Auður Ava Ólafsdóttir: Ungfrú Ísland.

Benedikt 2018. 240 bls.

Úr Tímariti Máls og menningar 1. hefti 2019

Auður Ava Ólafsdóttir er á mikilli sigurgöngu þessa dagana. Síðan nýjasta skáldsaga hennar Ungfrú Ísland kom út í nóvember síðastliðnum, hafa gagnrýnendur og aðrir lesendur keppst við að lofa verkið, sem þar að auki hlaut tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Auður Ava er sannarlega vel að þessu lofi komin eins og fyrri skáldsögur hennar, svo sem Afleggjarinn og Undantekningin, bera vott um. Það spillti heldur ekki fyrir skáldinu að hljóta Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs nánast í sömu viku og nýjasta afurðin kom út, en þau hlaut hún fyrir skáldsöguna Ör sem kom út fyrir rúmum tveimur árum. Sú saga markaði ákveðin skil í höfundarverki skáldsins. Hún hafði að geyma áleitnari tón en áður og sýndi að höfundurinn vill nýta skáldskaparhæfileikana til góðs, hafa áhrif á lesendur sína og höfða til samvisku þeirra. Sagan fjallar öðrum þræði um stríðshremmingar og hefur skýra skírskotun út í heiminn umhverfis litla Ísland. En í sögunni má einnig finna einkenni sem lesendur þekkja úr fyrri sögum höfundar, og hennar afar sérstöku og heillandi fagurfræði.

Ungfrú ÍslandÞað er fagnaðarefni þegar höfundum tekst svo vel til en um leið dálítið snúið að hefja lestur á bók sem hefur verið ausin svo miklu lofi. Hvers vegna? Jú, því það skapar væntingar, býr til fyrirfram ákveðnar hugmyndir um verkið í kolli lesenda sem lesturinn miðast við. Þegar ég settist niður með Ungfrú Ísland í hendi taldi ég mig vita nákvæmlega um hvað hún fjallaði; unga konu sem kemur til höfuðborgarinnar í upphafi sjöunda áratugar síðustu aldar með handrit í tösku sem enginn vill lesa og enginn hefur áhuga á, því konur á þessum tíma skrifa ekki skáldskap og ef þær gera það eru þær skrítnar. Það sem vekur athygli borgaranna er aftur á móti fegurð stúlkunnar og yndisþokki sem gera hana að álitlegum þátttakanda í fegurðarsamkeppni. Ég vissi líka að við sögu kæmi samkynhneigður vinur hennar og vinkona sem er ung móðir og húsmóðir en á sér líka skáldadrauma. Þá hafði ég heyrt í umfjöllun um verkið að höfundur færi nokkuð hörðum og hæðnislegum orðum um Mokkaskáld; skáld sem sitja á kaffihúsinu Mokka við Skólavörðustíg og ræða um háleit málefni um leið og þeir býsnast yfir því hvað það er erfitt hlutskipti að vera skáld.

Þessir þættir eru allir til staðar í sögunni en það sem kom á óvart við lesturinn var hversu einföld og látlaus saga Ungfrú Ísland er, en að sama skapi afburðagóð. Og það er kannski þess vegna sem hún hittir í mark; aðgengileg en vönduð úrvinnsla á stórum og flóknum málefnum, sem þar að auki eiga brýnt erindi við samtímann og hvetja lesendur til að velta nærumhverfi sínu fyrir sér. Textinn flæðir vel og hefur seiðandi aðdráttarafl sem hefur þau áhrif að lesandi svífur beint inn í söguna og situr þar sáttur meðan á lestrinum stendur. Umhverfi er lýst á töfrandi og myndrænan hátt, persónur eru sannfærandi og einhvern veginn skemmtilegar þó að þær eigi ekki endilega að vera það og eiga í trúverðugum samskiptum sín á milli. Stíllinn er agaðri, tálgaðri eða meitlaðri í þessu verki en oft áður hjá höfundi og hér er ýmislegt látið ósagt, sem er ákveðinn galdur í skáldskap. Það sama má segja um uppbyggingu verksins í heild. Sagan skiptist í stutta kafla sem bera ljóðræna titla sem sumir reynast vísanir í ljóðlínur ýmissa skálda hefðarinnar. Stuttu kaflarnir eru ennfremur byggðir upp til að skapa eftirvæntingu sem gerir lesandann óþreyjufullan án þess þó að hér sé um að ræða spennusögu. Eftirvænting er galdur í skáldskap sem þarf að vera til staðar í skáldsögum en þó má ekki láta framvinduna taka yfir þannig að sagan stýrist eingöngu af plottinu; fórna blæbrigðaríkum umhverfislýsingum, merkingarbærum samskiptum, djúpt þenkjandi sögupersónum og svo framvegis, til þess eins að leyfa lesandanum að komast áfram í söguþræðinum. Þetta er afar fíngerður leikur og jafnvægi sem höfundur Ungfrú Ísland leysir vel.

Fyrsti kafli verksins gerist árið 1942 og er goðsöguleg forsaga sem segir frá fæðingu skáldsins Heklu. Móðirin er sögumaður kaflans og segir frá því þegar hún gengur fram á arnarhreiður á
klettabrún, þá komin fimm mánuði á leið með söguhetjuna. Hún lýsir því enn fremur hvernig örninn fylgdi henni heim að bænum og fékk hana til að ákveða að barnið skyldi nefnt eftir honum; Arnhildur. Þegar þar að kemur fær móðirin þó ekki að ráða nafninu því faðir Heklu, bóndi en ástríðufullur áhugamaður um eldgos og jarðhræringar, hefur ákveðið að barnið eigi að heita eftir frægasta eldfjalli Íslendinga. Móðirin er ekki hrifin og segir: „Ekki eldfjall, ekki dyr vítis“ (16). Síðar, þegar dóttirin er á fimmta ári, tekur faðirinn hana með sér að fylgjast með Heklugosi. Eftir ferðalagið er dóttirin breytt og lítur umhverfi sitt öðrum og skáldlegri augum en áður. Hér eru dregin tengsl milli náttúru og skáldskapar sem gefur ef til vill til kynna að skáldskapurinn sé samofinn áhuga á alheiminum. Um leið minnir það á að dýrmætasti skáldskapur Íslendinga er af mörgum talinn vera rómantísk ættjarðarljóð, nátengd sjálfstæðisbaráttunni
og hinni þjóðlegu sjálfsmynd. Að minnsta kosti slær forsagan um fæðingu og fyrstu ár Heklu tóninn fyrir verkið; Hekla verður skáld í samfélagi þar sem karlmenn hafa yfirhöndina og ráða nöfnum barna sinna þrátt fyrir að hafa hvorki borið þau undir belti né komið þeim í heiminn.

Hekla sem skáldkona á sjöunda áratug síðustu aldar stendur ekki aðeins andspænis feðraveldinu heldur einnig hinni karllægu bókmenntahefð; þar sem merkilegar bókmenntir eru eftir karla, konur skrifa „vondar“ bækur eins og einn vinur Heklu kemst að orði. Hefðin er undir í Ungfrú Ísland og kemur oft við sögu. Sagan sjálf er römmuð inn af vísunum í Jónas Hallgrímsson, Nietzsche og Biblíuna, Hekla les þrekvirki James Joyce, Ulysses, í rútunni á leiðinni í bæinn, og mokkaskáldin ræða þjóðskáldin sín á milli. Heklu vantar því kvenfyrirmyndir en þær taka hægt og rólega að berast til hennar – því auðvitað er á þessum tíma til fullt af kvenskáldum sem skrifað hafa merkilega texta, þær hafa bara ekki fengið jafn mikla athygli og karlskáldin. Jón John, vinur Heklu,
neyðist til að sækja sjóinn en nýtir ferðirnar til að kaupa handa vinkonu sinni erlend bókmenntaverk eftir höfunda á borð við Simone de Beauvoir og Sylviu Plath. Vísanirnar í hefðina gera söguna margradda í lóðréttum skilningi því hún vísar út fyrir sig og langt aftur í tímann, til goðsögulegs tíma Biblíunnar, til þjóðskáldanna sem ortu um fegurð ættjarðarinnar og til Shakespeares. Að því leyti er Ungfrú Ísland meta-saga; saga sem fjallar um skáldskap.

En meta-áhrifin finnast einnig á öðru plani í sögunni því hún vísar stöðugt í sjálfa sig, uppruna sinn og hvernig sagan sem við lesendur höfum undir höndum varð til. Þessu sjálfsvísandi þema hefur höfundur beitt áður, til dæmis í Undantekningunni þar sem rithöfundurinn Perla gegnir mikilvægu hlutverki og veltir fyrir sér almennum lögmálum skáldskapar. Sjálfsvísanir koma bersýnilega í ljós þegar Hekla og Ísey ræða um skáldskap og segja hvor annarri frá því hvernig þær festa sögur á blað. Þær tala um hversu óræður tíminn getur verið í skáldskap og Hekla segir Ísey frá Ulysses sem gerist á einum sólarhring en er þó ríflega átta hundruð blaðsíður. Ísey lýsir því ennfremur hvernig hún beitir óræðni tímans þegar hún segir Heklu að hún haldi dagbók um það sem gerist og gerist ekki – því stundum gerist svo fátt að hún neyðist til að bæta við. Og þá getur tekið alveg nokkrar blaðsíður að skreppa út í búð því hún bætir við hugsunum og lýsingum á umhverfi (42). Þessi samtöl vinkvennanna eru stórmerkileg því þau endurspegla ákveðna afstöðu til skáldskapar; hvað er vert að skrifa um og hvernig, því skáldskapur á ekki aðeins að takast á við söguframvindu og söguþráð heldur býr yfir þeim möguleika að geta rúmað svo margt annað.

Höfundi tekst vel að miðla sögupersónum með þeirra eigin orðum; hvernig þær litast af samtíma sínum og umhverfi og tjá það með sínum orðum. Hvernig þær tala endurspeglar ólíka hugmyndaheima sem bundnir eru sögutíma verksins. Þetta á við um Starkað, skáld og bókavörð, sem aðalpersónan Hekla á í ástarsambandi við. Hann reynir að vera framsýnn og hygginn en forneskjulegur hugsunarhátturinn kemur upp um hann þegar hann biður Heklu að elda kjöt í karrí eins og mamma hans gerði eða segir henni að erlendu bækurnar sem hún les „særi brageyrað“ (138). Þessi hugmynd um hvernig orð skáldskaparpersóna endurspegla ólíkar orðræður samfélagsins vísar í kenningar rússneska fræðimannsins Mikhaíls Bakhtín um margröddun, og skáldsöguna sem svið þar sem ólíkar hugmyndir takast á í gegnum samskipti persóna. Þetta er einnig lystilega vel gert í tilviki móður Starkaðs, og á vel við það sem hún segir, eða réttara sagt segir ekki. Hana hittir Hekla þegar hún dvelur með kærastanum á heimili móðurinnar um jólin en dvölin lengist þegar þau verða veðurteppt. Móðirin ávarpar Heklu aldrei beint heldur ævinlega í þriðju persónu, segir stúlkan eða hún, og vill að Starkaður sé milligöngumaður í samskiptum þeirra; biður hann að segja henni, stúlkunni, frá hinu og þessu. Þá talar hún í ókláruðum setningum sem sonurinn botnar yfirleitt. Þessi sérstaki samskiptamáti endurspeglar stöðu móðurinnar í samfélaginu sem á þessum tíma á fyrst og fremst að vera ósýnileg. Hún á ekki að tala, ekki að hafa sig í frammi, heldur reka heimilið eins og vel smurða vél, elda mat, þrífa, sauma og prjóna. Lesendur þekkja eflaust þessa týpu sjálfir, til dæmis í öldruðum ömmum, frænkum eða langömmum, sem sífellt biðjast afsökunar á tilveru sinni; reiða fram veisluborð og segja „fyrirgefið þið“ í stað „gjörið þið svo vel“. Móðirin sýnir Heklu engu að síður hlýju, en á dálítið sérstakan hátt sem má ímynda sér að sé einkennandi fyrir sögutímann. Hún sýnir henni myndaalbúmin sín og ljósmyndir af ættmennum, sem og það mikla traust að leyfa henni að brjóta saman servíettur fyrir kvöldverðarborðið á aðfangadag.

Sögutími verksins er fyrri hluti sjöunda áratugarins. Lesendur fylgjast með ferðum Heklu um höfuðborgina á árunum 1963 til 1964 þegar hún leggur land undir fót og heldur til Kaupmannahafnar
og síðar sunnar á bóginn. Þessitími er merkilegur fyrir margar sakir og talar beint inn í samtíma okkar; vakning mannréttindabaráttu á sér stað um allan hinn vestræna heim með frelsisbaráttu svartra í Bandaríkjunum undir leiðsögn manna á borð við Martin Luther King, hugmyndir um kvenfrelsi taka á sig breytta mynd og hinsegin fólk leggur grunninn að sinni réttindabaráttu. Einhvern veginn virkar það fullkomlega rökrétt hjá höfundi að velja nákvæmlega þennan sögutíma, þar sem hún er sjálf stödd á tíma þegar endurskoðun á réttindabaráttu hefur átt sér stað í kjölfar byltinga á borð við #metoo. Ég ímynda mér að það óréttlæti og ójafnrétti sem komið hefur upp á yfirborðið á undanförnum misserum hafi verið höfundi hugleikið, og að tilgangurinn með endurlitinu, að skoða einn tímapunkt í sögunni með gleraugum samtímans, hafi ef til vill verið tilraun til að greina rót vandans.

Sagan sýnir vel hversu nöturlegur veruleikinn var á þessum árum þó að hann hafi ef til vill ekki verið það fyrir ríka karla sem sátu á Borginni og buðu stúlkum að taka þátt í fegurðarsamkeppni. Saga fyrrnefnds Jóns Johns, sonar sveitakonu úr Dölunum og ónefnds hermanns, sýnir til dæmis við hversu þröngan kost hinsegin fólk bjó á þessum tíma, þurfti að villa á sér heimildir eða mátti laumast með fram veggjum og eiga stöðugt á hættu að verða fyrir hvers konar ofbeldi. Saga vinkonu Heklu, Íseyjar, sýnir ennfremur hvernig ungar mæður áttu engra annarra kosta völ en að smyrja rækjusamlokur ofan í eiginmanninn, skúra og skipta um kúkableyjur, þó að þær ættu sér háleita drauma um innihaldsríkara líf og vitsmunalegri verkefni. Og meginsaga verksins, saga skáldkonunnar Heklu, sýnir hvernig ungar konur þurftu að velja á milli þess að verða húsmæður og þrælar fjölskyldu sinnar eða vera á skjön við samfélagið í tilraun til að brjótast til mennta, listsköpunar eða leita atvinnu sem krefst sérfræðikunnáttu. Hekla lýsir þessu vel í eftirfarandi broti: „mig langar svo að halda áfram að finna upp heiminn á hverjum degi, mig langar ekki að sjóða fisk á Siemens-eldavélinni og uppvarta kallana á Borginni, að ganga með silfurbakka úr einu vindlaskýi í annað, mig langar til að lesa bækur allan daginn þegar ég er ekki að skrifa.“ (122–23) Þó að veruleikinn hafi verið heldur einsleitur fyrir flesta hópa á þessum árum má líka ímynda sér – að minnsta kosti svona eftir á – að hann hafi verið spennandi. Breytingar voru í nánd, eitthvað stórkostlegt í uppsiglingu og því fylgir bjartsýni og eftirvænting, trúin á að framþróun sé ákveðið lögmál sem leiði af sér að með tímanum verði heimurinn betri og samfélagið jafnara fyrir alla. Í dag vitum við hins vegar að það er ekki endilega þannig og að bjartsýnin, sem bundin var við áratugina sem fylgdu, gekk ekki fyllilega eftir. Svo virðist sem mannréttindabarátta sé eilífðarverkefni sem fer ef til vill ekki í hringi en vex eins og rótlaus og hlykkjótt jarðarberjaplanta á leiðinni fram veginn. Það er gott að lesa skáldsögur á borð við Ungfrú Ísland til þess að minna sig á það og að þau réttindi og möguleikar sem móðir eins og ég bý við nú á dögum eru ekki sjálfgefin.

Vera Knútsdóttir