pascal 23. nóvember 1654

EnglarykPersónuleg upplifun af guðdómnum er vandræðamál. Þó helgirit kristinna manna hverfist kringum nákvæmlega slíka atburði þá er erindi kirkjunnar og trúarbragðanna fyrst og fremst við fólk sem á enga slíka reynslu í bankanum. Þetta skildi Pascal til dæmis vel, og þó hann gengi með miða með fyrstu viðbrögðum eftir sína opinberun saumaða í fötin sín upp frá því er hans helsta framlag til trúmála hið alræmda „veðmál“, sem á að færa þeim sem engu trúa skotheld hagkvæmnisrök fyrir því að reyna að minnsta kosti.

Persónulegir vitnisburðir auðvelda hinum kristnu sálnahirðum síðari alda ekki störf sín, öðru nær. Það er alveg ljóst af samskiptum sögumiðjustúlkunnar Ölmu í Englaryki við prestinn í bænum. Reyndar er ein af hinum fjölmörgu bókum sem hægt er að hugsa sér að Guðrún Eva Mínervudóttir hefði getað skrifað í stað þeirrar sem hún í raun skrifaði einmitt bók um þennan prest. Glímu hans við trú sína og efasemdir, verkefni í heiminum og stöðu í lífi og starfi í ljósi vitnisburðar fermingarstelpunnar sem hitti Jesú í sumarfríi fjölskyldunnar á Spáni sumarið áður. Já og kannski glímu hans við Bakkus. Þessi saga hefði ekkert endilega farið vel. En það fáum við auðvitað aldrei að vita.

Annar hópur sem trúarreynsla fólks kemur í uppnám eru auðvitað hinir trúlausu. Vitnisburður frá fyrstu hendi um raunveruleika þess sem trúin segir frá skekur heimsmynd þeirra sem eru opnir fyrir möguleikanum á sanngildi trúarritanna (sem kallaðir eru „agnostic“ á ensku), en flestir eru samt seinþreyttir til þeirra vandræða sem umbylting heimsmyndar – hvað þá lífshátta – hefur í för með sér.

Mögulega komast hinir harðlínutrúlausu einna léttast frá málinu. Auðvelt er að skýra burt það sem gerðist með vísun í sálarlíf, bælingar, geðsjúkdóma, hormónaójafnvægi, rafspennubreytingar í heilanum. Það er eitthvað „að“ þeim sem sjá Guð. Sá eini í Englaryki sem tekur þessa afstöðu er reyndar fjarverandi, en fyrirferðarmikill engu að síður – franski sálfræðikennarinn Bernard Boulanger – mentor, ástmaður og (næstum) barnsfaðir Snæfríðar, sálfræðingsins sem fjölskylda Ölmu fær til að hjálpa sér í gegnum erfiðleikana sem leiðir af opinberun stúlkunnar. Bernard er líka faðir Péturs, pabba Ölmu.

Önnur bók sem Guðrún Eva hefði getað skrifað í stað Englaryks er æsilegt melódrama út frá þessum flóknu og snúnu þráðum milli fólksins og leyndarmálum þeim tengdum. Í þeirri bók væru Pétur og Snæfríður í forgrunni, sem og stúlkurnar tvær – Alma og sú sem ekki varð, fóstrið sem Snæfríður lét eyða áður en hún sagði Bernhard frá tilvist þess.

Langflestir sem við sögu koma fara hina troðnu slóð. Reyna að horfa framhjá, leiða hjá sér, útskýra mildilega burt þörfina til að taka afstöðu til upplifunar Ölmu. Hún er á þessum aldri, hún er næm og viðkvæm, Jesús er föðurímynd, vissulega betri en eiturlyf (er það ekki annars?) og hvað veit maður, kannski er eitthvað þarna úti. Kannski er tilgangur, kannski er ætlast til einhvers af okkur. Hver veit? Alma veit, en við skulum endilega ekki taka nema hæfilegt mark á henni. Hún er á þessum aldri.

Englaryk hefði auðveldlega getað orðið um þetta: Um viðbrögð ólíks fólks við hinu yfirskilvitlega. Um þýðingu og stöðu kristninnar í sinni ómenguðustu og óguðfræðilegustu mynd í lífi nútímaíslendinga. Í þeirri sögu hefði Alma eignast áhangendur og andstæðinga og sennilega snúist gegn báðum hópunum.

En það sem setur söguna af stað, það sem hrindir fjölskyldunni upp í bílinn og þessa 344 kílómetra frá Stykkishólmi til Reykjavíkur og heim aftur, aftur og aftur, á fund sálfræðings, er ekki það að hún hitti Jesú í hliðargötu í Cadiz, þar sem hún var villt og búin að týna símanum sínum og peningunum. Þó auðvitað sé það nógu erfitt fyrir þetta „venjulega“ fólk að eignast skyndilega bókstafs- og sanntrúaðan ungling.

Það sem reyndist þurfa til að velta fimm manna fjölskyldu upp á legubekk Snæfríðar voru fyrstu sporin sem Alma valdi að stíga í krafti kristninnar og vinfengisins við Jesú.

Ætli margir höfundar hefðu ekki kosið að skrifa bókina um það hvernig Alma fetar í fótspor meistarans? Aðdraganda þess og þýðingu að hún ákveður að sofa hjá einum af sínum minnstu skólabræðrum, hinu illa þefjandi og samskiptahefta eineltisfórnarlambi Jóni Stefáni, og tilkynna um meydómsmissinn á samskiptasíðu skólans. Um sálarstríðið á undan, bænirnar um að þessi kaleikur verði frá henni tekinn, útskúfunina á eftir og svo leitina að hinu góða sem af „fórninni“ verður að leiða til að hún hafi merkingu. Þessi bók hefði svo sannarlega verið í góðum félagsskap, allt aftur til Abrahams og Ísaks, um Kierkegaard, í hesthúsið hjá Peter Shaffer í „Equus“, alla leið á maísakurinn hans Kevins Costner í „Field of Dreams“. Ef það er eitthvað sem við trúum ekki er það nefnilega þetta með að vegir Guðs séu órannsakanlegir.

Sennilega hefði engum verið betur treystandi fyrir þessu söguefni en einmitt Guðrúnu Evu Mínervudóttur, þeim langskólaða, óttalausa og nákvæma landkönnuði útjaðranna.

Enga þessara bóka skrifaði hún samt, þó angar af henni sjáist hér og þar. Nú er það ósiður lesanda og dauðasynd gagnrýnanda að fjalla heldur um verkin sem heldur hefði átt að skapa en það sem fyrir liggur. Svo við skulum opna
Englaryk og skoða hvað skrifað stendur.

II

„Einn daginn, úti í móa, fylltist ég af guði og losnaði ekki við hann aftur fyrr en mörgum árum seinna, ef ég losnaði þá
nokkurn tímann alveg við hann.“
Albúm (2002)

„Öllum stórum guðsgjöfum fylgir lítil bölvun frá andskotanum.“
Fyrirlestur um hamingjuna (2000)

Í Stykkishólmi, friðsælum ríflega þúsund manna bæ á Snæfellsnesi, býr fimm manna fjölskylda. Hjónin Jórunn og Pétur, með börnum sínum Ölmu og Antoni, og Sigurbjarti, syni Jórunnar úr fyrra sambandi. Hún er handavinnukennari
en Pétur rekur gistiheimili og veitingastað. Þau komast þokkalega af þó reksturinn sé í járnum og hjónin njóta starfa sinna.

Fjölskyldan er samhent og samheldin. Kannski er tilfinningaspennustigið hærra en í meðallagi, sem staðalmyndirnar í kolli manns (og vísbendingar í textanum), rekja til hins hálffranska blóðs Péturs. Kannski var það líka það sem stýrði för þegar hann fór blindfullur af þorrablóti nokkru áður en sagan gerist og átti kynlífsfund með ókunnugri konu. Þó að sárin sem þetta atvik skilur eftir sig séu ekki gróin virðist manni grunnurinn í sambandinu og fjölskyldulífinu traustur. Og Pétur er vissulega ekki sá eini í þessu hjónabandi með skap sem stundum hleypur með eiganda þess í gönur. Ég held að margir væru til í að vera þau Jórunn og Pétur.

Börnin sækja líka skjól hvert til annars og til heimilisins. Anton litli er viðkvæmur og á pínu erfitt með að staðsetja sig í jafnaldrahópnum, fellur milli skips og bryggju í virðingarstiga bekkjarins, en kann að standa með sjálfum sér þó það kosti. Sigurbjartur á til gáfnahroka og er svolítill einfari, ekki síst núna þegar hann er að búa sig undir stökkið út í heiminn, sem hann er meðvitaður um að er endanlegt. Hann á samt líka til skjól fyrir yngri krakkana. Ég held að mörg systkini væru til í að vera Sigurbjartur, Alma og Anton.

Því að undanskildum afleiðingum stefnumótsins í Cadiz er Alma alveg venjuleg stúlka. Reyndar sérlega vel lukkuð venjuleg stúlka. Hún er klár, hún er meðvituð, hún á nánar vinkonur og getur talað við foreldra sína opinskátt og einlæglega, og þau við hana. Hún á meira að segja samsvarandi trúnaðarsamband við hinn sérlundaða stóra hálfbróður sinn, sem fær vitsmunalegan áhuga á trúarreynslunni og grúskar fram allskyns trúartengt efni á Internetinu til að mata hana á og stuða. Alma er jarðtengd, og henni er ljóst að það er ekki síður mikilvægt en að vera guðtengd. Þegar Snæfríður segir við hana, í síðasta sálfræðitímanum á síðustu blaðsíðu sögunnar, á sérlega ófaglegan hátt: „Alma mín, ég get ekki lýst því hvað mér þykir leitt að eiga kannski aldrei eftir að sjá þig aftur“ (259) þá skiljum við hana vel, og tökum undir með henni.

Vitaskuld setur vitrun Ölmu svip sinn á persónuna, og söguna auðvitað, þó Englaryk sé ekki UM vitrunina á sama hátt og þær óskrifuðu bækur sem lýst var að framan. Það er breytt stúlka sem kemur heim frá Cadiz. Hún segist t.d. sjá fegurð í öllu, elska allt og alla, og talar frjálslega og óhikað um upplifun sína. Minnst af þessum predikunum hafa ratað í textann. Plássfrekust eru samskipti Ölmu við prestinn, en þar hefur hann að mestu orðið. Við fréttum samt af þessu og finnum fyrir óþægindunum sem þetta skapar hennar nánustu og úti í samfélaginu.

Tvær veigamiklar ákvarðanir tekur Alma í ljósi Krists. Hún sefur hjá Jóni Stefáni og hún skýtur skjólshúsi yfir drykkjurútinn Snæbjörn þar sem hann er um það bil að verða úti, klæðlítill og ofurölvi, en hann hafði áður gert aðsúg að stúlkunni í viðlíka ástandi og virtist þá til alls ills vís. Hvorug þessara ákvarðana verður í raun stórkostlega afdrifarík. Snæbjörn einfaldlega sofnar og þó uppnámið í fjölskyldunni, skólanum og þorpinu öllu yfir því fyrrnefnda skipti máli í sögunni þá verður það aldrei að þeirri stóru þungamiðju eða harmræna hreyfiafli sem lesandann, og mögulega foreldra Ölmu, grunar fyrirfram. Enda finnst manni fáar fermingarstúlkur geti verið betur undir þetta búnar en einmitt hún, burtséð frá hinum trausta ósýnilega vini.

Öll þessi fjölskylduhjörð fær sitt pláss í sögunni og athygli hins alvitra sögumanns. Við skyggnumst inn til þeirra allra. Það sama gildir um sálfræðinginn Snæfríði, sem segja má að standi á jaðri fjölskyldunnar. Fljótlega kemur í ljós að samband hennar við Bernharð, föður Péturs, var annað og nánara en að hafa einungis verið námsmær með stjörnur í augum yfir visku og lærdómi prófessorsins, Sjálf hefur hún kosið barnleysi og einlífi og kynnin af fjölskyldu hins gamla ástmanns hreyfa við henni á ýmsan hátt.

Og fáum líka að fylgjast með fólkinu í kringum þau. Vinnu- og leikfélögum, hótelgestum og öðrum, sem gefa tilfinningu fyrir lífsháttum og stemmingu sem ríkir í smábæ af þessu tagi. Hvernig er að búa þar og hvernig er að takast á við áföll þar. Sú lýsing tekur ekki mikið pláss á síðunum 259 en er alltaf sannfærandi og aldrei klisjuborin.

III

Hann horfði lengi á mig og mér fannst eins og hann væri að reyna að sjá hvernig mér leið svo ég gerði mig ennþá glaðlegri í framan.
Á meðan hann horfir á þig ertu María mey (1998)

Englaryk er fjölskyldusaga. Þó Alma fái eðlilega mesta rýmið fá allir sitt pláss hér, á sama hátt og allir fá sína prívatstund hjá Snæfríði. Nema reyndar einfarinn Sigurbjartur. En á móti kemur að lesandinn fær tvö ákaflega falleg einrúmsatriði með honum.

Eftir fyrsta lestur Englaryks var það sem stóð sterkast eftir hjá þessum lesanda ein og hálf blaðsíða þar sem Sigurbjartur tekur utan af jólagjöf frá pabba sínum, sem hann þekkir sama og ekkert. Í einrúmi í herberginu sínu. Alveg látlaus lýsing, og löngu föst venja, fáum við að vita. Samt eitthvað svo fallega angurvært. Fyrir vikið verður hálfu meira áfall þegar Snæbjörn deyr brennivínsdauða á þessum sama prívatstað.

Og hin vel heppnaða sveindómssvipting Sigurbjarts – og lærdómar hans af henni – er annar hápunktur Englaryks.

Þetta eru ekki alltaf fyrirferðarmiklar myndir sem við fáum af fólkinu. Anton litli fær ekki mikið pláss, en við vitum að kannski hafa uppátæki systur hans einna mest áhrif á hans félagslíf. Því er eftirminnilega lýst þar sem við fylgjum Antoni eftir á jólatrésskemmtun bæjarins þar sem hann býður helstu bekkjartöffurunum birginn, þeim sömu og voru næstum tilbúnir að samþykkja hann í sinn hóp. Við getum alveg leyft okkur að finna brjóstkassann „lyftast af sjálfsdáðum“ eins og Anton upplifir þegar Snæfríður hrósar honum fyrir hugrekkið.

Og njóta þess að fylgjast með opnun jólapakkanna með honum, þar sem athyglin er fyrst og síðast á því hvernig hinir upplifa gjafirnar frá honum.

Lítill krakki að föndra jólagjafir handa fjölskyldunni. Unglingsstelpa í sundi með vinkonu sinni. Strákur á barmi fullorðinsáranna að sofa hjá í fyrsta sinn. Hjón að gera upp framhjáhald. Drukkinn prestur. Skólaleikrit. Og einhversstaðar skammt undan: Kristur.

Þetta ætti auðvitað að vera frekar leiðinlegt. Allt þetta vel gerða fólk að glíma meira og minna farsællega við tiltölulega viðráðanleg vandamál. En er það ekki. Vegna þess að vegakort Guðrúnar Evu er vegakort tilfinninganna, og þetta fólk er tilfinningalega sprelllifandi.

Hér er Alma með Antoni:

Anton lauk við eggin og tómatsósuna.
Takk fyrir mig, sagði hann, svo feimnislega að Alma fann sjaldgæfa ástina til hans smjúga eins og geislasverð í gegnum hjartað. (144)

Hér er Pétur hjá Snæfríði:

Viðmót hans var ekki annað en gisin gaddavírsgirðing utan um heilt tún af tilfinningasemi (8)

Alma með Sigurbjarti:

Sárindin og vonleysið þrengdu að öndunarvegi hennar innan frá, eins og hálsbólga. (73)

Og Sigurbjartur sjálfur:

Það fauk í hann en það gerðist svo sjaldan að hann vissi varla hvaða tilfinning það var; þessi málmkenndi, storknandi hiti sem vall um brjóst og höfuð. (114)

Þessi líkamlega, manni liggur við að segja lífeðlisfræðilega, nálgun á tilfinningalíf persónanna færir lesandann inn til þeirra, inn í þær. Þá skiptir engu þó þær séu svona venjulegar, svona lítið ómögulegt fólk, jafnvel á mörkum þess að vera í frásögu færandi. Það er í krafti þessarar nándar sem þessi látlausa hversdagssaga með yfirnáttúrulegum yfirtónum neitar að yfirgefa huga lesandans.

Í kaupbæti fær maður síðan allar hinar bækurnar sem Cadiz-heimsókn Krists hefði getað kveikt og nært.

Hvorki Guð né Höfundurinn sitja nefnilega einir að sköpunarkraftinum.

Þorgeir Tryggvason