Málamyndahópurinn rannsakar eðli fyrirgefningar í mannlegu samfélagi í leikverki Þórdísar Elvu Þorvaldsdóttur, Fyrirgefðu ehf, sem var frumsýnt í Tjarnarbíó í gærkvöldi undir stjórn höfundar. Sviðið er eftir Rebekku A. Ingimundardóttur, einfalt og snjallt, og leikur vel með ljósum Arnars Ingvarssonar.

Fyrirgefðu ehfÍ verkinu bregða fjórir leikarar sér í fjölmörg hlutverk starfsmanna og skjólstæðinga fyrirtækisins Fyrirgefðu ehf sem sérhæfir sig í að koma á sáttum milli manna. Stofnandi og annar eigandi fyrirtækisins er Helga (Ragnheiður Steindórsdóttir), kona sem hefur þurft – eða ákveðið – að fyrirgefa einn hræðilegasta glæp sem hægt er að hugsa sér og er viss um að við getum ekki haldið áfram að lifa eftir að brotið er á okkur nema við fyrirgefum brotamanninum. Meðeigandi hennar er Kristinn (Árni Pétur Guðjónsson) og hjá þeim vinnur Daníel (Víðir Guðmundsson) við að semja fyrirgefningarbeiðnir og þjálfa fólk í að flytja þær svo að sannfærandi sé. Þau anna ekki eftirspurn og ráða í viðbót unga konu, Evu (Þóra Karítas Árnadóttir) sem reynist mjög liðtæk í starfi en á sjálf erfitt með að fyrirgefa í sínu einkalífi.

Þessir sömu leikarar leika svo allar sögurnar sem við fáum að sjá og heyra og var stundum nærri því yfirnáttúrulegt hvað þau voru snögg að skipta gersamlega um ham þótt búningar Eleni Podara virtust bæði fjölskrúðugir og efnismiklir. Sennilega hafa þeir verið opnari og auðveldari í notkun en sýndist en glæsilegir voru þeir.

Sögurnar voru einkum af tvennu tagi. Annars vegar eru beinir viðskiptavinir fyrirtækisins sem borga vel fyrir þjónustu þess. Einkum eru þetta opinberir fjárglæframenn eða stjórnmálamenn sem þurfa að margæfa sig á að segja þetta erfiða orð, „fyrirgefðu“ – það veldur þeim ógleði af því að þeir meina það ekki, kannski þvert á móti, en þurfa að sýnast. Í þessum atriðum var kaldhæðni ráðandi og margar senurnar urðu bæði hlægilegar og óþægilega sannfærandi. Enda höfum við heyrt ýmsa menn biðjast opinberlega fyrirgefningar á undanförnum árum. Hins vegar voru sögur „venjulegs fólks“ sem hefur sótt um ókeypis þjónustu hjá fyrirtækinu af því það á svo erfitt með að fyrirgefa sára lífsreynslu að það getur illa lifað lífi sínu. Þar var kaldhæðnin fjarri. Áhrifamest var saga gamalla hjóna sem höfðu fyrir langa löngu eignast barn með banvænan sköpunargalla. Nú er gamla konan búin að gleyma næstum öllu, öðrum börnum sínum og systkinum, en einu getur hún ekki gleymt og alls ekki fyrirgefið: Að litla veika barnið hennar naut aldrei ástúðar vikurnar sem það lifði.

Fyrirgefðu ehf

Þóra Karítas Árnadóttir og Víðir Guðmundsson

Texti verksins er langur og flýtur vel og leikurinn er verulega góður. Ragnheiður og Árni Pétur voru alveg stórkostleg í hverju hlutverkinu af öðru, og allra best sem gömlu hjónin. Þóra Karítas var flott, til dæmis í hlutverki rapparans. Verst var hvað sá texti skilaði sér illa – kannski var hljóðkerfið ekki nógu gott. Víðir Guðmundsson hefur minnsta reynslu sem leikari og féll nokkuð í skugga hinna en stóð þó alveg fyrir sínu.

Kannski getum við dregið þá ályktun í lokin að fyrrnefnd skoðun Helgu sé rétt, að við getum ekki lifað áfram eðlilegu lífi nema fyrirgefa. Þó verður verulegt umhugsunarefni eftir að horft hefur verið á þetta vekjandi og skemmtilega verk hvort raunverulega sé hægt að fyrirgefa allt. Hér eru engar einfaldar lausnir í boði.

Silja Aðalsteinsdóttir