Það var annaðhvort rétt fyrir eða eftir áramótin áttatíu og þrjú og fjögur sem ég las fyrst um fólkið í Gamla húsinu og Thulekampinum, þá sendi Einar Kárason kaflann um daginn þegar Hreggviður reyndi að setja heimsmet í kúluvarpi til Tímarits Máls og menningar sem ég ritstýrði þá. En ég man ágætlega hvernig mér leið þegar ég las þennan texta, svo allt öðruvísi var hann en nokkuð sem ég hafði lesið áður. Þetta svala sambland af grimmd og kímni, sprelllifandi fólk af öllu tagi, konur og karlar, fullorðnir og börn sem fylla heilt borgarhverfi, fyllibyttur, þjófar, ofbeldismenn og gott og strangheiðarlegt fólk, sem á umkomuleysið og vonleysið sameiginlegt en líka drauminn um aðra framtíð – Ameríku. Þetta er ómótstæðilegt fólk enda hafa margir í tímans rás halað það upp á svið og hvíta tjaldið og erfitt að útiloka allar þær tilraunir þegar maður nú horfir á eina enn.

DjöflaeyjanHandritshöfundar nýja söngleiksins eftir Djöflaeyjunni og Gulleyjunni hans Einars Kárasonar, Atli Rafn Sigurðarson sem líka leikstýrir, Melkorka Tekla Ólafsdóttir og leikhópurinn, hafa fækkað þessum persónum mikið og yddað söguna mjög eins og formið krefst. Þó eru þau þarna öll þau helstu lifandi komin: Karólína spákona (Guðrún Snæfríður Gísladóttir) og Tommi kaupmaður, maðurinn hennar (Eggert Þorleifsson), Gógó dóttir Línu (Edda Björg Eyjólfsdóttir) sem flyst til fyrirheitna landsins með honum Charlie sínum (Guðjón Davíð Karlsson) og börnin hennar þrjú, Bjarni Heinrich, kallaður Baddi (Þórir Sæmundsson), Frank Daníel eða Danni (Arnmundur Ernst Backman) og Dóróthea eða Dollí (Katrín Halldóra Sigurðardóttir) og sambýlingurinn Grettir (Hallgrímur Ólafsson). Öll búa þau heima hjá ömmu og Tomma. Gerður, kölluð Hveragerður (Snæfríður Ingvarsdóttir) fær meira hlutverk og mildara en í öðrum útfærslum sögunnar með því að vera fyrst vinkona Danna áður en hún fellur fyrir „sólargeislanum“ Badda. Hér er hún líka dóttir Hreggviðs kúluvarpara (Gunnar Jónsson) og eru þau feðginin fulltrúar Kamparanna ásamt Þórgunni (Birgitta Birgisdóttir), móður Grjóna heyrnarlausa, vinar Badda (Baltasar Breki Samper) og Didda (Sigurður Þór Óskarsson).

Þó að persónur séu ekki margar láta þær sannarlega mikið fyrir sér fara. Fyrsta partýið sem Baddi heldur eftir að hann kemur aftur úr dvöl hjá mömmu sinni í Kansas City var svo hrottafengið að fólkið á sviðinu gat vel verið helmingi fleira en það var. Það var glæsilega gert. Eftir það liggur leiðin bara í eina átt, niður á við. Að vísu dettur Línu og Tomma í hug að Baddi ætli að bæta ráð sitt þegar hann tekur saman við Gerði, og þau fyllast nýrri trú á framtíðina þegar Danni tekur flugmannspróf, en hvort tveggja reynist tál. Og segja má að óhamingja þessa fólks og vonleysi sé endanlega staðfest þegar Danni ferst.

Það kemur kannski á óvart hve eindreginn harmleikur er sýndur í söngleiknum. Samdráttur Dollíar og Dóra tré (Guðjón Davíð) verður að vísu fyndinn en það tekur fljótt af. Sagan hefur auðvitað rúm fyrir fleiri litbrigði, enda tvö bindi, en einnig þar verður blendingsliturinn býsna dökkur. Einar er sannarlega ekki að búa til káta fátæklinga eða „deserving poor“ í þessum bókum sínum, það er bara þessi einstaki sögumannstónn sem gerir þær svo ótrúlega skemmtilegar.

Memfismafían semur söngvæna tónlist við söngleikinn og Bragi Valdimar Skúlason á söngtextana sem hljómuðu yfirleitt ágætlega. Hljómsveitin er bakatil á sviðinu og getur fyllt upp í sviðsmyndina þegar á þarf að halda. Lögin voru skemmtileg og sum hljómuðu kunnuglega, eflaust til að ná ákveðnum tíðaranda, og leikararnir eru ágætir söngvarar. Best fannst mér þau Katrín Halldóra sem hefur mikla og hljómmikla rödd, Arnmundur Ernst sem hefur sérstæða og tæra rödd og Snæfríður sem sömuleiðis syngur mjög áheyrilega. Samsöngur þeirra Arnmundar og Snæfríðar, „Orðin mín“, var hápunktur sýningarinnar í mínum huga, enda ljúfasta andartakið þegar örlítil von gat kviknað um betra líf framundan.

Það er mikill húmor í búningum Filippíu I. Elísdóttur. Bæði skemmtir hún sér við að endurskapa klæðaburð sögutímans á sviðinu og svo sýnir hún muninn á tíðarfari westra og á klakanum með því að hafa Gógó í sundbol þegar hún kemur fram til að svara símtölum frá Íslandi. Edda Björg gerði sér mikinn mat úr stuttum innkomum á sviðið og verður alveg ógleymanleg. Munurinn á bræðrunum Danna og Badda var skýrt dreginn upp í fatavali og sömuleiðis persónubreytingarnar á þeim bræðrum báðum, þegar Baddi kemur frá Ameríku og þegar Danni fær flugmannsskírteinið. Enn ein umbreytingin verður á Badda í lokin þegar allt er um garð gengið. Æska og sakleysi Gerðar er dregið fram í snotrum og snyrtilegum klæðnaði hennar og hinar öfgarnar eru sýndar í fatnaði Línu spákonu og þó sérstaklega Þórgunni sem verður beinlínis eins og skuggi eða svart tóm á sviðinu.

Vytautas Narbutas er vandi á höndum með leikmyndina því fjölskylda Línu býr ekki í bragga heldur í húsi í miðju braggahverfinu. Það er líka greinilegt á innganginum í hús Línu á sviðinu. Hönnuðurinn hefur þó ekki viljað missa braggalagið en skírskotar til þess á óvæntan hátt – hann snýr því við. Það má vel halda því fram að í því sé líka húmor. Þetta gefur persónunum tækifæri til þess að „vera upp um alla veggi“ í partýjum og öðrum gleðilátum.

Frumsýningunni í gær var vel fagnað. Einkum var það fallegt augnablik þegar Einar Kárason kom síðastur upp á svið, þá stóð salurinn á fætur sem einn maður og fagnaði sínum frábæra sögumanni. Það var við hæfi.

Silja Aðalsteinsdóttir