Móðuharðindin„Er til meiri klisja?“ spyr Símon Birgisson dramatúrg í leikskrá Móðurharðindanna eftir Björn Hlyn Haraldsson sem voru frumsýnd í Kassa Þjóðleikhússins í gærkvöldi. Hann er að meina efni verksins, uppgjör í fjölskyldu eftir að heimilisfaðirinn deyr. Þessi orð Símonar eiga ekki síst vel við af því að eitt síðasta verkið á fjölum Reykjavíkurleikhúsa í vor sem leið fjallaði um sama efni, Er ekki nóg að elska? eftir Birgi Sigurðsson. Einnig hér er botnlaus heimilisóhamingja, kúguð og vanrækt börn og framhjáhald sem í þessu tilviki er svo opinskátt að hjákonan skrifar minningargrein um hinn látna í Moggann.

Eins og þetta síðasta bendir til er Björn Hlynur, höfundur og leikstjóri, ekki á tilfinningasömu buxunum í þessu verki. Hann vill toga og teygja veruleikann, ýkja hann, stækka og ögra með verki sínu og notar til þess öll meðul, karlmann í móðurhlutverkinu, karlmannlega dóttur, kvenlegan son, ráðalausan prest, minningargreinar sem lýsa einhverjum allt öðrum en þeim manni sem fjölskyldan taldi sig þekkja og afburða nákvæma stofuleikmynd sem lekur fram í anddyri með sínum málverkum og kóngulóarvefjum (sem einhverjir reyndu í laumi að þurrka af á leið inn í salinn).

Sýningin hefst eins og Ronja ræningjadóttir, á hrikalegu þrumuveðri. Ljósin slokkna í stofunni við ósköpin og inn kemur dálítill karl (Sigurður Sigurjónsson) sem prílar upp á stól uppi á borði til að skipta um peru í ljósakrónunni. Þetta er rafmagnað atriði og maður heldur að hér sé sviðsettur sviplegur dauði húsbóndans. En maðurinn lifir af og reynist vera Snæbjörn, heimilisdvergurinn hennar frú Friðriku (Kjartan Guðjónsson) sem er henni eitt og allt. Hún er mun hændari að honum en börnunum sem skila sér nú heim til að jarða pabbsa sinn, myndlistarmaðurinn Arnmundur (Árni Pétur Guðjónsson) og lögfræðingurinn María (Ólafía Hrönn Jónsdóttir). Frú Friðriku leiðist þetta tilstand ákaflega enda er séra Svalbrandur (Hallgrímur Ólafsson) ámóta leiðinlegur, að hennar mati, og börnin hennar. Veslings presturinn fær ekkert upp úr frúnni og börnunum til að nota í útfararræðuna og úr verður að þau mæðginin sjá um ræðuhöldin í jarðarförinni. Þar gekk fáránleiki verksins lengst en þar varð líka viðsnúningur úr miskunnarlausu skopi yfir í beiska hæðni sem litaði verkið til loka. Vísanir í Psycho, fræga hryllingsmynd Hitchcocks, gáfu kannski eitthvað í skyn sem aldrei var sagt berum orðum, annars virtist undirtexti ekki vera til trafala í verkinu.

Frú Friðrika er foráttuvargur sem valtar yfir sitt fólk og börnin launa henni með litlu ástríki. Þetta er auðvitað ekki fyndið í sjálfu sér en orðræða verksins er snörp og margar vel smíðaðar og smellnar setningar vöktu hlátur. Fyndnastur er þó sá sem stysta textann fær, nefnilega Snæbjörn sem Sigurður lék af mikilli smekkvísi. Kjartan er með ýmsar góðar hugmyndir í útfærslunni á frú Friðriku en á eftir að ná öryggi í hreyfingum og framsögn hennar – nema hann hafi átt að vera misjafnlega haltur og skrækur eftir því hlutverki sem hann var að leika innan leiksins. Alltént var hann hræðilega hlægilegur þegar honum tókst best upp. Börnin eru andstæða við móðurina, alvörugefin og viðkvæm og svo skemmd eftir uppeldið að maður var feginn að þau eru bæði barnlaus. Óþarfi að teygja vanlíðunina yfir í næstu kynslóð. Þau Árni Pétur og Ólafía Hrönn voru bæði sannfærandi en gerðu ekkert sérstaklega mikið úr hlutverkum sínum, skildu aðalhlutverkið skýrlega eftir handa Kjartani. Hallgrímur hafði greinilega nautn af að fara með sinn furðulega texta.

Axel Hallkell gerir ofurnákvæma leikmyndina og þau Leila Arge hönnuðu búningana sem gefa glöggar upplýsingar um persónurnar. Lýsing Ólafs Ágústs Stefánssonar var nákvæm og hljóðmynd Kristjáns Sigmundar Einarssonar stuðandi eins og áður gat. Hugsanlega er þrumuveður ofnotað í sýningunni. Eins og algengt er með farsa á frumsýningu var þessi enn nokkuð hrár en hann fær tækifæri til að þroskast og verða ennþá skemmtilegri.

Silja Aðalsteinsdóttir