Ég veit ekki hvað gagnrýnendurnir sem rökkuðu Afmælisveisluna hans Harolds Pinter niður í London árið 1958 fundu að henni en ég ímynda mér að það hafi verið að hún gefur engin svör við gátum sínum. Verkið hagar sér eins og spennusaga en við fáum ekki að vita hver glæpurinn var eða hver það er sem hefnir hans – ólíkt krimmum sem stafa allt ofan í lesandann. Ég ímynda mér líka að margir geti á öllum tímum og ekki síst nú til dags fundið til skyldleika með Stanley Webber sem verður fyrir ruddalegu áreiti tveggja manna sem hann virðist ekki þekkja. En sjálfsagt er hann sekur um einhvern fjandann, að minnsta kosti að mati einhverra, og sennilega á flótta undan afleiðingum þess.

Afmælisveislan

Afmælisveislan var frumsýnd í Kassanum í gærkvöldi í nýrri þýðingu Braga Ólafssonar og undir stjórn Guðjóns Pedersen. Leikurinn gerist í svokölluðu gistiheimili í bæ við suðurströnd Englands og er svið Gretars Reynissonar einstaklega viðeigandi en þó frumlegt. Þar ræður ríkjum Meg Boles (Kristbjörg Kjeld) en maður hennar Petey (Erlingur Gíslason) er sólstólavörður á ströndinni – hvernig sem viðrar – en skiptir sér lítið af rekstri gistiheimilisins. Enda er ekki mikið til að skipta sér af. Þar hefur í tæpt ár búið einn utanbæjarmaður, Stanley (Ingvar E. Sigurðsson), píanóleikari sem má muna fífil sinn fegri að eigin sögn. Meg finnst mikið til um hann og sýnir honum móðurlega umhyggju milli þess sem hún daðrar svolítið klaufalega við hann, sér miklu yngri mann. Senurnar milli þeirra og milli hjónanna voru ákaflega fyndnar og Kristbjörg var hreint aðdáunarlega tvöföld í hlutverki þessarar einföldu konu. Aðdáunarvert var líka hvað búningar Helgu I. Stefánsdóttur hæfðu persónu hennar vel og sögðu mikið um hana.

Stanley verður undir eins tortrygginn þegar Meg segir honum að tveir ókunnir menn hafi beðist gistingar í tvær nætur og hann sýnir óttablandin viðbrögð þegar þeir koma í hús. Þeir sýna honum á hinn bóginn kurteislegan áhuga framan af, einkum sá eldri, Goldberg (Eggert Þorleifsson), hann er líka sá virðulegri og valdsmannslegri af þeim tveim. Sá yngri, McCann (Björn Thors), er undirgefinn Goldberg sem þó stólar á McCann til þeirra verka sem vinna á, hver sem þau eru nákvæmlega.

Meg heldur því fram að Stanley eigi afmæli þennan dag, án þess að við fáum að vita hvers vegna hún er sannfærð um það, og Goldberg er undir eins til í að splæsa í vínföng í veislu. Þangað er líka boðið grannkonunni Lulu (Þórunn Arna Kristjánsdóttir), sætri ungri konu sem hefur gert hosur sínar grænar fyrir Stanley en laðast að Goldberg, auminginn litli. Þetta verður mikil veisla þar sem konurnar tvær og Petey eru grunlaus um spennuna sem vex á milli aðkomumannanna þriggja. Veislan nær hámarki í blindingsleik sem þau fara í og endar með ósköpum. Svo lýkur verkinu næsta morgun.

Pinter er að skoða kúgun manns á manni í Afmælisveislunni og verkið er óhugnanlega sterkt í dulúð sinni. Mun sterkara en það væri ef hann svaraði spurningunum sem vakna við hvert atriði. Eins og verkið liggur fyrir er hægt að setja nánast hvaða glæp sem er í eyðuna. Barnaði Stanley stelpu í bænum sem faðir og/eða bræður vilja hefna? Seldi hann dóp og borgaði ekki höfuðpaurnum? Stal hann kirkjusjóðnum? Sveik hann peninga út úr einhverjum? Brást hann trúnaði í einhverjum leynifélagsskap? Við vitum það ekki og það er þessi óorðaða ógn sem er svo máttug í verkinu.

Þá ógn og máttleysi þess sem fyrir henni verður túlkuðu þeir þrír, Ingvar, Eggert og Björn, afburðavel. Ingvar var senuþjófur þó að hann stæði úti í horni og hallaði sér upp að vegg, hvað þá þegar hann húkti við borðið þögull og niðurbrotinn. Maður sat með gæsahúð undir fleðulegu tali Eggerts sem var virkilega viðbjóðslegur í hlutverki Goldbergs – eins og hann var glæsilega búinn og elegant í fasi. Björn fannst manni eins og tifandi tímasprengja sem gat sprungið á næsta andartaki. Og þó var kannski eftirminnilegasta atriðið þegar hann gefur yfirmanni sínum anda sinn í feimnislegri undirgefni.

Það flottasta við úrvinnslu Pinters á efninu er hvernig hann sýnir ótta ofbeldismannanna við verkefni sitt. Ekki til þess að maður fyrirgefi þeim heldur til að maður skilji að það er manninum ekki eðlislægt að níðast á öðrum manni.

Frábært verk, frábærlega valið í öll hlutverk, einstök upplifun.

Silja Aðalsteinsdóttir