Hannesarholt troðfylltist óvænt í gærkvöldi þegar nýtt verk var leiklesið þar, Fáir, fátækir, smáir, eftir höfund sem ekki vildi láta nafns síns getið. Árni Kristjánsson leikstýrði og hafði hóað saman stórum hópi fagmanna til að flytja verkið. Helga Björnsdóttir sá um útlit sýningarinnar og Guðni Franzson um tónlistina.

Fólk sem ólst upp við útvarpsleikritin sem mikilvægasta dagskrárlið hverrar viku kann vel við leiklestur, enda sami hluturinn. Leikararnir eru með texta í höndunum en beita röddinni til að túlka persónur sínar. Þegar lesið er á sviði geta þeir bætt við svipbrigðum og jafnvel hreyfingum og enginn hörgull var á þessum brögðum öllum í gærkvöldi. Þar fylgdumst við með atburðarás sem fer af stað eftir ræðu sem forsætisráðherra landsins (Þór Tulinius) heldur. Ræðan er ákaflega óljós og þvælin enda missti hann blöðin sem Ingólfur ráðuneytisstjóri (Kristján Franklín Magnússon) hafði búið hann út með, tókst ekki að raða þeim í rétta röð og fór að tala frá eigin brjósti. Það þótti ráðuneytisstjóra verulega slæmt. Það vill heldur ekki betur til en svo að eftir ræðuna verður allt vitlaust í borginni – og það þótt enginn viti nákvæmlega hvað hann var að segja. Var hann að gera áætlanir um að selja útlendingum landið? Eða var hann að segja að öllu erlendu fólki yrði vísað úr landi nema ferðamönnum? Hver túlkar mál hans út frá því sem hann óttast mest og afleiðingin er skelfileg.

En atburðina utan húss sjáum við ekki, heyrum bara um þá þegar ráðuneytisstarfsmenn lesa upphátt af símunum sínum. Við erum óhult inni í Hörpu og hlustum á þref og þras í starfsfólki ráðherrans. Þarna spruttu fram kunnuglegar persónur: ráðríki ráðuneytisstjórinn, treggáfaði undirmaðurinn (Jakob Þór Einarsson), léttlynda og meinhæðna eiginkonan (Brynhildur Guðjónsdóttir), röggsami ritarinn (Aldís Amah Hamilton), metnaðargjarni ungi ráðuneytisstarfsmaðurinn (Alexander Dantes Erlendsson), tætti blaðafulltrúinn (Guðrún Bjarnadóttir) og endalaus röð af undirmönnum sem er skipað út og austur (Benedikt Karl Gröndal). Þeim varð öllum merkilega mikið úr hlutverkum sínum þó að þau sætu þarna í röð eins og þátttakendur í pallborði.

Að loknum lestri steig aðstoðarleikstjórinn Sveinn Einarsson fram og gekkst við króganum. Sagði að sig hefði langað til að gá hvernig verkinu yrði tekið án höfundarnafns. Hann var stoltur af sýningunni og viðtökunum sem voru einstaklega fallegar og nú hefur verið ákveðið að endurtaka lesturinn við fyrsta tækifæri. Þið fylgist með á dagskrá Hannesarholts

-Silja Aðalsteinsdóttir