MávurinnÞað var sérkennilegt að koma heim úr leikhúsinu í gærkvöldi. Mér leið eins og ég hefði verið á sólarhrings djammi. Framan hefði verið tiltölulega venjulegt, svo hefði orðið uppbrot, smáskandall sem síðan hefði jafnað sig. Smám saman hefði drykkjan tekið yfirhöndina með tilheyrandi söng og dillandi skemmtun, hávaða, þreytu, ergelsi og átökum uns partýið fjaraði út í þunglyndi og örvæntingu.

Við vorum að sjá Mávinn eftir Anton Tsjékhov sem Yana Ross leikstýrir á stóra sviði Borgarleikhússins. Fyrirfram leist mér ekkert á lýsinguna á uppsetningunni í blaðaviðtölum. Hvaða vit var í því að flytja þetta ríflega aldargamla verk til Íslands nútímans? En eins og Baltasar Kormákur sýndi fram á um árið, einkum með kvikmyndinni Brúðgumanum, þá gerast leikrit Tsjékhovs á Íslandi okkar tíma. Ef gamaldags umhverfi er skipt út fyrir nýtt þá þarf lítið að gera í viðbót.

Hér er samt gert heilmargt í viðbót. Ingibjörg Haraldsdóttir þýddi leikritið upphaflega úr rússnesku. Kristín Eiríksdóttir, dóttir hennar, fór yfir þýðinguna. Síðan tók leikhópurinn við og bjó til sitt eigið leikrit þar sem verkið var staðfært og loks fór Eiríkur Örn Norðdahl yfir þá gerð, slípaði hana og snurfusaði. Út kemur texti sem á sviðinu hljómar eins og leikararnir hafi samið hann sjálfir – og jafnvel um sjálfa sig. Margar setningar og jafnvel heilu einræðurnar hljómuðu eins og þær kæmu beint frá hjarta leikarans. Það var býsna óvenjuleg og ánægjuleg upplifun.

Alltaf finnst mér erfitt að muna hvað gerist í leikritum Tsjékhovs af því að þar gerist eiginlega ekki neitt. Sögusviðið er sveit þar sem öllum leiðist af því að borgin togar í. Við þekkjum það þema. Svo elskar stúlka mann sem elskar aðra konu sem elskar annan mann og þó að úr þessi verði mikið spaug verða allir óskaplega óhamingjusamir að lokum. Hér er það stúlkan María (Þórunn Arna Kristjánsdóttir) sem elskar Konna (Björn Stefánsson). Konni er sonur leikkonunnar Írenu (Halldóra Geirharðsdóttir) og dýrkar móður sína en elskar líka kærustuna sína, hana Nínu (Þuríður Blær Jóhannsdóttir). Nína þráir að verða leikkona og veðrast upp þegar Írena kemur í sveitina, ekki síst af því að hún hefur ástmann sinn með, rithöfundinn BT (Björn Thors, persónan heitir Boris Trigorín hjá Tsjékhov) sem er gríðarlega frægur. Daður Nínu við þau skötuhjú hefur slæm áhrif allt um kring og ýmsar afleiðingar, meðal annars þær að María ákveður að giftast vonbiðli sínum Símoni (Hilmar Guðjónsson) þó að hún þoli hann alls ekki. Símon er svo hugfanginn af henni að hann er alsæll með jáyrðið. Brúðkaup þeirra er hápunktur djammsins og mikið og langt sjónarspil. Félagi minn var orðinn dálítið leiður á kareókinu í veislunni en sem gömul kareókidrottning skemmti ég mér dável allan tímann.

Þó að ástir ungmenna séu í miðju atburða er samband mæðgina viðkvæmara efni í verkinu. Írena vill halda áfram að vera ung og eftirsótt, bæði sem kona og leikkona, og þolir illa að eiga svona fullorðinn son. Helst vill hún geyma hann á afviknum stað. Hún hefur ekki sinnt Konna nógu mikið og sú vanræksla hefur illar afleiðingar. Hún vanrækir líka eldri bróður sinn, Pétur (Jóhann Sigurðarson), sem þó hefur reynt að vera Konna stoð í lífinu. Með í veislunni eru líka hinn ómissandi læknir, kvennabósinn Dóri (Hilmir Snær Guðnason) og Pálína (Katla Margrét Þorgeirsdóttir), ráðskona á sveitasetrinu og mamma Maríu. Tveim leikkonum enn bregður fyrir undir lokin, þeim Waraporn Chanse og Guðrúnu Snæfríði Gísladóttur.

Persónur Tsjékhovs urðu sprelllifandi í þessari uppsetningu. Svo makalaust fyndnar og harmþrungnar. Sjálfsupptekna leikkonan holdgerðist í Halldóru Geirharðsdóttur sem lék á allan tilfinningaskalann af list og nautn. Smeyk er ég um að margir í salnum hafi séð sjálfa sig í sundurtætta rithöfundinum BT. Björn Thors fór svo snilldarlega með langa einræðu hans að maður tók andköf og salurinn fagnaði. Þórunn Arna og Þuríður Blær bjuggu til tvær ólíkar en sannfærandi týpur og fengu dásamleg tækifæri til að sýna hvað þær geta, einkum Þórunn Arna sem er hörkuleikkona. Hilmir Snær fór létt með kvennaljómann sem heldur að allar konur girnist sig og Katla Margrét var raunalega iðin við að sanna það fyrir honum. Hilmar var leiðinlegi afleysingakennarinn hennar Maríu fram í fingurgóma og Jóhann fyllti upp í sviðsmyndina á sinn einstaka hátt í hlutverki Péturs. Bestur var svo kannski Björn Stefánsson í erfiðu hlutverki Konna. Hann átti samúð manns frá upphafi og um leið spratt upp löngunin til að skipta sér af honum, skamma hann og hvetja. En þó að til séu persónur í lífi Konna sem það gera af einlægni nægir það ekki því grunnstoðina vantar.

Áhorfendum ráðlegg ég að reyna að gleyma Tsjékhov meðan á sýningu stendur og eyða ekki tímanum í að hugsa um hvað af textanum standi nú hjá honum. Þetta er nútímaleikrit og dúndursýning. Rosalega fjörug fyndin og skemmtileg og löng og leiðinleg í dásamlegri blöndu – eins og gott helgardjamm. Eða bara lífið sjálft.

Silja Aðalsteinsdóttir