The BorderÞeir sem hafa saknað Ívars Arnar Sverrissonar af íslensku leiksviði ættu að grípa tækifærið í vikunni og sjá sýningarnar tvær sem norski leikhópurinn hans sýnir nú í Tjarnarbíó. Við sáum aðra þeirra í gærkvöldi, dansleiksýninguna The Border, þar sem Ida Holten Worsøe leikur á móti Ívari Erni en höfundur, hönnuður leikmyndar, leikstjóri og danshöfundur er Jo Strømgren, stofnandi og stjórnandi leikhópsins.

Til hliðar á sviðinu er lítil skrifstofa, innréttuð eins og hún væri frá því upp úr miðri 20. öld. Hérna megin við skilrúm er skrifborð með ritvél, síma og lampa og hillum að baki. Þar ræður karlmaður ríkjum (Ívar Örn). Hinum megin við skilrúmið er greinilega líka skrifborð með öllu sem við á, þar situr stúlka (Ida) sem á erfitt með að láta karlinn alveg í friði. Hún gægist yfir skilrúmið, brosir og gerir sig til, rótar í dótinu hans þegar hann bregður sér frá, setur meira að segja aðskotahlut inn í símtólið hans. Karlinn giskar auðvitað á hvað hún hefur gert, hann æsir sig og hún á móti og við og við takast þau á í dansi á spennandi mörkum erótísks nútímadans og áfloga. Þetta er fallegt og skemmtilegt en um leið finnum við undirliggjandi spennu.

Þessi lýsing gefur í skyn að verkið sé um togstreitu milli kynjanna en tvennt er ónefnt sem segir að það sé í rauninni um togstreitu milli ríkja – landamæraerjur – og þá milli Norðmanna og Rússa. Annars vegar er landakort í bakvegg sem sýnir landamærasvæði þessara ríkja og hins vegar talar karlinn norsku, þá sjaldan að hann opnar munninn, og mál stúlkunnar hljómar eins og rússneska. Texti verksins er að öðru leyti frásögn á ensku og fluttur af þul á bandi.

Leikmunir og búningar minna á kaldastríðsárin, kannski til að draga úr ögrandi hlið verksins: Þetta er eitthvað sem nú er liðið. Þeim Ívari Erni og Idu gengur ágætlega að dansa í venjulegum klæðnaði skrifstofumanna frá sjötta áratugnum (hann er að vísu ekki með bindi) og það er sérstaklega gaman að horfa á Idu dansa sinn djarfa dans í elegant dragt, hnésíðu pilsi, blússu og jakka!

Ívar Örn hefur búið og starfað í Noregi undanfarin ár en hann lék m.a. Hamlet eftirminnilega vel í uppsetningu Sveins Einarssonar hjá LA fyrir rúmum áratug og hlaut tilnefningu til Grímuverðlauna fyrir frammistöðuna.

Silja Aðalsteinsdóttir