KOIÞað er greinilegt hvað þeir njóta lífsins, geimfararnir okkar í Sóma þjóðar. Þeir hafa komist lífs af úr dvöl sinni um borð í geimstöðinni Pandóru í hittifyrra og eru nú á leiðinni til plánetunnar KOI í geimfarinu TF-VON. Þegar þeir leggja upp í könnunarleiðangurinn eftir nokkur hundruð ár er jörðin orðin óbyggileg en á KOI eru öll sömu skilyrði og hér voru í upphafi. Þangað á að flytja mannkynið og við ætlum aldrei að fara eins illa með KOI og jörðina okkar.

Þegar við hittum þá Ísak (Tryggvi Gunnarsson) og Vilhjálm (Hilmir Jensson) að þessu sinni eru þeir búnir að vera tæp þrjú ár á leiðinni en þeir skemmta sér enn hið besta við að velja sér mat úr birgðunum, horfa á bíó, gera leikfimisæfingar og svo framvegis. Og við skemmtum okkur líka vel við að horfa á þessa snjöllu stráka leika sér eins og börn í leikfangageimskipinu sínu. En eina nóttina meðan þeir eru í fasta svefni er barið harkalega á geimskipið og úti fyrir er vera, særð og hrakin, sem vill komast inn. Þá er gamanið búið og alvarleg umræða tekur við.

Umræðan um hvort þeir eigi að hleypa gestinum inn speglar á markvissan hátt umræðuna um flóttamenn í auðugum samfélögum Vesturlanda. Fyrst virðist málið vera einfaldlega þannig að yfirmaðurinn, Ísak, sé tortrygginn á gestinn en undirmaðurinn, Vilhjálmur, sé honum hlynntur, finni til meiri samkenndar með eymd hans og bágri stöðu. En þegar Ísak fer að telja upp hvaða verkefni veran geti leyst inni í skipinu og í leiðangrinum þá finnur hinn tæknimenntaði Vilhjálmur til ótta um stöðu sína og snýr við blaðinu. Textinn, sem þeir félagar semja sjálfir, er hnitmiðaður og svo frjór að það var full vinna að fylgjast með og bregðast við í huganum. Þegar komið er til KOI verður staða félaganna svo enn önnur og þeir fá að reyna hlutskipti flóttamannsins á sjálfum sér.

Kannski var eðlilegt – þegar mál gerðust svo flókin – að snúa öllu upp í kæruleysi og syngja um sigurvegarann sem tekur allan vinninginn en það lyktaði samt svolítið af uppgjöf við að ljúka verkinu á rökréttan hátt. Líka má segja að texti og leikur þeirra félaga verðskuldi framtíðarlegri sviðsmynd í Tjarnarbíó. Hún var líkari því að vera frá fyrri hluta 20. aldar en frá miðri þriðju þúsöld – eða hvenær sem verkið á að gerast nákvæmlega.

Sómi þjóðar er líka sómi íslensks leikhúss og þeir eru yndi að horfa á og fylgjast með, þeir Tryggvi og Hilmir. KOI kemur ekki eins mikið á óvart og MP5 sem þeir settu upp í árslok 2014 en það verður spennandi að sjá hvað þeir gera næst.

Silja Aðalsteinsdóttir