Beint í æðÞað var mikið hlegið í Borgarleikhúsinu í gærkvöldi á frumsýningu farsans Beint í æð. Þar var farið yfir versta daginn í lífi Jóns Borgars (Hilmir Snær Guðnason), taugasérfræðings og yfirlæknis á Landakoti, en Gísli Rúnar Jónsson hefur þýtt og staðfært verk Rays Cooney, It runs in the family. Leikstjóri er Halldóra Geirharðsdóttir sem hefði líka notið sín á sviðinu. Sviðið var skrifstofa læknisins, raunsæileg við fyrstu sýn en reyndist búa yfir ótrúlega fjölbreyttum möguleikum, og búningar tilgerðarlausir, hvort tveggja verk Helgu I. Stefánsdóttur.

Það stendur gífurlega mikið til hjá Jóni Borgari þennan dag. Hann á að halda sjálfan Hippókratesarfyrirlestur ársins yfir fjölda innlendra og erlendra taugasérfræðinga og á von á því í framhaldinu að verða yfirlæknir sjúkrahússins alls af því að Páll Óskar (Halldór Gylfason), núverandi yfirlæknir, hefur sótt um stöðu landlæknis og telur sig öruggan með hana. Jón er að reyna að leggja síðustu hönd á fyrirlesturinn sinn en er sífellt truflaður af samstarfsmönnum sínum, Gretti Sig taugaskurðlækni (Guðjón Davíð Karlsson), Jórunni yfirdeildarhjúkrunarfræðingi (Þórunn Arna Kristjánsdóttir) og Grími Briem aðstoðarlækni (Hjörtur Jóhann Jónsson) sem er að undirbúa myndband til að skemmta gestum á litlu jólum spítalans um kvöldið. Eiginkona Jóns, hin glæsilega Súsanna (Jóhanna Vigdís Arnardóttir), er líka komin til að horfa á mann sinn sigra fullan sal af sérfræðingum. Með reglulegu millibili kemur Páll Óskar og minnir Jón Borgar á að hann hafi bara fimm mínútur, salurinn sé farinn að bíða eftir honum. Og eins og til að halda áhorfendum í sal leikhússins við efnið er stór klukka á baksviði þar sem maður getur fylgst með fimm mínútunum koma og fara.

Einmitt þennan dag hefur fortíðin valið að banka upp á hjá Jóni Borgari í líki Díönu Thors (Maríanna Klara Lúthersdóttir) og kynna fyrir honum soninn Frímann (Sigurður Þór Óskarsson) sem hún varð ólétt að nærri átján árum áður og vill nú ólmur kynnast föður sínum. Ókominn með bílpróf hefur hann ekið í loftinu alla leið frá Höfn í Hornafirði, þar sem þau mæðgin búa, og hefur á eftir sér lögregluþjóninn Loft (Valur Freyr Einarsson) sem ætlar að fara með strákinn niður á lögreglustöð og kæra hann þegar hann hefur klárað þetta smáatriði að finna föður sinn. Flókið? Bíðiði bara!

Jón Borgar er alveg til í að gangast við sambandinu við Díönu og syni hennar en hann vill a) helst ekki gera það strax í dag og b) helst ekki að konan sín komist að því. Eftir stóran og þykkan lygavef þar sem margar persónur, menn eða hundar, eru ýmist dauðar eða lifandi, hafa orðið undir strætó eða verið skornar upp við gyllinæð þótt þær hafi komið inn með þvagsýrugigt, þá verður til bjargar að Frímann veit ekki hver af læknunum er pabbi hans og það opnar leiðina til að kenna öðrum um – bara svona rétt á meðan … Inn í málið blandast svo elliæri sjúklingurinn Manfreð (Örn Árnason) og móðir Grettis, Gróa (Sigrún Edda Björnsdóttir), sem heillast af Frímanni litla og hann af henni.

Þetta er alveg þvottekta farsi sem gerist í rauntíma, það sjáum við á veggklukkunni, og keyrir áfram lygaflækjurnar sem Jón Borgar spinnur upp eins og besti spennusagnahöfundur. Hraðinn varð ótrúlegur, bæði í máli og hreyfingum (út og inn um fernar dyr og tvo glugga!) og þar reynir auðvitað fyrst og fremst á leikarana. Og þeir voru hver öðrum betri. Ég segi kannski ekki að Hilmir Snær hafi verið vannýttur í dramatísku hlutverkunum sínum öll þessi ár en hann á sannarlega líka heima í svona hlutverkum sem nýta allt aðra hæfileika hans um leið og góða kosti hans, frábæra framsögn, fallegar hreyfingar og glæsileik á sviði. Það reynir mest á hann í sýningunni og Guðjón Davíð sem er auðvitað alveg í essinu sínu. En þau sem hlaupa inn og út á hundrað kílómetra hraða voru flott líka: Maríanna Klara sem kepptist við að fylgjast með lygunum og taka undir þær í fullkominni meðvirkni með gamla ástmanninum, Hjörtur Jóhann sem þvælist líka inn í meðvirknina. Svo er allt „saklausa“ fólkið sem reynir að átta sig í óreiðunni, reiði ungi sonurinn, yfirvegaða eiginkonan, samviskusama hjúkrunarkonan sem verður eiginlega fyrir mestu hremmingunum, yfirlæknirinn sem verður alltaf fyllri og fyllri, lögregluþjónninn sem reynir lengi vel að skilja þessa vitleysu en missir að lokum þolinmæðina – Valur Freyr var dýrmætur í hlutverkinu – og Sigrún Edda sem var eiginlega óþekkjanleg og alveg óborganleg í sínu pínulitla hlutverki. Til hamingju með þau öll, Halldóra Geirharðsdóttir.

Silja Aðalsteinsdóttir

Beint í æð