1984Það var auðvitað stórfurðulegt að sitja við Nýja svið Borgarleikhússins að kvöldi viðburðaríks dags með stjórnarslitum og valdsmannslegri ræðu forsætisráðherra og horfa á frumsýningu á 1984, leikgerð Roberts Icke og Duncans MacMillan á sígildri skáldsögu Georges Orwell. Heyra sífellt vísað til óendanlegs og takamarkalauss valds „Flokksins“ sem öllu ræður í fortíð og nútíð, sem breytir sögunni sér í hag og býr til nýtt tungumál af því að orðin eru viðsjárverð, þau fela í sér hættulegar upplýsingar og geta sprungið, eins og Sigfús Daðason benti á.

Það gengur harðstjórnarbylgja yfir löndin þessi misserin og óhugnanlegar fregnir berast úr ýmsum áttum, sumum óvæntum. Þá er eitt ráðið að rifja upp skáldverk sem sýna og vara við og eitt af þeim er 1984, skáldsaga Orwells frá 1949, skrifuð í kjölfar hryllilegs blóðbaðs heimsstyrjaldarinnar síðari. Í Eyjaálfu ríkir Stóri bróðir, hann stígur aldrei fram sjálfur en fulltrúi hans á eftirlitsskjánum í sýningunni er hið yndisfríða andlit Völu Kristínar Eiríksdóttur. Hún ber okkur upplýsingar og skipanir frá valdinu og kúgaður lýðurinn hlýðir. Ekki er annað að sjá en flestir þegnar Stóra bróður sem við sjáum séu lukkulegir með sín kjör en óttalega er líf þeirra leiðinlegt, það fáa sem gerist margtuggið í frásögum. Sjálfstæðri hugsun hefur verið rænt frá þeim svo þeir átta sig ekki á að þeir eru sífellt að endurtaka sig.

Winston Smith (Þorvaldur Davíð Kristjánsson) vinnur í Sannleiksráðuneytinu við að endurskrifa söguna, eyða einstaklingum sem hafa óhlýðnast Stóra bróður, breyta ljósmyndum og breyta atburðum í takt við vilja hans. Það er nóg að gera en Winston er ekki sáttur, hann fer að haga sér á gamaldags hátt, skrifa dagbók, velta hlutunum fyrir sér. Honum líkar ekki að missa fortíðina, týna sögu sinni. En þetta flokkast undir hugsanaglæpi og það veit hann. Þegar hann tekur eftir því að flott stelpa, Júlía (Þuríður Blær Jóhannesdóttir), gefur honum auga verður hann tortrygginn. Hún ber rauðan linda um mittið sem þýðir að hún er í náðinni, enda félagi í öfgasamtökunum Ungt fólk gegn samförum. En þegar hún þrýstir miða í lófa hans með ástarjátningu er teningnum kastað.

Júlía og Winston hefja ástarsamband og fá inni í litlu herbergi bakatil í forngripaverslun hjá gæðakarlinum Charrington sem rekur hana (Jóhann Sigurðarson). Herbergið er svo ómerkilegt að í því er enginn eftirlitsskjár og elskendurnir ungu njóta þar stolinna stunda. Þau mana hvort annað upp í andófi gegn Flokknum og Winston þykist hafa himin höndum tekið þegar hann kynnist valdsmanninum O‘Brien (Valur Freyr Einarsson) og skynjar í honum andlegan bróður. Fundur ungmennanna heima hjá O‘Brien er einn af hápunktum sýningarinnar en þeir voru raunar ekki af skornum skammti. Winston og Júlía eiga svo eftir að gjalda þá stund dýru verði.

1984 er yfirgripsmikið og firna djúpt verk og heimspeki þess er vel matreidd í leikgerðinni. Það er líka hroðalega svartsýnt; álit Orwells á mannskepnunni var ekki mikið árið 1949 – sem ekki var von, kannski. Þýðing Eiríks Arnar Norðdahl er skýr og hljómmikil en vel kann að vera að sumum setningum hafi verið breytt síðustu daga – jafnvel í gær þegar trúnaðarbrestur innan ríkisstjórnarliðsins reið stjórninni að fullu – því stundum endurómaði frá sviðinu orðræðan í íslensku þjóðfélagi þessa dagana, áhorfendum til sárrar skemmtunar.

Svið Sigríðar Sunnu Reynisdóttur var snilldarlegt: Mikil viðarbygging með útskotum og tröppum upp og niður og þó svo augljóst að þarna væri fólk innilokað, maður kæmist ekki neitt þótt maður vildi. Og veggirnir sem sýndust traustir og ógagnsæir reyndust með réttum tækjum verða gagnsæir þannig að auðvelt var að fylgjast með því sem fram fór handan þeirra. Búningar lýðsins voru einfaldir, gallabuxur og bolir, látlausir kjólar, en föt O‘Briens vandlega sniðin úr góðu efni. Það voru Sigríður Sunna og Elísabet Alma Svendsen sem sáu um að klæða persónurnar.

1984 sviðsmynd
Utan um aðalpersónurnar raðar sér fjöldi annarra þegna Stóra bróður. Jóhann Sigurðarson er hlýr og heillandi Charrington – meðan það varir. Við kynnumst vinnufélögum Winstons, Syme (Haraldur Ari Stefánsson) og Parsons (Hannes Óli Ágústsson) sem báðir eru lítilla sanda en vilja vera trúir verkefni sínu. Það nægir þó hvorugum; Syme fellur á vangaveltum sínum um nýja tungumálið, „nýsprok“, og Parson á sjö ára dóttur (Erlen Isabella Einarsdóttir) sem er upprennandi hugsanalögga og hún sér sekt hjá föður sínum sem hann veit varla af sjálfur. Þau voru andskoti sannfærandi, þessi þrjú, og þó kom barnið mest á óvart, svo hræðilega vel náði hún tvöfeldni persónunnar. Allt önnur var Erlen svo í litlu hlutverki systur Winstons. Þar er mögnuð leikkona á uppleið. Þórunn Arna Kristjánsdóttir leikur móður telpunnar, bæði konu Parsons og móður Winstons, en áhrifamest var hún í hlutverki skúringakonunnar syngjandi sem elskendurnir hlusta hugfangin á í felustað sínum.

Þorvaldur Davíð og Þuríður Blær þurfa að bregða sér í margs konar gervi – eru stíf og formleg, hrædd og bæld, kát og ástfangin. Þetta fóru þau létt með. Mest reynir á Þorvald Davíð undir lok verksins og þar sýnir hann vel hvað hann er magnaður leikari. Hæstu einkunn hjá mér fær þó Valur Freyr sem er beinlínis djöfullega góður í hlutverki hins margfalda O‘Briens. Ég fæ gæsahúð niður allt bak þegar ég hugsa um samspil þeirra Þorvalds Davíðs í hápunkti sýningarinnar. Þvílíkur óhugnaður.

Bergur Þór Ingólfsson stjórnar 1984 og hefur verið að vinna að sýningunni allan tímann sem hann hefur barist gegn því að nauðgari dóttur hans fengi uppreist æru. Eðlilega skilar sú ástríðufulla barátta sér inn í þessa sýningu – sem er satt að segja engu lík.

-Silja Aðalsteinsdóttir