Hleyptu þeim rétta innÞað voru áhöld um það um tíma í Þjóðleikhúsinu í gærkvöldi hvort aðeins þeim réttu hefði verið hleypt inn. Talsvert var um tvísölu á sætum, að því er virtist, og tafðist sýningin á Hleyptu þeim rétta inn um fáeinar mínútur meðan greitt var úr vandanum. Það var eins og miðasölukerfi leikhússins væri að grínast með titil verksins. Loks var þó tjaldið dregið frá og einstaklega fjölhæf og nýtileg sviðsmynd Höllu Gunnarsdóttur kom í ljós.

Við okkur blasir hár, grár veggur með gluggum, plani fyrir framan og porti inn í myrkrið (og skóginn). Á þennan vegg er svo leikið með ljósum þannig að hann getur opnast inn í (fátæklegar) íbúðir, hann getur verið kuldalegt leikfimishús með sundlaug, og hann getur orðið töfrahöll þegar ungar ástir kvikna. Ég veit ekki hvort á að þakka fremur ljósameistaranum Ólafi Ágústi Stefánssyni eða myndbandahönnuðinum Rimas Sakalauskas fyrir þessar snilldarlegu umbreytingar, líklega samvinnu þeirra. Tónlist Högna Egilssonar gerði svo sitt til að magna áhrifin.

Sagan segir frá drengnum Óskari (Sigurður Þór Óskarsson) sem býr með drykkfelldri móður sinni (Katla Margrét Þorgeirsdóttir) í úthverfi nærri stórum skógi. Hann á stuðningsmann í Villa leikfimikennara (Baldur Trausti Hreinsson) en sá hefur ekki mikið í ofsækjendur Óskars, þá Jonna (Oddur Júlíusson) og Mikka (Hallgrímur Ólafsson). Þeir pína Óskar kerfisbundið og urðu hrekkir þeirra æ viðbjóðslegri eftir því sem leið á sýninguna. Það var ljótt að sjá.

Það verður Óskari til happs að í næstu íbúð flytur stúlkan Elí (Lára Jóhanna Jónsdóttir) ásamt fullorðnum karlmanni, Hákoni (Þröstur Leó Gunnarsson), og hún vingast við Óskar. Elí er sérkennileg stúlka, barn sem kann ekki reglur samfélagsins eða mannlegra samskipta en veit samt óþægilega mikið um lífið. Óskar dregst að Elí og verður smám saman hugfanginn af henni og sú aðdáun minnkar ekkert þó að hann komist að því að hún er ekki öll þar sem hún er séð: Elí er vampýra sem hefur „lifað“ í hundruð ára og getur aðeins nærst á mannblóði. Næringuna skaffar Hákon, þess vegna er þeim skötuhjúum aldrei vært lengi á sama stað. En Elí er aldeilis góður vinur í raun þegar ofsækjendurnir láta alvarlega til skarar skríða með stóra bróður Jonna, Jimmy (Stefán Hallur Stefánsson) í broddi fylkingar. Víst er að þeir ofsækja ekki framar, hvorki Óskar né aðra.

Hleyptu þeim rétta inn er á yfirborðinu falleg ástarsaga, Rómeó og Vampýru-Júlía, en undirtextinn er margfaldur og myrkur. Elí bjargar Óskari vissulega frá ofsækjendum sínum og hirðulausum foreldrum og hún er falleg og yndisleg og mun veita honum marga hamingjustund en hún er samt fyrst og fremst að leita sér að nýjum skaffara. Framtíð Óskars í lokin er björt/svört á einstaklega lúmskan hátt.

Sýningin er mjög flott hjá Selmu Björnsdóttur leikstjóra og sannarlega ekki dregið úr hvorki fegurð né hryllingi. Stór og smá hlutverk eru vel af hendi leyst – ég minni bara á lestarvörðinn hans Snorra Engilbertssonar í lokin, minnisstæða persónusköpun á örfáum mínútum. Katla Margrét var andstyggileg mamma, Pálmi Gestsson ruddalegur lögregluforingi, Baldur Trausti velviljaður en máttlaus Villi, strákakvikindin illgirnin uppmáluð. Umhverfið sem Óskar yfirgefur er sannarlega ekki álitlegt. Það sem hann fær í staðinn er heillandi en þó hið illa sjálft.

Sigurður Þór var sannfærandi unglingspiltur í hlutverki Óskars og vaxandi hrifning hans á Elí auðsæ og snart mann djúpt. Láru Jóhönnu tókst fyrir sitt leyti algerlega að sýna tvöfeldni Elíar, hvernig hún sér í Óskari mögulega framtíð sína og hvernig hún dregst að honum – ja, hvað getur maður sagt? Tilfinningalega? Eitthvað var það alla vega!

Í salnum í gær var fólk á öllum aldri en áberandi var ungt fólk milli tvítugs og þrítugs. Það er stórkostlegt hvað íslensku leikhúsin hafa alið upp sterkan og góðan áhorfendahóp og hann ætlar greinilega að endurnýja sig. Þetta þarf heldur ekki að koma á óvart þegar maður hugsar um sýningar eins og þessa eða aðrar á fjölunum bara í vetur, Í hjarta Hróa hattar, Sporvagninn girnd, Njálu og Mamma mia.

Silja Aðalsteinsdóttir