Umhverfis jörðina á 80 dögumHetjur Spaugstofunnar gera það ekki endasleppt við okkur þessi misserin. Við höfum notið upprifjana á glensi þeirra í sjónvarpinu undanfarin laugardagskvöld, þeir eru enn að sýna Yfir til þín á stóra sviði Þjóðleikhússins og í gærdag var frumsýnd á stóra sviði Þjóðleikhússins leikgerð Karls Ágústs Úlfssonar og Sigurðar Sigurjónssonar á sögunni Umhverfis jörðina á 80 dögum eftir Jules Verne. Á sviðinu bættist sá þriðji í hópinn því Örn Árnason leikur Passepartout af mikilli ánægju. Leikstjóri er Ágústa Skúladóttir.

Sagan er líklega þekktasta verk Jules Verne þó að hún eigi þar í harðri samkeppni við nokkrar aðrar sögur hans. Hér segir frá yfirmáta reglusama, þjóðholla og framfarasinnaða breska auðmanninum Fílías Fogg (Sigurður Sigurjónsson, í essinu sínu) sem veðjar við kunningja sína úr klúbbnum heima í London um að það sé í raun og veru hægt að komast í kringum hnöttinn á 80 dögum. Hann leggur umsvifalaust af stað með sinn trygga en seinheppna þjón, Frakkann Passepartout, en veit ekki að það er laumufarþegi með í för, leynilögreglumaðurinn Fix (Karl Ágúst) sem heldur að Fogg sé bankaræningi á flótta undan réttvísinni og ætlar að góma hann þegar þeir lenda á bresku yfirráðasvæði.

Á Indlandi bjargar Fogg ungri og fallegri ekkju, Aúdu (Ólafía Hrönn Jónsdóttir) frá því að vera brennd á báli með líki manns síns. Eftir það eru þau fjögur á ferðalaginu. Þau ferðast með lestum, skipum, loftbelg, úlföldum, fíl, jafnvel kafbátnum hans Nemos skipstjóra (!), og öll þessi farartæki töfrar Högni Sigurþórsson leikmyndahönnuður fram ásamt brúðum sem bætast við persónuflóruna á sviðinu. Þar að auki leika Jón Stefán Sigurðsson og Stella Björk Hilmarsdóttir fjölmörg hlutverk. Ferðalangarnir lenda í endalausum uppákomum af öllu hugsanlegu tagi en heim kemst Fogg að lokum, degi of seint að hann telur, en kemst í tíma að því að hann hafði gleymt að gera ráð fyrir sólarhringnum sem hann „græddi“ í ferðinni af því að hann ferðaðist alltaf í austur.

Ferðin er nú farin í tveggja tíma leiksýningu sem hentar sérlega vel fólki frá á að giska sex ára aldri og upp úr. Farið er nokkuð hratt yfir sögu, eins og skiljanlegt er, en hentugt heimskort á baktjaldi hjálpar okkur að fylgjast með hvar við erum stödd. Á sviðinu er stöðugt fjör með söng og dansi og umsvifamiklum búningaskiptum. Þar átti Ólafía Hrönn áreiðanlega metið, bæði í fjölda búninga og fjölbreytileika. Toppinum var náð þegar indverska prinsessan í sínum skærbleika sarí breyttist á örskotsstund í fúlskeggjaðan enskan bankastjóra! Leila Arge á heiðurinn af búningum sem eru ævintýralega skemmtilegir og viðeigandi.

Í sýningunni eru margir söngvar og eru lagasmiðirnir, Baldur Ragnarsson og Gunnar Ben úr Skálmöld, á sviðinu allan tímann, spilandi, syngjandi og leikandi, alveg rosalega skemmtilegir. Textana samdi Karl Ágúst af sinni alkunnu snilld. Líka má hrósa leikhúsinu fyrir leikskrána. Hún er ekki stór en þar eru furðumargir fróðleiksmolar handa forvitnum leikhúsgestum.

Fílías Fogg lærir margt á sínu ferðalagi eins og ítrekað er í sýningunni. Boðskapur hennar er þó líklega ekki kominn beint frá Verne en hann er settur fallega fram í upphafs- og lokalagi sýningarinnar, „Þessi jörð“:

Ég og þú, við eigum þessa jörð,
austur-, vestur-, norður-, suðurhvel.
Hún er ný og gömul, gljúp og hörð –
gætum hennar – gætum hennar vel.

Ég spurði félaga minn, sjö ára, bráðum átta, hvað honum hefði fundist skemmtilegast í sýningunni og hann átti eðlilega erfitt með að velja eitthvað eitt í svo viðburðaríku verki. Eftir langa umhugsun sagði hann: „Það var sniðugast þegar þau fengu lánaðan kafbát úr annarri bók!“

Silja Aðalsteinsdóttir