Álfrún Gunnlaugsdóttir. Fórnarleikar.

Mál og menning, 2016.

Úr Tímariti Máls og menningar 3. hefti 2017

FórnarleikarHús ættarinnar tekur miklum breytingum í skáldsögu Álfrúnar Gunnlaugsdóttur, Fórnarleikar. Sagan segir frá fjórum kynslóðum sem búa í þessu húsi, einhversstaðar nærri miðbæ Reykjavíkur, samskiptum þeirra, minningum, arfleifð og átökum. Framvindan er nokkuð línuleg og byggist á öru flökti milli persóna sem segja sína sögu, rifja upp minningar og kallast þannig á milli kynslóða. Þar ber fyrstan að nefna rithöfundinn Magna, fulltrúa yngstu kynslóðarinnar af þessum fjórum, en hann á bæði upphafs- og lokakaflann. Hann finnur kassa með kassettum sem móðir hans, Regína, tók upp og reyndi þar að skrá sögu fjölskyldu sinnar. Þetta vekur forvitni hans og hann ákveður að vinna sögu upp úr þessu efni: „Mér hafði sýnst að fjölskylda mín ætti sér sögu sem kynni að vekja áhuga og gaman væri að glíma við“ (198). Hann hugsar sér „að þetta nýjasta nýja raunsæi í skáldskap, óskáldaða skáldsagan“ höfði til sín, og að „[s]káldsaga sem ekki væri skálduð hlyti að sníða sig eftir óskálduðum veruleika“ (199). En þá vaknar spurningin: „En var hún þá í raun skáldsaga?“ (199) og út frá því fer hann að velta fyrir sér grundvallaratriðum skáldskapar, meðal annars hlutverki blekkingarinnar og því að „samspil persóna í skáldskap er gerólíkt samspili fólks í lífinu“ (198). Þetta birtist meðal annars í því að „persónur opna ekki munninn án þess að það hafi merkingu eða afleiðingu fyrir framvindu sögunnar“, því „[s]káldsaga stefnir ævinlega í átt að tilteknum endalokum“ (198). En þannig er það ekki í lífinu. Niðurstaðan er sú að það eru „fyrir hendi vissar takmarkanir í innviðum skáldskapar, sem tilheyr[a] honum einum, og erfitt [er] að rjúfa“ (199).

Hugleiðingar Magna eru mjög í takt við þá umræðu sem hefur verið í kringum æviskrif, eins og kemur fram í umfjöllunum Gunnþórunnar Guðmundsdóttur sem hefur í bókum og greinum sýnt fram á hvernig höfundar æviskrifa takast á við þennan mun sannleika og skáldskapar og eru stöðugt að vinna með markalínur lífsins og skáldsögunnar í verkum sínum á einn eða annan hátt. Í nýjustu bók sinni, Representations of Forgetting in Life Writing and Fiction (2016), fjallar hún sérstaklega um þátt minninganna í þessu fuglafiti ‚óskálduðu skáldsögunnar‘ og leggur áherslu á mikilvægi gleymskunnar eins og fram kemur í titlinum. Því líkt og skáldsagnahöfundar taka höfundar æviskrifa virkan þátt í blekkingarleik skáldsögunnar sem felst í þeim þögula sáttmála höfundar og lesenda „að annar ætli að blekkja og hinn að láta blekkja sig“ (199) eins og Magni orðar það. Þennan blekkingarleik mætti einnig kalla fórnarleik, því öll æviskrif byggja á því að velja og hafna; minningum, gleymsku, fólki, hugmyndum og skoðunum. Það sama gerist auðvitað í skáldsögunni, einhverju er alltaf fórnað í þágu þessara ósögðu en órjúfanlegu innviða skáldsögunnar.

Lýsing Magna á kröfum skáldskaparins minnir reyndar nokkuð á kenningu bandaríska rithöfundarins Edgars Allans Poe sem árið 1846 lýsti þeirri kröfu á texta smásögu að hvert einasta orð ætti að miða að því takmarki að byggja verkið, engu mætti vera ofaukið. Allt á að miðast við að kalla fram það andrúmsloft – og þau ‚tilteknu endalok‘ – sem sagan miðlar. Verk Álfrúnar eru þaulunnin í anda Poe, þó hún hafi alfarið snúið sér að skáldsögum eftir smásagnasafnið Af manna völdum frá árinu 1982. Textinn er formaður á markvissan hátt og samtöl persónanna hafa öll hlutverk innan vefnaðarins. Jafnframt eru Fórnarleikar áhugavert verk í ljósi greiningar Gunnþórunnar á samspili minninga og gleymsku.

Kynslóðir og konur

Eins og áður segir kynnir Álfrún fjórar kynslóðir til sögunnar, þó ekkert endilega í réttri röð. Fyrir utan þátt Magna og fjölskyldu hans sem gerist í nútímanum, rétt fyrr hrun, þá eru mæðgurnar Arndís og Regína fyrirferðarmestar, en Regína er móðir Magna. Faðir Regínu, Guðgeir, er mikill áhrifavaldur í sögunni, því ákvarðanir hans hafa mikil áhrif á þrjár konur: móður hans Sólborgu, eiginkonu hans Arndísi og dótturina Regínu. Raddir sögunnar eiga þau Arndís og Guðgeir, Regína og Magni. Þó Sólborg sé nokkuð áberandi fær hún aldrei að segja frá, né kona Magna, Bettý, eða synir þeirra sem stuttlega koma við sögu. Burðarás framvindunnar er hjónaband Arndísar og Guðgeirs og loks dauði hans, en hann bindur enda á líf sitt með dramatískum hætti sem á sinn þátt í samskiptavanda mæðgnanna. Því enn eitt þema verksins eru einmitt samtöl og samskipti persóna sem iðulega virðast skapa meiri vanda en þau leysa. Og þar kemur þáttur minninganna inn, því auk þess að fjalla um átökin við að skrifa fjölskyldusögu út frá óskipulögðum upptökum eins fjölskyldumeðlims – reyndar í bland við einhver viðtöl sem virðast einkennast af tregðu: „Það kom […] á daginn að aðeins örfáir voru samræðufúsir“ (10) – þá kemur í ljós að minningarnar eru afar mismunandi og stangast jafnvel á hjá fólki.

Guðgeir elst upp í húsi foreldra sinna og býr þar við góð kjör, faðir hans er vel stæður heildsali. Móðir hans er hinsvegar af fátæku fólki komin, þó hún vilji helst gleyma sem mestu um fortíð sína, og hefur lítinn skilning á bókelsku og sagnaást þeirra feðga. Þegar Guðgeir eldist vill hann helst halda sig við bækurnar en foreldrarnir krefjast þess að hann afli sér praktískrar menntunar til að taka við fyrirtækinu. Þetta fer illa í Guðgeir sem er einrænn og feiminn og þó að hann taki svo við starfi föður síns þá lýkur hann aldrei menntun og ljóst er að hann er ekki hamingjusamur maður. Þó finnur hann hamingju í ást sinni á Arndísi og Regínu, en sú ást verður einnig til þess að hann fargar sér – eða nægir allavega ekki til að hann nái að halda í lífsviljann. Arndís speglar að nokkru leyti Sólborgu, gengur inn í hjónaband og fjölskyldu sem er mun ofar henni í hinum ósýnilega stéttastiga og þrjóskast alla tíð við að halda sjálfstæði sínu. Hún hafnar tilboði Sólborgar um að flytja í ættarhúsið þegar Guðgeir deyr, en neyðist að lokum til þess eftir lát tengdamóður sinnar sem arfleiðir sonardótturina Regínu að húsinu, að því tilskyldu að Arndís fái að búa þar og að heimilinu sé haldið við. Það gerist þó með öðrum hætti en hún hafði hugsað sér, því Arndís verður að taka inn leigjendur til að standa straum af kostnaði og Regína heldur því áfram eftir að hún kemur að utan úr námi með soninn Magna.

Kona Magna gerbreytir svo húsinu eftir dauða Regínu og færir það í átt að nútímatísku með því að brjóta niður veggi og stækka herbergi og stofur. Þannig gengur húsið í gegnum ýmis hamskipti eins og fjölskyldan sjálf og ber merki ólíkra kvenna og kynslóða. Bækurnar eru eitt af því sem breytist, en Guðmundur faðir Guðgeirs á gott bókasafn og les fyrir son sinn og segir honum sögur. Guðgeir erfir bókhneigðina en eiginkonur þeirra beggja hafa ekki mikla þolinmæði gagnvart tali um bækur, þær eru ómenntaðar og uppteknar af húsmóðurhlutverkum sínum. Arndís er reyndar öll af vilja gerð, en tímasetningar Guðgeirs eru ekki alltaf heppilegar og þannig rofna tengslin millli þeirra smátt og smátt, þó vissulega sé hjónabandið enn ástríkt. Regína heillast af bókunum þegar hún flytur í húsið og byrjar á því að draga þær allar úr skápum og dreifa um herbergi og gólf, gluggar í hitt og þetta og selur loks allt eða gefur. Bækur koma síðan aftur inn í húsið með Magna sem tekur við draumi afa síns um að verða rithöfundur. Þessi saga bókanna er eitt af fjölmörgum dæmum um þá margvíslegu þræði sem rekja sig milli kynslóða í Fórnarleikum, á hógværan og látlausan hátt.

Óminnishegrinn

Í þessu sjáum við líka kynslóðaminni – bæði í merkingunni að muna og hinni bókmenntalegu merkingu að eitthvað fyrirbæri skjóti endurtekið upp kollinum. En minnið er eitt af því sem Álfrún vinnur með í verkum sínum og kom sérstaklega skýrt fram í síðustu skáldsögu hennar, Siglingin um síkin (2012). Þar, líkt og í Yfir Ebrófljótið (2001), er áherslan á það að muna og rifja upp, en aðalpersónur beggja bóka eru aldrað fólk sem er byrjað að gleyma. Hér er minnið tekið öðruvísi tökum, þó vissulega sé einskonar upprifjun til staðar í grúski Magna. Hverfulleiki minnisins er enn til staðar en nú er hann sýndur með því að tefla saman minningum ólíkra einstaklinga sem hver man eftir sínu höfði. Þetta er sérlega áberandi í samskiptum Arndísar og Regínu, en Regína er afar ólík móður sinni og kennir henni að auki um hvernig fór fyrir föður hennar.

Regína er ör og dramatísk, dálítið eins og faðir hennar, en Arndís er jarðbundin og róleg. Fyrir utan minningarnar um hvarf föðurins þá er helsta ágreiningsefni þeirra samband Regínu við barnsföður sinn, en hann er giftur maður. Regína platar mömmu sína og segir henni að þau séu gift, en Arndís uppgötvar svikin og getur ekki fyrirgefið dóttur sinni. Samskipti þeirra eru stirð, meðal annars vegna spurninga um minningar og talsmáta, en Arndís sér ekki ástæðu til að ræða hlutina mikið meðan hin öra Regína krefst meiri athygli. Þetta kemur vel fram í samtali sem þær mæðgur eiga (ekki) þegar Arndís tekur skyndiákvörðun um að heimsækja dóttur sína og tengdason. Arndís er fyrirfram óörugg, hefur aldrei ferðast og kann illa við sig í ókunnu umhverfi þar sem hún talar ekki málið. Eftir góða máltíð hjá dóttur sinni hælir hún henni fyrir eldamennskuna „og bætti við að hún hefði bersýnilega lært sitt af hverju varðandi matargerð og kvaðst vona að það sama ætti við um annan lærdóm.“ Regínu sárnar og segir við mömmu sína: „Þú hefur aldrei haft trú á mér“ (27).

– Það er ekki rétt, sagði Arndís og þar með var málið útrætt af hennar hálfu, lítið upp úr því að hafa að reyna að sýna fram á með rökum að hún hefði haft trú á Regínu alveg frá upphafi, trú á hæfileikum hennar og sjálfstæði sem stundum var fullmikið, að henni fannst. Hún hafði með ráðum og dáðum stutt hana til náms. En auðsætt var að Regína kunni ekki gott að meta og hafði ómótstæðilega þörf fyrir að setja út á eða rífa niður það sem móðir hennar hafði fram að færa. Áreiðanlega bjó að baki fjarstæðukennd hugmynd Regínu, fluga sem hún hafði fengið í höfuðið sem barn, að móðir hennar ætti að einhverju leyti sök á dauða eiginmanns síns. (27–28)

Hér birtist á snarpan hátt hvernig Álfrún vinnur með ólíkar persónur, ólíkar þarfir, minningar og úrvinnslu á tráma. Arndís er orðfá og sér ekki ástæðu til að ræða hlutina frekar en fólk af hennar kynslóð. Regína er hinsvegar viðkvæm og það áfall að missa föðurinn hefur aldrei gróið – enda kemur í ljós undir lok sögunnar að viðskilnaðurinn var vægast sagt dramatískur. Dóttirin man aðeins gagnrýni móðurinnar meðan móðirin man aðeins það að hún hefur alltaf stutt við bakið á dótturinni. Báðar hafa gleymt því sem hin man, móðirin er uppteknari af því góða sem hún hefur gert og gleymir, eða kýs að gleyma, þeim átökum sem krefjandi uppeldi felur í sér með tilheyrandi aga. Dóttirin gleymir hinsvegar alfarið því sem henni finnst sjálfsagt, að móðir hennar hefur alltaf verið til staðar fyrir hana og gert það sem hún getur fyrir hana. Þannig tala þær gersamlega í kross, sérstaklega því Arndís sér ekki ástæðu til að ræða málin og er blind á þörf Regínu fyrir hughreystingu. Á sama hátt eru ‚svikin‘ aldrei rædd, fyrir Arndísi er það eitthvað sem ekki er hægt að útskýra né afsaka, meðan lesandi getur ekki annað en snúist á sveif með Regínu þegar hún lýsir ástæðum blekkingarleiksins sem hún setur á svið fyrir móður sína.

Þannig blandast saman erfið samskipti, erfiðar minningar og gleymska. Gleymskan getur líka verið meðvituð, ákvörðun um þögn, en þetta atriði ræðir Gunnþórunn einmitt í bók sinni. Gleymska er ekki bara eitthvað eitt, heldur margþætt, allt frá því að vera bæling sálgreiningarinnar yfir í að vera samfélagsleg þöggun. Í ljósi titilsins mætti hugsa sér að bæði minningar og gleymska séu ákveðnar fórnir sem þarf að færa til að hægt sé að halda áfram, minningar Regínu um föður sinn halda henni fanginni, meðan Arndís nær að halda áfram með líf sitt þrátt fyrir áfallið. Þó er ekki úr vegi að velta fyrir sér afstöðu Arndísar, sem er afar föst fyrir, en undir lokin kemur fram að hún klippti harkalega á samskipti við bræður sína eftir að þeir höfðu svikið hana um skartgripi sem hún átti að erfa eftir móður sína. Í báðum tilfellum sést hvernig Arndís er ófær um að gefa nokkuð eftir og þarna kemur fram tvöfeldni gleymskunnar: bræðurnir eru aldrei nefndir og ‚gleymast‘ því, en jafnframt gleymast þeir aldrei, einmitt vegna þess að Arndís heldur í minninguna um svikin.

Sviðsetningar

Líkt og í Siglingunni um síkin fléttar Álfrún samfélagsleg mál og sögu inn í Fórnarleikana, en sagan gerist yfir langt tímabil. Þessi mál eru þó aldrei rædd, en koma bara við sögu sem óljós sviðsmynd. Seinni heimsstyrjöld og ástandið dúkkar óvænt upp þegar Guðgeir heimsækir móður sína til að kveðja hana, en hún hefur áhyggjur af þjónustustúlkum sínum. Þegar sonurinn telur ólíklegt að þær séu „þannig konur“, svarar Sólborg því til að það þurfi „engar „þannig konur“ til að lenda í þessu svokallaða ástandi. Það geti hent hverja sem er og á hvaða aldri sem er“ (180). Guðgeir er agndofa „yfir skyndilegu umburðarlyndi hennar“ (180). Enn á ný birtast átökin í samskiptum, en Sólborg hefur alla tíð verið ströng móðir og bannar reyndar syni sínum að kalla sig ‚mömmu‘, krefst þess að hann noti nafn hennar. Hann er því gersamlega undrandi að komast að því að hún er ekki eins ósveigjanleg og hann hafði alltaf haldið.

Bakgrunnur sögu Regínu er útland þar sem ríkja ströng siðferðisviðmið og þeim sem þekkja verk Álfrúnar verður fyrst fyrir að hugsa um Spán á tímum einræðisherrans Franco sem stjórnaði meðal annars í krafti kirkjunnar banni við sambúð í synd. Regína kynnist Ríkharði og er orðin ástfangin af honum áður en hún uppgötvar að hann er giftur. Hann lofar að skiljast við konu sína en það er hægara sagt en gert og enn kemur samskiptaleysið og þekkingarleysið til sögunnar, því hún skilur ekki ástæður hans – eða vill ekki skilja þær. Því fer svo að hún yfirgefur hann með son þeirra og fer aftur í móðurhús. Hún hefur því verið ‚svikin‘ af tveimur mönnum, enda gerist hún drykkfelld mjög og við það elst Magni upp, að þurfa að fást við drukkna móður sína sem er greinilega einnig veil á geði. Magni segir:

Ég lifði í þeirri trú að móðir mín gerði eins og annað ráðleysisfólk, hallaði sér að flöskunni til að sprengja af sér bönd sem héldu henni niðri. Það losnaði um eitthvað sem fékk útrás. Eftir það gat hreinsunarstarf hafist. Þetta var vítahringur. Enginn getur búið við það til lengdar að endalaust sé verið að rífa niður og byggja upp. Flaskan var í sjálfu sér ekki sökudólgurinn, hún var aðeins birtingarmynd ólgu og kvíða. Þetta vissi Sólborg. Eina leiðin, í hennar huga, til að forðast allt slíkt var að standa við stýrishjólið og stjórna. Það var ekki að ástæðulausu að Sólborg setti skylduna ofar öllu, þrúgandi og lamandi skyldu sem krafðist alls en gaf lítið á móti. Meira að segja Arndís var ekki laus við þá trú: skylduna við sjálfa sig og aðra sem stóðu henni nær eða fjær. Samt gaf hún sig aldrei meira að öðrum en henni fannst við hæfi. (117)

Þarna teiknast upp mynd af ólíkum leiðum til að takast á við lífið, eldri konurnar tvær leggja sig fram um að stjórna og taka skyldur sínar (og annarra) alvarlega, meðan karlmennirnir og Regína hafa meiri tilhneigingu til að láta sig reka áfram eftir stefnum og straumum. Það kemur Magna svo mjög mikið á óvart að uppgötva seinna meir að móðir hans var virtur þýðandi og þannig byggist áfram upp mynd af því hvernig minningar – og gleymska – afbaka lífið og skapa sinn eigin skáldskap.

Þessi vítahringur erfiðra samskipta er rofinn með sambandi Magna og Bettýjar, en lýsingin á þeirra hjónabandi er mjög góð, þrátt fyrir að samskiptin séu stundum upp og ofan, ekki síst vegna átakafælni Magna. Ýmislegt úr fyrri samböndum og samskiptum gengur aftur, en þó á þann hátt að allt gengur upp og því má hugsa sér að fórnir fyrri kynslóða hafi borið árangur.

Segja má að þessi sátt eigi sér einskonar upphaf með óvæntu ferðalagi Regínu – sem heldur áfram að vera hvatvís allt fram á elliár – en sú ferð er einn af meginþráðum verksins. Hún ákveður að aka út á land, án markmiðs eða mikils undirbúnings og eftir nokkra hrakninga og miklar upprifjanir, endar hún á heimaslóðum móður sinnar og hittir bróður hennar og mágkonu sem Arndís hafði slitið öll samskipti við. Magni kemur svo að sækja hana og kynnist ættingjum sínum og fer vel á með þeim. Annar meginþráður er heimsókn Arndísar til Regínu, sem endar með ósköpum, en þar rifjar Arndís einnig upp samband sitt við Guðgeir. Saga Arndísar endar líka með einskonar sátt, en á dauðastundinni rifjast upp fyrir henni ástin til eiginmannsins. Þriðja sagan er svo saga Guðgeirs, frá æsku til þess að hann kveður dóttur sína áður en hann fyrirfer sér. Sú saga felur að nokkru leyti í sér sátt, eins og þegar hann uppgötvar nýja hlið á móður sinni – og kallar hana ‚mömmu‘ ómeðvitað, þó vissulega valdi val hans mikilli óhamingju kvennanna í lífi hans.

Fjórði meginþráðurinn er svo eins og áður segir, saga Magna. Álfrún fléttar þessar fjórar raddir saman af fádæma fimi, sagan er óaðfinnanlega upp byggð og þunginn eykst eftir því sem á líður, jafnframt því sem vonin um lausn og sátt verður greinilegri. Frásagnirnar flakka fram og til baka í tíma og rúmi, bæði vegna persónanna sem tala en einnig innan hvers kafla, því þeir byggjast oftar en ekki á samblandi minninga og nútíðar. Í hugleiðingum sínum um eðli skáldskaparins og átökin við hina ‚óskálduðu skáldsögu‘ sem vitnað var til hér í upphafi segir hann að sannleikur skáldsögu felist í því „að heimur sögunnar, lokaður heimur hverrar sögu fyrir sig, sé sennilegur. Sannleikur í skáldsögu er fyrst og fremst af sammannlegum toga, og hans leitar lesandinn í þeim skáldverkum sem hann les. Með því tekur hann þátt í að skapa þau […]. Svigrúm til að skapa er mikilvægur þáttur fyrir lesanda skáldsagna“ (200). Það er einmitt þetta sem Álfrúnu lætur svo vel, að gefa lesandanum færi á að draga sínar eigin ályktanir og velta fyrir sér persónunum, ástæðum og afleiðingum gjörða, samskiptum – og samskiptaleysi, tilfinningum, minningum og gleymsku.

Úlfhildur Dagsdóttir