Ósjálfrátt

Auður Jónsdóttir. Ósjálfrátt.

Mál og menning, 2012.

Úr Tímariti Máls og menningar 2. hefti 2013.

„Hvernig byrjar maður skáldsögu?“ spyr sögumaður í upphafi fimmta kafla Ósjálfrátt og bendir þar með á einn gildasta þáttinn í frásögn bókarinnar sem eru hugleiðingar um tilurð skáldskaparins og hlutskipti þess sem velur sér skriftir að lífsstarfi. Ósjálfrátt er einum þræði þroskasaga rithöfundar og lýsir af miklu hugrekki og djúpri einlægni sköpunarþránni, skriftarþörfinni og þeirri baráttu við veruleikann sem hver höfundur þarf að heyja í leit sinni að rödd og tjáningarmáta. Ef til vill hefur skáldkonan sem hér er á ferðinni háð blóðugri baráttu en margur vegna ofurþunga arfsins sem hún burðast með í farteskinu; sjálfan nóbels(h)afann og móður sem er þekkt fyrir snilldarpistla og orðkynngi og getur skrifað setningar sem eru „tilgangur allra skrifta“ (110).

Í upphafskafla bókarinnar erum við kynnt fyrir stelpu sem er „svo fastráðin í að skrifa skáldsögu einn daginn að hún hreiðrar um sig í höfðum annarra og hrifsar til sín hugsanir þeirra“ (5). Stelpan heitir Eyja og Auður Jónsdóttir (Auja) dregur enga dul á að hér er á ferðinni hennar „alter ego“ og að frásögnin eigi bæði rætur og stofn í hennar eigin lífsreynslu og fjölskyldusögu þó „þarna [búi] lifandi og dauðir og skáldaðir og raunverulegir saman í einni sæng“. [1] Þótt margir hafi vafalaust gaman af því að máta persónur og leikendur í Ósjálfrátt við þjóðskrána og ættartölu höfundar þá hefur umræðan um skörun skáldskapar og veruleika og siðferðilega ábyrgð rithöfunda ekki orðið eins hatrömm í tengslum við þessa bók og raunin varð í fyrra við útkomu bókar Hallgríms Helgasonar Konan við 1000°.

Ástæðan er líklega sú að hér leitar höfundur fanga að mestu leyti í eigin ranni en ekki annarra og hefur fengið grænt ljós frá sínum nánustu. Viðtalið sem vitnað er í hér að ofan er tekið áður en Ósjálfrátt kom út og spurningar um ábyrgð rithöfunda og hversu langt þeir geta gengið í því að fiska í veruleikahafinu brenna augljóslega á Auði sem bendir á að erfitt sé að finna mörkin eða þau landamæri sem ekki má stíga yfir: „Það er hægt að drepa skáldsöguna með því að ákveða hvað sé leyfilegt og hvað ekki. Skáldskapur er huglægur. Og það er ekkert hægt að setja landamæri á hugarburðinn.“ [2]

Auður gefur okkur sjálf svar við spurningunni um hvar mörkin liggja: „Það sem ég finn fyrir þegar ég skrifa er að svo framarlega sem ég geri hlutina af einhvers konar ást og einlægni – af hreinum hug, ekki af einhverri illkvittni – þá get ég réttlætt það fyrir sjálfri mér.“ [3] Það er vel hægt að fallast á að þannig nálgist Auður Jónsdóttir sitt fólk, sínar persónur í Ósjálfrátt. Ef við líkjum skáldsögunni við tónverk þá er gegnumgangandi stef tónn væntumþykju og einlægni sem alltaf hljómar undir þótt verið sé að lýsa mannlegum breyskleika af ýmsu tagi; mistökum, óviðráðanlegri fíkn, eymd, niðurlægingu, meðvirkni, ofbeldi og svikum. Jafnvel þar sem slegið er fast á nótur meinlegrar fyndni og skops fer það aldrei yfir strikið og út í meinfýsi eða háð.

Salka Valka á nýrri öld – eða aðdáendaspuni

Ekki hlífir höfundur sínu ‘öðru sjálfi’ í lýsingum frekar en öðrum; svona birtist Eyja lesendum á fyrstu síðu bókarinnar:

Álút með svartan hárflóka ofan í augun sem ljómuðu þegar hún var barn en eru ekki einu sinni brún lengur heldur sokkin ofan í doða, grá slikja liggur yfir þeim og húðin er líka gráleit, á vöngunum og undir hökunni grillir í bólur. Hún hefur svínfitnað á örskömmum tíma, brjóstin þrýsta á stuttermabolinn sem er merktur bjórverksmiðju í Tékklandi. (5)

Þetta er ófögur mynd af ungri konu sem komin er í alvarlegar ógöngur með líf sitt. Í stuttum en margræðum upphafskafla tekst Eyja á við móðurömmu sína sem hvetur hana til að yfirgefa áfengissjúklinginn sem hún kynntist í beitningarskúr á Vestfjörðum og giftist í einhverju bríaríi og meðvirkni þótt hann sé tuttugu árum eldri, með dauðann og djöfulinn á bakinu, og hefði fátt að bjóða sem heillað gæti unga stúlku. Nema þá að sú hin sama þrái að lifa í skáldskap:

En svo lét hún tilleiðast að stíga inn í ævintýrið hans. Hann var jú, eftir allt saman, söguhetja úr skáldsögu. Og hún vildi lifa eins og í skáldsögu. Sama þótt aðalsöguhetjan gerði sitt besta, strax eftir morgunbjórinn, til að líkja ýmist eftir Don Kíkóta, Ignatíusi í Aulabandalaginu eða Steinþóri í Sölku Völku. (55)

Garrinn, löggiltur eiginmaður Eyju, á ýmislegt sameiginlegt með þeim síðastnefnda enda býr persónan, líkt og Steinþór Steinsson, yfir grófleika og grodda sem blandin eru „blæbrigðum sem stundum nálguðust ljóðrænu, svo heita mátti fullkomin andstæða við hið svolalega kæríngarlausa látbragð hans“ svo vitnað sé í lýsingu Laxness. [4] Þegar Eyja flytur til Garrans er hún „orðin sambýliskona formannsins í beitningarskúrnum. Sannur þorpari, sönn kona. Næsti bær við Sölku Völku“ (203). [5]

Mamma Eyju „kann ágætlega við Garrann, […] Hún laðast að sérkennilega hrjúfri hlýjunni í fari hans“ (31) enda eru þau eru jafnaldrar og sálufélagar í þorstanum. Og mamma talar máli hans af samúð og skilningi þegar hann er allur og þá fyrst fréttir Eyja af því að þau hafi verið saman í meðferð og Garrinn trúað mömmu fyrir sorgum sínum löngu eftir að kvenleggurinn bjargaði dóttur hennar úr skáldskap hans – og raunveruleika.

Breiðafjarðarillskan kemur til bjargar

Amma, mamma, Rúna frænka – sem gengur undir heitinu Skíðadrottningin – taka höndum saman um að bjarga Eyju úr þeim ógöngum sem líf hennar er komið í. Henni býðst að fara til Svíþjóðar til sumardvalar með Skíðadrottningunni; amma borgar brúsann með glöðu geði því það liggur á að forða dótturdótturinni frá Garranum. En Eyja er í heljargreipum meðvirkninnar og er alls ekki viss um að hún geti farið frá vesælli manneskju sem þarf á henni að halda – og sver hún sig þar í ætt við Ljósvíkinginn. Þegar stelpan þumbast við beitir amma beittasta vopninu og hittir á auman blett: „Ef þér er alveg fyrirmunað að hugsa um sjálfa þig, viltu þá gera það fyrir mig að hugsa um skáldsöguna þína?“ (11). Og það vill stelpan, ekkert hefur sterkari tælingarmátt en orðin og úrvinnsla þeirra. En þó fer ýmislegt öðruvísi en ætlað var í þeirri Svíþjóðarför.

Stórkostleg er lýsingin á því þegar konurnar taka hreingerningaræði í íbúðinni sem Eyja og Garrinn leigja í Reykjavík, því ræsa þarf út skítinn bæði í eiginlegri og óeiginlegri merkingu, og sýnir Auður þar – eins og reyndar víðar í þessari sögu – hversu gott auga hún hefur fyrir því skoplega í aðstæðunum. Þar fara mamma og Skíðadrottningin fremstar í flokki: „Báðar mjóar og ákveðnar í sínu: fullkomnar konur, reiðubúnar að gera hreint eins og þeim einum er lagið og skiptast á sögum sem Eyja gæfi annað eyrað fyrir að geta sagt“ (48). Eyja sér vankanta sína endurspeglast í „fullkomnun“ þeirra þar sem hún situr í draumkenndu ástandi og þrífur ofn með tannbursta meðan þær fara sem hvítur stormsveipur um íbúðina með ajax í annarri hendi og létta vínblöndu í hinni.

Oft er vísað til „Breiðafjarðarillsku“ kvenleggsins í móðurfjölskyldu Eyju sem er ættarfylgja sem hana sjálfa virðist skorta:

[…] ægðarlætin eru fylgifiskur Breiðafjarðarillskunnar, þessa undarlega heilkennis sem hefur hrjáð konur í móðurfjölskyldu Eyju langt aftur í aldir og hlýtur að hafa bjargað þeim frá ísbjörnum og þurftafrekum eiginmönnum fyrir vestan: ýmist á eyjunum í Breiðafirði, búsældarlegum jörðum á Barðaströnd eða harðbýlinu í Djúpinu. Breiðarfjarðarillskan fær konu til að slá ísbirni og eiginmenn eldsnöggt í hausinn með pönnu, vafningalaust, til að lenda ekki í kjaftinum á þeim. Þessar kerlur treystu aldrei körlunum til að vinda íshrönglana úr þvottinum því þeir þóttu ekki nógu handsterkir. Eins og langamma Eyju sem var alin upp við útgerð á heimili þar sem systrunum lá lífið á þegar það var prúttað um eina olíugallann á heimilinu áður en þær réru til fiskjar. Þær kölluðu sko ekki allt ömmu sína, þeim hefði þótt yndislegt að fá að hreinsa klósettið í fínu sænsku sumarhúsi með baneitruðum ætiefnum í litríkum brúsum meðan sólargeislarnir leika um hvítt postulínið. (195–196)

Eyja stenst ekki áhlaup kvennanna sem beita fyrir sig Breiðarfjarðarillskunni í bland við gylliboð og full sektarkenndar fer hún frá Garranum og hefur hina nauðsynlegu „andlegu og líkamlegu endurhæfingu“ sem felst í því meðal annars að „uppræta sjálfsblekkingu“ (208) „finna konuna í sér“ (234) og byggja upp „ungskáld til sjálfsrýni“ (237), svo vísað sé til nokkurra kaflaheita.

Svíþjóðardvölin: Atburðir við vatn

Þótt Eyja hafi verið lokkuð til Svíþjóðar undir því yfirskini að þar væri næðið sem hún þyrfti til skrifta kemur fljótt í ljós að henni er einmitt líka ætlað að þrífa þar hvít postulínsklósett og passa börn á sumarnámskeiðum sem Skíðadrottningin stendur fyrir. Garrinn sendir Eyju pakka sem reynist innihalda bókina Atburði við vatn eftir hina sænsku Kerstin Ekman og vel mætti kalla Svíþjóðarkafla bókarinnar atburði við vatn. Eyja dvelur hjá frænku sinni í sumarhúsabyggð sem stendur við vatn og skóg – og óttast bæði moskítóflugur og skógarbirni. Í stóra samhengi frásagnarinnar virka þessir kaflar sem nokkurs konar ‘comic relief’ eða innskot sem kitla hláturstaugarnar ærlega.

Ástæða þess ekki síst stórkostleg persónulýsingin á Skíðadrottningunni – sem er „ólgandi af lífskrafti“ (37) og Breiðarfjarðarillsku – og samskiptum hennar við annað fólk, hvort sem um er að ræða sænska nágranna eða Eyju sem stendur alls ekki undir væntingum þessarrar frænku sinnar. Margir og skondnir  atburðir eiga sér stað þetta sumar en það sem stendur upp úr er hvernig Eyja byggir sjálfa sig upp smátt og smátt þar til hún nær síðustu stigum „endurhæfingarinnar“; því níunda sem felst í að gangast við sjálfri sér (338) og því tíunda sem felst í því „að orða hugsanir sínar“ (349). Þá fyrst getur hún hringt í Garrann og sagt honum að hún snúi ekki aftur til hans. En hún snýr heim til mömmu „sólbrún og fjórum kílóum léttari“ (374) og hálfkaraða skáldsögu í farteskinu.

Móðurmorð

Auður Jónsdóttir hefur ekki – svo ég viti – gefið það upp að sú staðreynd að Halldór Laxness er afi hennar hafi haft hamlandi áhrif á hennar eigin skrif. Þvert á móti hélt hún fyrirlestur á hundrað ára afmæli afa síns undir fyrirsögninni: „Hvetjandi fremur en letjandi“ þar sem hún hyllir verk nóbelskáldsins því í þeim „býr fegurðin – og ofar hverri kröfu ríkir skáldskapurinn einn“. [6] Það er þó hægt gera sér í hugarlund að það sé ekki alveg útlátalaust fyrir ungan höfund að hafa slíkan bókmenntajöfur í eigin fjölskyldu og kannski hefur Auður fengið að heyra, líkt og Eyja, að „hún [sé] enginn nóbelsverðlaunahafi“ (112).

Hægt er að leika sér með þá tilgátu að upphafssetning verksins „Viltu ekki fara frá þessum manni?“ vísi á einhverju plani ekki síður til Halldórs Laxness og Auðar Jónsdóttur en til Garrans og Eyju; að Auður þurfi að „fara frá þessum manni“ til að finna sína eigin rödd. Það er þó kannski full glannalegur lestur, enda Auður Jónsdóttir löngu búin að finna sína eigin rödd sem höfundur. Engu að síður er leikið með þá hugmynd í Ósjálfrátt að Eyja stígi út úr Sölku Völku og síðan tengir hún sig við kvenlegg fjölskyldunnar: Mömmu, ömmu og langömmu – skáldskapurinn er frá þeim kominn: Hann er kominn frá hinni „ósjálfráðu“ skrift sem langamma stundaði með vinkonum sínum; hann hefur nærst af stuðningi og hvatningu ömmu og síðast en ekki síst er skáldskapurinn kominn frá mömmu; sprottinn af þránni eftir að skilja vandamál hennar:

Ég skrifa því ég hef alltaf staðið nærri fólki sem þjáist af óseðjandi þorsta. Það þambar áfengi eins og hvítvoðungur brjóstamjólk. Og ég þrái að skilja af hverju […] ég er ekki rithöfundar af því að afi minn fékk bókmenntaverðlaun heldur af því að mamma mín er alkóhólisti. (75)

Eyja þakkar móður sinni fyrir skáldskapinn (líkt og Auður Jónsdóttir gerir í tileinkun fremst í bókinni) í kafla sem hefur yfirskriftina „Takk“. Þakkirnar eru blandnar sektarkennd því ljóst er að móðirin fékk ekki þá hvatningu frá sínum nánustu sem Eyja fær. Það er athyglisvert að til dæmis virðist harðasti stuðningsmaður Eyju – amma – ekki bera skynbragð á hæfileika sinnar eigin dóttur eða hvetja hana til skrifta.

Þegar Eyja las Fay Weldon hugsaði hún um Mömmu, þegar hún las Isabel Allende hugsaði hún um Mömmu, þegar hún las Marilyn French hugsaði hún um Mömmu. Mamma las allar þessar konur og miklu fleiri. Síðan brunaði hún niður í kaupfélag til að skrifa hundamat og bleiur á reikninginn sem henni tókst að halda eftir að hún réð sig í hlutastarfið. Amma varð hreykin af henni, að vera loksins búin að fá alvöru vinnu og hætt þessum hringlandahætti. Líka nánustu ættingjar og börnin hennar sjálfrar. Allir hæstánægðir með að Mamma hefði fundið sinn stað í lífinu. (87–88)

Og um leið og Eyja þakkar fyrir sig játar hún móðurmorð: „Hún drap mömmu sína“ (87). Hér leikur Auður sér að því að snúa við hugmynd Harolds Bloom um að bókmenntasagan sé knúin áfram af ödipusarflækjum og nauðsynlegum „föðurmorðum“ þar sem ungir (karlkyns) höfundar verði að takast á við – og sigra – eldri (karlkyns) meistara á bókmenntasviðinu til að marka sér bás á því hinu sama sviði. [7]

Þegar dóttirin fer að skrifa dregur mamma sig í hlé: „Eldri konan hætti að skrifa. Yngri konan byrjaði“ þrátt fyrir að sú eldri sé höfundur „á kalíber til að skrifa hvern sem er undir borðið“ (92) að mati þeirrar yngri. Og á tímabili óttast Eyja að það fari fyrir sér eins og mömmu: „Hvað ef? Ef hún endar eins og Mamma. Kona sem virðist skrifa án nokkurrar áreynslu en setur skriftir í svo háleitt ljós að hún skrifar aldrei staf“ (357). En óttinn er óþarfur því Eyja hefur óskoraðan stuðning móður sinnar sem hvetur hana til að áfram: „Skrifaðu allt sem þú þarf að skrifa“ og „ekki láta neitt stoppa þig lofaðu mér því. Allra síst mig“ (365). Með þennan stuðning á bak við – og formæðranna – eru Eyju allir vegir færir.

Suðupottur skáldskaparins

Óhætt er að segja að form þessarrar skáldsögu er lausbeislaðra en fyrri skáldsögur Auðar og ljóst að hún hefur gefið sér lausari tauminn í flæði frásagnarinnar. Á sama tíma hlýtur það að vekja eftirtekt hversu öruggum höndum er hér haldið um alla hina mismunandi söguþræði, því frásögnin skeiðar á milli ólíkra sögusviða og ferðast fram og aftur í tíma. Tíð kaflaskipti með lýsandi fyrirsögnum halda lesandanum við efnið þó að í raun sé aldrei erfitt að fylgja þræði og flakkað sé stöðugt fram og aftur um tíma og rúm. Frásögnin hnitar sig um fjóra staði: Vestfirði, Gljúfrastein, Reykjavík og Svíþjóð og þau tímasvið bókarinnar sem við dveljum aðallega á eru einnig fjögur: Tími snjóflóðanna fyrir vestan og sambúðar Eyju við Garrann (um miðjan níunda áratuginn); Sumarið í Svíþjóð (seint á níunda áratugnum), bernska Eyju (áttundi áratugurinn) og samtíminn þar sem Eyja er býr með „framtíðareiginmanninum“ og ungum syni þeirra.

Þessi mismunandi sögusvið og -tímar fléttast saman í frásögn sem best er að lýsa sem ólgandi suðupotti skáldskapar. Hvert sviðanna hefur að geyma sína eigin sögu sem jafnframt fléttast, að því er virðist áreynslulaust, við sögur hinna sviðanna. Þá úir og grúir líka af smærri einingum, sögum sem skotið er inn í stærri sögurnar, eins og mismunandi krydd í pottinn. Þetta eru sögur af ýmsu tagi, húrrandi fyndnar eins og frásögnin af heimsókn Eyju og systur hennar á súludansstað og dapurlegar eins og sagan af unglingsfrænkunni sem kemur til dvalar á æskuheimili Eyju meðan móðir hennar heyr sitt dauðastríð.

Ekki er hægt að gera öllum þráðum sögunnar skil hér en freistandi er að grípa til orðsins „óður“: Á einu plani er sagan óður til móður, ömmu og formæðra, á öðru plani er hún óður til skáldskaparins, á hinu þriðja er hún óður til litla þorpsins vestur á fjörðum og þeirra sem þjáðust vegna snjóflóðanna. Lýsingin á lífinu þar fyrir flóð er stórkostleg, þar sem innfæddir og farandverkamenn og innflytjendur búa saman og mannlífið verður litríkt og áhugavert (sjá 50–52). Þá eru lýsingarnar á snjóflóðinu, þjáningunni og sorginni sem fylgdi í kjölfarið ekki síður áhrifaríkar; ekki síst lýsingin á því hvernig snjóflóðin reka fleyg á milli vinkvennanna, Eyju og stúlkunnar með sjófuglsaugun, því önnur var að vestan og missti en hin að sunnan og gat ekki skilið þjáninguna til fulls þótt hún væri öll af vilja gerð til samlíðunar.

„Minn hugarburður“

Í viðtali sem áður hefur verið vísað í, við tímaritið Spássíuna, skilgreinir Auður Jóndóttir skáldverk sitt þannig, eftir að hafa rætt tengsl þess við fjölskyldusögu sína: „Á endanum er þetta bara minn hugarburður.“ [8] Orðavalið er sérlega skemmtilegt í ljósi þess að á meðan að Auður skrifaði bókina gekk hún með sitt fyrsta barn og sá „burður“ kemur víða við sögu og tengist tilurð bókarinnar með órjúfanlegum hætti. Meðgangan og móðurhlutverkið er eitt af viðfangsefnum Ósjálfrátt og tengist annar vegar þroskasögu Eyju og því hvernig hún þarf „að finna konuna í sér“ og hins vegar hugleiðingum um sköpunina og eðli hennar.

Sagan hennar Eyju er draumur óléttrar konu. Hún hugsar um hana í reykspúandi umferðaröngþveitinu, þunguð af framtíð og óttanum við endalok hennar, að flóðbylgja hamfara ríði yfir heiminn og eyði öllum sögum.
Hún hefði ekki átt að fara út að hjóla, mollan veldur henni stöðugri ógleði; hún hefði átt að skrifa því óteljandi orð vilja út úr líkamanum, á upplýstan tölvuskjáinn, til að skapa rými fyrir barnið sem stækkar óðum. Hún hefur aldrei þráð framtíðina eins ákaft og núna, aldrei óttast eins mikið um afdrif sögunnar eftir sinn dag. (322)

Sköpun skáldsögunnar og sköpun barnsins eru svo að segja sami hluturinn í huga Eyju; hún hefur skrifað í sig barnið: „Orðin örvuðu blóðrásina þangað til hormónarnir vöknuðu af værum blundi. Hvað myndi læknirinn segja ef hann vissi að hún hefði skrifað sig ólétta með því að hugsa dag eftir dag til lítillar stúlku“ (323). Litla stúlkan sem vísað er til er barn Öggu, systur Eyju. Þegar Agga verður ófrísk uppgötvar Eyja nýja og áður óþekkta þrá: „þá finnst henni skyndilega að líf sitt sé komið á endastöð. Lífið sem hófst þegar Skíðadrottningin bauð henni í ferðalag“ (172). Og: „Hún lifir lífinu sem hún hefur alltaf þráð en allt í einu sárvantar hana eitthvað, bara af því að litla systir hennar er ólétt“ (173).

Lengi vel voru barneignir hlutskipti sem Eyja gat ekki hugsað sér; á einum stað segir hún um mömmu og Skíðadrottninguna að þær séu „báðar búnar að gera hið óhugsandi: fæða barn“ (48). En þegar Agga eignast dóttur sína „opnast áður óþekkt gátt í heilabúinu“ Eyju (217) og það er sú gátt sem leiðir hana fyrst til innhverfar íhugunar og síðan til formæðranna sem stunduðu ósjálfráða skrift. Og Eyja byrjar að skrifa sögu þeirra og sögu sína undir þeim formerkjum að hún sé að skrifa til systurdóttur sinnar. [9] Og verkið tekur völdin, ósjálfrátt, sú óþroskaða unga kona sem steig út úr skáldskap Garrans, með hjálp ömmu, mömmu og Skíðadrottningarinnar, er í lok bókar þroskuð móðir sem hefur umskapað líf sitt og umbreytt því í skáldverk; í bókina Ósjálfrátt sem er ein af þessum fágætu bókmenntaverkum sem erfitt er að hætta að tala um því þræðirnir eru svo margir og hefur svo sannarleg ekki öllum verið gerð skil hér.

Soffía Auður Birgisdóttir

 

Tilvísanir

  1. Sjá viðtal: „Mesti lífsháskinn í því sem stendur manni næst. Rithöfundurinn Auður Jónsdóttir leitar fanga í eigin fjölskyldusögu og vinnur úr henni skáldskap.“ Spássían. 2012 (3. árg., 2. tbl.), s. 22.
  2. Sama viðtal, s. 22.
  3. Sama viðtal, s. 24.
  4. Halldór Laxness. 1959. Salka Valka. (Þriðja útgáfa) Reykjavík: Helgafell, s. 13.
  5. Það er óneitanlega gaman að lesa þennan þátt í Ósjálfrátt sem nokkurs konar spuna við Sölku Völku og sjá fyrir sér eiginkonu Nóbelsskáldsins þrábiðja Sölku að losa sig við Steinþór og hlýða kalli skáldgyðjunnar.
  6. Auður Jónsdóttir. 2002. „Hvetjandi fremur en letjandi.“ Ekkert orð er skrípi ef það stendur á réttum stað. Um ævi og verk Halldórs Laxness. (Ritstjóri Jón Ólafsson.) Reykjavík: Hugvísindastofnun Háskóla Íslands, s. 122–128.
  7. Sjá Harold Bloom. 1973. The Anxiety of Influence. A Theory of Poetry. Oxford: Oxford University Press.
  8. Spássían. 2012 (3. árg., 2. tbl.), s. 22.
  9. Manni verður ósjálfrátt hugsað til Virginiu Woolf sem hóf sín æviskrif sem bréf til barna systur sinnar, Vanessu.