Leikritið Konan áður eftir Roland Schimmelpfennig sem Þjóðleikhúsið sýndi fyrir fjórum árum er mér minnisstætt þótt mörg hafi maður séð stykkin síðan. Bæði var efnið óvenjulegt (ástkona birtist úr fjarlægri fortíð og hermir loforð um eilífa ást upp á mann annarrar konu) og aðförin að því þannig að áhorfandinn þurfti sífellt að púsla saman og reikna út – hugsa, sem sagt – meðan á sýningunni stóð. Þannig verk gleymast síður en hin sem renna áreynslulaust í gegnum vitundina. Það sama á við um Gyllta drekann eftir Schimmelpfennig sem frumsýndur var á Nýja sviði Borgarleikhússins í gærkvöldi undir stjórn Kristínar Eysteinsdóttur; þar var heilinn líka látinn vinna stöðugt um leið og eyrun heyrðu og augun sáu.

Gyllti drekinnVið erum stödd í fjölbýlishúsi í stórborg. Á neðstu hæðinni er Gyllti drekinn, vinsælt taílensk- kínversk-víetnamskt veitingahús, m.a. sótt af flugfreyjunum tveim sem búa í blokkinni (Sigurður Skúlason og Halldór Gylfason). Meðan við fylgjumst með hryllilegum þjáningum aumingja litla Kínverjans með tannpínuna (Dóra Jóhannsdóttir) baka til á Gyllta drekanum æðum við líka fram í sal þar sem fólk er afgreitt með mat og upp og niður hæðir í blokkinni. Þar heimsækjum við meðal annarra afa gamla (Jörundur Ragnarsson), barnabarnið hans (Hanna María Karlsdóttir), kærastann hennar (Sigurður Skúlason), manninn í röndóttu skyrtunni (Dóra) sem dettur svakalega í það þegar konan hans í rauða kjólnum (Halldór) játar að hún elski annan mann og misþyrmir svo „engisprettunni“ (Jörundur) í afbrýðiæði heima hjá verslunarmanninum (Hanna María). „Engisprettan“ er líklega ung asísk vændiskona og ólöglegur innflytjandi eins og auminginn litli með tannpínuna.

Eins og þið sjáið undir eins þá er mikill kynusli í sýningunni. Ekki er nóg með að allir þátttakendur séu eins klæddir í þægilegar buxur og bol og ungt fólk leiki gamalt og gamalt ungt heldur leika karlar allt eins konur og konur karla. Svo er líka leikið sér með sögnina að leika því hér má heita að leikinn sé leiklestur. Ekki væri viðlit að skipta um svið í hvert skipti sem við förum af einni hæð á aðra eða úr eldhúsi Gyllta drekans fram í sal; þess í stað er sviðið afar órætt (Snorri Freyr Hilmarsson) og okkur bara sagt beinum og berum orðum hvert við förum og hvar við erum og hjá hverjum. Leikararnir „lesa“ jafnvel leiðbeiningar höfundar með hlutlausri rödd mitt í æstum leik („stutt þögn!“).

Schimmelpfennig segir í viðtali sem vitnað er til í leikskrá að markmið hans með þessari írónísku aðferð sé „ekki fjarlægð heldur þvert á móti: Nálægð. Samsömun.“ Hann er ekki að meina að við eigum að hafa samúð með þeim sem þjást, til þess hentar aðferðin illa, heldur vill hann að við, fólkið með forréttindin, hugsum um þá sem búa við órétt og gerum kannski eitthvað í málinu.

Sýningin var rosalega hröð og smart og bráðskemmtileg en ég er ekki frá því að vandi unga asíubúans sem er ólöglegur innflytjandi og getur þess vegna ekki farið til tannlæknis með sína skemmdu tönn hafi ýst út á jaðar í hraðanum. Og langa sagan um maurinn og engisprettuna fannst mér draga máttinn úr ofbeldinu sem engisprettan varð svo fyrir. Hitt er annað að það að láta ungan karlmann leika hana hafði sterkar vísanir sem skiluðu sér alveg.

Kannski þarf að stafa betur ofan í okkur hér á landi þann veruleika sem Roland Schimmelpfennig er að skrifa um í Gyllta drekanum. Athugulir Berlínarbúar eru sjálfsagt mun kunnugri lífsbaráttu ólöglegra innflytjenda en venjulegur Íslendingur. En sýningin er forvitnileg og þakkarvert að fá að sjá ný evrópsk stykki á íslensku sviði.

Silja Aðalsteinsdóttir