Ég komst að því þegar ég var búin að bjóða föstum félaga mínum á barnsaldri á Hamlet litla í Borgarleikhúsinu að sýningin væri ætluð ellefu ára börnum og eldri. Félagi minn er sex ára. En ég gat ekki svikið hann, leikhús er hans líf og yndi, og ég sá ekki betur en hann héldi athygli allan tímann. Hann hafði líka góð orð um það eftir sýninguna að hún hefði verið „skemmtileg“. Þó varð fátt um svör þegar ég spurði hvað hefði verið svona skemmtilegt.

Hamlet litliLíklega skildi sá sex ára ekki allar söguflétturnar í verkinu – enda er löng og flókin saga sögð á klukkutíma í umritun Bergs Þórs Ingólfssonar leikstjóra á leikriti Shakespeares. Erfiðast hygg ég að yngri börnum reynist vofa Hamlets kóngs, þó að hún væri eftirminnilega útfærð í sýningunni með talandi hauskúpu. Líka er snúið að skilja hvaða þýðingu leikritið inni í leikritinu hefur. En ef efnið er framandi þá er sannarlega margt að sjá og heyra á litla sviðinu þennan klukkutíma. Sviðsbúnaður og búningar Sigríðar Sunnu Reynisdóttur eru ævintýralega litríkir, fallegir og spennandi: klassískur búningur Hamlets, hæfilega miðaldalegur kjóll Ófelíu, hauskúpan talandi, barbíbrúðurnar sem leika leikritið inni í leikritinu og þó fyrst og fremst hin stórkostlega Kládíusarbrúða sem leikararnir stjórna listilega. Kristjana Stefánsdóttir hefur samið nokkra mjög áheyrilega eyrnaorma sem hún flutti ýmist með öðrum þátttakendum eða ein. Ég geri ráð fyrir að söngtextarnir séu eftir Berg eins og annar texti leikritsins; mér fannst þeir rosalega skemmtilegir. Kristjana talaði líka fyrir Kládíus og lék Geirþrúði drottningu af myndugleika.

Sigurður Þór Óskarsson leikur Hamlet af sprúðlandi fjöri og djúpri alvöru eftir því sem við á. Systkinin Ófelíu og Laertes leikur Kristín Þóra Haraldsdóttir af sannri innlifun. Þegar hún skipti úr systur yfir í bróður eftir lát Ófelíu sagði hún áhorfendum það bara hreinskilnislega að hér eftir væri hún Laertes, kominn úr skylminganámi í París. Eins og við á í umritun fyrir yngri áhorfendur var áhersla lögð á að þessi þrjú eru æskuvinir, alin upp saman í höllinni, leiksystkini sem unna hvert öðru eins og systkini. Þess vegna verður harmurinn svo nístandi sár þegar leikbróðirinn er allt í einu orðinn morðingi föður þeirra, Póloníusar, þó að óviljaverk sé. Hamlet reynir að biðjast fyrirgefningar, benda á að þau séu öll á sama báti, ódæðisverk hafi líka svipt hann sínum föður, en skaðinn er skeður, Laertes hefur samþykkt plön Kládíusar kóngs um að koma Hamlet fyrir kattarnef. Það verður ekki aftur snúið. Mér fannst skylmingasenan verulega flott – þó að sennilega sé skylmingaleikur Hamlets og Ófelíu í byrjun sýningar ennþá flottari.

Þetta er í hæsta máta ásjáleg sýning fyrir fólk á öllum aldri. Vonandi dettur það ekki milli stóla vegna þess hve erfitt er að skilgreina markhópinn nákvæmlega.

Silja Aðalsteinsdóttir