Sýning Leikfélags Reykjavíkur á Svari við bréfi Helgu er sérkennileg upplifun – enda er grunnurinn strangt til tekið ekki leikrit heldur bréf sem maður er að skrifa og kafar á meðan niður í djúp minninganna. Þetta gerir óvenjulegar kröfur til Snorra Freys Hilmarssonar leikmyndahönnuðar og hann tekur þá djörfu ákvörðun að ganga út frá vatni. Þó að háir veggirnir litu í fyrstu út eins og gluggaveggir í háskólasal breyttust þeir hvað eftir annað í sævardjúp við ljómandi ljósaspil Björns Bergsteins Guðmundssonar. Það á vel við hugardjúpin sem opinberast okkur í verkinu auk þess sem vatn er erótískt tákn og verkið er mettað erótískri girnd eins og þeir vita sem hafa lesið skáldsögu Bergsveins Birgissonar sem leikgerð Ólafs Egils Egilssonar er unnin úr. Vatnið er líka í gömlum blikkfötum á sviðinu, í laug og baðkeri, auk þess sem aðalpersónan lendir í sjávarháska svo grimmum að boðaföllin gengu yfir fremstu bekkina!

Svar við bréfi HelguÞað er hugarheimur Bjarna bónda (Þröstur Leó Gunnarsson) sem við erum stödd í á Nýja sviði Borgarleikhússins og þar er hátt til lofts og vítt til veggja. Þó er Bjarni í eðli sínu þröngsýnn maður og lítilla sanda, eins og hann segir sjálfur. Miðlungsbóndi í fátækri sveit fyrir og um miðja síðustu öld sem býr við það heimilisólán að eiga nöldursama, sífrandi og innilega óhamingjusama konu, Unni (Sigrún Edda Björnsdóttir). Það eina sem hefur stækkað líf hans og tilfinningareynslu er ástin á konunni á næsta bæ, Helgu (Ilmur Kristjánsdóttir), og sumarið sem þau fá að njótast er eina tímabilið sem hann hefur „lifað“ í raun og veru. Ekki bara dregið andann og stritað. Eftir það vill Helga að þau fari burt saman, skilji við maka sína og fari suður, en honum finnst hann ekki geta farið frá Unni og jörðinni, skepnunum, þó að Helga sé með barni sem að öllum líkindum er hans. Helga fer og þau sjást aðeins einu sinni eftir það en hún skrifar honum eitt bréf og verkið er svar við því.

Það hafa verið uppi að minnsta kosti tvær ólíkar túlkanir á Bjarna bónda síðan skáldsaga Bergsveins kom út í hittifyrra. Önnur lítur svo á að Bjarni hafi af tillitssemi við eiginkonu sína, göfugri ást á landinu, jörðinni sinni – arfleifð feðranna – fórnað sinni stóru ást á Helgu. Hin lítur svo á að Bjarni sé heigull sem elski Helgu ekki, girnist hana bara og veigri sér við að taka ábyrgð á tilfinningunum sem hann hefur vakið með henni og á barninu sem hún elur. Hann svíki bæði sjálfan sig og Helgu. Hvor túlkunin sem er réttari þá er víst að Bjarni geldur beisklega fyrir ákvörðun sína að vera eftir. Unnur liggur honum endalaust á hálsi fyrir að hafa ekki valið hina konuna og sjálfur getur Bjarni ekki hugsað um annað í áratugi en það sem hann missti. Barnleysi þeirra Unnar gerir það svo ofan í kaupið ljóst að hann á engan afkomanda til að taka við jörðinni. Ætt hans er komin á enda; að því leyti fórnaði Bjarni sér til einskis. Það eina sem hann hafði upp úr krafsinu var kvöl.

Þríeykið Þröstur Leó, Sigrún Edda og Ilmur fara geysilega vel með þetta erfiða efni. Þröstur notar í löngum flutningi sínum þá aðferð að tala með örlitlum lestrartóni fremur en leika og gefa okkur þannig tilfinningu fyrir bréfinu sem hann er að skrifa, og fór afar vel á því. Kristín Eysteinsdóttir leikstjóri er óhrædd við erótíkina og klæðir Ilmi jafnvel úr öllu á einum stað; ég spái því að það atriði eigi eftir að verða eðlilegra og afslappaðra með tímanum. Með þeim þrem eru Gunnar Hansson og Ellert A. Ingimundarson í ýmsum hlutverkum. Gunnar var sérstaklega fínn í hlutverki Hallgríms, eiginmanns Helgu, en Ellert datt eins og ekkert væri inn í hvert smáhlutverkið af öðru, allt frá jarmandi rollu til syrgjandi ekkils.

Silja Aðalsteinsdóttir