SamþykkiEins og það er gaman að sjá stuttar og hnitmiðaðar leiksýningar og safnast saman á eftir yfir umræðum um þær þá er líka upplifun að sjá langar og íhugular leiksýningar, virkilegar „heils kvölds sýningar“ sem maður stingur sér beint í rúmið á eftir og dreymir þær alla nóttina. Þannig sýning er Samþykki, ársgamalt leikrit eftir breska leikskáldið Ninu Raine sem frumsýnd var á stóra sviði Þjóðleikhússins í gærkvöldi undir stjórn Kristínar Jóhannesdóttur. Þórarinn Eldjárn þýddi.

Sviðið segir undir eins sína sögu. Við erum stödd á heimili efnaðs fólks með óbrigðulan smekk. Geysilega hátt til lofts, einn veggur úr munstruðu gleri, gólfið listaverk. Þetta er hönnun Stígs Steinþórssonar og hún er framúrskarandi. Þarna býr lögfræðingurinn Ed (Snorri Engilbertsson) með konu sinni Kittý (Kristín Þóra Haraldsdóttir) og nokkurra vikna gömlum syni. Vinafólk þeirra er í heimsókn þegar við hittum þau fyrst, lögfræðingarnir Jake (Hallgrímur Ólafsson) og Rakel kona hans (Birgitta Birgisdóttir), og þeir gantast af fullkomnu tilfinningaleysi með „málin sín“, lögfræðingarnir, tala eins og þeir hafi sjálfir framið glæpina sem skjólstæðingar þeirra eru sakaðir um. Þetta er auðvitað rosalega fyndið en hláturinn hljóðnar þegar við hittum Gayle (Arndís Hrönn Egilsdóttir) sem hefur kært karlmann fyrir nauðgun og finnst hún ekki fá þann stuðning sem hún þarf frá réttarkerfinu. Ed er verjandi meints nauðgara hennar en sækjandinn í málinu, Tim (Stefán Hallur Stefánsson), er kunningi Eds og skylmingar þeirra félaga í réttarsalnum eru eins og hvert annað leikrit. Hér blönduðust í málið flóknar enskar réttarreglur sem gott hefði verið að fá skýringar á í leikskrá en Þjóðleikhúsið er mikið til hætt að vera með slík gögn.

Smám saman kemur í ljós að ekki er allt í sóma heima hjá þessu vel stæða fólki. Fyrir fimm árum hélt Ed framhjá Kittý og hún hefur ekki getað fyrirgefið það. Þó er ljóst að slíkt er ekkert einsdæmi í þeirra vina- og kunningjahópi. Hana langar til að hefna sín á Ed með því að láta honum líða eins og henni leið og dregst inn í samband við Tim í því skyni, þó að hún viti að leikkonan Zara (Vigdís Hrefna Pálsdóttir), vinkona hennar, sé þar á fleti fyrir. Það sem Kittý reiknar ekki með er að hún verður ástfangin af Tim og þegar Ed kemst að því verður hann æfur af reiði og sorg og ræðst á konu sína … Og einhvern veginn líta nauðgunarmál allt öðruvísi út þegar þau eru komin á heimavettvang fólks af þeirra tagi.

Samþykki er feikilega vel skrifað leikrit og prýðilega þýtt og efnið gæti ekki átt betur við en akkúrat þessi misserin. Þó að umfjöllunarefnið sé háalvarlegt er tónninn hvass og meinfyndinn. Leikurinn er stilltur og agaður framan af á þennan kæruleysislega yfirstéttarhátt sem við þekkjum úr breskum kvikmyndum en verður grimmilega líkamlegur þegar átökin flytjast inn í einkarýmið. Þessa þróun dregur Kristín vel fram í sviðsetningunni, ekki síst með frumlegum hlutverkum sviðsmanna. Leikurinn var vandaður og innlifaður, einkum var ég hrifin af Snorra í hlutverki Eds; það reyndi mest á hann og hann var í senn einlægur og írónískur eins og hlutverkið krafðist. Heillandi. Alvöruverk unnið af alvöru.

Silja Aðalsteinsdóttir